Birgir Þór Harðarson

Enginn greiddi atkvæði gegn fjáraukalögunum

Í fjáraukalögum var samþykkt að veita 100 milljónum króna úr ríkissjóði til að halda uppi verði á lambakjöti á innanlandsmarkaði. Enginn stjórnmálaflokkur greiddi atkvæði gegn lögunum sem voru samþykkt með minnihluta atkvæða. Björt framtíð og Viðreisn voru á meðal þeirra flokka sem sátu hjá við atkvæðagreiðslu.

Alls sátu 33 þing­menn hjá þegar fjár­auka­lög voru sam­þykkt á Alþingi 22. des­em­ber síð­ast­lið­inn. Þar á meðal voru allir fjórir þing­menn Bjartrar fram­tíðar og allir sjö þing­menn Við­reisn­ar. Auk þeirra greiddu þing­menn Pírata, Vinstri grænna og Sam­fylk­ing­ar­innar ekki atkvæði við afgreiðslu máls­ins. Eng­inn þing­maður greiddi atkvæði á móti frum­varp­inu sem var sam­þykkt með 26 greiddum atkvæðum þing­manna Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks sem voru við­staddir atkvæða­greiðsl­una. Því voru lögin sam­þykkt með stuðn­ingi 41 pró­sent þing­heims. 

Í fjár­auka­lögum var meðal ann­ars sam­þykkt að veita 100 millj­ónum króna úr rík­is­sjóði til að koma í veg fyrir verð­lækkun á lamba­kjöti hér­lend­is. Þegar frum­varp um fjár­auka­lög var kynnt vakti við­bót­ar­greiðslan tölu­verða athygli og var meðal ann­ars harð­lega gagn­rýnd af for­manni Neyt­enda­sam­tak­anna, Ólafi Arn­ar­syni. Hann sagð­ist gátt­aður á mál­inu og sagði að stjórn­völd væru að verja pen­ingum til að halda uppi verð­lagi á Íslandi. Gunnar Bragi Sveins­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra, mót­mælti því harð­lega og sagði í sam­tali við RÚV að málið sner­ist „um það fyrst og fremst að bændur geti haldið áfram að fram­leiða lamba­kjöt og þá um leið bjóða neyt­endum sem Ólafur Arn­ar­son er að vinna fyrir upp á ódýra, heil­næma og góða vöru og gott kjöt.“

Í Frétta­tím­anum sem kom út 22. des­em­ber er haft eftir Bjarkeyju Olsen Gunn­ars­dótt­ur, sem situr í fjár­laga­nefnd og er þing­maður Vinstri grænna, að nefndin hefði óskað eftir minn­is­blaði frá sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráðu­neyt­inu um málið til að útskýra for­sendur fram­lags­ins. Það minn­is­blað skil­aði sér ekki áður en fjár­auka­lög voru afgreidd.  

Tveir stjórn­mála­flokkar hafa sett kerf­is­breyt­ingar á land­bún­að­ar­kerf­inu á odd­inn í sinni póli­tísku stefnu, ásamt öðrum mál­um. Annar þeirra, Björt fram­tíð, kaus einn flokka gegn sam­þykkt búvöru­samn­inga á síð­asta kjör­tíma­bili. Í kjöl­far þess rauk fylgi flokks­ins upp, en það hafði mælst undir fimm pró­sentum um margra mán­aða skeið. Allir fjórir þing­menn flokks­ins sátu hjá við afgreiðslu fjár­auka­laga þegar atkvæði voru greidd um þau rétt fyrir klukkan 23 fimmtu­dag­inn 22. des­em­ber.

Hinn flokk­ur­inn sem hefur lagt mikla áherslu á kerf­is­breyt­ingar í land­bún­aði er Við­reisn, sem nú er í fyrsta sinn með full­trúa á Alþingi. Í mál­efna­stefnu flokks­ins segir m.a. að land­bún­aður ætti að lúta lög­málum almennrar sam­keppni og stuðn­ingi „við bændur á að breyta þannig að hann stuðli að auk­inni hag­ræð­ingu, fram­leiðni­aukn­ingu og nýsköpun í grein­inn­i[...]Allri fram­leiðslu- og sölu­stýr­ingu af hálfu rík­is­valds­ins á að hætta en í stað­inn verði veittir beinir styrkir til bænda í formi búsetu- og svæð­is­styrkja.“ 

Þrátt fyrir þessa stefnu sátu allir sjö þing­menn flokks­ins hjá við afgreiðslu fjár­auka­laga sem inni­héldu 100 millj­óna króna við­bót­ar­fram­lag til mark­aðsátaks sem, sam­kvæmt frum­varp­inu, var ætlað að koma í veg fyrir verð­fall á verði lamba­kjöts til íslenskra neyt­enda. Hvorki full­trúi Bjartrar fram­tíðar né Við­reisnar skil­aði nefnd­ar­á­liti um frum­varp til fjár­auka­laga. Það gerðu full­trúar allra ann­arra flokka. 

Björt sagði þetta stóran bita sem hún þyrfti að gleypa

Fáar ræður voru haldnar um fjár­auka­frum­varpið á þingi. Björt Ólafs­dótt­ir, þing­maður Bjartrar fram­tíð­ar, var sú eina sem minnt­ist á 100 millj­óna króna fram­lagið til „Mat­væla­lands­ins Íslands“ þegar frum­varp­inu var dreift. Það gerði hún í and­svari við Bjarna Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sem lagði frum­varpið fram. Þar sagði hún útgjöldin ekki ófyr­ir­seð og að það hafi alveg verið vitað að offram­leiðsla lækki verði. „Fyrst er það þannig að skatt­greið­endur greiða fyrir styrki til bænda til þess að fram­leiða kinda­kjöt og allt í góðu með það. Það eru á milli 5 og 6 millj­arðar sem fara bara í sauð­fjár­samn­ing­inn að mig minn­ir. Svo er kerfið í kringum þetta svo galið að[...] bændur [fá] auð­vitað ekk­ert fyrir þessar afurðir af því að offram­leiðslan er svo mikil og þegar gengur svona illa eiga skatt­greið­endur aftur að fara að borga til þess að reyna að koma þessu út og láta verðið ekki falla meira. Þetta er orðin svo mikil hringa­vit­leysa og hefur verið í svo mörg ár.“

Í umræðu í þing­sal sama dag og fjár­auka­lög voru afgreidd tók Björt aftur til máls. Þar sagði hún  að í ljósi þess hve vel fjár­lög hefðu unn­ist vildi hún halda til haga þeim skringi­legu aðstæðum sem væru uppi, þar sem starfs­stjórn væri að leggja þau fram. Í fjár­laga­vinn­unni hefðu allir unnið að heil­indum og allir gefið eftir þannig að eng­inn væri eig­in­lega sáttur við nið­ur­stöð­una í báða enda. „Í því sam­hengi vil ég segja að ég mun ekki leggj­ast gegn þess­ari 100 millj­óna króna aukn­ingu til mat­væla­lands­ins út af þessu sam­komu­lagi sem er í fjár­laga­nefnd af því að við erum að vinna þetta allt á annan hátt. Þetta er dálítið stór biti sem ég þarf þá dálítið að gleypa eins og aðrir gera með ýmsa aðra fjár­laga­liði. Ég vildi að þetta kæmi fram í ræðu frá okk­ur.“

Eng­inn þing­maður Við­reisnar tók til máls þegar umræður um fjár­auka­lög fóru fram í þing­sal.

Koma í veg fyrir verð­fell­ingu á kjöti á inn­lendum mark­aði

100 milljón króna við­bót­ar­fram­lagið fór til „Mat­væla­lands­ins Íslands“, verk­efnis sem er ætlað að „treysta orð­­spor og móta ímynd Íslands sem upp­­runa­lands hreinna og heil­­næmra mat­væla og auka með því móti gjald­eyr­is­­tekjur þjóð­­ar­inn­­ar.“

Ástæða við­­bót­­ar­fram­lags­ins, sem var lagt til af atvinn­u­­vega- og nýsköp­un­­ar­ráðu­­neyt­inu, var sú að gera verk­efn­inu kleift að standa fyrir sér­­­stöku mark­aðsátaki á erlendum mörk­uðum sauð­fjár­­af­­urða vegna fyr­ir­­sjá­an­­legrar birgða­aukn­ingar inn­­an­lands. Í frum­varp­i til fjár­auka­laga sagði: „Mik­ill tap­­rekstur er á sölu sauð­fjár­­af­­urða og þrátt fyrir lækkun á verði slát­­ur­­leyf­­is­hafa til bænda fyrir sauð­fjár­­af­­urðir er frek­­ari aðgerða þörf. Mark­aðs­ráð kinda­kjöts, sem er sam­­starfs­vett­vangur bænda og slát­­ur­­leyf­­is­hafa, hefur unnið mark­visst að því að finna nýja mark­aði erlend­is, en ljóst er að afsetja þarf um 800 til 1.000 tonn til að koma í veg fyrir upp­­­nám og almenna verð­­fell­ingu á kjöti á inn­­­lendum mark­aði seinnipart vetrar og/eða næsta haust.“

„Þetta er dálítið stór biti sem ég þarf þá dálítið að gleypa eins og aðrir gera með ýmsa aðra fjárlagaliði,“ sagði Björt Ólafsdóttir í ræðu sama dag og fjáraukalög voru samþykkt.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Engar breyt­ing­ar­til­lögur gegn þessum styrk voru lagðar fram við vinnslu máls­ins í nefndum þings­ins og ekk­ert er minnst á hann í þeim nefnd­ar­á­litum sem skilað var inn þegar málið var afgreitt úr fjár­laga­nefnd. Sam­kvæmt fund­ar­gerðum fjár­laga­nefndar voru fjár­auka­lög ein­ungis einu sinni rædd form­lega á fundum henn­ar. Þá komu starfs­menn fjár­mála- og efna­hags­ráð­neyt­is­ins á fund þeirra,  kynntu frum­varpið og svör­uðu spurn­ing­um. Svo virð­ist sem að rúm­lega þrír klukku­tímar hafi farið í að ræða frum­varpið í nefnd­inni.

Fram­­leiðslan þegar nið­­ur­greidd um fimm millj­­arða

Sauð­fjár­­­rækt nýtur nú þegar umtals­verðs stuðn­­ings úr rík­­is­­sjóði. Á fjár­­lögum árs­ins 2017 er gert ráð fyrir að nið­­ur­greiðsla á sauð­fjár­­fram­­leiðslu nemi tæpum fimm millj­­örðum króna. Auk þess festa nýgerðir búvöru­­samn­ing­­ar, sem gilda til tíu ára, í sessi mjög háa toll­vernd á kinda­kjöti. Ein­ungis 19 þing­menn sam­þykktu þá samn­inga þegar greidd var atkvæði um þá á þingi í sept­em­ber. 

Nú þegar er umtals­verður hluti af sauð­fjár­­fram­­leiðslu á Íslandi fluttur út og með því eru íslenskir skatt­greið­endur í raun að nið­­­ur­greiða kjöt ofan í erlenda neyt­end­­­ur. Í Frétta­­blað­inu í síð­­­ustu viku var greint frá því að verð fyrir sauð­fjár­­af­­urðir á erlendum mörk­uðum hefði hrunið vegna styrk­ingu krón­unnar og lok­unar mark­aða. Þar kom fram að nokkuð ljóst væri að verið sé að greiða með útflutn­ingi á kjöt­­inu.

Auk þess hefur neysla Íslend­inga á kinda­kjöti dreg­ist gríð­­­ar­­­lega sam­an á und­an­­förnum ára­tug­­um. Árið 1983 borð­uðu Íslend­ingar 45,3 kíló hver af kinda­kjöti á ári. Í fyrra var sú tala komin í 19,5 kíló. Á sama tíma hefur neysla á kjúklingi og svína­kjöti auk­ist veru­­­lega.

Segja bændur taka á sig 600 millj­­ónir vegna þreng­inga

Þór­­ar­inn Ingi Pét­­ur­s­­son, for­­maður mark­aðs­ráðs kinda­kjöts, sendi frá sér til­­kynn­ingu í des­em­ber vegna máls­ins. Þar sagði að til­­­gangur hins sér­­staka fram­lags rík­­is­­sjóðs sé að „vernda störf út um landið og koma í veg fyrir alvar­­lega byggða­rösk­un. Mark­aðs­ráð Kinda­kjöts kemur að verk­efn­inu til að tryggja að féð nýt­ist í áfram­hald­andi mark­aðs­­setn­ingu á erlendum mörk­uð­u­m.“ Íslenskur land­­bún­­aður velti um 70 millj­­örðum króna ár­­lega og skapi tíu til tólf þús­und bein og óbein störf um land allt.

Búvörusamningar voru undirritaðir í febrúar 2016. Þeir festa í sessi háa tollvernd á kindakjöti.
Mynd: Stjórnarráðið.

Í til­­kynn­ing­unni sagði einnig að mikil styrk­ing krón­unnar hafi valdið þreng­ingum hjá öllum útflutn­ings­­greinum á Íslandi. „Þá hefur við­skipta­deila Vest­­ur­veld­anna og Rús­s­lands leitt til verð­­lækk­­unar á mörk­uðum fyrir ýmsar land­­bún­­að­­ar­af­­urðir í Evr­­ópu. Flest bendir til þess að þetta sé tíma­bundin nið­­ur­­sveifla. Verð á kinda­kjöti á heims­­mark­aði hefur lækkað und­an­farna mán­uði en virð­ist nú vera á upp­­­leið.[...]­Ís­lenskir sauð­fjár­­bændur tóku á sig um 600 millj­­óna kr. tekju­skerð­ingu í haust vegna ástands­ins á heims­­mark­aði. Rétt er að hafa í huga að bændur hafa þegar lagt út fyrir nán­­ast öllum fram­­leiðslu­­kostn­aði og innt af hendi nán­­ast alla þá vinnu sem til þarf. Engin opin­ber verð­lagn­ing er í sauð­fjár­­­rækt á Íslandi. Kvóta­­kerfi var afnumið 1995 og útflutn­ings­bætur aflag­aðar 1992.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar