Bjarni, Óttarr og Benedikt

Ríkisstjórn Bjarna á lokametrunum

Byrjað er að skipta ráðuneytum milli flokka sem sitja munu í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Sjálfstæðisflokkur fær fimm ráðuneyti en Viðreisn vill sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Ekki hefur verið samið um uppboð á kvóta.

Svo virðist vera að allt sé þegar þrennt er. Eftir að hafa tvívegis reynt, og mistekist, að mynda stjórn virðast Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð nú vera á lokametrunum við að setja slíka saman. Niðurstaða úr viðræðum flokkanna þriggja ætti að liggja fyrir á allra næstu dögum.

Búið er að komast að niðurstöðu um helstu ágreiningsmál og það sem helst verður sett á oddinn á komandi kjörtímabili. Og í dag hófust umræður um hvernig verkaskipting eigi að vera í stjórnarráðuneytinu og hvaða einstaklingar eigi að sitja í hvaða ráðuneyti.

Formenn flokkanna þriggja, og eftir atvikum helstu trúnaðarmenn þeirra, hafa fundað stíft í vikunni til að klára myndun ríkisstjórnarinnar. Fyrir liggur að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, verður forsætisráðherra, og að sá flokkur fái helming ráðuneyta. Hin fimm ráðuneytin munu skiptast á milli Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Ferlið

Fyrri stjórnarmyndunarviðræður flokkanna þriggja hafa strandað á tveimur málum: annars vegar afgreiðslu á Evrópumálum og hins vegar á breytingum á sjávarútvegskerfinu. Auk þess hefur Bjarni Benediktsson ekki haft sannfæringu fyrir því að ríkisstjórn með einungis eins manns meirihluta – flokkarnir þrír eru með 32 þingmenn og einungis 46,7 prósent atkvæða á bak við sig - gæti staðið af sér þær áskoranir sem fram undan eru. Viðmælendur Kjarnans eru sammála um að þær áhyggjur Bjarna séu fyrst og síðast vegna eigin þingmanna, ekki þingmanna samstarfsflokkanna tveggja.

Sú staða hefur breyst umtalsvert í ljósi þess að nánast allar aðrar raunhæfar ríkistjórnarmyndanir hafa verið reyndar án árangurs síðan að slitnaði upp úr hjá flokkunum þremur. Ljóst er að ómögulegt hefur reynst að mynda fimm flokka ríkisstjórn frá miðju til vinstri og viðræður Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokk hafa leitt í ljós ágreining um grundvallarmál varðandi tekjuöflun ríkisins sem virðist óleysanlegur.

Þótt Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn reyni nú að bjóða Sjálfstæðisflokknum upp á óljósan valkost við frjálslyndu miðjuflokkanna er ljóst að sá leikur kemur of seint. Og alls óljóst hversu mikil alvara fylgir honum, í ljósi þess að lykilfólk innan Vinstri grænna er algjörlega andvígt samstarfi með bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokki.

Þótt sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins efist enn að ríkisstjórnarsamstarf við Viðreisn og Bjarta framtíð sé góð hugmynd þá meta þeir það þó sem svo að Bjarni hafi óskorað umboð til að mynda slíka ríkisstjórn, sérstaklega þar sem aðrar viðræður hafa ekki gengið eftir nú rúmum tveimur mánuðum eftir kosningar.

Málefnin

Bjarni hefur þegar sagt að ytri rammi samstarfs ríkisstjórnarinnar sem er í mótun liggi fyrir. Nú sé verið að dýpka þau mál. Heimildir Kjarnans herma að fyrir liggi sátt um aðgerðir í landbúnaðarmálum sem feli í sér búbót fyrir neytendur. Þar er m.a. horft til lækkunar eða afnáms tolla á kjúkling, svín og valda osta. Þá á að sjá til þess að Mjólkursamsalan fari aftur undir samkeppnislög og ráðast á í endurskoðun á búvörusamningum, sem Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, nú formaður Framsóknarflokksins, undirrituðu fyrir tæpu ári síðan og gilda til tíu ára.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem hætti á þingi í aðdraganda síðustu kosninga, hefur verið nefnd sem mögulegur utanþingsráðherra Sjálfstæðisflokks. Guðlaugur Þór Þórðarson mun einnig sækjast eftir ráðherraembætti.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Evrópumál verða afgreidd með þeim hætti að þingsályktunartillaga verður lögð fram á kjörtímabilinu um hvort ráðast eigi í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna Íslands við sambandið. Ríkisstjórnin mun ekki bera ábyrgð á þeirri tillögu og Sjálfstæðisflokkurinn, sem er andvígur aðild, mun geta barist gegn þeirri niðurstöðu. Það mun Framsóknarflokkurinn einnig gera. Ljóst er að þingmenn Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Pírata munu kjósa með tillögunni. Það mun því ráðast af afstöðu Vinstri grænna hvort slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram eður ei.

Stóra málamiðlunin sem hefur verið gerð milli viðræðna er í sjávarútvegsmálum. Heimildir Kjarnans herma að Viðreisn hafi þurft að gefa eftir kröfu um uppboð á aflaheimildum til þess að ná saman við Sjálfstæðisflokkinn. Þess í stað verður samþykkt að búa til ferli sem eigi að miða að breytingum innan ákveðins tímaramma, en kerfisbreyting á sjávarútvegskerfinu sjálfu verður ekki hluti af stjórnarsáttmála.

Heimildir Kjarnans herma að það sé einnig vilji til að endurskoða peningastefnu landsins og ráðast í umfangsmiklar efnahagsaðgerðir sem eiga að draga úr þeim miklu sveiflum sem tíðkast í gengi íslensku krónunnar og íslensku efnahagslífi almennt.

Þá hefur verið mótuð skýr stefna um sókn í heilbrigðismálum.

Ráðuneyti

Viðmælendur Kjarnans segja að fyrir liggi að ráðuneytin í nýrri ríkisstjórn verði tíu talsins. Sjálfstæðisflokkurinn vilji breyta skipan þeirra þannig að innanríkisráðuneytið verði brotið upp og hluti þess sameinaður þess sem nú er iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Úr verði annars vegar ráðuneyti sem fari með dóms-, löggæslu og innflytjendamál og hins vegar nokkurs konar samgöngu- og ferðamálaráðuneyti.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem er með 21 þingmann, fær helming þeirra ráðuneyta auk embættis forseta Alþingis. Viðreisn á að fá þrjú ráðuneyti en Björt framtíð tvö.

Fyrir liggur að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra. Til viðbótar mun flokkurinn að öllum líkindum fara með utanríkisráðuneytið, annað hvort velferðarráðuneytið, innanríkisráðuneytið og annað hvort mennta- eða samgöngu-/ferðaþjónusturáðuneytið.

Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn verður í vandræðum með að skipa konur í ráðherraembætti, en Ólöf Nordal, varaformaður flokksins, var eina konan sem leiddi kjördæmi fyrir flokkinn í síðustu kosningum. Hún hefur átt við mikla heilsufarserfiðleika að stríða og kallaði inn varamann fyrir sig á fyrsta degi nýs þings. Hún mun þó örugglega taka sæti í næstu ríkisstjórn, sé hún í stakk búin til þess, og sitja áfram í endurskipulögðu innanríkisráðuneyti. Sjálfstæðisflokkurinn þarf þó að skipa að minnsta kosti eina konu til viðbótar í ráðherraembætti. Ekki þykir ólíklegt að leitað verði út fyrir þingflokkinn í þeim efnum og hafa nöfn Svanhildar Hólm Valsdóttur, aðstoðarkonu Bjarna Benediktssonar, og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, fyrrverandi þingflokksformanns Sjálfstæðisflokks, verið nefnd í því samhengi. Kristján Þór Júlíusson þykir nokkuð öruggur um ráðherrastól og þrír aðrir oddvitar flokksins, þeir Guðlaugur Þór Þórðarson, Páll Magnússon og Haraldur Benediktsson, munu allir gera tilkall til ráðherrastóla. Þá hefur Birgir Ármannsson, sem setið hefur á þingi frá 2003 og er annar varaforseti þingsins, verið nefndur sem mögulegur forseti Alþingis.

Viðreisn mun nær örugglega fá fjármálaráðuneytið og þangað mun Benedikt Jóhannesson, formaður flokksins, setjast. Þegar hefur verið ákveðið að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson verði hinir tveir ráðherrar flokksins, sem sækist eftir að fá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið til viðbótar við annað hvort velferðarráðuneytið, þ.e. heilbrigðis- eða félags- og húsnæðismálaráðuneytið.

Líklegast er talið að Óttarr Proppé verði mennta- og menningarmálaráðherra, þótt það sé ekki frágengið. Þá er talið öruggt að Björt Ólafsdóttir verði hinn ráðherra flokksins, og muni þá væntanlega setjast í umhverfisráðuneytið.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar