Klukkan 13 í dag verða forsvarsmenn þeirra fimm flokka sem eiga í óformlegum viðræðum um að mynda nýja ríkisstjórn settir saman inn í herbergi til að kanna hvort þessi flókna samsetning á nýjum valdhöfum sé yfir höfuð möguleg. Tilgangurinn er að sjá hvort leiðtogar flokkanna fimm geti náð saman um þau mál sem augljóslega verða átakapunktarnir við myndun slíkrar ríkisstjórnar. Það eru helst auðlindamál, skattamál og stjórnarskrármál. Auk þess segja heimildarmenn Kjarnans að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vilji einfaldlega fá tilfinningu fyrir því hvort þetta fordæmalausa samstarf geti átt sér málefnalegan grunn og hvort að fólkið sem þurfi að taka þátt í því geti yfir höfuð sýnt að það muni ætla að starfa saman af fullum heilindum og ábyrgð.
Katrín hefur þegar fundað með forsvarsmönnum Pírata, Samfylkingar og miðjubandalags Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hverjum og sér og þingflokkur Vinstri grænna telur að það sé á það reynandi að láta nú alla hittast saman. Að loknum fundinum, sem fram fer í fundarherbergi fjárlaganefndar Alþingis, mun Katrín fara til fundar við þingflokk sinn og ræða við hann um upplifun sína og árangur af fundinum. Viðmælendur Kjarnans búast ekki við því að Katrín muni tilkynna af eða á um áframhald viðræðna sinna við flokkanna fjóra að loknum þeim þingflokksfundi. Yfirlýsing um hvort formlegar viðræður verði hafnar muni líklega verða látin bíða fram á mánudag.
Fyrsta kvennaríkisstjórnin
Fyrir liggur að ansi margt þarf að ganga upp til að hægt verði að mynda þessa 34 þingmanna meirihlutastjórn. Þótt verulegir erfiðleikar séu sýnilegir við að mynda slíka stjórn sjá þeir sem koma að þessum viðræðum líka marga kosti. Hún myndi til að mynda svara því kalli eftir fjölbreytileika í ríkisstjórn sem niðurstaða hinna sögulegu kosninga í lok október ómaði. Þá blasir við að ríkisstjórnin gæti orðið mikil kvennaríkisstjórn. Ef frá eru taldir Steingrímur J. Sigfússon og Óttarr Proppé eru allir reynslumestu þingmenn flokkanna fimm konur, og flestar þeirra myndu gera kröfu um þungavigtarráðuneyti í ríkisstjórn nái flokkarnir saman. Því gæti fyrsta ríkisstjórn Íslandssögunnar þar sem konur eru í meirihluta – og í lykilráðuneytum – orðið að veruleika með myndun þessarar stjórnar.
En erfiðleikarnir sem þarf að yfirstíga til að gera stjórnina að veruleika eru þó ansi margir.
Innan herbúða Vinstri grænna eru til að mynda ýmsir fyrirvarar gagnvart henni. Sá fyrsti, og augljósasti, gagnvart því að mynda ríkisstjórn með Pírötum. Í samtölum við Kjarnann hafa fulltrúar allra flokka lýst yfir samskonar áhyggjum, og sérstaklega gagnvart óútreiknanleika þeirra gagnvart óvæntum aðstæðum. Það sé því Pírata að „selja“ hinum flokkunum það að þeir muni ekki sprengja stjórnina við erfiðar, og ófyrirséðar, hindranir.
Þessi afstaða er til staðar innan Viðreisnar og Bjartrar framtíðar líka. Hnútuköst í fjölmiðlum undanfarna daga hafa ekki hjálpað þar til. Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, ásakaði Birgittu Jónsdóttur, þingmann Pírata, um ósannindi í fjölmiðlum í byrjun viku vegna ummæla hennar um að Viðreisn og Björt framtíð hefðu þegar verið byrjuð að ræða saman um samstarf fyrir kosningar. Aðspurð í kvöldfréttum Stöðvar 2 á þriðjudag, sama dag og viðræðum flokkanna tveggja við Sjálfstæðisflokk var slitið, um hvort ummæli Birgittu í hennar garð gætu spillt fyrir í mögulegum stjórnarmyndunarviðræðum sagði Björt: „Ja...Það er ekkert voðalega gott að ræða við fólk sem kallar mann lygara.“
Viðreisn hefur líka umtalsverðan fyrirvara gagnvart Pírötum og lykilfólk innan flokksins er ekki sannfært um hversu áreiðanlegir samstarfsmenn Píratar yrðu. Yfirlýsing Birgittu í stöðuuppfærslu á þriðjudag um að Viðreisn væri búin að koma sér í „ómögulega stöðu“, þar sem flokkurinn vilji ekki vinna með neinum meirihluta, var ekki til að sefa þá tortryggni.
Reynt að bera klæði á vopnin og lýsa yfir samstarfsvilja
Píratar hafa reynt allt sem þeir geta til að slá á þessar áhyggjur undanfarna daga og bent á að það væri ekki mikil málefnalegur ágreiningur milli þeirra flokka sem ættu að skipa hina fjölbreyttu ríkisstjórn fimm flokka undir verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Og Birgitta er sjálf mjög áfram um þá ráðstöfun.
Sömu sögu má segja um forsvarsmenn Viðreisnar. Klæði hafa verið borin á vopnin með opinberum yfirlýsingum um að samstarfsvilji sé á milli flokkanna tveggja og að vilji sé til að mynda fimm flokka stjórnina náist málefnalegt samkomulag. Þar sem Björt framtíð og Viðreisn hafa að öllu leyti bundið sig saman í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem átt hafa sér stað, og munu eiga sér stað, þá gildir það sama fyrir þann flokk. Vilji er til þess að finna leiðir að samstarfi við Píratar.
Samfylkingin er sá flokkur sem veldur Vinstri grænum og Katrínu minnstu hugarangri. Flokkurinn er næst Vinstri grænum í áherslum og er auk þess svo lítill eftir afhroð sitt í kosningum að hann er ekki líklegur til að stofna til mikils ágreinings í stjórnarmyndunarviðræðum.
Eftir stendur að þessir flokkar þurfa að sannfæra Katrínu Jakobsdóttur um að það sé gerlegt að ná málefnalega saman í lykilmálum og að næg samstaða verði tryggð í gegnum þykkt og þunnt til að ríkisstjórn fimm flokka frá miðju til vinstri verði á vetur setjandi. Það verður stórt verkefni í ljósi þess að varnaðarvítin virðast mörg og mjög sýnileg.
Fjórflokkurinn í næstu ríkisstjórn?
Mikil tortryggni í garð heilinda Vinstri grænna hjá fulltrúum hinna flokkanna, sérstaklega innan Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, hefur ekki gert mikið til að smyrja viðræðurnar. Sú tortryggni, sem er ekki borin á torg en er mjög fyrirferðamikil í einkasamtölum, snýst um grunsemdir þess efnis að Katrín og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi þegar handsalað óformlegt samkomulag um að mynda ríkisstjórn flokka sinna. Aðrar stjórnarmyndunarviðræður séu einfaldlega til þess að fara í gegnum leikþætti sem geri báðum auðveldari fyrir við að selja þann gjörning í baklandi flokka sinna. Þessu neita liðsmenn Vinstri grænna alfarið en þeir þekkja þó vel til þess að kenningarnar séu í umræðunni.
Nokkuð ljóst er að ef fimm flokka stjórnin gengur ekki saman að þá verði einu möguleikarnir sem eru á borðinu í stjórnarmyndun þeir sem innihalda bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkinn. Þar sem þeim flokkum vantar einn þingmann til að fá meirihluta þarf að minnsta kosti einn til svo að sú stjórn gangi upp. Sjálfstæðismenn vilja eðlilega fá Framsóknarflokkinn inn í þá jöfnu. Sá möguleiki er nær útilokaður í huga lykilmanna hjá Vinstri grænum. Flokkurinn getur ekki hugsað sér að verða þriðja hjólið undir vagni núverandi ríkisstjórnar, þeirrar sem kosið var út af og gekk í gegnum hvert spillingarmálið á fætur öðru á liðnu kjörtímabili.
Í ljósi þess að Björt framtíð og Viðreisn hafa fest sig saman þá er ekki vilji til að taka það bandalag um borð í slíka stjórn, enda yrði miðju- og hægri flokkarnir þá með meirihluta þingmanna og gætu keyrt yfir Vinstri græn í völdum málum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur útilokað samstarf við Pírata og frá þeirri stefnu verður ekki vikið innan flokksins.
Þá stendur eftir að fá Samfylkinguna um borð, annað hvort með eða án Framsóknarflokksins. Báðir möguleikarnir tryggja þingmeirihluta og vera Samfylkingarinnar gæti varið Vinstri græn frá gagnrýni vegna stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðismenn. Það myndi samt sem áður þýða að í ríkisstjórn myndi sitja ¾ hluti, eða jafnvel allur, fjórflokkurinn í kjölfar kosninga þar sem hann fékk einungis 62 prósent atkvæða en flokkar með kerfisbreytingar á stefnuskránni fengu 38 prósent. Það gætu reynst mikil svipugöng fyrir ríkisstjórn gömlu flokkanna ef þeir tækju sig saman og mynduðu varðstöðuríkisstjórn eftir kosningar þar sem kallað var hærra eftir meiri fjölbreytni en nokkru sinni fyrr.