Birgir Þór Harðarson

Allar líkur á að fimm flokka viðræðum verði hætt á morgun

Tími Pírata til að mynda fimm flokka ríkisstjórn frá miðju til vinstri fer að renna út. Himinn og haf er á milli Vinstri grænna og Viðreisnar í mörgum lykilmálum. Vinstri græn vilja fjárfesta fyrir tugi milljarða króna í velferð og innviðum og Viðreisn vill uppboðsleið í sjávarútvegi.

Lítlar sem engar líkur eru taldar á því að Píratar, Viðreisn, Björt framtíð, Samfylking og Vinstri græn ákveði að hefja formlegar viðræður um myndun ríkisstjórnar. Mjög langt er á milli andstæðra póla um hvernig eigi að haga tekjuöflun og hvernig eigi að taka á sjávarútvegsmálum.

Kristján Gunnarsson, fjölmiðlafulltrúi Pírata, sagði við Vísi í morgun að það muni ráðast á morgun, föstudag, hvort af formlegum viðræðum verði. Þá verði vika síðan að Píratar fengu stjórnarmyndunarumboðið frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Viðmælendur Kjarnans innan Vinstri grænna og miðjubandalags Viðreisnar og Bjartrar framtíðar telja afar ólíklegt, og nánast útilokað, að formlegar viðræður verði teknar upp. Það gæti þó farið svo að reynt yrði áfram fram yfir helgi.

Stór gjá varðandi tekjuöflun

Líkt og við var að búast er mesta gjáin milli Vinstri grænna annars vegar og Viðreisnar hins vegar. Vinstri græn vilja fara í fjárfestingar í velferð og innviðum sem gætu kostað allt að 50 milljarða króna til viðbótar við það sem rekstur ríkissjóðs kostar í dag. Þær fjárfestingar þarf að fjármagna með nýjum sjálfbærum tekjum. Það þýðir að ráðast þyrfti í ýmiss konar skattahækkanir til viðbótar við hækkun á gjöldum sem tekin yrðu vegna nýtingar á auðlindum og nýrra gjalda sem hægt yrði að leggja á ferðaþjónustuna. Viðreisn hefur verið mjög andsnúin svo mikilli aukningu álagningar.

Síðast þegar slitnaði upp úr viðræðum flokkanna fimm, þegar Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna stýrði viðræðunum, lá fyrir mikill munur á áherslum milli Vinstri grænna annars vegar og Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hins vegar. Sá munur sem fram var kominn var m.a. í landbúnaðarmálum, sjávarútvegi og alþjóðamálum þar sem Vinstri græn töluðu m.a. fyrir breytingum á samstarfinu við NATO. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar grein, skrifaði grein eftir að þeim viðræðum lauk þar sem hann sagði að tillögum um tug milljarða skattahækkanir, meðal annars með hátekjuskatti og stóreignaskatti, væru óábyrgar. Þessi afstaða Viðreisnar, hefur ekkert breyst. Og vilji Vinstri grænna til að fara í tug milljarða króna aukningu í fjárfestingu í velferð og innviðum hefur það ekki heldur.

Yfirlýsingar forsvarsmanna Landsspítalans og Landhelgisgæslunnar vegna fjárlagafrumvarpsins, þar sem þeir lýsa í raun yfir að neyðarástand skapist innan þeirra stofnanna ef ekki verður bætt verulega í fjármögnun, hafa virkað sem olía á þann eld sem drífur kröfur um gríðarleg aukningu á fjárfestingum í velferð og innviðum. Mismunandi skoðanir um forgangsröðun í samgönguáætlun, sem var ekki hluti af fjárlagafrumvarpinu, hefur einnig ekki gert samræður auðveldari. 

Þá liggur fyrir að Viðreisn stendur fast á því að farin verði uppboðsleið í sjávarútvegi. Í viðræðum miðjuflokkanna við Sjálfstæðisflokk lá fyrir tillaga um að 3-4 prósent kvótans myndi fara á uppboð og afrakstur þess myndi síðan skapa nýjar og hærri tekjur fyrir ríkissjóð. Vinstri græn eru andsnúin uppboðsleið og vilja frekar hækka veiðigjöld á útgerðir. 

Mikil vinna framundan við fjárlagagerð

Í fyrradag var lagt fram fjárlagafrumvarp við mjög óvenjulegar aðstæður og fram undan er nær fordæmalaus fjárlagavinna. Hún fer fram á tímum þar sem starfstjórnin sem lagði fram fjárlagafrumvarpið er ekki með meirihluta og semja þarf um ansi mörg mál innan fjárlaganefndar til að frumvarpið fái brautargengi og verði samþykkt. Sú vinna mun krefjast mikillar einbeitingar og athygli, sérstaklega í ljósi þess að ansi margir þeirra sjö flokka sem sitja nú á Alþingi vilja gera umtalsverðar breytingar á frumvarpinu áður en það verður samþykkt. 

Benedikt Jóhannesson skrifaði grein síðast þegar slitnaði upp úr viðræðum flokkanna fimm. Þeir ásteytingarsteinar sem tilgreindir voru í henni eru enn til staðar.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Til viðbótar þarf að ljúka vinnu við sameiningu opinbera og almenna lífeyrissjóðskerfisins fyrir áramót, eigi hún að ganga eftir. Ritað var undir samkomulag þess efnis í september þess efnis að samþætta kerfin, jafna iðgjaldagreiðslur í þau og réttindaávinnslu gegn því að ríkið myndi borga upp ófjármagnaðar áfallnar skuldbindingar með stöðugleikaframlögum og vinna að því að jafna laun milli þeirra sem starfa hjá hinu opin­bera og þeirra sem starfa á almennum mark­aði. Þeirri jöfnun á að ná innan ára­tug­ar, en í dag eru laun á almennum mark­aði umtals­vert hærri. Ekki hefur hins vegar tekist að nást sátt um útfærslu þessarar miklu kerfisbreytingar og hún er sem stendur í miklu uppnámi. 

Nýtt þing hefur því nóg að gera næstu daganna.

Hvað næst?

Verði fimm flokka viðræðunum slitið, líkt og allt lítur út fyrir að verði ofan á, eru fáir möguleikar eftir í stöðunni varðandi ríkisstjórnarmyndun. Engin þíða er að skapast hjá flestum flokkunum utan Sjálfstæðisflokks gagnvart því að mynda ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og þeir útiloka enn allir að mynda ríkisstjórn með báðum sitjandi ríkisstjórnarflokkum. Krafa Vinstri grænna um tug milljarða króna viðbótarfjárfestingu í velferðarmálum og innviðum hefur gert það að verkum að flokkurinn mun ekki ná saman við Sjálfstæðisflokkinn og frjálslyndu miðjuflokkanna tvo, Viðreisn og Bjarta framtíð.

Sá stjórnarmyndunarmöguleiki sem eftir stendur er þá þriggja flokka ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar með minnsta mögulega þingmeirihluta, 32 þingmenn. Líkt og vel þekkt er hafa þessir flokkar tekið tvær umferðir í viðræðum nú þegar en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur hætt við í bæði skiptin þegar forsvarsmenn hinna flokkanna töldu að nær allt væri frágengið. Opinbera ástæðan sem Bjarni hefur gefið er sú að hann teldi stjórnina ekki nægilega sterka með sinn litla meirihluta til að takast á við þau efnahagslegu vandamál sem fram undan eru, og lesa má um í fréttaskýringu sem birtist á Kjarnanum í morgun. Innan Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er sú skoðun hins vegar nær almenn að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki með neinu móti getað sætt sig við uppboðsleið í sjávarútvegi og að innan flokksins hafi einnig verið mjög sterk andstaða við samstarf við Viðreisn, í ljósi þess að flokkurinn er meðal annars stofnaður af fólki sem flúði Sjálfstæðisflokkinn vegna Evrópumála og skorts á framgangi frjálslyndra viðhorfa. 

Hafi afstaða Bjarna, og flokks hans, ekki breyst og er ljóst að boltinn er þá kominn í fangið á Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands um framhaldið. Einn möguleikinn sem æ oftar er nefndur hjá lykilfólki innan flokka víðs vegar frá á hinu pólitíska litrófi er sá að það þurfi bara að kjósa aftur. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar