Nova náði þeim áfanga á síðari hluta ársins 2015 að vera það fjarskiptafyrirtæki landsins sem er með mesta markaðshlutdeild á farsímamarkaði. Síminn hafði haldið á þeim kyndli frá upphafi farsímatímabilsins hér á Íslandi. Bilið á milli Nova og Símans hefur aukist lítillega á fyrri hluta ársins 2016. Í lok júní var Nova með 149.850 viðskiptavini og 34,4 prósent markaðshlutdeild, en Síminn með 147.126 viðskiptavini og 33,7 prósent markaðshlutdeild. Þetta kemur fram í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar sem sýnir stöðuna á fjarskiptamarkaði um mitt ár 2016.
Þótt föstum áskriftum hjá Nova fjölgi alltaf ár frá ári er það enn svo að tæplega tveir af hverjum þremur viðskiptavinum fyrirtækisins eru með fyrirframgreidda þjónustu, svokallað frelsi.
Nova er samt sem áður það fyrirtæki á fjarskiptamarkaði sem tekur til sín nánast alla viðbótarnotendur sem bætast við farsímamarkaðinn á ári hverju. Frá árslokum 2012 hefur viðskiptavinum Nova til að mynda fjölgað um 37 þúsund, sem er nákvæmlega sama fjölgum og hefur alls orðið á farsímamarkaðnum frá þeim tíma.
Vodafone mun styrkjast við kaupin á 365
Þriðji risinn á fjarskiptamarkaði er síðan Vodafone. Því hefur tekist að halda vel á áskriftarfjölda sínum á farsímamarkaði og raunar bætt við sig rúmlega sex þúsund viðskiptavinum frá miðju ári í fyrra. Alls nemur markaðshlutdeild fyrirtækisins 27,5 prósentum.
365 sameinaðist Tali í desember 2014 og tók þar með yfir farsímaviðskipti síðarnefnda fyrirtækisins. Alls eru viðskiptavinir 365 í farsímaþjónustu nú um 16.335 talsins. Það er umtalsvert færri viðskiptavinir en Tal var með í árslok 2012, þegar þeir voru um 20 þúsund.
Í ágúst var greint frá því að Vodafone hefði hafið einkaviðræður um að kaup á ljósvaka- og fjarskiptaeignum 365 miðla. Verði af kaupunum mun Vodafone auka veltu sína um hátt í tíu milljarða króna og vera mun betur í stakk búið til að keppa við sinn aðalkeppinaut, Símann sem þegar rekur víðfeðma sjónvarpsþjónustu, á sjónvarpsmarkaði. Samanlagt verða viðskiptavinir hins sameinaða fyrirtæki á farsímamarkaði 136.023 og sameiginleg markaðshlutdeild 31,2 prósent. Vodafone verður því ekki langt frá Símanum, sem er með 33,7 prósent markaðshlutdeild á farsímamarkaði, og Nova, sem er með 34,4 prósent hlutdeild.
Gangi kaupin eftir samkvæmt þeim forsendum sem fyrir liggja ætti að vera hægt að ganga frá kaupsamningi fyrir jól. Þá ættu eftirlitsaðilar hins vegar eftir að taka kaupin til umfjöllunar. Því má gera ráð fyrir að ekki verið gengið endanlega frá þeim fyrr en á fyrri hluta ársins 2017, náist saman milli aðila.
Í tilkynningu sem Vodafone, sem er skráð á hlutabréfamarkað, sendi út vegna viðræðnanna í ágúst, kom fram að fyrirtækið ætlaði sé að greiða 3,4 milljarða króna fyrir þær eignir 365 miðla sem félagið hefur áhuga á að kaupa. Forsendur þess kaupverðs eru grundvallaðar á því að þær upplýsingar ráðgjafa 365 um rekstur og virði þeirra eigna standist. Þar ber helst að nefna að rekstrarhagnaður (EBITDA) þeirra gæti numið allt að tveimur milljörðum króna á ársgrundvelli. Það er tvöfaldur rekstrarhagnaður 365 miðla í fyrra, þegar hann nam 955 milljónum króna. Hluti þessarar upphæðar mun nást fram með samlægðaráhrifum í fjarskiptaþjónustu 365, þar sem henni verður einfaldlega rent inn í Vodafone.
SMS-um fækkar stöðugt
Þótt fjölmargir nýir samskiptamiðlar hafi bæst við flóruna á undanförnum árum þá senda Íslendingar enn nokkuð mikið af SMS-skilaboðum. Á fyrri hluta ársins 2016 voru send um 90 milljón SMS, eða um tíu prósent færri en á sama tímabili 2015.
Líklegt verður að teljast að SMS-ið mun áfram eiga undir högg að sækja, enda bjóða samskiptaforrit á vegum Facebook, Apple og fleiri slíkra upp á mun fleiri möguleika í samskiptum en SMS-in.
Þetta er síðari fréttaskýring Kjarnans um nýja skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar. Fyrri skýringin birtist í gær.