Var flugvél pólska forsetans grandað?

Flugslys skók pólsk stjórnmál árið 2010. Nú, sex árum síðar, er það aftur komið á dagskrá. Stjórnvöld telja mögulegt að atburðurinn hafi ekki verið slys heldur skipulagður glæpur.

Pólland
Auglýsing

Heimsbyggðinni brá í brún þegar farþegaþota sem innihélt forseta Póllands og fjölmarga háttsetta embættismenn fórst í Rússlandi árið 2010. Maður myndi halda að slíkur harmleikur myndi þjappa þjóðinni saman og að daglegt stjórnmálaþras myndi víkja fyrir samstöðu. En fljótlega fóru kvittir á kreik um ekki væri allt með felldu varðandi tildrög slyssins. Þessar grunsemdir og óánægja hefur kraumað undir niðri allar götur síðan og nú er málið komið á dagskrá á nýjan leik.

Slysið

Þann 10. apríl árið 2010 fórst farþegaþota nálægt borginni Smolensk í vesturhluta Rússlands, nálægt hvít-rússnesku landamærunum. Vélin var önnur af ríkisþotum Póllands, rússnesk af gerðinni Tupolev Tu-154. Hún innihélt Lech Kaczynski, forseta Póllands, konu hans Mariu Kaczynsku og fjölmarga af helstu embættismönnum landsins. Alls innihélt vélin 96 manns, 89 farþega og 7 áhafnarmeðlimi, og létust allir sem voru um borð. Farþegarnir voru á leið á minningarathöfn fyrir fórnarlömb fjöldamorðsins í Katyn skógi (nálægt Smolensk) í boði rússneskra yfirvalda. 

Fjöldamorðin áttu sér stað 70 árum áður, snemma í seinni heimstyrjöldinni, þar sem Sovétmenn tóku rúmlega 20.000 Pólverja af lífi. Flest fórnarlömbin voru yfirmenn í hernum og embættismenn. Atburðurinn ristir enn djúpt í þjóðarsál Pólverja og því ætluðu flestir toppar kerfisins að vera viðstaddir. Auk forsetahjónanna voru 18 þingmenn, seðlabankastjórinn, æðstu menn kaþólsku kirkjunnar og rétttrúnaðarkirkjunnar, allir hæst settu hershöfðingjarnir og fleiri í vélinni. Enginn ráðherra var með í för en forsætisráðherra landsins, Donald Tusk, hafði verið viðstaddur minningarathöfn í skóginum þremur dögum áður ásamt Vladimir Pútín forsætisráðherra Rússlands

Auglýsing

Flugferðin frá Varsjá til Smolensk tók u.þ.b. 80 mínútur og vélin átti að lenda á litlum flugvelli norðan við borgina sem hafði aðallega verið notaður fyrir herþotur. En þegar hún nálgaðist var augljóst að aðstæður til lendingar yrðu erfiðar vegna mikillar þoku. Flugmenn nokkurra annarra véla höfðu hætt við lendingu á vellinum og lent annars staðar. Flugumferðarstjórarnir voru fullkomlega meðvitaðir um ástandið og beindu því pólsku vélinni í burt frá vellinum. Það væri einfaldlega ekki óhætt að lenda. Flugstjórinn móaðist þó við og bað um að fá að gera svokallað „prufu-aðflug“ og tók þar með sjálfur meiri ábyrgð á lendingunni. Hann fékk leyfi frá flugturninum en þegar vélin nálgaðist var hún í alltof lítilli hæð og annar vængurinn skall í trjám. Við það steyptist vélin og grandaðist algerlega. Talið er að allir um borð hafi látist samstundis.

Rannsóknin

Þar sem flugvélin fórst í Rússlandi var það í höndum þarlendra yfirvalda að rannsaka slysið. En vegna aðstæðna kröfðust Pólverjar þess að senda eigið fólk á staðinn og framkvæma eigin rannsókn. Rússar sögðust ætla að halda þeim inn í málunum. Dmitry Medvedev forseti Rússlands brást mjög fljótt við og skipaði rannsóknarnefnd aðeins örfáum klukkustundum eftir slysið. Með yfirumsjón nefndarinnar fór forsætisráðherrann Pútín. 

Aðkoman að slysinu var vægast sagt ferleg. Vélin hafði rifnað í sundur og lík farþeganna dreifst um nokkuð stórt svæði. Sum líkin fundust í bútum eða jafnvel aðeins líkamsleifar og erfitt reyndist að greina fólk í sundur. Við rannsóknirnar fundust engar vélabilanir. Tupolev vélin var reyndar komin nokkuð til ára sinna, framleidd árið 1990, en hún hafði verið yfirfarin ári fyrir slysið. Ekki var annað séð en að hún væri í tipp-topp formi og orsökin hlaut því að liggja í mannlega þættinum. Talið er að mikill þrýstingur hafi verið á flugmenn vélarinnar að lenda á þessum tiltekna flugvelli á réttum tíma. Forsetinn Kaczynski hafði áður brugðist illa við breytingu á flugi og flugmennirnir væntanlega minnugir þess. 

Eftir þá reynslu gætu flugmennirnir beinlínis hafa verið hræddir við forsetann og ekki þorað að fara á annan völl. Annað sem gæti hafa haft áhrif á stjórn vélarinnar er álag á flugstjórann. Smolensk flugvöllur er lítill flugvöllur sem hefur ekki réttindi á alþjóða vísu og því ekki gerð skylda um að flugumferðarstjórar tali ensku. Öll stjórnin fer því fram á rússnesku. Flugstjóri Tupolov vélarinnar var sá eini í áhöfninni sem talaði rússnesku og því þurfti hann bæði að sjá um flugið og samskiptin við flugturninn sem venjulega er í höndum aðstoðarflugstjóra. Rússar birtu skýrslu um slysið þann 12. janúar árið 2011. 

Þar var ábyrgðinni alfarið varpað á flugmenn vélarinnar. Að þeir hefðu hunsað ítrekaðar aðvaranir flugturnsins og stefnt flugvélinni í hættu vegna mjög erfiðra veðurskilyrða. Pólska rannsóknarteymið tók að mestu undir niðurstöður þess rússneska en undan skildi þó ekki ábyrgð flugumferðarstjóranna alfarið. Þeir töldu að vissar upplýsingar sem flugmennirnir fengu uppgefnar hafi ekki verið fullnægjandi eða réttar. Rannsakendur gagnrýndu einnig þjálfun flugmannana. Flugmennirnir og flugið var á vegum pólska flughersins og því var þrýst á yfirmenn þar að segja af sér sem þeir og gerðu.

Tveir turnar

Tvíburarnir Lech og Jaroslaw Kaczynski, fæddir árið 1949, stofnuðu stjórnmálaflokkinn Lög og réttlæti (Prawo i Sprawiedliwosc) árið 2001 úr brotum tveggja annarra hægriflokka. Flokkurinn er íhaldssamur, hálfpópúlískur og byggir á þjóðlegum gildum og sterku sambandi við kirkjuna. Styrkur hans er aðallega bundinn við eldra fólk í dreifbýli, þá sérstaklega í suður og austurhluta landsins. Helsti keppinautur flokksins er Borgaralegi vettvangurinn (Platforma Obywatelska), einnig stofnaður árið 2001, sem er frjálslyndari hægriflokkur sem á mestan stuðning meðal hámenntaðs fólks í borgum, þá sérstaklega í vestur og norðurhluta landsins. 

Báðir þessir flokkar komust á kortið í þingkosningunum árið 2001 en þeir urðu leiðandi í pólskum stjórnmálum í næstu kosningum, árið 2005, þegar stærsti flokkur landsins Lýðræðislega vinstribandalagið hrundi. Síðan þá hafa flokkarnir tveir haft yfirburðastöðu á þinginu en Vinstribandalagið hefur nú þurrkast út. Í dag er sú staða komin upp að enginn vinstriflokkur á þingmann á pólska þinginu. En auk turnanna tveggja eru nokkrir smáir miðju-og hægriflokkar til staðar. Í Póllandi er stjórnskipunin svipuð og hér á Íslandi, þ.e. með forsætisráðherra sem fer fyrir ríkisstjórn og forseta sem er þjóðhöfðingi. Munurinn er hins vegar sá að stjórnmálaflokkarnir bjóða fram til forseta og er hann mun pólitískari en sá íslenski. Haustið 2005 voru þingkosningar og forsetakosningar með örfárra daga millibili. Lech Kaczynski var kjörinn forseti landsins og Lög og réttlæti sigraði þingkosningarnar. Tæpu ári seinna tók Jaroslaw Kaczynski við forsætisráðherrastólnum og þar með sátu tvíburarnir í tveim æðstu embættum landsins. En bræðurnir sátu ekki lengi einir að völdum. Sumarið 2007 slitnaði ríkisstjórn Jaroslaws og boðað var til þingkosninga þar sem Borgaralegur vettvangur vann stórsigur. Leiðtogi þeirra, Donald Tusk, myndaði þá ríkisstjórn sem sat til ársins 2015.

Samsæri

Skömmu eftir slysið fóru að heyrast raddir sem töluðu um eða ýjuðu að því að samsæri hefði átt sér stað gegn forsetanum. Raddirnar heyrðust aðallega frá forsvarsmönnum og stuðningsmönnum Laga og réttlætis og beindust bæði að rússneskum stjórnvöldum og ríkisstjórnar Borgaralegs vettvangs undir forsæti Donalds Tusk. Þar sem Pólverjar hafa engan varaforseta þurfti að boða til forsetakosninga strax og Jaroslaw bauð sig fram fyrir Lög og réttlæti. Hann fékk mikla samúð vegna fráfalls bróður síns en tapaði þó naumlega fyrir Bronislaw Komorowski, frambjóðanda Borgaralegs vettvangs.

Þar með voru íhaldsmenn komnir í andstöðu á báðum stigum stjórnkerfisins sem orsakaði það að samsæriskenningarnar mögnuðust. Í júlímánuði 2010 tóku nokkrir þingmenn sig saman, aðallega frá Lögum og réttlæti, og stofnuðu sérstaka þingnefnd til að rannsaka slysið. Flokkurinn ákvað einnig að afneita algerlega opinberum skýrslum frá rússneskum og pólskum yfirvöldum og líta í staðinn til niðurstöðu þingmannanefndarinnar sem leidd var af þeirra manni, Antoni Macierewicz. Nefndarmenn gagnrýndu ýmislegt í rannsóknunum, sérstaklega upplýsingagjöf rússneskra stjórnvalda. Ekki hafi fengist fullnægjandi upplýsingar frá flugvellinum í Smolensk og yfirvöld ekki viljað afhenda Pólverjum brak vélarinnar eða svarta kassann. Þá hefur nefndin staðið að árlegri ráðstefnu um slysið þar sem ýmsir verkfræðingar og aðrir fræðimenn, bæði innlendir og erlendir, koma saman. Þó einungis þeir fræðimenn sem deila þeirri skoðun um að pottur hafi verið brotinn í rannsókninni. Í marsmánuði árið 2015 birti þingmannanefndin svo skýrslu þar sem fullyrt var að tvær ótengdar sprengingar hafi átt sér stað í vélinni rétt áður en hún hrapaði. Með skýrslunni er í raun sagt að forsetinn hafi verið myrtur og einnig allt fylgdarlið hans og áhöfnin. Ekki er sagt beinum orðum hver myrti hann en nefndin hefur ýjað að því að Rússar með stuðningi og/eða velvild ríkisstjórnar Donald Tusk beri ábyrgð. Í því ljósi er ásökunin ekki einungis um morð, heldur stríðsaðgerð af hálfu Rússa og landráð af hálfu ríkisstjórnarinnar.


Kúvending

Árið 2015 urðu mikil vatnaskil í pólskum stjórnmálum. Um vorið sigraði Andrzej Duda, frambjóðandi Laga og réttlætis, Komorowski í forsetakosningum. Um haustið vann flokkurinn svo stórsigur og varð fyrsti flokkurinn til að ná hreinum meirihluta á pólska þinginu síðan járntjaldið féll. Samsæriskenningar um flugslysið 2010 geta þó ekki talist meðal helstu ástæðna fyrir sigrinum því að einungis um fjórðungur landsmanna leggur trúnað á þær.

Engu að síður hafa forsvarsmenn flokksins haldið þeim til streitu, t.a.m. núverandi forseti sem hefur fullyrt að rannsóknarskýrslur ríkisstjórna Pútíns og Tusks séu einungis kenningar og að málinu sé alls ekki lokið. Eitt af fyrstu verkum hinar nýju ríkisstjórnar forsætisráðherrans Beötu Szydlo var að taka niður opinbera heimasíðu sem útskýrði slysið og aðdraganda þess. Til að bæta olíu á eldinn var Antoni Macierewicz, sem leiddi þingmannanefndina um slysið, gerður að varnarmálaráðherra. Hin nýja stjórn er strax farin að hnýta í þá sem hún telur bera ábyrgð á slysinu. Rússum hefur verið hótað lögsókn fyrir að afhenda Pólverjum ekki flak vélarinnar og önnur sönnunargögn í málinu og Donald Tusk hefur verið vændur opinberlega um að hafa ekki staðið nægilega vel að rannsókninni fyrir hönd Póllands. Tusk sjálfur hefur dregið sig út úr landsmálunum og síðan 2014 hefur hann setið sem forseti Evrópuráðsins í boði Pólverja.  Óvíst er hvort hann haldi stöðu sinni þar eftir að hin nýja stjórn komst til valda. Aðstoðarmenn hans hafa þó verið opinberlega ákærðir fyrir vanrækslu í rannsókninni. 

Hróflað við hinum dauðu

Nú hefur Macierewicz hrundið af stað annarri formlegri rannsókn á slysinu. Í nóvemberbyrjun árið 2016 voru lík Lech Kaczynski og Maríu konu hans, sem hvíla í grafhýsi í Kráká-borg, grafin upp til rannsóknar. Ríkissaksóknari segir að ekki sé hægt að treysta rússnesku krufningaskýrslunum og tryggja verði að rétt fólk hvíli í grafhýsinu. Áverkar líkanna verða einnig rannsakaðir sem gætu varpað betra ljósi á slysið að sögn saksóknara. Forsetahjónin eru ekki þau einu sem verður hróflað við. Stefnan er að grafa upp og rannsaka öll líkin úr slysinu á næsta ári. Þessar aðgerðir eru þó í mikilli andstöðu við vilja flestra aðstandenda fórnarlambanna. Alls hafa 17 fjölskyldur komið fram og biðlað til bæði yfirvalda og kirkjunnar að stöðva aðgerðirnar.

Ein ekkja segist vera í angist yfir því að ætlunin sé að grafa upp lík manns hennar til að reyna að sanna árás sem hún trúir ekki að hafi átt sér stað. Andstaðan virðist þó ekki skipta yfirvöld neinu máli því að þau hafa gefið það út að rannsóknarhagsmunir trompi rétt aðstandenda. Óvinsældir aðgerðanna og lítil tiltrú almennings á að Pútín og Tusk (sem eru andstæðir pólar í stjórnmálum) hafi í sameiningu grandað flugvélinni eru þó visst vandamál hinnar nýju stjórnar. Til að reyna að fá fólk á sitt band var hrundið af stað gerð leikinnar kvikmyndar um slysið, þar sem taumur samsæriskenningarmanna er dreginn. Myndin Smolensk var frumsýnd í Póllandi þann 9. september en fékk vægast sagt dræmar undirtektir þar sem áróðurinn var einfaldlega of augljós. Ljóst er þó að ef aðgerðirnar hafa tilætlaðan árangur og almenningur fer að trúa á samsæriskenningarnar þá er til mikils að vinna fyrir stjórnarflokkinn. Að spyrða höfuðandstæðinga sína í landsmálunum saman við Rússa, sem aldrei hafa verið vinsælir í Póllandi, og gera um leið annan stofnanda flokksins að píslarvætti ætti að vera snilldarlegur pólitískur leikur. Hvort þeir sjálfir trúi kenningunni gildir þá einu. Á tímum þar sem staðreyndirnar skipta alltaf minna og minna máli ætti að vera hægt, með dugnaði og frekju, að fá þjóðina til að trúa.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None