Það sem ný ríkisstjórn ætlar að gera
Ný ríkisstjórn er með tímasett markmið í sumum málum, skýra stefnubreytingu í öðrum og sýnir vilja til að stuðla að aukinni einkavæðingu. Hún setur þrjú risastór mál í nefnd og stefnir að alls konar aðgerðum án þess að útfæra þær.
Ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Hún verður undir forsæti Bjarna Benediktssonar og verða samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Stjórnin hefur minnsta mögulega þingmeirihluta, 32 þingmenn af 63, og er merkileg fyrir þær sakir að í henni sitja annars vegar flokkur sem stofnaður var 2012 og hins vegar flokkur sem formlega var stofnaður í maí 2016. Með þeim situr Sjálfstæðisflokkurinn, helsti valdaflokkur Íslands, sem haldið hefur um valdatauma í ríkisstjórn ¾ hluta lýðveldissögunnar.
Flokkarnir birtu stefnuyfirlýsingu sína fyrr í dag. Hún er, líkt og stefnuyfirlýsingar íslenskra ríkisstjórna eru vanalega, löng, full af orðskrúði og góðum tilætlunum. En í henni er líka að finna skýrar áherslur, sýnilegar breytingar og erfiðar málamiðlanir.
Það sem er niðurneglt og/eða tímasett
Heilbrigðismál voru mjög í brennidepli í aðdraganda síðustu kosninga. Eitt þeirra atriða sem er sérstaklega tímasett í stjórnarsáttmálanum er að bygging meðferðarkjarna Landsspítalans við Hringbraut eigi að vera lokið árið 2023. Stefnt er að ýmsu öðru, t.d. minnkandi greiðsluþátttöku einstaklinga og að staða heilsugæslu sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga verði styrkt.
Skýrt er tekið fram í stefnuyfirlýsingunni að fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn þurfi að taka upp árlega jafnlaunavottun til að sporna við launamisrétti af völdum kynferðis. Kynbundinn launamunur er enn umtalsverður á Íslandi. Þann 24. október síðastliðinn, á kvennafrídaginn, gengu konur til að mynda út af starfstöðvum sínum klukkan 14:38 þegar þær höfðu lokið vinnu sinni ef þær hefðu sama tímakaup og karlar í sambærilegum störfum.
Í þeim hluta yfirlýsingarinnar sem fjallar um almannatryggingar segir að tryggt verði að allir sem verði fyrir skerðingu á starfsgetu vegna sjúkdóma eða slys fái tækifæri til „starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið með það að markmiði að auka lífsgæði og samfélagslega virkni.“ Auk þess á að taka upp starfsgetumat, frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkað og notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) lögfest sem eitt af þjónustuformum fólks með fötlun í samráði við sveitarfélög.
Foreldrajafnrétti verður aukið til muna því að ríkisstjórnin ætlar sér að tryggja rétt barna til að vera skráð í skiptri búsetu á tveimur lögheimilum ásamt því sem aðstaða umgengnisforeldra og lögheimilisforeldra verður jöfnuð.
Tekið verður upp námsstyrkjakerfi og lánveitingar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) miðuð við fulla framfærslu og hvatningu til námsframvindu. Nokkuð ljóst er að þar verður byggt á afar umdeildu frumvarpi sem Illugi Gunnarsson, þá mennta- og menningarmálaráðherra, lagði fram um málið í fyrra. Tekið er fram í stefnuyfirlýsingunni að „Hugað verði að félagslegu hlutverki sjóðsins“. Ekkert er útfært í sáttmálanum um með hvaða hætti það verður gert.
Eitt það áhugaverðasta sem fram kemur í stefnuyfirlýsingunni er að ríkisstjórnin skuldbindur sig til að efna ekki til nýrra ívilnandi fjárfestingasamninga vegna uppbyggingar mengandi stóriðju. Í því felst í reynd að stóriðjutímabilinu í Íslandssögunni er lokið, enda hefur engin stóriðja ákveðið að hefja starfsemi á Íslandi án þess að fá fyrst samning sem tryggir henni stórtækan afslátt af sköttum og gjöldum.
Forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands verða endurmetnar og sú vinna verður byggð á niðurstöðum í skýrslu Seðlabanka Íslands frá árinu 2012 um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Þar var meðal annars lagt mat á framkvæmd verðbólgumarkmiðs, myntráð, fastgengisstefnu og ýmsa aðra kosti. Niðurstöður vinnunnar eiga að liggja fyrir á fyrsta starfsári. Íslendingar geta því átt von á nýrri peningastefnu, nema að niðurstaðan verði sú að verðbólgumarksmiðsstefna Seðlabankans, sem rekin er í dag með háum stýrivöxtum, sé besta stefnan.
Í stefnuyfirlýsingunni kemur líka fram að það sé langtímamarkmið að hreinar skuldir ríkissjóðs verði engar innan tíu ára. Þá á að stofna stöðugleikasjóð sem geti verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið. Athygli vekur að sá sjóður á einungis að halda utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs, sem sagt arðgreiðslur úr Landsvirkjun, en ekki arð af nýtingu annarra auðlinda líkt og ýmsir hafa lagt til í umræðu um stöðugleikasjóð. Hugmyndir hafa m.a. verið uppi um að láta arðsemi af nýtingu sjávarauðlinda og nýtingu ferðaþjónustuaðila á náttúru Íslands inn í slíkan sjóð.
Í vinnumarkaðsmálum verður haldið áfram á sama hátt og verið hefur og stutt við íslenskt vinnumarkaðsmódel að norræni fyrirmynd, hinu svokallaða SALEK-samkomulagi. Þá verður tryggingargjald á lítil og meðalstór fyrirtæki lækkað og verkefninu „Ísland ljóstengt“ lokið á kjörtímabilinu.
Það sem sett verður í nefnd
Ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Ekki er tímasett hvenær þessi hópur á að skila af sér niðurstöðu en sagt að ákvörðun verði tekin „um fyrirliggjandi kosti að undangengnu mati og innviðir innanlands- og sjúkraflugs þannig tryggðir til framtíðar.“
Þá stendur til að setja saman enn eina nefnd um endurskoðun stjórnarskráarinnar, sem á að nýta sér það „viðamikla starf“ sem hefur átt sér stað í málinu á undanförnum árum. Allir þingflokkar á Alþingi eiga að fá að skipa fulltrúa í þingmannanefnd sem „mun starfa með færustu sérfræðingum á sviði stjórnskipunar að sem bestri sátt um tillögur að breytingum sem verði lagðar fram eigi síðar en árið 2019.“ Í þeirri vinnu á að huga sérstaklega að breytingum á kjördæmaskipan og að kosningalöggjöfin verði yfirfarin með það fyrir augum að hún miði að meira jafnræði í atkvæðavægi.
Tvö af helstu stefnumálum Viðreisnar, og helsta baráttumál Bjartrar framtíðar í aðdraganda kosninga, enda í nefnd eða vinnuferli sem á að kanna kosti og/eða hvetja til breytinga. Viðreisn barðist hart fyrir því í aðdraganda kosninga að farin yrði markaðsleið í sjávarútvegi. Ljóst er að þær kröfur hefur flokkurinn þurft að gefa eftir. Varðandi breytingar á sjávarútvegskerfinu á að kanna kosti þess að „í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna.“ Enginn tímarammi eða útfærsla á þessari vinnu er tiltekin.
Búvörusamningar til tíu ára voru undirritaðir í febrúar 2016 og samþykktir á Alþingi síðastliðið haust. Kostnaður ríkissjóðs vegna þeirra er 13-14 milljarðar króna á ári. Samkvæmt samningnum hafa bændur neitunarvald gagnvart endurskoðun samninganna, sem á að fara fram árið 2019. Þeir geta því hafnað endurskoðun samninganna, kjósi þeir svo. Björt framtíð greiddi ein stjórnmálaflokka í heild sinni atkvæði gegn samningunum. Í stjórnarsáttmálanum eru engar kollsteypur í landbúnaði. Þar segir að endurskoðun búvörusamnings verði grunnur að nýja samkomulagi við bændur, sem miðað er við að ljúki eigi síðar en árið 2019. Þegar hefur verið skipuð nefnd til að ræða endurskoðunina en heimildir Kjarnans herma að hún verði endurskipuð í kjölfar þess að nýr maður tekur við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Í yfirlýsingunni segir að af hálfu stjórnvalda verði „hvatt til að vægi almennari stuðnings verði aukið, svo sem til jarðræktar, fjárfestingar, nýsköpunar, umhverfisverndar og nýliðunar, en dregið úr sértækum búgreinastyrkjum. Endurskoða þarf ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar.“
Þar sem á að einkavæða
Nokkuð er fjallað um einkavæðingu einstakra þátta ákveðinna málaflokka í yfirlýsingunni. Þar segir meðal annars, í umfjöllun um menntamál, að tryggja þurfti „jafnræði nemenda og valfrelsi með því meðal annars að styrkja fjölbreytt rekstrarform“ í málaflokknum.
Og meiri einkavæðing er í farvatninu innan menntakerfisins því í yfirlýsingunni segir einnig að ríkið muni færa útgáfu námsefnis í auknum mæli til sjálfstæðra útgefenda. Í dag er þorri útgáfu námsefnis á hendi Menntastofnunar, sem varð til við sameiningu Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar á síðasta kjörtímabili. Það er þó stefnt að frekari nýtingu einkaaðila á fleiri sviðum en bara í menntamálum. Í samgöngumálum á að leita „fjölbreyttari leiða til að fjármagna samgöngukerfið, meðal annars með samstarfsfjármögnun þar sem það er hagkvæmt.“
Íslenska ríkið heldur enn á miklum eignum sem því áskotnaðist í kjölfar samninga við kröfuhafa föllnu bankanna. Þar ber helst að nefna eignarhlut ríkisins í íslenska bankakerfinu, en það á Íslandsbanka og Landsbankann nánast að fullu og 13 prósent hlut í Arion banka. Það er stefna nýrrar ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar að það sé ekki ákjósanlegt til lengri tíma að ríkið fari með meirihlutaeign í viðskiptabönkum til langs tíma. Því sé mikilvægt að selja hluta eignar ríkisins. Í því ferlið verður lögð áhersla á sem mesta dreifingu eignarhalds, meðal annars með þvi að „almenningur geti fengið tiltekinn eignarhlut afhentan endurgjaldslaust.“
Það sem er óútfært og stefnt er að
Eitt þeirra atriða sem margar barnafjölskyldur hafa horft til er hvernig ný ríkisstjórn tekur á fæðingarorlofsmálum. Það kerfi sem hafði byggst upp á Íslandi í þeim málaflokki hefur beðið mikla hnekki á síðustu árum og t.d. leitt af sér mun minni fæðingarorlofstöku feðra. Greiðslur úr sjóðnum hafa bæði lækkað og ekki fylgt verðþróun í samfélaginu. Í stjórnarsáttmálanum er settur fram vilji til að hækka hámarksfjárhæðir fæðingarorlofs – sem í dag eru 500 þúsund krónur á mánuði – í „öruggum skrefum“. Auk þess er sagt að vinna þurfi „markvisst að því að tryggja börnum leikskóla- eða dagvist þegar fæðingarorlofi sleppir með sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga.“ Hvorug þessara aðgerða er þó útfærð eða tímasett.
Í þeim kafla sem snýr að innflytjendum og útlendingamálum kemur fram að stefnt verði að því taka á móti fleiri flóttamönnum. Sú stefna er hins vegar ekkert útfærð né neinn fjöldi eða sérstök aðferðarfræði nefnd í því samhengi. Sömu sögu er að segja um veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem á að einfalda. Í yfirlýsingunni segir að meta beri menntun þeirra sem flytjast til Íslands að verðleikum og tryggt verði að „aðbúnaður geri landið eftirsóknarvert til framtíðar“.
Í lögreglumálum verður lögð áhersla á „framkvæmd aðgerðaáætlunar um bætta verkferla vegna kynferðisbrota[...]Þolendum mansals verði veitt fullnægjandi réttarvernd og stuðningur. Til að draga úr endurkomutíðni í fangelsi skal horft til betrunar við stefnumótun í málaflokknum.“ Rætt er um að gera aðgerðaráætlun í loftlagsmálum sem verði í samræmi við Parísarsamkomulagsins sem feli í sér græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum. Ekkert þessara atriða er útskýrt nánar og engar tímasetningar eru settar fram. Ríkið ætlar sér einnig að nýta sér betur sameiginleg innkaup til að draga úr útgjöldum þótt ekkert sé sagt um hvernig sú nýting eigi að vera, og leggja áherslu á næstu árum á verkefni sem „stuðla að samhæfðri stýringu ferðamála, áreiðanlegri gagnaöflun og rannsóknum, náttúruvernd, aukinni arðsemi greinarinnar, dreifingu ferðamanna um land allt og skynsamlegri gjaldtöku t.d. með bílastæðagjöldum.“
Skattaskjólsmál hafa verið mikið til umræðu undanfarna daga í kjölfar þess að skýrsla um aflandseignir Íslendinga var birt á föstudag, þremur mánuðum eftir að hún var kynnt fyrir Bjarna Benediktssyni sem fjármála- og efnahagsráðherra. Málaflokkurinn hefur raunar verið drifkraftur í þjóðfélagsumræðunni allt frá því að Panamaskjölin opinberuðu umfangsmiklar aflandseignir þekktra Íslendinga, meðal annars stjórnmálamanna, og leiddi til afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og boðunar kosninga fyrr en til stóð. Ekki er mikið fjallað um þessi mál í stefnuyfirlýsingunni og engar aðgerðir kynntar, t.d. til að endurheimta fé sem skotið hefur verið undan skatti, sem áætlað hefur verið að hlaupi á tugum milljarða króna. Í yfirlýsingunni segir einungis: „Markvisst verður unnið gegn skattundanskotum, þar með talið í skattaskjólum.“
....Og blessuð Evrópumálin
Ein heitasta kartaflan í stjórnarsamstarfi flokkanna þriggja eru Evrópumál. Viðreisn var beinlínis stofnuð utan um Evrópumál í kjölfar þess að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks dró aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka í febrúar 2014. Uppistaðan í flokknum eru fyrrverandi meðlimir í Sjálfstæðisflokknum sem töldu að Bjarni Benediktsson hefði svikið loforð við þá um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu áður en að umsóknin yrði dregin til baka. Bjarni bar fyrir sig að slíkt hefði verið „pólitískur ómöguleiki“. Björt framtíð hefur sömuleiðis lagt mikla áherslu á að kosið verði um aðild að Evrópusambandinu, en flokkurinn er fylgjandi inngöngu.
Í stefnuyfirlýsingunni eru Evrópumálin afgreidd með þeim hætti að Alþingi muni taka afstöðu til þess hvort kosið verði eður ei um áframhaldandi viðræður. Þar segir enn fremur að „stjórnarflokkarnir [eru] sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.“ Það er því staðfest í stjórnarsáttmála að allir flokkarnir þrír eru sammála um að geyma atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu til loka kjörtímabilsins, jafnvel þótt hún myndi verða lögð fram á fyrsta starfsdegi Alþingis þann 24. janúar.