Nýársávarp forseta Íslands á fyrsta degi ársins 2016 var beðið eftir meiri eftirvæntingu en þau sem á undan höfðu komið. Búist var við því að Ólafur Ragnar Grímsson, sem setið hafði á forsetastóli síðan 1996, myndi hætta. Líkt og hans var von þá hélt hann óvissunni algjörri í aðdragandanum. Í lok nóvember 2015 birtist viðtal við forsetann í DV þar sem hann sagði þjóðina standa frammi fyrir risastórum áskorunum og að viðbragð við þeim myndi skilgreina hana um ókomna tíð. Í slíkum aðstæðum þarf hún einstakling á Bessastöðum sem „haggast ekki í róti umræðunnar, bloggsins og hitans sem fylgir átökum dagsins“.
Ólafur Ragnar ætlaði upphaflega að stíga til hliðar 2012 en ákvað þá, eftir að Þóra Arnórsdóttir hafði tilkynnt framboð sitt, að þjóðin þyrfti á sér að halda í fjögur ár til viðbótar vegna óvissu sem fyrir hendi væri. Sú óvissa stafaði meðal annars af hápólitískum málum á borð við aðild Íslands að Evrópusambandinu, deilum um breytingar á stjórnarskrá landsins og hvernig haga ætti uppgjöri á búum föllnu bankanna.
Ólafur Ragnar brást ekki væntingum. Þegar nokkuð var liðið á ræðuna sagði hann að það væri góður tími fyrir þjóðina að ganga með nýjum hætti til ákvörðunar um forseta. Hann kom því þó skýrt á framfæri að sá sem fyrir var á fleti yrði aldrei langt undan. „Þótt annar muni halda um forsetastýrið verð ég áfram reiðubúinn að sinna verkum á þjóðarskútu okkar Íslendinga; er á engan hátt að hverfa frá borði; verð ætíð fús að leggjast með öðrum á árar,“ sagði forsetinn meðal annars.
Sterkur en sundrandi forseti
Ólafur Ragnar hafði verið sterkur forseti og sýnt af sér ótrúlega pólitíska kænsku oftar en einu sinni til að bjarga eigin frama þegar öll sund virtust lokuð. Hann hafði umfaðmað góðærisstemmningu fyrirhrunsáranna, dásamað íslenska viðskiptaforkólfa og bankamenn og opnað fjölmargar dyr fyrir þá erlendis. Ólafur Ragnar veitti íslenskum fjármálafyrirtækjum trúverðugleika á erlendum vettvangi með dramatískum ræðum um yfirburði íslensku þjóðarinnar og töframátt stuttra boðleiða í viðskiptum. Yfirburðirnir reyndust reyndar á endanum engir heldur varð framferði bankaútrásarmanna til þess að Ísland þurfti að beita neyðarrétti til að koma í veg fyrir gjaldþrot. Stuttu boðleiðirnar reyndust margar hverjar fela í sér lögbrot.
Í stað þess að lúta höfði með skottið á milli lappanna eftir hlutverk sitt í offorsi góðærisáranna tókst Ólafi Ragnari að endurskapa sig sem þjóðhetju í Icesave-málinu. Það er líkast til eitt mesta pólitíska afrek sem unnið hefur verið á Íslandi.
En nú virtist tími hans liðinn. Að mati Ólafs Ragnars hafði hann siglt þjóðinni í var frá sjálfri sér. Og gat skilið hana eftir í höndum nýs forseta.
Jón Gnarr nefndur
Samstundis hófust miklar bollaleggingar um hverjir myndu bjóða sig fram, hverjir ættu raunverulegan möguleika á að hreppa starfið og eftir hverju íslensk þjóð væri að leita í forseta á árinu 2016, 20 árum eftir að hún kaus Ólaf Ragnar í starfið.
Það nafn sem var oftast orðað við framboð á árinu 2015 var nafn Jóns Gnarr, fyrrverandi borgarstjóra. Jón mældist með nær 50 prósent fylgi í könnunum sem gerðar voru á því ári. Hann tók síðan við starfi dagskrárstjóra hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365 miðlum og pólitísk inneign hans fór að falla í kjölfarið, meðal annars vegna síendurtekinna uppákoma í starfsmannamálum þess fyrirtækis sem fjallað var um á opinberum vettvangi. Jón tilkynnti svo í skammlífum þætti sínum Ísland Today þann 15. janúar 2016 að hann myndi ekki bjóða sig fram til forseta.
Á þessum tímapunkti höfðu þau Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Hildur Þórðardóttir, Ari Jósepsson og Sturla Jónsson þegar tilkynnt um forsetaframboð. Engin þeirra þótti eiga neina raunhæfa möguleika á því að sigra.
Það átti hins vegar Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og þá vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar. Í könnun sem birt var í byrjun mars sögðust 37,5 prósent aðspurðra að þeir teldu hana koma til greina sem næsta forseta. Hún sagðist í kjölfarið vera að velta framboði fyrir sér í ljósi áskorana. Þann 9. mars var þeim vangaveltum lokið og niðurstaðan lá fyrir: Katrín ætlaði ekki í framboð.
Í sama mánuði tilkynntu hins vegar þau Bæring Ólafsson, Halla Tómasdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Vigfús Bjarni Albertsson, Hrannar Pétursson og Guðmundur Franklín Jónsson um framboð sín.
Fljótlega varð ljóst að rithöfundurinn Andri Snær Magnason var að hugleiða framboð af mikilli alvöru. Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari var líka að hugsa sinn gang í mars og hávær orðrómur var um að tveir gamlir pólitískir vígamenn, Davíð Oddsson og Össur Skarphéðinsson, væru að láta kanna áhuga þjóðar á framboði sínu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, íhugaði einnig framboð sem og Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar. Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, var líka að íhuga framboð og það var Linda Pétursdóttir, athafnakona og fyrrverandi fegurðardrottning, einnig að gera.
Þá fékk Bergþór Pálsson óperusöngvari fjölmargar áskoranir, Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, var að hugsa framboð mjög alvarlega og presturinn Davíð Þór Jónsson kannaði rækilega hvert bakland hans yrði fyrir forsetaframboði. Þorgrímur Þráinsson gaf til kynna framboð en hætti svo við. Stefán Jón Hafstein var einnig sterklega orðaður við áhuga á embættinu sem og Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra.
Svo kom apríl með sín Panama-skjöl og allt breyttist.
Sagnfræðingur verður óvænt forsetaframbjóðandi í beinni útsendingu
Daginn eftir fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar, sem fram fóru 4. apríl 2016, blés RÚV til aukafréttatíma til að fara yfir þá ótrúlegu atburðarás sem stóð yfir. Fyrr um morguninn hafði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, farið til fundar við Ólaf Ragnar Grímsson og óskað eftir þingrofsheimild. Fyrr hafði hann sett stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann sagði að ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins treysti sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum hennar myndi hann rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.
Til að skýra þessa atburðarás fékk RÚV sagnfræðinginn Guðna Th. Jóhannesson, sem hafði meðal annars sérhæft sig í skrifum um forsetaembættið og sagnfræðilegri hlið stjórnmála, í sjónvarpssett sem sérfræðing. Upphaflega átti útsendingin einungis að standa yfir í hefðbundinn tíma. Þess í stað ílengdist Guðni Th. í settinu klukkutímum saman, enda hélt dramatíkin áfram allan þennan dag. Meðal annars hélt Ólafur Ragnar fordæmalausan blaðamannafund þar sem hann útskýrði fund sinn með Sigmundi Davíð. Allt þetta greindi Guðni Th. Jóhannesson og leiddi þjóðina í gegnum það hringleikahús fáránleikans sem stjórnmálamenn hennar stóðu fyrir þennan dag. Og sló í gegn á meðan.
Áskorunum um að bjóða sig fram til forseta fór að rigna yfir Guðna Th. Og hann fór að íhuga að gera það.
Ólafur Ragnar hættir við að hætta
Þann 18. apríl snerist allt á haus á ný. Ólafur Ragnar Grímsson boðaði til blaðamannafundar þar sem hann tilkynnir að hann sé hættur við að hætta sem forseti. Hann muni vera í framboði 25. júní. Þar sagði hann m.a.: „Í þessu umróti óvissu og mótmæla og í kjölfar nýliðinna atburða hefur fjöldi fólks víða að höfðað til skyldu minnar, reynslu og ábyrgðar og beðið mig að endurskoða ákvörðunina sem ég tilkynnti í nýársávarpinu. Um að gefa kost á mér á ný til embættis forseta Íslands[...]að eru ekki allir á þessari skoðun. Að tími sé kominn til að annar skipi þetta embætti. En ég hef engu að síður þurft að horfast í augu við fjöldann sem lagt hefur hart að mér og höfðað til ábyrgðarinnar sem forsetinn ber og traustið sem það sýnir mér."
Framboðið hafði strax afleiðingar. Guðmundur Franklín og Vigfús Bjarni drógu sín framboð samdægurs til baka og ýmsir sem höfðu legið undir feldi gáfu framboð frá sér. Á næstu dögum hættu Bæring og Hrannar einnig við og Eiríkur Björn ákvað að gefa ekki kost á sér en gagnrýndi framboð Ólafs Ragnars.
Andri Snær, sem tilkynnti formlega um framboð sitt 11. apríl, ætlaði hins vegar að halda ótrauður áfram.
22. apríl var Ólafur Ragnar í viðtali við CNN. Þar sem hann var spurður út í Panamaskjölin og hvort eitthvað ætti eftir að koma í ljós um aflandsfélög tengdum honum eða fjölskyldu hans. Svarið var:„No, no, no, no, no. That’s not going to be the case.”
Fimm dögum síðar birtist könnun sem sýndi að Ólafur Ragnar væri með langmest fylgi. 53 prósent aðspurðra sögðust ætla að kjósa hann en tæplega 30 prósent Andra Snæ.
Enn ein beygjan
Þrýstingur á Guðna Th. um að bjóða sig fram hélt þó áfram. Ólafur Ragnar hafði alla tíð verið mjög pólariserandi forseti og það endurspeglaðist enn og aftur í viðbrögðum við framboði hans. Helmingur þjóðarinnar dáði hinn. Hinn helmingurinn þoldi hann ekki. Og mörgum fannst Guðni Th. vera frambjóðandinn sem gæti velt sitjandi forseta. Sú tilfinning fékkst staðfest í könnun sem birt var 2. maí. Þar var enginn marktækur munur á fylgi Guðna Th. og Ólafs Ragnars. Sá fyrrnefndi mældist með 51 prósent fylgi, en sitjandi forseti með tæp 49 prósent.
Ólafur Ragnar var hins vegar kominn í vandræði. 25. apríl hafði verið greint frá tengslum fjölskyldu Dorritar Moussaieff, eiginkonu Ólafs Ragnars, við aflandsfélög. Tengslum sem voru opinberuð í Panamaskjölunum svokölluðu. Í byrjun maí var svo greint frá beinum tengslum Dorritar sjálfrar við slík félög. Í fréttaflutningi kom enn fremur fram að Dorrit sé skráð utan lögheimilis í Bretlandi vegna skattahagræðis. Afdráttarlaus neitun forsetans um aflandsfélagatengsl fjölskyldu sinnar á CNN leit ekki vel út í þessu ljósi. Ólafur Ragnar sagðist sjálfur hafa skilið spurninguna á þann veg að verið væri að spyrja um nánustu fjölskyldu sína, ekki fjölskyldu eiginkonu sinnar. Dorrit sjálf sendi frá sér tilkynningu tveimur dögum síðar þar sem hún sagðist aldrei hafa rætt fjármál sín við eiginmann sinn.
Þann sama dag, 5. maí, var verst geymda leyndarmál íslenskrar þjóðfélagsumræðu opinberað. Guðni Th. Jóhannesson lýsti því yfir fyrir troðfullum Salnum í Kópavogi að hann yrði í framboði til forseta Íslands. Við öll, almenningur í landinu, biðjum ekki um mikið. Við biðjum ekki um fullkomið samfélag, fullkomna valdhafa. Við biðjum einfaldlega um að ráðamenn í samfélaginu séu heiðarlegir, standi við orð sín og hafi ekkert að fela,“ sagði Guðni Th. Niðurlagið var túlkað sem fast skot á Ólaf Ragnar.
Davíð mætir
Dramatíkinni lauk þó ekki með þessu. Þremur dögum síðar var útvarpsþátturinn Sprengisandur í fyrsta sinn undir stjórn nýs stjórnanda, Páls Magnússonar. Á meðal gesta var Davíð Oddsson, fyrrverandi borgarstjóri, forsætisráðherra, seðlabankastjóri og nú ritstjóri Morgunblaðsins. Líklega er ekki á neinn hallað þegar fullyrt er að Davíð sé einn umdeildasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar. Aðrir sem falla í þann flokk eru Jónas Jónsson frá Hriflu, Ólafur Ragnar Grímsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Í þættinum lýsti Davíð því yfir að hann ætlaði sér að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Einungis tíu dagar voru fram að því að framboðsfrestur rynni út. „Ég sjálfur er þannig að stór hluti þjóðarinnar þekkir mig mjög vel," sagði Davíð. Þjóðin þekkti bæði hans kosti og galla. Ef hann væri fasteign þá væri hægt að segja að í honum væri ekki að finna neina leynda galla. Hann teldi að það væri ekki verið að leita að manni í forsetaembættið sem gæti sinnt móttökum og veislum, heldur manni til að bregðast við. Forsetinn væri þarna til að bregðast við, alveg eins og læknar á slysadeild og slökkviliðsmenn. „Þarna þurfa að vera menn sem þjóðin veit að geta brugðist við." Menn sem þora að taka ákvörðun sem láti engan „rugla" í sér. Þessa eiginlega taldi Davíð sig hafa og að þeir myndu nýtast vel.
Daginn eftir tilkynnti Ólafur Ragnar að hann væri hættur við að hætta við að hætta við framboð. Í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum sagði Ólafur Ragnar að það hafi orðið ljóst með atburðum síðustu daga að þjóðin ætti nú „kost á að velja frambjóðendur sem hafa umfangsmikla þekkingu á eðli, sögu og verkefnum forsetaembættisins; niðurstaða kosninganna gæti orðið áþekkur stuðningur við nýjan forseta og fyrri forsetar fengu við sitt fyrsta kjör.“ Þeir frambjóðendur sem Ólafur Ragnar gat sætt sig við sem eftirmenn hans voru Davíð Oddsson og Guðni Th. Jóhannesson.
Sama dag og yfirlýsing Ólafs Ragnars var send út birti MMR niðurstöður úr nýrri könnun. Þar mældist fylgi við Guðna Th. tæp 60 prósent en fylgi Ólafs Ragnars, sem var enn í framboði þegar könnunin var gerð, rúm 25 prósent.
Níu í framboði
Þegar framboðsfrestur var liðinn voru níu í framboði: Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson.
Ljóst var að fjórir frambjóðendur myndu taka mest til sín, þau Guðni Th., Davíð, Andri Snær og Halla. Og jafn ljóst var að þetta var slagur sem Guðni Th. þyrfti að tapa. Forskot hans samkvæmt könnunum á aðra frambjóðendur var gríðarlegt. Það mældist rétt undir 70 prósent í þremur könnunum í röð sem birtar voru um miðjan maí.
Kosningabaráttan fór fram á forsendum Davíðs. Fyrir lá að hann sá Guðna Th. sem sína helstu hindrun og því beindi hann kröftum sínum að honum. Gagnrýni Davíðs á andstæðing sinn var margskonar. Hann ásakaði hann um að hafa haft ranga afstöðu í Icesave-málinu, gagnrýndi skrif og ræður Guðna Th. um þorskastríðin sem stóðu yfir á árunum 1958 til 1976 og afstöðu í Evrópusambandsmálum. Guðni Th. varðist þessum árásum og í lok maí náði spennan á milli mannanna tveggja hámarki þegar þeir mættust í sjónvarpsþættinum Eyjunni.
Davíð skaut föstum skotum að Guðna Th. og sakaði hann meðal annars um að vilja kollvarpa stjórnarskránni og reyna að hlaupa frá ákveðnum málum. „Þú segir hérna að þú viljir gera gagngera, róttæka endurnýjum á stjórnarskránni. Þú segir það vera vegna hrunsins. Hvað hafði hrunið með stjórnarskránna að gera?“ sagði Davíð.
Guðni Th. svaraði um hæl: „Hefur þú enga sómakennd?“
Guðni Th. í litlausri vörn
Kosningabarátta Guðna Th. var að öðru leyti frekar litlaus og yfirbragð almúgamannsins, sem hafði gert hann að álitlegum frambjóðanda í augum margra, var að mörgu leyti fjarverandi. Almannatenglar og kosningastjórar voru búnir að litgreina frambjóðandann og allar aðgerðir hans virtust taka mið af því að gera ekki mistök og halda í fylgi, í stað þess að sannfæra nýtt fólk um að þarna væri forsetinn þeirra kominn.
Davíð virtist líta á baráttuna sem tækifæri til að rétta sinn hlut í eftirhrunsumræðunni samhliða því sem hann barði á Guðna Th. Á meðan að Davíð sótti að Guðna Th., og sá síðastnefndi varðist þeim árásum, bættu Andri Snær og Halla hægt og rólega við sig fylgi í könnunum. Ris Höllu var sérstaklega athyglisvert. Hún hafði mælst með 3,8 prósent fylgi í kosningaspá Kjarnans í lok maí, en mældist með 18,2 prósent fylgi daginn fyrir forsetakosningarnar, sem fóru fram 25. júní 2016. Að sama skapi lækkaði fylgi Guðna Th. og Davíðs skarpt á síðustu metrunum.
Það breytti því þó ekki að Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn sjötti forseti Íslands með nokkrum yfirburðum. Hann hlaut alls 39,1 prósent atkvæða, sem var eilítið minna en Ólafur Ragnar fékk þegar hann var fyrst kjörinn forseti 1996, en hlutfallslega meira en þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin 1980.
Stærstu tíðindi kosninganna, utan þess hver bar sigur úr býtum, var fylgi Höllu Tómasdóttur, sem reyndist mun meira en kannanir höfðu gefið til kynna. Alls fékk Halla 27,9 prósent atkvæða en hún mældist með um tvö prósent fylgi í skoðanakönnunum í upphafi kosningabaráttunnar. Andri Snær Magnason lenti í þriðja sæti og fékk 14,3 prósent atkvæða.
Davíð Oddsson beið afhroð, lenti í fjórða sæti og fékk 13,7 prósent atkvæða. Þetta var í fyrsta sinn sem Davíð tapaði kosningum á sínum stjórnmálaferli.
Af hinum fimm sem buðu sig fram stóð vörubílstjórinn Sturla Jónsson sig best, en hann fékk 3,5 prósent atkvæða. Hildur Þórðardóttir setti vagasamt met með því að fá einungis 294 atkvæði, en enginn hefur nokkru sinni fengið færri atkvæði í forsetakosningum.
Í september opinberaði Ríkisendurskoðun hvað hver frambjóðandi hafði eytt í kosningabaráttu sína. Þar kom í ljós að Davíð Oddsson rak dýrustu kosningabaráttuna og eyddi samtals tæplega 28 milljónum króna í hana. Þar af eyddi Davíð rúmlega ellefu milljónum króna úr eigin vasa auk þess sem eiginkona hans styrkti framboðið um 400 þúsund krónur. Engin hinna frambjóðendanna eyddi meira en tveimur milljónum króna af eigin fé í baráttuna.
Davíð greiddi 1.103 krónur fyrir hvert atkvæði sem hann fékk. Andri Snær greiddi næst mest þeirra sem skipuðu efstu sætin í kjörinu. Hann greiddi 576 krónur fyrir hvert greitt atkvæði. Guðni Th. greiddi 352 krónur fyrir hvert atkvæði sem honum var greitt og Halla borgaði minnst þeirra fjögurra efstu fyrir hvert greitt atkvæði, eða 175 krónur.
Guðni Th. eyddi alls um 25 milljónum króna í sitt framboð. Kostnaður við framboð Höllu nam um níu milljónum króna og Andri Snær eyddi um 15 milljónum króna í sína baráttu. Aðrir frambjóðendur ráku mun ódýrari kosningabaráttu sem kostaði einungis nokkur hundruð þúsund hver.
Guðni Th. tekur við
Það fyrsta sem Guðni Th. gerði opinberlega eftir að hafa verið kjörinn var að fara til Nice og fylgjast með leik Íslands og Englands á EM í knattspyrnu, en um var að ræða leik í 16-liða úrslitum. Þar var nýr forseti og verðandi forsetafrú, Eliza Reid, meðal annars mynduð með Ólafi Ragnari og Dorrit.
Guðni Th. og Eliza voru í íslenskum landsliðsbúningum eins og þorri annarra Íslendinga sem fylgdust með leiknum, en forsetahjónin voru uppáklædd. Mikil umræða spratt upp um að í myndinni kristallaðist munurinn á jarðbundna fjölskyldufólkinu sem væri á leið inn á Bessastaði, og yfirstéttinni sem var á leiðinni út. Tónn hafði verið sleginn.
Guðni Th. Jóhannesson tók svo formlega við embætti forseta Íslands 1. ágúst 2016 við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu. Hann hóf ræðu sína á því að þakka fyrir traustið sem honum hafi verið sýnt með kjörinu í embættið og sagðist taka við því með auðmýkt í hjarta. „Ég mun og vil þiggja ráð og leiðsögn frá ykkur öllum, fólkinu í landinu.“
Hann sagðist mundu vekja máls á því sem honum búi í brjósti. Hann ræddi um ýmis mál, það að á Íslandi ætti enginn að líða sáran skort, og um mikilvægi heilbrigðiskerfisins og þess að allir hefðu að því jafnan aðgang. Hann talaði um nauðsyn þess að skila landinu áfram til næstu kynslóða. Jafnréttismál og menntamál komu einnig við sögu og forsetinn vitnaði einnig í Spilverk þjóðanna og sagði: „Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir. Ein lítil býfluga afsannar það. Guð hjálpar þeim sem hjálpast að.“
Hann lauk ræðu sinni á því að segja: „Ég endurtek að lokum þá ósk mína að við stöndum saman um fjölbreytni og frelsi, samhjálp og jafnrétti, virðingu fyrir lögum og rétti. Stöndum saman um þessi grunngildi góðs samfélags, vongóð og full sjálfstrausts. Megi sú verða gæfa okkar um alla framtíð.“
Við embættistökuna varð Guðni Th. fyrsti forseti landsins sem er ekki skráður í þjóðkirkjuna. Hann stendur utan trúfélaga, en hann var alinn upp í kaþólskri trú. Hann skráði sig úr kirkjunni árið 2013 í kjölfar viðbragða kirkjunnar við kynferðisbrotum innan veggja hennar víða um heim. Biskup Íslands hefur sagt að henni þyki óeðlilegt að forseti Íslands sé ekki skráður í þjóðkirkjuna, en telur þó að það muni ekki verða vandamál.
Alþýðlegi forsetinn sem vildi ekki launahækkun
Þótt líf Guðna Th. hafi umturnast við það að verða forseti þá virðist maðurinn sjálfur ekki vera að láta það stíga sér til höfuðs. Nokkrum vikum eftir að hann tók við embætti náðist til að mynda mynd af honum í röð fyrir utan Dominos-stað þar sem þau nýttu sér Megaviku-tilboð á pizzu.Breyta þurfti Bessastöðum töluvert fyrir nýju forsetafjölskylduna, enda barnmörg og þarfir hennar allt aðrar en Ólafs Ragnars og Dorritar. Því flutti nýi forsetinn ekki inn í híbýli embættisins fyrr en í lok september. Eftir fyrstu nóttina þar birti forsetinn mynd af sér að hjóla með börnin sín í leikskóla og skóla. Hann var klæddur endurskínsvesti, með hjólahjálm og tengivagn festan aftan við hjólið fyrir börnin.
Í nóvember vakti forsetinn aftur mikla athygli fyrir að vera með buff frá Alzheimer samtökunum á höfðinu þegar hann var viðstaddur afhjúpun á upplýsingaskilti um gamlar minjar á svonefndum Skansi í landi Bessastaða. Buffið hafði hann fengið að gjöf tveimur dögum áður þegar hann heimsótti Fríðuhús, sérhæfða dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun. Málið vakti, af einhverjum ástæðum, umtalsverða athygli og sitt þótti hverjum um að forseti væri með buff á höfðinu.
Nokkrum dögum síðar fór Guðni Th. í heimsókn til Rauða krossins þar sem honum var fært nýtt buff að gjöf. Hann hikaði ekki við að setja það upp og láta taka mynd af sér með það.
Á fullveldisdaginn var þingmönnum þjóðarinnar boðið í veislu á Bessastöðum. Þar vakti mynd sem tekin var af forsetanum með tveimur ungum þingmönnum, Andrési Inga Jónssyni og Ástu Guðrúnu Helgadóttur, mikla athygli. Sérstaklega þar sem Ásta Guðrún heldur tveimur fingrum bak við höfuð forsetans. Þótti mörgum sem þetta hefði verið argasta óvirðing og ekki við hæfi hjá þingmanni að hæðast með slíkum hætti að forsetanum. Þangað til að það kom í ljós að allt var þetta gert með vitund og vilja Guðna Th.
Þegar kjararáð tók ákvörðun um að hækka laun forseta, ráðherra og alþingismanna um tugi prósenta tilkynnti Guðni Th. að hann ætlaði ekki að þiggja launahækkunina. Hann hafi ekki beðið um hana og þurfi hana ekki. „Ég vænti þess að þingið vindi þá ofan af þessari ákvörðun og taki það í sínar hendur og ég myndi sætta mig fullkomlega við þær lyktir[...]„Þangað til sé ég til þess að þessi hækkun renni bara alls ekki í minn vasa.“
Hann var þá spurður hvert hækkunin myndi renna. Hann spurði þá fjölmiðlamenn hvort hann þyrfti að greina frá því. „Á ég að vera einhver móðir Teresa sem gortir sig af því?“ Skömmu áður hafði verið greint frá því í fjölmiðlum að forsetinn hefði millifært fé inn á styrktarreikning ungra hjóna sem áttu son sem berst við hvítblæði.
Forsetinn með buffið
Guðni Th. hefur undanfarnar vikur staðið frammi fyrir sinni stærstu áskorun til þessa sem forseti. Þingkosningarnar 29. október skiluðu niðurstöðu sem er flóknari en flestar slíkar hafa verið í lýðveldissögunni. Engin augljós sterk ríkisstjórn er í myndinni og í umræðunni hafa ansi margir viðrað hugmyndir um utanþingsstjórn sem forsetinn myndi skipa.
Guðni Th. hefur ekki tekið það í mál og sagt að umræða um slíka sé algjörlega ótímabær. Þess í stað hefur hann sett það algjörlega í fang stjórnmálaforingja að finna út úr þeirri stöðu sem er uppi og hvatt til þolinmæði gagnvart því að niðurstaða fáist. Stjórnarmyndunarumboð hafa ýmist gengið á milli flokka eftir stærð þingflokka þeirra eða forsetinn hefur ákveðið að úthluta engum því. Þannig er staðan til að mynda í dag þar sem ný ríkisstjórn þriggja flokka; Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, virðist í myndun. Guðni Th. fylgist vel með gangi mála í þeim viðræðum og almenn þykir hann hafa staðið sig vel í flóknum aðstæðum.
Þann 18. desember voru birtar niðurstöður fyrstu könnunarinnar sem gerð var um störf Guðna Th. sem forseta. Samkvæmt þeim niðurstöðum voru 97 prósent þeirra sem tók afstöðu sáttir með störf forsetans.
Þær niðurstöður benda til þess að Guðna Th. sé að takast, að minnsta kosti um stundarsakir, að verða forseti þorra Íslendinga. Maður sem sættir frekar en sundrar.
Að því leytinu til fer forsetinn með buffið vel af stað.