Íslensku bankarnir þrír, sem endurreistir voru með handafli eftir bankahrunið, tóku við miklu magni eigna. Með samkomulagi við kröfuhafa þeirra á árinu 2009 um fjármögnun og eignarhald þeirra var bönkunum þremur falið að endurskipuleggja íslenskt atvinnulíf og samfélag. Um var að ræða risastórt verkefni. Samkeppniseftirlitið leit til að mynda svo á að 70 prósent stærstu fyrirtækja landsins þyrftu á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda og að það hlutfall endurspeglaði líkast til stöðuna í atvinnulífinu öllu. Þess utan þurfti að endurskipuleggja skuldir heimila og einstaklinga. Í þeirri endurskipulagningu gengu bankarnir að veðum í fjölmörgum tilfellum og eignuðust þar með enn fleiri eignir.
Einn bankanna, Landsbankinn, hefur allt frá árinu 2009 verið að nær öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Það hefur því borið ábyrgð á framferði hans við að losa um þær gríðarlegu eignir sem hann fékk í vöggugjöf við bankahrunið. Söluferli bankans á lykileignum hefur verið gagnrýnt mjög harðlega, jafnt í fjölmiðlum, af eftirlitsstofnunum og af stjórnmálamönnum, sérstaklega í kjölfar sölu bankans á hlut sínum í greiðslukortafyrirtækinu Borgun árið 2014. Sölu sem fram fór bak við luktar dyr.
Þessi gagnrýni náði hámarki í mars 2016, þegar bankaráð Landsbankans greindi frá því að Bankasýsla ríkisins hafi farið fram á það við sig að bankastjóri Landsbankans, Steinþór Pálsson, yrði sagt upp störfum vegna Borgunarmálsins. Enn fremur hafi stofnunin farið fram á að formaður og varaformaður bankaráðsins myndu víkja. Ráðið varð ekki við því að segja upp bankastjóra Landsbankans. Þess í stað tilkynntu fimm af sjö bankaráðsmönnum Landsbankans að þeir myndu ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Bankasýslan hafnaði því síðar að uppsögn Steinþórs hafi verið til skoðunar hjá henni.
Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi hefur verið, og þeirrar orðsporsáhættu sem Landsbankanum hafði verið skapað vegna Borgunarmálsins, barst Ríkisendurskoðun formlegar og óformlegar beiðnir frá einstaka þingmönnum, Landsbankanum sjálfum og Bankasýslu ríkisins um að taka eignasölur bankans síðustu ár til skoðunar. Ríkisendurskoðun varð við þeirri beiðni og ákvað að skoða alla eignasölu Landsbankans frá árinu 2010 til 2016.
Niðurstaða Ríkisendurskoðunar liggur nú fyrir og er sett fram í skýrslu sem birt var í dag. Þar eru gerðar fjölmargar athugasemdir við sölu Landsbankans á mörgum eignum á umræddu tímabili. Einkum er kastljósinu beint að söluferli sex eigna. Sölurnar hafi farið fram í lokuðu ferli og í sumum tilvikum hafi fengist „lægra verð fyrir eignarhlutina en vænta mátti miðað við verðmætin sem þeir geymdu.“
Salan á Vestia og Icelandic Group
Á árinu 2010 hafði eignarhlutum sem Landsbankinn hafði tekið yfir eftir hrunið verið komið fyrir inni í eignarumsýslufélaginu Vestia, sem bankinn átti að öllu leyti. Stærsti bitinn var Icelandic Group, alþjóðlegt sjávarútvegsfyrirtæki með alls 30 dótturfélög og starfsemi í 14 löndum. Á meðal annarra fyrirtækja voru Vodafone, fyrirtækin sem síðar runnu saman í Advanía, Húsasmiðjan og Plastprent. Í ljósi þess að sala ríkiseigna á Íslandi á sér ekki mjög fallega sögu, og hafið er yfir allan vafa að fyrirtækjum í eigu ríkisins var oft á tíðum stýrt í „réttar“ hendur á árunum fyrir hrun, var lögð áhersla á að allt ætti að vera uppi á borðunum þegar nýju íslensku bankarnir, reistir á grunni gjaldþrota banka, seldu þær fjölmörgu eignir sem höfðu fallið þeim í skaut vegna efnahagshrunsins. Einn þáverandi ráðherra sagði við greinarhöfund að það mætti ekki verða neinn „monkey business“ í endursölu á þessum eignum. Þeim átti ekki að stýra upp í hendurnar á einhverjum útvöldum.
Í lok ágúst 2010 var skyndilega tilkynnt um að Framtakssjóður Íslands, umbreytingasjóður í eigu íslensku lífeyrissjóðanna, hefði keypt Vestia. Fyrir þennan pakka greiddi Framtakssjóðurinn 19,5 milljarða króna auk þess sem Landsbankinn eignaðist 27,5 prósent hlut í hinum ætlaða umbreytingarsjóði. Með þessum gerningi var íslenska ríkið, sem átti Landsbankann að mestu, orðinn óbeint stærsti einstaki eigandi Framtakssjóðsins. Það var aldrei meiningin að svo yrði.
Ákvörðunin um þennan gerning var líka tekin af þáverandi æðstu stjórnendum Landsbankans og Framtakssjóðsins, þeim Steinþóri Pálssyni og Finnboga Jónssyni. Steingrímur J. Sigfússon, þá fjármálaráðherra, varði viðskiptin opinberlega en bak við luktar dyr varð hann, samkvæmt heimildum Kjarnans, gjörsamlega brjálaður yfir sameiningunni. Að hans mati fólst í þessari sameiningu klárt brot á reglum sem Landsbankinn hafði sjálfur sett sér um meðferð eigna sem lent höfðu í höndunum á honum eftir bankahrunið.
Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að rétt og eðlilegt hefði verið að fylgja reglum bankans um sölu fullnustueigna og starfsreglum Vestia um ráðstöfun eigna við söluna. Það hafi hins vegar ekki verið gert. Enn fremur eru gerðar athugasemdir við að ekki hafi fengist sannvirði fyrir Icelandic Group. „ Söluverð Icelandic Group var 13,9 ma.kr. sem var um 55% af bókfærðu eigin fé þess í lok júní 2010. Á þessum tíma átti það félag alls 31 dótturfélag. Ári síðar seldi Framtakssjóður Íslands 12 þeirra fyrir sama verð og hann hafði keypt alla samstæðuna. Þess ber að geta að meðan Icelandic Group var enn í eigu Landsbankans óskaði það félag sem keypti 10 þessara 12 dótturfélaga eftir viðræðum við bankann um kaup á eignarhlutum hans en fékk synjun,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar er enn fremur tiltekið að salan á Vestia og Icelandic Group í lokuðu ferli hefði orðið til þess að „ skaða orðspor bankans þótt Bankasýslan teldi hana á rökum reista. Þessi reynsla hefði því átt að hvetja bankann til að beina eignasölum í opið ferli í enn ríkara mæli en gert var og bankaráðið til að fylgja þeirri stefnu eftir. Sú varð þó ekki raunin og gagnrýnir Ríkisendurskoðun það.“
Salan á Promens
Viðskipti Landsbankans við Framtakssjóð Íslands héldu þó áfram, þrátt fyrir mikla opinbera gagnrýni. Árið 2011 seldi bankinn 49,5 prósent hlut sinn í Promens til sjóðsins.
Fyrri salan fór fram árið 2011 þegar Landsbankinn seldi, í tvennu lagi, samtals 49,5 prósent hlut í Promens á 7,9 milljarða króna. Salan fór fram í gegnum dótturfélag Landsbankans, Horn. Söluverðið var 5,5 sinnum hærra en rekstrarhagnaður Promens á árinu 2011 og einungis 84 prósent af bókfærðu virði eign fjár þess. Ríkisendurskoðun telur því að verðið hafi verið „fremur lágt“.
Árið 2014 seldi bankinn afganginn af hlut sínum í Promens, einnig í lokuðu ferli þótt að margir aðilar hafi átt í samkeppni um að kaupa hlutina í það sinn. Þá fengust 18 milljarðar króna fyrir sem var 7,8 sinnum meira en rekstrarhagnaður Promens árið 2014 og 30 prósent umfram bókfært virði eigin fjár fyrirtækisins. Ríkisendurskoðun tilgreinir að ytri aðstæður höfðu vissulega breyst nokkuð frá árinu 2011 en segir að „hvorki yfirfærsla eignarinnar frá Landsbankanum til Horns né salan árið 2011 var borin undir bankaráð þótt miklir fjármunir væru í húfi. Ríkisendurskoðun telur þetta aðfinnsluvert og ekki í samræmi við starfsreglur bankaráðs.“
Borgun og Valitor
Ástæða þess að Ríkisendurskoðun rannsakaði eignasölur Landsbankans er fyrst og síðast gagnrýni vegna sölu á hlut bankans í greiðslukortafyrirtækinu Borgun haustið 2014. Þá var 31,2 prósent hlutur í fyrirtækinu seldur til hóps fjárfesta og stjórnenda Borgunar á 2,2 milljarða króna á bakvið luktar dyr. Miðað við það verð var heildarvirði Borgunar um sjö milljarðar króna. Ekkert opið söluferli fór fram.
Í byrjun árs 2016 var greint frá því að kaup Visa Inc. á Visa Europe gætu skilað Borgun og öðru íslensku greiðslukortafyrirtæki, Valitor, á annan tug milljarða króna. Landsbankinn átti hlut í bæði Borgun og Valitor. Þegar bankinn seldi hlut sinn í Borgun gerði hann ekki samkomulag um hlutdeild í söluandvirði Visa Europe. Þegar hann seldi hlut sinn í Valitor í apríl 2015 gerði hann hins vegar samkomulag um viðbótargreiðslu vegna þeirrar hlutdeildar Valitor í söluandvirði Visa Europe. Samkvæmt virðismati sem KPMG vann fyrir stjórnendur Borgunar í febrúar 2016 var heildarvirði fyrirtækisins þá áætlað á bilinu 19-26 milljarðar króna.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Borgun hafi fengið í sinn hlut 6,2 milljarða króna vegna hlutdeildar fyrirtækisins í þeim fjármunum sem runnu til þeirra félaga sem áttu aðild að Visa Europe. Erfitt sé að meta þá fjárhæð sem Landsbankinn fór á mis við þar sem hagnaður Borgunar varð að nokkru leyti til eftir sölu eignarhlutarins. Að auki hefur hann ekki að öllu leyti verið innleystur.
Ríkisendurskoðun segir að bankinn hafi haft nægan tíma til að kynna sér starfsemi Borgunar áður en hlutur hans í fyrirtækinu var seldur auk þess sem tími hefði verið til að hafa söluferlið opið. Bankinn hafi ekki gætt að hugsanlegum verðmætum sem fylgdu hlutnum, sem var hlutdeild í fjármunum sem fyrirtækið fékk þegar Visa Inc. tók yfir Visa Europe. Starfsmenn Landsbankans sem komu að sölunni á Borgun vissu af þessu, og bankinn vissi frá því í janúar 2013 að það voru veruleg verðmæti fólgin í þessu. Sérfræðingar bankans um greiðslukortaviðskipti upplýstu bankaráðið á fundi í janúar 2013 um mögulegan hagnað Valitors af valréttinum, en fulltrúar bankans segjast ekki hafa vitað að Borgun væri aðili að Visa Europe líka. Þetta gagnrýnir Ríkisendurskoðun og segir að aðild Borgunar að Visa Europe hafi staðið frá árinu 2010 og hafi verið forsenda þess að fyrirtækið var með færsluhirðingu vegna Visakorta.
Ríkisendurskoðun segir að greiðslukortasérfræðingar Landsbankans hafi ekki átt hlut að máli þegar hluturinn í Borgun var seldur, þar sem ekki var leitað til þeirra. Þá hefði bankinn getað fengið vitneskju um þetta ef gerð hefði verið áreiðanleikakönnun upp úr gögnunum sem bankanum stóð til boða í gagnaherbergi. Það hefði að mati Ríkisendurskoðunar verið eðlilegur hluti af söluferlinu.
Landsbankinn hefur undanfarna mánuði undirbúið málsókn á hendur Borgun vegna þess að hann telur sig hafa farið á mis við verðmæti þegar hlutur hans í fyrirtækinu var seldur.
Þótt að Landsbankinn hafi fengið meira fyrir hlut sinn í Valitor en Borgun, og að bankinn hafi tryggt sér hlutdeild í hagnaði Valitor vegna sölu á Visa Europe, þá gagnrýnir Ríkisendurskoðun hann samt sem áður fyrir söluna á hlutnum til Arion banka árið 2014. Ástæðan er sú að salan fór fram í lokuðu ferli.
Staða Hamla athugunarverð
Að lokum gerir Ríkisendurskoðun athugasemdir við stöðu eignarhaldsfélags Landsbankans, Hamla ehf. sem selt hefur fjölda mikilvægra fullnustueigna bankans á undanförnum árum. Í skýrslunni segir: „Í stjórn Hamla sitja bankastjóri Landsbankans og tveir framkvæmdastjórar sem eru um leið næstu undirmenn bankastjórans. Svo virðist þó sem Hömlur hafi í reynd verið starfræktar eins og hver önnur deild innan bankans. Bankinn hefur t.d. séð um launavinnslu fyrir Hömlur og starfsemin fer að öllu leyti fram innan húsakynna bankans. Einnig eru Hömlur með sama símanúmer og Landsbankinn. Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við skipun stjórnar Hamla og telur að hún sé ekki í samræmi við kröfur Eigandastefnu ríkisins (2009) um ábyrgðarskil stjórnenda. Að mati stofnunarinnar er óæskilegt að bankastjóri sé bæði virkur þátttakandi í eignasölu Hamla og hafi einnig það hlutverk sem bankastjóri að samþykkja sölu slíkra eigna.
Við vinnslu þessarar skýrslu hvatti Ríkisendurskoðun Landsbankann til að taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar. Bankinn hefur nú ákveðið að leggja Hömlur niður og flytja starfsemina til Landsbankans.“
Grípa þarf til aðgerða til að endurreisa orðspor bankans
Ríkisendurskoðun beinir því til bankaráðs Landsbankans að gripið verði til ráðstafana til að endurreisa orðspor Landsbankans. „Ríkisendurskoðun hvetur bankaráð Landsbankans til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að endurheimta og efla það traust og þann trúverðugleika sem bankinn hefur á undanförnum árum stefnt í hættu með verklagi sínu við sölu á verðmætum eignum. Stofnunin telur sérstaklega mikilvægt að bankaráðið tryggi að bankinn fylgi eigandastefnu ríkisins og öðrum reglum sem eiga að stuðla að góðum stjórnarháttum og heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum á fjármálamarkaði.“
Ekki er tilgreint til hvaða aðgerða bankaráðið ætti að grípa til.
Bankaráðið fékk tækifæri til að bregðast við drögum að skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í viðbrögðum þess segir að það sé mat bankaráðsins að nú þegar hafi verið gripið til ráðstafana til að bæta úr flestum þeirra þátta sem ábendingar Ríkisendurskoðunar nái til. Í fréttatilkynningu frá Landsbankanum sem send var í kjölfar birtingar skýrslunnar var haft eftir Helgu Björk Eiríksdóttur, formanns bankaráðs Landsbankans, að það sé markmið bankans að læra af reynslunni og gera ávallt betur. „Í því ljósi munum við kynna okkur efni endanlegrar skýrslu ítarlega og meta hvort frekari aðgerða er þörf.“