Ný ríkisstjórn að fæðast
Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð hafa náð saman um meginatriði í myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þegar hefur náðst málamiðlun í sjávarútvegsmálum. Vinstri græn vilja ekki vera fjórða hjólið þótt það standi til boða.
Ný ríkisstjórn virðist vera að myndast. Hún mun samanstanda af Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð og forsætisráðherra verður Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Ólíklegt virðist sem stendur að til takist að bæta fjórða hjólinu undir þennan ríkisstjórnarvagn. Ef af verður mun hin nýja ríkisstjórn því vera með minnsta mögulega þingmeirihluta. Og miklir umrótatímar eru fram undan þar sem verulega mun reyna á samstöðu innan ríkisstjórnar.
Flokkarnir þrír fóru í stjórnarmyndunarviðræður fyrr í þessum mánuði eftir að Bjarna hafði verið fært stjórnarmyndunarumboð af forseta Íslands. Hann stöðvaði þær viðræður 15. nóvember síðastliðinn vegna þess að flokkur hans gat ekki sætt sig við að hluti aflaheimilda, 3-4 prósent, yrði boðinn upp á markaði til tekjuöflunar fyrir ríkissjóðs. Auk þess var andstaða við málamiðlun í Evrópusambandsmálum innan flokksins, en Viðreisn og Björt framtíð vilja láta kjósa um áframhaldandi viðræður við sambandið.
Viðmælendur Kjarnans segja að viðræður milli flokkanna þriggja hafi farið á fullt aftur um helgina og fyrir liggja málamiðlunartillögur í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum sem allir virðast geta sætt sig við. Lítið fæst uppgefið um útfærslur þeirra málamiðlana utan þess að í þeim muni felast að minnsta kosti táknrænar aðgerðir í átt að meira frelsi í verslun með landbúnaðarvörur og að sjávarútvegsfyrirtæki muni þurfa að greiða hærri gjöld fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni.
Skattkerfisbreytingar í farvatninu
Auk þess er vilji til að hrinda í framkvæmd einföldun á skattakerfinu. Þær tillögur byggja á vinnu Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, sem birti skýrslu í byrjun september síðastliðinn með 27 tillögum um breytingar á skattkerfinu. Því til viðbótar má búast við að ýmis frjálslynd mál á borð við frjálsari sala á áfengi í verslunum muni fá brautargengi hjá þessari ríkisstjórn.
Verkefnastjórnin sem vann skattatillögurnar var skipuð sex sérfræðingum í skattamálum. Á meðal þess sem hún lagði til var að samsköttun verði hætt, að tveimur skattþrepum – 25 og 43 prósent – verði komið á, að persónuafsláttur byrji í 0 og hækki krónu fyrir krónu upp í 970 þúsund krónur, vaxtabótakerfið verði fellt niður og sparnaði þess í stað beint til lágtekjuhópa með útborganlegum persónuafslætti, barnabætur verði réttur barns og verði hækkaðar umtalsvert. Þessar breytingar eiga að flytja ábata frá efstu lögunum, þeim sem þéna mest, yfir til lág- og millitekjuhópa. Því felur kerfið í sér jöfnun.
Þá var lagt til að tekið yrði upp eitt virðisaukaskattsþrep, fjármagnstekjur verði miðaðar við raunávöxtun í stað nafnávöxtunar og fjöldinn allur af auðlindagjöldum fyrir nýtingu á náttúruauðlindum. Meðal þess sem var lagt til var að bílastæðagjald yrði tekið upp fyrir að leggja við helstu ferðamannastaði, að gistináttagjald yrði hækkað, að samræmd yrði auðlindarenta fyrir nýtingu í sjávarútvegi og orkuframleiðslu til að Ísland fái hærri skattgreiðslur fyrir nýtingu á auðlindum þjóðarinnar.
Hægrisinnaðasta ríkisstjórn lýðveldissögunnar?
Sjálfstæðisflokkurinn gafst loks upp á því að reyna að mynda ríkisstjórn sem inniheldur Framsóknarflokkinn undir lok síðustu viku. Ljóst var að hvorugur þeirra möguleika sem flokkurinn átti í myndun ríkisstjórnar, Vinstri græn eða miðjubandalag Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, tók slíkt samstarf í mál.
Innan Sjálfstæðisflokksins var einnig búið að útiloka að mynda ríkisstjórn með Framsókn og Samfylkingu, bæði vegna þess að mikil andúð ríkir gagnvart Samfylkingunni hjá ákveðnum kreðsum innan flokksins og slík ríkisstjórn væri bara með 32 þingmenn. Einn þeirra yrði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem hefur verið einangraður af forystu Framsóknarflokksins í viðleitni hennar til að komast í ríkisstjórn.
Eftir að óformlegar viðræður um myndun þess sem kallað hefur verið hægrisinnaðasta ríkisstjórn lýðveldissögunnar hófust aftur um liðna helgi hafa sum þeirra ágreiningsmála sem gerðu það að verkum að upp úr slitnaði milli Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar/Bjartrar framtíðar um miðjan nóvember verið afgreidd. Formenn flokkanna þriggja, Bjarni Benediktsson, Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé, hittust á laugardag og samtöl milli lykilfólks í flokkunum héldu svo áfram um helgina.
Á sunnudagskvöld stóð til að formennirnir hittust aftur en því var frestað, samkvæmt heimildum Kjarnans, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn vildi gera lokatilraun til að fá Vinstri græn um borð í ríkisstjórnina. Bjarni Benediktsson tiltók það enda sérstaklega, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér þegar viðræðum flokkanna þriggja var slitið síðast, að aðstæður á Íslandi „kalli á ríkisstjórn með breiðari skírskotun og sterkari meirihluta en þann sem þessir þrír flokkar geta boðið.“
Vinstri græn föst á afstöðu sinni
Það mun hins vegar, að öllum líkindum, ekki ganga eftir. Vinstri græn eru mjög staðföst í þeirri afstöðu sinni að taka einungis þátt í ríkisstjórn sem eykur sjálfbærar tekjur ríkissjóðs verulega til að hægt verði að ráðast stórtæka sókn í heilbrigðis-, velferðar- og menntamálum. Það gerist ekki nema með hærri sköttum. Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð séu ekki að fara að fallast á slíkar breytingar.
Bent er á að um 20 milljarða króna gatsé á rekstri ríkissjóðs án einskiptisliða og stöðugleikaframlaga á þessu ári og að hallaleysi síðustu ára hafi ætið verið brúað með tímabundnum sértekjum á borð við sértæka bankaskatta, bókhaldsæfingum á borð við þær að breyta skuld við Seðlabankaog bókfæra hana sem arð eða einskiptisliðum á borð við arðgreiðslur úr fjármálafyrirtækjum.
Til að ráðast í þá sókn sem Vinstri græn setja sem forsendu þess að taka þátt í ríkisstjórn þurfi að hækka framlög til málaflokkanna verulega og það sé ekki hægt að nota stöðugleikaframlög til þess, enda séu það peningar sem einungis sé hægt að nota einu sinni. Auk þess liggur fyrir skuldbinding um að nota stöðugleikaeignirnar til að greiða niður skuldir hins opinbera.
Þá er sú skoðun ríkjandi innan Vinstri grænna að flokkarnir þrír: Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð, séu allir með ríkar hægri áherslur. Í ljósi þess að þeir þrír eru með meirihluta þingmanna á Alþingi þá hræðast Vinstri græn að hægri hlið ríkisstjórnarinnar myndi keyra yfir vinstri hliðina ef á reyndi.
Ekki slæmt hlutskipti að sitja í stjórnarandstöðu
Auk þess eru mörg átakamál fram undan í íslensku samfélagi. Í ljósi þess að vinstri flokkum gekk ekki sérstaklega vel heilt yfir í síðustu kosningum þá telja þeir ekki svo slæman kost að vera í sterkri stjórnarandstöðu gegn mjög veikri ríkisstjórn miðju- og hægriflokkanna sem hefur einungis eins manns meirihluta.
Sérstaklega er horft til þeirra deilna sem fram undan eru á vinnumarkaði vegna fyrirhugaðra breytinga á lífeyrissjóðakerfinu og viðhaldi SALEK-samkomulagsins. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar verður alltaf álitin ríkisstjórn atvinnulífsins, m.a. í ljósi þess að fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Þorsteinn Víglundsson, verður að öllum líkindum ráðherra í ríkisstjórninni, verði hún að veruleika.
Vinstrivængur stjórnmálanna telur nær öruggt að vinnumarkaðsdeilurnar sem fram undan eru, meðal annars vegna þess að kennarar virðast ekki ætla að beygja sig undir SALEK-samkomulagið og stefna í verkfall, muni reyna mjög á ríkisstjórnina og hversu samheldin hún verði. Á móti verði mjög sterk stjórnarandstaða Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata.