Birgir Þór Harðarson

Íslendingar flytja burt þrátt fyrir góðærið

Mun fleiri Íslendingar hafa flutt burt frá landinu á undanförnum þremur árum en aftur til þess. Ástæðurnar eru nokkrar. Hér eru ekki að verða til „réttu“ störfin, lífsgæði sem mælast ekki í tekjuöflun standast ekki samanburð og það ríkir neyðarástand á húsnæðismarkaði.

Mun fleiri Íslendingar hafa flutt burt frá landinu á undanförnum þremur árum en aftur til þess. Ástæðurnar eru nokkrar. Hér eru ekki að verða til „réttu“ störfin, lífskjör ungs fólks eru að versna og það ríkir neyðarástand á húsnæðismarkaði.

Þumalputtareglan er sú að þegar vel gengur í efnahagslífi þjóðar þá flytja íbúar hennar síður annað til að leita nýrra tækifæra. Uppsveiflu – stundum kallað góðæri – á enda að fylgja mýgrautur tækifæra.

Það fer ekkert á milli mála að efnahagsuppsveifla hefur átt sér stað á Íslandi á undanförnum árum. Hagvöxtur á Íslandi hefur verið miklu hærri en í flestum viðmiðundarlöndum mörg ár í röð. Fyrst makrílveiðar og svo ævintýralegur vöxtur í komu ferðamanna til landsins hafa gert það að verkum að tekjur þjóðarbúsins hafa stóraukist og þúsundir starfa verða til hérlendis á ári hverju sem þarf að manna.

Frá árinu 1961 hefur fjöldi Íslendinga sem fluttu burt aðeins fimm sinnum verið marktækt hærri en þeirra sem fluttu til landsins. Það var árin 1970, 1995 og 2009 til 2011, sem öll voru tímabil sem komu í kjölfar kreppu. Eina undantekningin eru árin 2014, 2015. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var fjöldi brottfluttra Íslendinga marktækt hærri en fjöldi þeirra sem fluttu aftur til landsins á því tímabili. Og sú þróun heldur áfram samkvæmt tölum sem birtar hafa verið fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2016.

Fólk er að flytja frá Íslandi þrátt fyrir efnahagslegan uppgang.

Út með menntað, inn með ómenntað

Fyrir hrun urðu til mörg ný störf fyrir háskólamenntað fólk. Fjármálafyrirtækin, sem síðar felldu íslenska hagkerfið þannig að heyrðist út um allan heim, soguðu til sín slíkt vinnuafl. Það þótti allt í einu ekkert tiltökumál að nýútskrifaður verkfræðingur fengi borgað milljónir á mánuði fyrir að reikna út afleiður eða að viðskiptafræðingur með BS-gráðu en enga reynslu væri að sýsla með milljarða króna dags daglega. Í þessu ástandi fólust öfgar, en þær öfgar voru þó þess eðlis að menntun borgaði sig og hún var lykill að betri launuðu starfi.

Eftir hrunið, á árunum 2008 til 2010, töpuðust tólf þúsund störf. Atvinnuleysi fór yfir tveggja stafa tölu og náði hámarki á árinu 2010. Þúsundir Íslendinga flúðu land. Meðal annars fóru nálægt átta þúsund til Noregs á sjö ára tímabili.

En frá 2010 hefur orðið viðsnúningur og störfum fjölgað jafn og þétt. Í greiningu frá Arion banka sem birt var síðastliðið sumar kom fram að 16.300 þúsund ný störf hafi orðið til í stað þeirra sem hurfu. Bróð­ur­partur allra nýrra starfa sem orðið hafa til á Íslandi eftir banka­hrun er til­kom­inn vegna ferða­þjón­ustu og tengdra greina, en ferðamönnum sem heimsækja Íslands hefur fjölgað úr tæplega 500 þúsund árið 2010 í yfir tvær milljónir í ár. Þau störf eiga það sameiginlegt að vera að miklu leyti láglaunastörf sem krefjast ekki menntunar eða sérhæfni. Og henta því ekki vinnumarkaði þar sem á fjórða þúsund manns útskrifast úr háskólanámi árlega.

Við rekum auðlindadrifið hagkerfi sem hvílir á þremur meginstoðum: nýtingu á náttúru Íslands, fiskveiðum og orkubúskap.

Íslendingar flytja, útlendingar koma

Það hefur enda sýnt sig að þrátt fyrir nánast ekkert atvinnuleysi var fjöldi þeirra sem var með háskólamenntun, en án atvinnu í lok síðasta árs, 275 prósent hærri en tíu árum áður. Þessi þróun endurspeglast í tölum Vinnumálastofnunar um menntun atvinnulausra. Á fyrstu ellefu mán­uðum árs­ins 2005 var fjöldi atvinnu­lausra með háskóla­menntun 10,6 pró­sent af heild­ar­fjölda atvinnu­lausra. Á sama tíma 2015 var hlut­fallið 25,2 pró­sent.

Íslenskar stofnanir skrá ekki hjá sér menntun þeirra sem flytja búferlum frá Íslandi, en flestir sem þekkja til telja einboðið að það sé verðmætasta vinnuafl þjóðarinnar, það sem er líklegast til að búa til mesta framlegð, sem sé að flytjast á brott. Störfin sem eru að verða til eru ekki störfin sem það fólk vill.

Þess í stað flytjum við inn mikið af ódýru erlendu vinnuafli. Á árinu 2015 einu saman voru 74,4 pró­sent allra nýrra skatt­greið­enda erlendir rík­is­borg­ar­ar. Það þýðir að þrír af hverjum fjórum sem bætt­ist við skatt­grunn­skrá lands­ins í fyrra voru erlendir rík­is­borg­arar en einn af hverjum fjórum var íslenskur rík­is­borg­ari. Erlendir rík­is­borg­arar á skatt­grunn­skrá eru nú 10,2 pró­sent fram­telj­enda á grunn­skrá.

Mikil fjárfesting hefur átt sér stað í fasteignauppbyggingu í tengslum við ferðaþjónustu. Þúsundir erlendra verkamanna eru fluttir inn til landsins í tengslum við þá uppbyggingu.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hagstofa Íslands birti í sumar langtímaspá um mannfjöldaþróun hérlendis til ársins 2065. Þar sást vel hvað mun gerast haldi þessi þróun áfram. Samkvæmt henni mun íbúum á Íslandi fjölga um þriðjung næstu hálfu öldina og verða 442 þúsund árið 2065. Í spánni er hins vegar gert ráð fyrir því að fjölgunin verði aðallega vegna erlendra innflytjenda. Samkvæmt henni munu fleiri Íslendingar áfram flytja frá landinu en þeir sem snúa aftur til baka til þess. Því er spáð að að með­­al­tali verði um 850 íslenskir rík­­is­­borg­­arar brott­­fluttir en aðfluttir á hverju ári. Samkvæmt spánni verða innflytjendur og afkomendur þeirra fjórðungur landsmanna árið 2065.

Lífskjör standast ekki samanburð

En það eru ekki bara atvinnumál sem gera það að verkum að ungt og menntað fólk leitar tækifæranna annars staðar en á Íslandi. Almenn lífskjör skipta þar líka miklu máli. Ungt fólk á Íslandi, 25-34 ára, hefur nefnilega dregist aftur úr öðrum hópum í tekjum á undanförnum áratug.

Í júlí var birt ný velferðarvísitala The Social Progress Imperative (SPI). Hún horfir til annarra þátta en landsframleiðslu til að mæla velferð í þjóðfélögum. Þ.e. lífsgæði sem mælast ekki í tekjuöflun. Samkvæmt henni féll Ísland um sex sæti á milli ára og sat nú í tíunda sæti listans. Ísland er nú neðst allra Norðurlandanna á listanum. Vísi­talan sem um ræðir raðar ríkjum á lista eftir frammi­stöðu þeirra í 53 mis­mun­andi þátt­um. Á meðal þeirra þátta sem litið er til eru gæði mennt­un­ar, heil­brigð­is­þjón­usta, umburð­ar­lyndi og tæki­færi í sam­fé­lög­um.

Sama dag og velferðarvísitalan var birt kom frétt inn á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um álagningu opinberra gjalda á einstaklinga árið 2016. Þar kom fram að almennar vaxtabætur sem skuld­settir íbúðaeigendur fá greiddar vegna vaxta­gjalda íbúða­lána sinna, hafi lækkað um 25,7 pró­sent á milli ára og þeim fjöl­skyldum sem fá þær bætur greiddur fækkar um 21,3 pró­sent. Ástæða þessa var sögð betri eignarstaða heim­ila lands­ins. Líkt og vikið verður að síðar þá skilar sú bætta eignarstaða sér nær ekkert til fólks undir fertugu.

Þá lækkuðu heild­ar­greiðslur barna­bóta úr tíu millj­örðum króna í 9,3 millj­arða króna. Ástæða þessa eru sagðar að laun hafi hækkað meira en tekju­við­mið­un­ar­fjár­hæðir og því skerð­ast greiðslur barna­bóta til fleiri ein­stak­ling­ar.

Eftir hrun voru hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skertar verulega. Ef þær hefðu ekki verið skertar, og hefðu fylgt verðlagsþróun, þá væru þær tæplega 820 þúsund krónur í dag. Þess í stað nema greiðslurnar nú 500 þúsund krónum á mánuði að hámarki, eftir að hafa verið hækkaðar korteri fyrir síðustu kosningar.

Þessi þróun hefur haft veruleg áhrif á töku fæðingarorlofs, sérstaklega hjá feðrum. Þegar þakið var hæst árið 2008 voru umsóknir feðra um fæð­ing­ar­or­lof 90 prósent af umsóknum mæðra. Árið 2014 var þetta hlut­fall komið niður í 80 prósent. Færri feður taka fæð­ing­ar­or­lof og þeir sem taka fæð­ing­ar­or­lof gera það í mun færri daga en þegar mest var. Árið 2008 var með­al­daga­fjöld­inn í fæð­ing­ar­or­lofi feðra 103 dag­ar, en sam­kvæmt bráða­birgða­tölum fyrir 2015 var með­al­daga­fjöld­inn kom­inn niður í 74 daga.

Við verðum að tala saman um húsnæðismarkaðinn

Þá er ótalinn fíllinn í herberginu, neyðarástand á húsnæðismarkaði. Fólk sem kemur ekki þaki yfir höfuðið er líklegra til að leita betra lífs annarsstaðar. Staðan á íslenskum húsnæðismarkaði er þannig að húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 65 prósent frá árinu 2010. Leiguverð hefur hækkað enn meira. Eftirspurn er margfalt meiri en framboð og verðið mun án nokkurs vafa halda áfram að hækka. Það þýðir að fólk þarf alltaf að eiga meira og meira eigið fé til að komast inn á eignarmarkaðinn eða eiga meiri peninga til að mæta húsnæðiskostnaði ef það ætlar að leigja.

Þessi þróun er ekki að fara að hægja á sér. Spár gera ráð fyrir því að í lok árs 2018 hafi íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 65 prósent landsmanna búa, tvöfaldast frá árinu 2011. Það þýðir t.d. að íbúð sem kostaði 25 milljónir króna þá mun kosta 50 milljónir króna eftir tvö og hálft ár.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar