Birgir Þór Harðarson

Íslendingar flytja burt þrátt fyrir góðærið

Mun fleiri Íslendingar hafa flutt burt frá landinu á undanförnum þremur árum en aftur til þess. Ástæðurnar eru nokkrar. Hér eru ekki að verða til „réttu“ störfin, lífsgæði sem mælast ekki í tekjuöflun standast ekki samanburð og það ríkir neyðarástand á húsnæðismarkaði.

Mun fleiri Íslend­ingar hafa flutt burt frá land­inu á und­an­förnum þremur árum en aftur til þess. Ástæð­urnar eru nokkr­ar. Hér eru ekki að verða til „réttu“ störf­in, lífs­kjör ungs fólks eru að versna og það ríkir neyð­ar­á­stand á hús­næð­is­mark­aði.

Þum­al­putta­reglan er sú að þegar vel gengur í efna­hags­lífi þjóðar þá flytja íbúar hennar síður annað til að leita nýrra tæki­færa. Upp­sveiflu – stundum kallað góð­æri – á enda að fylgja mýgrautur tæki­færa.

Það fer ekk­ert á milli mála að efna­hags­upp­sveifla hefur átt sér stað á Íslandi á und­an­förnum árum. Hag­vöxtur á Íslandi hefur verið miklu hærri en í flestum við­mið­und­ar­löndum mörg ár í röð. Fyrst mak­ríl­veiðar og svo ævin­týra­legur vöxtur í komu ferða­manna til lands­ins hafa gert það að verkum að tekjur þjóð­ar­bús­ins hafa stór­auk­ist og þús­undir starfa verða til hér­lendis á ári hverju sem þarf að manna.

Frá árinu 1961 hefur fjöldi Íslend­inga sem fluttu burt aðeins fimm sinnum verið mark­tækt hærri en þeirra sem fluttu til lands­ins. Það var árin 1970, 1995 og 2009 til 2011, sem öll voru tíma­bil sem komu í kjöl­far kreppu. Eina und­an­tekn­ingin eru árin 2014, 2015. Sam­kvæmt tölum Hag­stofu Íslands var fjöldi brott­fluttra Íslend­inga mark­tækt hærri en fjöldi þeirra sem fluttu aftur til lands­ins á því tíma­bili. Og sú þróun heldur áfram sam­kvæmt tölum sem birtar hafa verið fyrir fyrstu níu mán­uði árs­ins 2016.

Fólk er að flytja frá Íslandi þrátt fyrir efna­hags­legan upp­gang.

Út með mennt­að, inn með ómenntað

Fyrir hrun urðu til mörg ný störf fyrir háskóla­menntað fólk. Fjár­mála­fyr­ir­tæk­in, sem síðar felldu íslenska hag­kerfið þannig að heyrð­ist út um allan heim, sog­uðu til sín slíkt vinnu­afl. Það þótti allt í einu ekk­ert til­töku­mál að nýút­skrif­aður verk­fræð­ingur fengi borgað millj­ónir á mán­uði fyrir að reikna út afleiður eða að við­skipta­fræð­ingur með BS-gráðu en enga reynslu væri að sýsla með millj­arða króna dags dag­lega. Í þessu ástandi fólust öfgar, en þær öfgar voru þó þess eðlis að menntun borg­aði sig og hún var lyk­ill að betri laun­uðu starfi.

Eftir hrun­ið, á árunum 2008 til 2010, töp­uð­ust tólf þús­und störf. Atvinnu­leysi fór yfir tveggja stafa tölu og náði hámarki á árinu 2010. Þús­undir Íslend­inga flúðu land. Meðal ann­ars fóru nálægt átta þús­und til Nor­egs á sjö ára tíma­bili.

En frá 2010 hefur orðið við­snún­ingur og störfum fjölgað jafn og þétt. Í grein­ingu frá Arion banka sem birt var síð­ast­liðið sumar kom fram að 16.300 þús­und ný störf hafi orðið til í stað þeirra sem hurfu. Bróð­­ur­­partur allra nýrra starfa sem orðið hafa til á Íslandi eftir banka­hrun er til­­kom­inn vegna ferða­­þjón­­ustu og tengdra greina, en ferða­mönnum sem heim­sækja Íslands hefur fjölgað úr tæp­lega 500 þús­und árið 2010 í yfir tvær millj­ónir í ár. Þau störf eiga það sam­eig­in­legt að vera að miklu leyti lág­launa­störf sem krefj­ast ekki mennt­unar eða sér­hæfni. Og henta því ekki vinnu­mark­aði þar sem á fjórða þús­und manns útskrif­ast úr háskóla­námi árlega.

Við rekum auð­linda­drifið hag­kerfi sem hvílir á þremur meg­in­stoð­um: nýt­ingu á nátt­úru Íslands, fisk­veiðum og orku­bú­skap.

Íslend­ingar flytja, útlend­ingar koma

Það hefur enda sýnt sig að þrátt fyrir nán­ast ekk­ert atvinnu­leysi var fjöldi þeirra sem var með háskóla­mennt­un, en án atvinnu í lok síð­asta árs, 275 pró­sent hærri en tíu árum áður. Þessi þróun end­ur­spegl­ast í tölum Vinnu­mála­stofn­unar um menntun atvinnu­lausra. Á fyrstu ell­efu mán­uðum árs­ins 2005 var fjöldi atvinn­u­­lausra með háskóla­­menntun 10,6 pró­­sent af heild­­ar­­fjölda atvinn­u­­lausra. Á sama tíma 2015 var hlut­­fallið 25,2 pró­­sent.

Íslenskar stofn­anir skrá ekki hjá sér menntun þeirra sem flytja búferlum frá Íslandi, en flestir sem þekkja til telja ein­boðið að það sé verð­mætasta vinnu­afl þjóð­ar­inn­ar, það sem er lík­leg­ast til að búa til mesta fram­legð, sem sé að flytj­ast á brott. Störfin sem eru að verða til eru ekki störfin sem það fólk vill.

Þess í stað flytjum við inn mikið af ódýru erlendu vinnu­afli. Á árinu 2015 einu saman voru 74,4 pró­­sent allra nýrra skatt­greið­enda erlendir rík­­is­­borg­­ar­­ar. Það þýðir að þrír af hverjum fjórum sem bætt­ist við skatt­grunn­­skrá lands­ins í fyrra voru erlendir rík­­is­­borg­­arar en einn af hverjum fjórum var íslenskur rík­­is­­borg­­ari. Erlendir rík­­is­­borg­­arar á skatt­grunn­­skrá eru nú 10,2 pró­­sent fram­telj­enda á grunn­­skrá.

Mikil fjárfesting hefur átt sér stað í fasteignauppbyggingu í tengslum við ferðaþjónustu. Þúsundir erlendra verkamanna eru fluttir inn til landsins í tengslum við þá uppbyggingu.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hag­stofa Íslands birti í sumar lang­tíma­spá um mann­fjölda­þróun hér­lendis til árs­ins 2065. Þar sást vel hvað mun ger­ast haldi þessi þróun áfram. Sam­kvæmt henni mun íbúum á Íslandi fjölga um þriðj­ung næstu hálfu öld­ina og verða 442 þús­und árið 2065. Í spánni er hins vegar gert ráð fyrir því að fjölg­unin verði aðal­lega vegna erlendra inn­flytj­enda. Sam­kvæmt henni munu fleiri Íslend­ingar áfram flytja frá land­inu en þeir sem snúa aftur til baka til þess. Því er spáð að að með­­­al­tali verði um 850 íslenskir rík­­­is­­­borg­­­arar brott­­­fluttir en aðfluttir á hverju ári. Sam­kvæmt spánni verða inn­flytj­endur og afkom­endur þeirra fjórð­ungur lands­manna árið 2065.

Lífs­kjör stand­ast ekki sam­an­burð

En það eru ekki bara atvinnu­mál sem gera það að verkum að ungt og menntað fólk leitar tæki­fær­anna ann­ars staðar en á Íslandi. Almenn lífs­kjör skipta þar líka miklu máli. Ungt fólk á Íslandi, 25-34 ára, hefur nefni­lega dreg­ist aftur úr öðrum hópum í tekjum á und­an­förnum ára­tug.

Í júlí var birt ný vel­ferð­ar­vísi­tala The Social Progress Imper­ative (SPI). Hún horfir til ann­arra þátta en lands­fram­leiðslu til að mæla vel­ferð í þjóð­fé­lög­um. Þ.e. lífs­gæði sem mæl­ast ekki í tekju­öfl­un. Sam­kvæmt henni féll Ísland um sex sæti á milli ára og sat nú í tíunda sæti list­ans. Ísland er nú neðst allra Norð­ur­land­anna á list­an­um. Vísi­talan sem um ræðir raðar ríkjum á lista eftir frammi­­stöðu þeirra í 53 mis­­mun­andi þátt­­um. Á meðal þeirra þátta sem litið er til eru gæði mennt­un­­ar, heil­brigð­is­­þjón­usta, umburð­­ar­­lyndi og tæki­­færi í sam­­fé­lög­­um.

Sama dag og vel­ferð­ar­vísi­talan var birt kom frétt inn á heima­síðu fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins um álagn­ingu opin­berra gjalda á ein­stak­linga árið 2016. Þar kom fram að almennar vaxta­bætur sem skuld­­settir íbúða­eig­endur fá greiddar vegna vaxta­gjalda íbúða­lána sinna, hafi lækkað um 25,7 pró­­sent á milli ára og þeim fjöl­­skyldum sem fá þær bætur greiddur fækkar um 21,3 pró­­sent. Ástæða þessa var sögð betri eign­ar­staða heim­ila lands­ins. Líkt og vikið verður að síðar þá skilar sú bætta eign­ar­staða sér nær ekk­ert til fólks undir fer­tugu.

Þá lækk­uðu heild­­ar­greiðslur barna­­bóta úr tíu millj­­örðum króna í 9,3 millj­­arða króna. Ástæða þessa eru sagðar að laun hafi hækkað meira en tekju­við­mið­un­­ar­fjár­­hæðir og því skerð­­ast greiðslur barna­­bóta til fleiri ein­stak­l­ing­­ar.

Eftir hrun voru hámarks­greiðslur úr Fæð­ing­ar­or­lofs­sjóði skertar veru­lega. Ef þær hefðu ekki verið skert­ar, og hefðu fylgt verð­lags­þró­un, þá væru þær tæp­lega 820 þús­und krónur í dag. Þess í stað nema greiðsl­urnar nú 500 þús­und krónum á mán­uði að hámarki, eftir að hafa verið hækk­aðar korteri fyrir síð­ustu kosn­ing­ar.

Þessi þróun hefur haft veru­leg áhrif á töku fæð­ing­ar­or­lofs, sér­stak­lega hjá feðr­um. Þegar þakið var hæst árið 2008 voru umsóknir feðra um fæð­ing­­ar­or­lof 90 pró­sent af umsóknum mæðra. Árið 2014 var þetta hlut­­fall komið niður í 80 pró­sent. Færri feður taka fæð­ing­­ar­or­lof og þeir sem taka fæð­ing­­ar­or­lof gera það í mun færri daga en þegar mest var. Árið 2008 var með­­al­daga­­fjöld­inn í fæð­ing­­ar­or­lofi feðra 103 dag­­ar, en sam­­kvæmt bráða­birgða­­tölum fyrir 2015 var með­­al­daga­­fjöld­inn kom­inn niður í 74 daga.

Við verðum að tala saman um hús­næð­is­mark­að­inn

Þá er ótal­inn fíll­inn í her­berg­inu, neyð­ar­á­stand á hús­næð­is­mark­aði. Fólk sem kemur ekki þaki yfir höf­uðið er lík­legra til að leita betra lífs ann­ars­staðar. Staðan á íslenskum hús­næð­is­mark­aði er þannig að hús­næð­is­verð á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hefur hækkað um 65 pró­sent frá árinu 2010. Leigu­verð hefur hækkað enn meira. Eft­ir­spurn er marg­falt meiri en fram­boð og verðið mun án nokk­urs vafa halda áfram að hækka. Það þýðir að fólk þarf alltaf að eiga meira og meira eigið fé til að kom­ast inn á eign­ar­mark­að­inn eða eiga meiri pen­inga til að mæta hús­næð­is­kostn­aði ef það ætlar að leigja.

Þessi þróun er ekki að fara að hægja á sér. Spár gera ráð fyrir því að í lok árs 2018 hafi íbúða­verð á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, þar sem 65 pró­sent lands­manna búa, tvö­fald­ast frá árinu 2011. Það þýðir t.d. að íbúð sem kost­aði 25 millj­ónir króna þá mun kosta 50 millj­ónir króna eftir tvö og hálft ár.Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar