Bjarni, Óttarr og Benedikt

Ríkisstjórn Bjarna á lokametrunum

Byrjað er að skipta ráðuneytum milli flokka sem sitja munu í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Sjálfstæðisflokkur fær fimm ráðuneyti en Viðreisn vill sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Ekki hefur verið samið um uppboð á kvóta.

Svo virð­ist vera að allt sé þegar þrennt er. Eftir að hafa tví­vegis reynt, og mis­tekist, að mynda stjórn virð­ast Sjálf­stæð­is­flokk­ur, Við­reisn og Björt fram­tíð nú vera á loka­metr­unum við að setja slíka sam­an. Nið­ur­staða úr við­ræðum flokk­anna þriggja ætti að liggja fyrir á allra næstu dög­um.

Búið er að kom­ast að nið­ur­stöðu um helstu ágrein­ings­mál og það sem helst verður sett á odd­inn á kom­andi kjör­tíma­bili. Og í dag hófust umræður um hvernig verka­skipt­ing eigi að vera í stjórn­ar­ráðu­neyt­inu og hvaða ein­stak­lingar eigi að sitja í hvaða ráðu­neyti.

For­menn flokk­anna þriggja, og eftir atvikum helstu trún­að­ar­menn þeirra, hafa fundað stíft í vik­unni til að klára myndun rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Fyrir liggur að Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins, verður for­sæt­is­ráð­herra, og að sá flokkur fái helm­ing ráðu­neyta. Hin fimm ráðu­neytin munu skipt­ast á milli Við­reisnar og Bjartrar fram­tíð­ar.

Ferlið

Fyrri stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræður flokk­anna þriggja hafa strandað á tveimur mál­um: ann­ars vegar afgreiðslu á Evr­ópu­málum og hins vegar á breyt­ingum á sjáv­ar­út­vegs­kerf­inu. Auk þess hefur Bjarni Bene­dikts­son ekki haft sann­fær­ingu fyrir því að rík­is­stjórn með ein­ungis eins manns meiri­hluta – flokk­arnir þrír eru með 32 þing­menn og ein­ungis 46,7 pró­sent atkvæða á bak við sig - gæti staðið af sér þær áskor­anir sem fram undan eru. Við­mæl­endur Kjarn­ans eru sam­mála um að þær áhyggjur Bjarna séu fyrst og síð­ast vegna eigin þing­manna, ekki þing­manna sam­starfs­flokk­anna tveggja.

Sú staða hefur breyst umtals­vert í ljósi þess að nán­ast allar aðrar raun­hæfar rík­i­s­tjórn­ar­mynd­anir hafa verið reyndar án árang­urs síðan að slitn­aði upp úr hjá flokk­unum þrem­ur. Ljóst er að ómögu­legt hefur reynst að mynda fimm flokka rík­is­stjórn frá miðju til vinstri og við­ræður Vinstri grænna og Sjálf­stæð­is­flokk hafa leitt í ljós ágrein­ing um grund­vall­ar­mál varð­andi tekju­öflun rík­is­ins sem virð­ist óleys­an­leg­ur.

Þótt Vinstri græn og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn reyni nú að bjóða Sjálf­stæð­is­flokknum upp á óljósan val­kost við frjáls­lyndu miðju­flokk­anna er ljóst að sá leikur kemur of seint. Og alls óljóst hversu mikil alvara fylgir hon­um, í ljósi þess að lyk­il­fólk innan Vinstri grænna er algjör­lega and­vígt sam­starfi með bæði Fram­sókn og Sjálf­stæð­is­flokki.

Þótt sumir þing­menn Sjálf­stæð­is­flokks­ins efist enn að rík­is­stjórn­ar­sam­starf við Við­reisn og Bjarta fram­tíð sé góð hug­mynd þá meta þeir það þó sem svo að Bjarni hafi óskorað umboð til að mynda slíka rík­is­stjórn, sér­stak­lega þar sem aðrar við­ræður hafa ekki gengið eftir nú rúmum tveimur mán­uðum eftir kosn­ing­ar.

Mál­efnin

Bjarni hefur þegar sagt að ytri rammi sam­starfs rík­is­stjórn­ar­innar sem er í mótun liggi fyr­ir. Nú sé verið að dýpka þau mál. Heim­ildir Kjarn­ans herma að fyrir liggi sátt um aðgerðir í land­bún­að­ar­málum sem feli í sér búbót fyrir neyt­end­ur. Þar er m.a. horft til lækk­unar eða afnáms tolla á kjúkling, svín og valda osta. Þá á að sjá til þess að Mjólk­ur­sam­salan fari aftur undir sam­keppn­is­lög og ráð­ast á í end­ur­skoðun á búvöru­samn­ing­um, sem Bjarni Bene­dikts­son og Sig­urður Ingi Jóhanns­son, nú for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, und­ir­rit­uðu fyrir tæpu ári síðan og gilda til tíu ára.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem hætti á þingi í aðdraganda síðustu kosninga, hefur verið nefnd sem mögulegur utanþingsráðherra Sjálfstæðisflokks. Guðlaugur Þór Þórðarson mun einnig sækjast eftir ráðherraembætti.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Evr­ópu­mál verða afgreidd með þeim hætti að þings­á­lykt­un­ar­til­laga verður lögð fram á kjör­tíma­bil­inu um hvort ráð­ast eigi í þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu um áfram­hald við­ræðna Íslands við sam­band­ið. Rík­is­stjórnin mun ekki bera ábyrgð á þeirri til­lögu og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, sem er and­vígur aðild, mun geta barist gegn þeirri nið­ur­stöðu. Það mun Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn einnig gera. Ljóst er að þing­menn Sam­fylk­ing­ar, Bjartrar fram­tíð­ar, Við­reisnar og Pírata munu kjósa með til­lög­unni. Það mun því ráð­ast af afstöðu Vinstri grænna hvort slík þjóð­ar­at­kvæða­greiðsla fari fram eður ei.

Stóra mála­miðl­unin sem hefur verið gerð milli við­ræðna er í sjáv­ar­út­vegs­mál­um. Heim­ildir Kjarn­ans herma að Við­reisn hafi þurft að gefa eftir kröfu um upp­boð á afla­heim­ildum til þess að ná saman við Sjálf­stæð­is­flokk­inn. Þess í stað verður sam­þykkt að búa til ferli sem eigi að miða að breyt­ingum innan ákveð­ins tímara­mma, en kerf­is­breyt­ing á sjáv­ar­út­vegs­kerf­inu sjálfu verður ekki hluti af stjórn­ar­sátt­mála.

Heim­ildir Kjarn­ans herma að það sé einnig vilji til að end­ur­skoða pen­inga­stefnu lands­ins og ráð­ast í umfangs­miklar efna­hags­að­gerðir sem eiga að draga úr þeim miklu sveiflum sem tíðkast í gengi íslensku krón­unnar og íslensku efna­hags­lífi almennt.

Þá hefur verið mótuð skýr stefna um sókn í heil­brigð­is­mál­um.

Ráðu­neyti

Við­mæl­endur Kjarn­ans segja að fyrir liggi að ráðu­neytin í nýrri rík­is­stjórn verði tíu tals­ins. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn vilji breyta skipan þeirra þannig að inn­an­rík­is­ráðu­neytið verði brotið upp og hluti þess sam­ein­aður þess sem nú er iðn­að­ar- og við­skipta­ráðu­neyt­ið. Úr verði ann­ars vegar ráðu­neyti sem fari með dóms-, lög­gæslu og inn­flytj­enda­mál og hins vegar nokk­urs konar sam­göngu- og ferða­mála­ráðu­neyti.

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, sem er með 21 þing­mann, fær helm­ing þeirra ráðu­neyta auk emb­ættis for­seta Alþing­is. Við­reisn á að fá þrjú ráðu­neyti en Björt fram­tíð tvö.

Fyrir liggur að Bjarni Bene­dikts­son verði for­sæt­is­ráð­herra. Til við­bótar mun flokk­ur­inn að öllum lík­indum fara með utan­rík­is­ráðu­neyt­ið, annað hvort vel­ferð­ar­ráðu­neyt­ið, inn­an­rík­is­ráðu­neytið og annað hvort mennta- eða sam­göngu-/ferða­þjón­ustu­ráðu­neyt­ið.

Ljóst er að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn verður í vand­ræðum með að skipa konur í ráð­herra­emb­ætti, en Ólöf Nor­dal, vara­for­maður flokks­ins, var eina konan sem leiddi kjör­dæmi fyrir flokk­inn í síð­ustu kosn­ing­um. Hún hefur átt við mikla heilsu­far­s­erf­ið­leika að stríða og kall­aði inn vara­mann fyrir sig á fyrsta degi nýs þings. Hún mun þó örugg­lega taka sæti í næstu rík­is­stjórn, sé hún í stakk búin til þess, og sitja áfram í end­ur­skipu­lögðu inn­an­rík­is­ráðu­neyti. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn þarf þó að skipa að minnsta kosti eina konu til við­bótar í ráð­herra­emb­ætti. Ekki þykir ólík­legt að leitað verði út fyrir þing­flokk­inn í þeim efnum og hafa nöfn Svan­hildar Hólm Vals­dótt­ur, aðstoð­ar­konu Bjarna Bene­dikts­son­ar, og Ragn­heiðar Rík­harðs­dótt­ur, fyrr­ver­andi þing­flokks­for­manns Sjálf­stæð­is­flokks, verið nefnd í því sam­hengi. Krist­ján Þór Júl­í­us­son þykir nokkuð öruggur um ráð­herra­stól og þrír aðrir odd­vitar flokks­ins, þeir Guð­laugur Þór Þórð­ar­son, Páll Magn­ús­son og Har­aldur Bene­dikts­son, munu allir gera til­kall til ráðherra­stóla. Þá hefur Birgir Ármanns­son, sem setið hefur á þingi frá 2003 og er annar vara­for­seti þings­ins, verið nefndur sem mögu­legur for­seti Alþing­is.

Við­reisn mun nær örugg­lega fá fjár­mála­ráðu­neytið og þangað mun Bene­dikt Jóhann­es­son, for­maður flokks­ins, setj­ast. Þegar hefur verið ákveðið að Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dóttir og Þor­steinn Víglunds­son verði hinir tveir ráð­herrar flokks­ins, sem sæk­ist eftir að fá sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráðu­neytið til við­bótar við annað hvort vel­ferð­ar­ráðu­neyt­ið, þ.e. heil­brigð­is- eða félags- og hús­næð­is­mála­ráðu­neyt­ið.

Lík­leg­ast er talið að Ótt­arr Proppé verði mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra, þótt það sé ekki frá­geng­ið. Þá er talið öruggt að Björt Ólafs­dóttir verði hinn ráð­herra flokks­ins, og muni þá vænt­an­lega setj­ast í umhverf­is­ráðu­neyt­ið.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar