7DM_0161_raw_2057.JPG

Það sem ný ríkisstjórn ætlar að gera

Ný ríkisstjórn er með tímasett markmið í sumum málum, skýra stefnubreytingu í öðrum og sýnir vilja til að stuðla að aukinni einkavæðingu. Hún setur þrjú risastór mál í nefnd og stefnir að alls konar aðgerðum án þess að útfæra þær.

Ný rík­is­stjórn hefur verið mynd­uð. Hún verður undir for­sæti Bjarna Bene­dikts­sonar og verða sam­steypu­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks, Við­reisnar og Bjartrar fram­tíð­ar. Stjórnin hefur minnsta mögu­lega þing­meiri­hluta, 32 þing­menn af 63, og er merki­leg fyrir þær sakir að í henni sitja ann­ars vegar flokkur sem stofn­aður var 2012 og hins vegar flokkur sem form­lega var stofn­aður í maí 2016. Með þeim situr Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, helsti valda­flokkur Íslands, sem haldið hefur um valdatauma í rík­is­stjórn ¾ hluta lýð­veld­is­sög­unn­ar.

Flokk­arnir birtu stefnu­yf­ir­lýs­ingu sína fyrr í dag. Hún er, líkt og stefnu­yf­ir­lýs­ingar íslenskra rík­is­stjórna eru vana­lega, löng, full af orð­skrúði og góðum til­ætl­un­um. En í henni er líka að finna skýrar áhersl­ur, sýni­legar breyt­ingar og erf­iðar mála­miðl­an­ir.

Það sem er nið­ur­neglt og/eða tíma­sett

Heil­brigð­is­mál voru mjög í brennid­epli í aðdrag­anda síð­ustu kosn­inga. Eitt þeirra atriða sem er sér­stak­lega tíma­sett í stjórn­ar­sátt­mál­anum er að bygg­ing með­ferð­ar­kjarna Lands­spít­al­ans við Hring­braut eigi að vera lokið árið 2023. Stefnt er að ýmsu öðru, t.d. minnk­andi greiðslu­þátt­töku ein­stak­linga og að staða heilsu­gæslu sem fyrsta við­komu­staðar sjúk­linga verði styrkt.

Skýrt er tekið fram í stefnu­yf­ir­lýs­ing­unni að fyr­ir­tæki með fleiri en 25 starfs­menn þurfi að taka upp árlega jafn­launa­vottun til að sporna við launa­mis­rétti af völdum kyn­ferð­is. Kyn­bund­inn launa­munur er enn umtals­verður á Íslandi. Þann 24. októ­ber síð­ast­lið­inn, á kvenna­frí­dag­inn, gengu konur til að mynda út af starf­stöðvum sínum klukkan 14:38 þegar þær höfðu lokið vinnu sinni ef þær hefðu sama tíma­kaup og karlar í sam­bæri­legum störf­um.

Í þeim hluta yfir­lýs­ing­ar­innar sem fjallar um almanna­trygg­ingar segir að tryggt verði að allir sem verði fyrir skerð­ingu á starfs­getu vegna sjúk­dóma eða slys fái tæki­færi til „starfsend­ur­hæf­ingar þegar lækn­is­fræði­legri með­ferð og end­ur­hæf­ingu er lokið með það að mark­miði að auka lífs­gæði og sam­fé­lags­lega virkn­i.“ Auk þess á að taka upp starfs­getu­mat, frí­tekju­mark vegna atvinnu­tekna elli­líf­eyr­is­þega hækkað og not­enda­stýrð per­sónu­leg aðstoð (NPA) lög­fest sem eitt af þjón­ustu­formum fólks með fötlun í sam­ráði við sveit­ar­fé­lög.

For­eldra­jafn­rétti verður aukið til muna því að rík­is­stjórnin ætlar sér að tryggja rétt barna til að vera skráð í skiptri búsetu á tveimur lög­heim­ilum ásamt því sem aðstaða umgengn­is­for­eldra og lög­heim­il­is­for­eldra verður jöfn­uð.

Tekið verður upp náms­styrkja­kerfi og lán­veit­ingar Lána­sjóðs íslenskra náms­manna (LÍN) miðuð við fulla fram­færslu og hvatn­ingu til náms­fram­vindu. Nokkuð ljóst er að þar verður byggt á afar umdeildu frum­varpi sem Ill­ugi Gunn­ars­son, þá mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra, lagði fram um málið í fyrra. Tekið er fram í stefnu­yf­ir­lýs­ing­unni að „Hugað verði að félags­legu hlut­verki sjóðs­ins“. Ekk­ert er útfært í sátt­mál­anum um með hvaða hætti það verður gert.

Eitt það áhuga­verð­asta sem fram kemur í stefnu­yf­ir­lýs­ing­unni er að rík­is­stjórnin skuld­bindur sig til að efna ekki til nýrra íviln­andi fjár­fest­inga­samn­inga vegna upp­bygg­ingar meng­andi stór­iðju. Í því felst í reynd að stór­iðju­tíma­bil­inu í Íslands­sög­unni er lok­ið, enda hefur engin stór­iðja ákveðið að hefja starf­semi á Íslandi án þess að fá fyrst samn­ing sem tryggir henni stór­tækan afslátt af sköttum og gjöld­um.

Settur verður á fót auðlindasjóður, en bara fyrir arð af nýtingu orkuauðlinda. Arður af nýtingu t.d. sjávarauðlinda eða náttúru Íslands á ekki að renna inn í hann.

For­sendur pen­inga- og gjald­mið­ils­stefnu Íslands verða end­ur­metnar og sú vinna verður byggð á nið­ur­stöðum í skýrslu Seðla­banka Íslands frá árinu 2012 um val­kosti Íslands í gjald­mið­ils- og geng­is­mál­um. Þar var meðal ann­ars lagt mat á fram­kvæmd verð­bólgu­mark­miðs, mynt­ráð, fast­geng­is­stefnu og ýmsa aðra kosti. Nið­ur­stöður vinn­unnar eiga að liggja fyrir á fyrsta starfs­ári. Íslend­ingar geta því átt von á nýrri pen­inga­stefnu, nema að nið­ur­staðan verði sú að verð­bólgu­marksmiðs­stefna Seðla­bank­ans, sem rekin er í dag með háum stýri­vöxt­um, sé besta stefn­an.

Í stefnu­yf­ir­lýs­ing­unni kemur líka fram að það sé lang­tíma­mark­mið að hreinar skuldir rík­is­sjóðs verði engar innan tíu ára. Þá á að stofna stöð­ug­leika­sjóð sem geti verið sveiflu­jafn­andi fyrir efna­hags­líf­ið. Athygli vekur að sá sjóður á ein­ungis að halda utan um arð af orku­auð­lindum í eigu rík­is­sjóðs, sem sagt arð­greiðslur úr Lands­virkj­un, en ekki arð af nýt­ingu ann­arra auð­linda líkt og ýmsir hafa lagt til í umræðu um stöð­ug­leika­sjóð. Hug­myndir hafa m.a. verið uppi um að láta arð­semi af nýt­ingu sjáv­ar­auð­linda og nýt­ingu ferða­þjón­ustu­að­ila á nátt­úru Íslands inn í slíkan sjóð.

Í vinnu­mark­aðs­málum verður haldið áfram á sama hátt og verið hefur og stutt við íslenskt vinnu­mark­aðs­módel að nor­ræni fyr­ir­mynd, hinu svo­kall­aða SALEK-­sam­komu­lagi. Þá verður trygg­ing­ar­gjald á lítil og með­al­stór fyr­ir­tæki lækkað og verk­efn­inu „Ís­land ljóstengt“ lokið á kjör­tíma­bil­inu.

Það sem sett verður í nefnd

Rík­is­stjórnin ætlar að beita sér fyrir lausn á ára­tuga­deilu um fram­tíð Reykja­vík­ur­flug­vallar með því að stofna til form­legra við­ræðna sam­göngu­yf­ir­valda, heil­brigð­is­yf­ir­valda, Reykja­vík­ur­borg­ar, ann­arra sveit­ar­fé­laga og hags­muna­að­ila. Ekki er tíma­sett hvenær þessi hópur á að skila af sér nið­ur­stöðu en sagt að ákvörðun verði tekin „um fyr­ir­liggj­andi kosti að und­an­gengnu mati og inn­viðir inn­an­lands- og sjúkra­flugs þannig tryggðir til fram­tíð­ar.“

Þá stendur til að setja saman enn eina nefnd um end­ur­skoðun stjórn­ar­skrá­ar­inn­ar, sem á að nýta sér það „viða­mikla starf“ sem hefur átt sér stað í mál­inu á und­an­förnum árum. Allir þing­flokkar á Alþingi eiga að fá að skipa full­trúa í þing­manna­nefnd sem „mun starfa með fær­ustu sér­fræð­ingum á sviði stjórn­skip­unar að sem bestri sátt um til­lögur að breyt­ingum sem verði lagðar fram eigi síðar en árið 2019.“ Í þeirri vinnu á að huga sér­stak­lega að breyt­ingum á kjör­dæma­skipan og að kosn­inga­lög­gjöfin verði yfir­farin með það fyrir augum að hún miði að meira jafn­ræði í atkvæða­vægi.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar, stjórnarskrárbreytingar, endurskoðun á sjávarútvegskerfinu og endurskoðun búvörusamninga enda öll á sama stað. Í nefnd.
mynd:Birgir Þór Harðarson

Tvö af helstu stefnu­málum Við­reisn­ar, og helsta bar­áttu­mál Bjartrar fram­tíðar í aðdrag­anda kosn­inga, enda í nefnd eða vinnu­ferli sem á að kanna kosti og/eða hvetja til breyt­inga. Við­reisn barð­ist hart fyrir því í aðdrag­anda kosn­inga að farin yrði mark­aðs­leið í sjáv­ar­út­vegi. Ljóst er að þær kröfur hefur flokk­ur­inn þurft að gefa eft­ir. Varð­andi breyt­ingar á sjáv­ar­út­vegs­kerf­inu á að kanna kosti þess að „í stað ótíma­bund­innar úthlut­unar verði byggt á lang­tíma­samn­ingum og sam­hliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem mark­aðsteng­ingu, sér­stöku afkomu­tengdu gjaldi eða öðrum leið­um, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sam­eig­in­legri auð­lind verði í eðli­legu hlut­falli við afrakstur veið­anna.“ Eng­inn tímara­mmi eða útfærsla á þess­ari vinnu er til­tek­in.

Búvöru­samn­ingar til tíu ára voru und­ir­rit­aðir í febr­úar 2016 og sam­þykktir á Alþingi síð­ast­liðið haust. Kostn­aður rík­is­sjóðs vegna þeirra er 13-14 millj­arðar króna á ári. Sam­kvæmt samn­ingnum hafa bændur neit­un­ar­vald gagn­vart end­ur­skoðun samn­ing­anna, sem á að fara fram árið 2019. Þeir geta því hafnað end­ur­skoðun samn­ing­anna, kjósi þeir svo. Björt fram­tíð greiddi ein stjórn­mála­flokka í heild sinni atkvæði gegn samn­ing­un­um. Í stjórn­ar­sátt­mál­anum eru engar koll­steypur í land­bún­aði. Þar segir að end­ur­skoðun búvöru­samn­ings verði grunnur að nýja sam­komu­lagi við bænd­ur, sem miðað er við að ljúki eigi síðar en árið 2019. Þegar hefur verið skipuð nefnd til að ræða end­ur­skoð­un­ina en heim­ildir Kjarn­ans herma að hún verði end­ur­skipuð í kjöl­far þess að nýr maður tekur við sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráðu­neyt­inu. Í yfir­lýs­ing­unni segir að af hálfu stjórn­valda verði „hvatt til að vægi almenn­ari stuðnings verði auk­ið, svo sem til jarð­rækt­ar, fjár­fest­ing­ar, nýsköp­un­ar, umhverf­is­verndar og nýlið­un­ar, en dregið úr sér­tækum búgreina­styrkj­um. End­ur­skoða þarf ráð­stöfun inn­flutn­ings­kvóta og greina for­sendur fyrir frá­vikum frá sam­keppn­is­lögum fyrir mjólkur­iðn­að­inn og gera við­eig­andi breyt­ing­ar.“

Þar sem á að einka­væða

Nokkuð er fjallað um einka­væð­ingu ein­stakra þátta ákveð­inna mála­flokka í yfir­lýs­ing­unni. Þar segir meðal ann­ars, í umfjöllun um mennta­mál, að tryggja þurfti „jafn­ræði nem­enda og val­frelsi með því meðal ann­ars að styrkja fjöl­breytt rekstr­ar­form“ í mála­flokkn­um.

Og meiri einka­væð­ing er í far­vatn­inu innan mennta­kerf­is­ins því í yfir­lýs­ing­unni segir einnig að ríkið muni færa útgáfu náms­efnis í auknum mæli til sjálf­stæðra útgef­enda. Í dag er þorri útgáfu náms­efnis á hendi Mennta­stofn­un­ar, sem varð til við sam­ein­ingu Náms­gagna­stofn­unar og Náms­mats­stofn­unar á síð­asta kjör­tíma­bili. Það er þó stefnt að frek­ari nýt­ingu einka­að­ila á fleiri sviðum en bara í mennta­mál­um. Í sam­göngu­málum á að leita „fjöl­breytt­ari leiða til að fjár­magna sam­göngu­kerf­ið, meðal ann­ars með sam­starfs­fjár­mögnun þar sem það er hag­kvæmt.“

Þegar bankarnir verða einkavæddir verður lögð áhersla á að almenningur fái tiltekinn eignarhlut afhentan endurgjaldslaust.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Íslenska ríkið heldur enn á miklum eignum sem því áskotn­að­ist í kjöl­far samn­inga við kröfu­hafa föllnu bank­anna. Þar ber helst að nefna eign­ar­hlut rík­is­ins í íslenska banka­kerf­inu, en það á Íslands­banka og Lands­bank­ann nán­ast að fullu og 13 pró­sent hlut í Arion banka. Það er stefna nýrrar rík­is­stjórnar Bjarna Bene­dikts­sonar að það sé ekki ákjós­an­legt til lengri tíma að ríkið fari með meiri­hluta­eign í við­skipta­bönkum til langs tíma. Því sé mik­il­vægt að selja hluta eignar rík­is­ins. Í því ferlið verður lögð áhersla á sem mesta dreif­ingu eign­ar­halds, meðal ann­ars með þvi að „almenn­ingur geti fengið til­tek­inn eign­ar­hlut afhentan end­ur­gjalds­laust.“

Það sem er óút­fært og stefnt er að

Eitt þeirra atriða sem margar barna­fjöl­skyldur hafa horft til er hvernig ný rík­is­stjórn tekur á fæð­ing­ar­or­lofs­mál­um. Það kerfi sem hafði byggst upp á Íslandi í þeim mála­flokki hefur beðið mikla hnekki á síð­ustu árum og t.d. leitt af sér mun minni fæð­ing­ar­or­lofstöku feðra. Greiðslur úr sjóðnum hafa bæði lækkað og ekki fylgt verð­þróun í sam­fé­lag­inu. Í stjórn­ar­sátt­mál­anum er settur fram vilji til að hækka hámarks­fjár­hæðir fæð­ing­ar­or­lofs – sem í dag eru 500 þús­und krónur á mán­uði – í „ör­uggum skref­um“. Auk þess er sagt að vinna þurfi „mark­visst að því að tryggja börnum leik­skóla- eða dag­vist þegar fæð­ing­ar­or­lofi sleppir með sam­eig­in­legu átaki ríkis og sveit­ar­fé­laga.“ Hvorug þess­ara aðgerða er þó útfærð eða tíma­sett.

Í þeim kafla sem snýr að inn­flytj­endum og útlend­inga­málum kemur fram að stefnt verði að því taka á móti fleiri flótta­mönn­um. Sú stefna er hins vegar ekk­ert útfærð né neinn fjöldi eða sér­stök aðferð­ar­fræði nefnd í því sam­hengi. Sömu sögu er að segja um veit­ingu atvinnu­leyfa fyrir fólk utan Evr­ópska efna­hags­svæð­is­ins, sem á að ein­falda. Í yfir­lýs­ing­unni segir að meta beri menntun þeirra sem flytj­ast til Íslands að verð­leikum og tryggt verði að „að­bún­aður geri landið eft­ir­sókn­ar­vert til fram­tíð­ar“.

Í lög­reglu­málum verður lögð áhersla á „fram­kvæmd aðgerða­á­ætl­unar um bætta verk­ferla vegna kyn­ferð­is­brota[...]Þolendum mansals verði veitt full­nægj­andi rétt­ar­vernd og stuðn­ing­ur. Til að draga úr end­ur­komu­tíðni í fang­elsi skal horft til betr­unar við stefnu­mótun í mála­flokkn­um.“ Rætt er um að gera aðgerð­ar­á­ætlun í loft­lags­málum sem verði í sam­ræmi við Par­ís­ar­sam­komu­lags­ins sem feli í sér græna hvata, skóg­rækt, land­græðslu og orku­skipti í sam­göng­um. Ekk­ert þess­ara atriða er útskýrt nánar og engar tíma­setn­ingar eru settar fram. Ríkið ætlar sér einnig að nýta sér betur sam­eig­in­leg inn­kaup til að draga úr útgjöldum þótt ekk­ert sé sagt um hvernig sú nýt­ing eigi að vera, og leggja áherslu á næstu árum á verk­efni sem „stuðla að sam­hæfðri stýr­ingu ferða­mála, áreið­an­legri gagna­öflun og rann­sókn­um, nátt­úru­vernd, auk­inni arð­semi grein­ar­inn­ar, dreif­ingu ferða­manna um land allt og skyn­sam­legri gjald­töku t.d. með bíla­stæða­gjöld­um.“

Benedikt Jóhannesson, nú formaður Viðreisnar, talaði á fjöldafundum sem haldnir voru á Austurvelli til að mótmæla ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að halda ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um áfrahald viðræðna við Evrópusambandið.

Skatta­skjóls­mál hafa verið mikið til umræðu und­an­farna daga í kjöl­far þess að skýrsla um aflandseignir Íslend­inga var birt á föstu­dag, þremur mán­uðum eftir að hún var kynnt fyrir Bjarna Bene­dikts­syni sem fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra. Mála­flokk­ur­inn hefur raunar verið drif­kraftur í þjóð­fé­lags­um­ræð­unni allt frá því að Panama­skjölin opin­ber­uðu umfangs­miklar aflandseignir þekktra Íslend­inga, meðal ann­ars stjórn­mála­manna, og leiddi til afsagnar Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar og boð­unar kosn­inga fyrr en til stóð. Ekki er mikið fjallað um þessi mál í stefnu­yf­ir­lýs­ing­unni og engar aðgerðir kynnt­ar, t.d. til að end­ur­heimta fé sem skotið hefur verið undan skatti, sem áætlað hefur verið að hlaupi á tugum millj­arða króna. Í yfir­lýs­ing­unni segir ein­ung­is: „Mark­visst verður unnið gegn skatt­und­anskot­um, þar með talið í skatta­skjól­u­m.“

....Og blessuð Evr­ópu­málin

Ein heitasta kartaflan í stjórn­ar­sam­starfi flokk­anna þriggja eru Evr­ópu­mál. Við­reisn var bein­línis stofnuð utan um Evr­ópu­mál í kjöl­far þess að rík­is­stjórn Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæð­is­flokks dró aðild­ar­um­sókn Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu til baka í febr­úar 2014. Uppi­staðan í flokknum eru fyrr­ver­andi með­limir í Sjálf­stæð­is­flokknum sem töldu að Bjarni Bene­dikts­son hefði svikið lof­orð við þá um að halda þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu áður en að umsóknin yrði dregin til baka. Bjarni bar fyrir sig að slíkt hefði verið „póli­tískur ómögu­leik­i“. Björt fram­tíð hefur sömu­leiðis lagt mikla áherslu á að kosið verði um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, en flokk­ur­inn er fylgj­andi inn­göngu.

Í stefnu­yf­ir­lýs­ing­unni eru Evr­ópu­málin afgreidd með þeim hætti að Alþingi muni taka afstöðu til þess hvort kosið verði eður ei um áfram­hald­andi við­ræð­ur. Þar segir enn fremur að „stjórn­ar­flokk­arnir [eru] sam­mála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjör­tíma­bils­ins. Stjórn­ar­flokk­arnir kunna að hafa ólíka afstöðu til máls­ins og virða það hver við ann­an.“ Það er því stað­fest í stjórn­ar­sátt­mála að allir flokk­arnir þrír eru sam­mála um að geyma atkvæða­greiðslu um þings­á­lykt­un­ar­til­lögu um þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu um aðild­ar­við­ræður að Evr­ópu­sam­band­inu til loka kjör­tíma­bils­ins, jafn­vel þótt hún myndi verða lögð fram á fyrsta starfs­degi Alþingis þann 24. jan­ú­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar