Bjarni og Kata

Bjarni horfir til Katrínar

Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn hafa hafið viðræður til að kanna grundvöll fyrir því að vera nýr öxull við stjórnarmyndun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur enn þann kost að fara í ríkisstjórn með Viðreisn og Bjarta framtíð. Þeir flokkar hafa náð saman um helstu atriði, en ríkisstjórn þeirra skortir þingstyrk.

Enn ein U-beygjan hefur verið tekin í myndun nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, tjáði forseta Íslands fyrr í dag að þau ætluðu að kanna hvort möguleiki sé á samstarfi þessara flokka í ríkisstjórn. Náist slík sátt munu formennirnir tveir, sem leiða tvo stærstu stjórnmálaflokka landsins en eru á sitt hvorum pólnum í hinu pólitíska litrófi, í kjölfarið leita til annarra stjórnmálaflokka um að verða aðilar að stjórn þeirra.

Hugmyndin er að stærstu flokkarnir tveir, og þeir sem hugmyndafræðilega eru lengst frá hvorum öðrum, geti verið einhvers konar öxull í nýrri ríkisstjórn.

CAD-stjórnin sett á ís

Í gær greindi Kjarninn frá því að ný ríkisstjórn sem innihéldi Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Bjartra framtíð virtist vera að myndast. Flokkarnir þrír höfðu átt í viðræðum alla helgina og náð saman í stórum málum. Mikill vilji var þó til þess að ná fjórða flokknum um borð til að tryggja meiri styrk ríkisstjórnarinnar, en þriggja flokka stjórnin hefði einungis haft eins þingmanns meirihluta.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði ítrekað reynt að koma Framsóknarflokknum að stjórnarmyndunarborðinu, annað hvort í viðræðum við Vinstri græn eða við Viðreisn og Bjartra framtíð. Engin þessara flokka tók slíkt hins vegar í mál. Það var einfaldlega engin vilji til að lengja líf sitjandi ríkisstjórnar.

Viðmælendur Kjarnans innan Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar  sögðu að viðræður milli flokkanna þriggja hafi farið á fullt aftur um helgina, en flokkarnir þrír reyndu að mynda ríkisstjórn fyrr í nóvember án árangurs.

Formenn flokkanna þriggja, Bjarni Benediktsson, Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé, hittust á laugardag og samtöl milli lykilfólks í flokkunum héldu svo áfram um helgina. Fyrir lági málamiðlunartillögur í átakamálum sem allir áttu að geta sætt sig við. Auk þess var búið að komast að niðurstöðu um skattkerfisbreytingar sem öllum flokkunum þremur hugnaðist.

Á sunnudagskvöld stóð til að formennirnir hittust aftur en því var frestað, samkvæmt heimildum Kjarnans, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn vildi gera lokatilraun til að fá Vinstri græn um borð í ríkisstjórnina. Bjarni Benediktsson tiltók það enda sérstaklega, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér þegar viðræðum flokkanna þriggja var slitið síðast, að aðstæður á Íslandi „kalli á ríkisstjórn með breiðari skírskotun og sterkari meirihluta en þann sem þessir þrír flokkar geta boðið.“

Í gærkvöldi ákvað Sjálfstæðisflokkurinn svo að kanna aðra möguleika í stöðunni og forystufólki Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var tilkynnt um það. Í samtali við Vísi.is fyrr í dag sagði Bjarni að það hafi verið niðurstaða sín, eftir umrætt samtal við formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, að leita leiða til að mynda breiðari ríkisstjórn og að hann ætlaði að ræða við Katrínu Jakobsdóttur um það.

Þingstyrk þarf fyrir erfið verkefni

Innan minni flokkanna tveggja hafði ríkt bjartsýni á að þá það yrði einfaldlega keyrt á þriggja flokka ríkisstjórn með lítinn meirihluta, þrátt fyrir að bæði Bjarni Benediktsson, og margir þingmenn flokks hans, voru skeptísktir á svo veika ríkisstjórn.

Þegar leið á gærdaginn jukust samskiptin milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna og óformlegar þreifingar þeirra á milli um að mynda nýjan öxul í stjórnarmyndunarviðræðum urðu alvarlegri en þær hafa verið hingað til. Heimildarmenn Kjarnans segja að í ljósi þeirra verkefna sem framundan séu á komandi kjörtímabili – bæði efnahagslegra áskorana og uppsafnaðra innviðafjárfestinga – þá telji lykilfólk í báðum flokkum að ómögulegt verði að mynda starfhæfa og sterka ríkisstjórn nema hún innihaldi bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkinn. Saman eru flokkarnir með 31 þingmann og þurfa því að minnsta kosti að taka einn flokk til viðbótar með í samstarfið. Vinstri græn útiloka að koma inn í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Mikill vilji er hjá öðrum stjórnmálaflokkum að brjóta upp bandalag Viðreisnar og Bjartrar framtíðar til þess að síðarnefndi flokkurinn geti orðið hluti af ríkisstjórn án Viðreisnar.

Þá er sú skoðun ríkjandi innan Vinstri grænna að flokkarnir þrír: Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð, séu allir með ríkar hægri áherslur. Í ljósi þess að þeir þrír eru með meirihluta þingmanna á Alþingi þá hræðast Vinstri græn að hægri hlið ríkisstjórnarinnar myndi keyra yfir vinstri hliðina ef á reyndi.

Sérstaklega þar sem þeir flokkar eru nú þegar búnir að semja sig niður á lausnir í ansi mörgum málum. Lausnir sem Vinstri græn geta með engu máli sætt sig við.

Samfylking, Björt framtíð eða báðir flokkarnir

Þeir flokkar sem þar koma helst til greina eru Samfylkingin – sem Vinstri græn eru mjög áfram um að fá inn í ríkisstjórnarsamstarfið – og Björt framtíð. Helst er vilji til að fá báða flokkanna inn í það og mynda þá ríkisstjórn með 38 þingmenn, og sterkan meirihluta.

Vandamálið þar er að Björt framtíð hefur bundið sig ansi fast við Viðreisn og hingað til hefur ekki verið neinn vilji hjá flokknum til að slíta sig frá því samstarfi, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir annarra stjórnmálaflokka til að reka fleyg á milli þeirra.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er þó fjarri því út af borðinu. Viðræður Bjarna og Katrínar munu snúast um að kanna af alvöru hvort hægt sé að mynda annars konar ríkisstjórn sem inniheldur báða þá flokka.  Katrín lagði sérstaka áherslu á það í samtali við mbl.is í dag að um óformlegar viðræður sé að ræða.

Ef ekki næst saman milli þeirra er þriggja flokka ríkisstjórnin frá miðju til hægri, sem var fyrsta val Bjarna Benediktssonar í stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningarnar, enn líklegasti möguleikinn sem er á borðinu.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar