Ekki reyndist áreynslulaust að mynda nýja ríkisstjórn. Það á ekki einungis við um allar þær stjórnarmyndunarviðræður sem búið er að reyna, heldur líka um þau átök sem hafa átt sér stað innan stjórnmálaflokka um hvernig sé best að vinna úr niðurstöðum kosninganna, til hvaða flokka eigi að leita um samstarf og hvaða einstaklingar eigi að fá brautargengi í valdastóla gangi slíkt samstarf eftir.
Innan Vinstri grænna voru til að mynda mjög skiptar skoðanir um hvort flokkurinn ætti að opna á mögulegt stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk. Þegar stjórn Bjartrar framtíðar kaus um stjórnarsáttmála fyrstu ríkisstjórnar sem flokkurinn hefur átt aðild að höfnuðu 18 af 69 stjórnarmönnum honum, flestir vegna þess að þeir voru andsnúnir því að Bjarni Benediktsson yrði forsætisráðherra í ljósi tafa á birtingu skýrslu um aflandseignir Íslendinga og því að hann hafði sagt ósatt um málið. Og innan Viðreisnar vildu ýmsir sjá flokkinn fylgja eftir jafnréttisáherslum sínum með því að gera tvær konur að ráðherrum.
En mestu brestirnir eru líkast til innan Sjálfstæðisflokks, þótt Bjarna hafi tekist að fá nánast allan þingflokkinn til að fylgja sinni línu. Þeir brestir sjást meðal annars á opinberri óánægju oddvita flokksins í Suðurkjördæmi vegna þess að hann fékk ekki ráðherraembætti og í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins, þar sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins ræður ríkjum.
Ekkert fjallað um ríkisstjórnina daginn eftir
Það vakti athygli á miðvikudag að ekkert var fjallað um nýja ríkisstjórn sem mynduð var daginn áður, né stjórnarsáttmála hennar, í leiðara Morgunblaðsins. Blaðið hefur lengi verið mjög halt undir Sjálfstæðisflokkinn, sem leiðir nýja ríkisstjórn, og núverandi ritstjóri þess er Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður flokksins.
Ljóst hefur verið á ritstjórnarskrifum blaðsins, og í sumum tilvikum fréttaflutningi, að lítil áhugi hefur verið á að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ríkisstjórn með Viðreisn. Þar kom fram skýr vilji til að flokkurinn myndi vinna með Framsóknarflokknum og/eða Vinstri grænum, sem hafa íhaldssamari skoðanir um breytingar á elstu atvinnukerfum landsins – landbúnaði og sjávarútvegi – og eru á móti aðild að Evrópusambandinu. Þetta eru lykilmál í hugum helstu eigenda og stjórnenda Morgunblaðsins, líkt og kom fram í viðtali við Óskar Magnússon, fyrrverandi útgefanda blaðsins, á Hringbraut í desember síðastliðnum. Þar sagði Óskar að eigendur blaðsins, en 96 prósent eignarhlutur er í eigu aðila með bein tengsl við útgerðarfyrirtæki, hafi viljað fá „öðruvísi tök á í þjóðfélaginu“ á þremur málum. „Það var Icesave fyrst og fremst, ESB og svo sjávarútvegsmál. Við vitum árangurinn af Icesave og ég þakka það Morgunblaðinu mjög. Við vitum hvar ESB er statt, sjávarútvegsmálin eru enn í óvissu og uppnámi og það þarf auðvitað að finna á þeim einhvern svona sæmilega sáttflöt við þjóðina.“
Í byrjun árs, þegar Bjarni Benediktsson hafði fengið stjórnarmyndunarumboð til að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Viðreisn og Bjarta framtíð skrifaði Davíð, leiðara þar sem vísað var í skrif Andríkis um Evrópusinna sem haldið höfðu Sjálfstæðisflokknum í gíslingu árum saman, „rufu samninga, auglýstu gegn flokknum, grófu undan honum og klufu hann loks skömmu fyrir þingkosningar. Að launum vilja þeir stjórnarsamstarf og ráðherrasæti.“ Augljóst var að þar var átt við Viðreisn, sem stofnuð var af hópi fólks sem áður starfaði innan Sjálfstæðisflokksins en var fylgjandi aðild að Evrópusambandinu.“ Síðan er varað við því að þjóðin fái að kjósa um Evrópusambandið, að Mjólkursamsalan verði sett undir samkeppnislög, að tollar verði lækkaðir á hvítt kjöt og að kvóti verði seldur á uppboði, en allt eru þetta stefnumál sem Viðreisn og Björt framtíð hafa barist fyrir. Í lok leiðarans sagði: „Nokkrir þingmenn stóðu í lappirnar á sínum tíma og neituðu að taka þátt í feigðarflani um Icesave, sem liggur enn eins og mara á flokknum. Ólíklegt er að allir þingmenn flokksins muni skrifa undir samstarf af því tagi sem glitti í á fréttasíðum gærdagsins. Slík stjórn hefði aðeins eins þingsætis meirihluta. Þegar rótin að samstarfi hefur ekki annað hald en gömul svik og ný tortryggnismál er eins atkvæðis meirihluti miklu minna en ekki neitt.“
Fimm urðu sex
Þrátt fyrir þetta var ríkisstjórnin mynduð og stjórnarsáttmáli samþykktur. Á mánudagskvöld var haldinn flokksráðsfundur hjá Sjálfstæðisflokki og þar var kynnt að ráðherrar flokksins yrðu fimm talsins. Við blasti að auk Bjarna Benediktssonar yrðu Kristján Þór Júlíusson og Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherrar auk þess sem Ólöf Nordal yrði sjálfgefið í ráðherraembætti ef hún hefði starfsorku til, en hún hefur verið að glíma við veikindi.
Daginn eftir, á miðvikudag, hafði ráðherrunum hins vegar verið fjölgað í sex. Samkvæmt viðmælendum Kjarnans var ekki vitneskja um þau áform á meðal lykilmanna innan verðandi samstarfsflokka, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, að til stæði að fjölga ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og setja tvo ráðherra í það sem áður var innanríkisráðuneytisins.
Ástæður þess að ráðherrarnir urðu fleiri voru nokkrar. Í fyrsta lagi varð ljóst að Ólöf Nordal treystir sér ekki sem stendur í ráðherraembætti og vandaðist þá enn val Bjarna á konum til að sitja í ríkisstjórn hans. Ólöf var eina konan sem leiddi kjördæmi í síðustu kosningum og einungis þriðjungur þingflokksins eru konur. Mikið hafði verið rætt um að leitað yrði út fyrir þingflokkinn eftir konu, og voru nefnd Svanhildar Hólm Valsdóttur og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur nefnd.
Í öðru lagi þurfti að gæta að jafnvægi á milli kjördæma í skipan helstu valdaembætta sem féllu flokknum í skaut, en auk ráðherrastóla fékk Sjálfstæðisflokkurinn embætti forseta Alþingis í sinn hlut.
Í þriðja lagi er pólitík innan flokka á sama hátt og slík á sér stað milli flokka. Sumir þingmenn eru nánari samstarfsmenn formanns flokksins en aðrir og því fer fjarri að allir þingmennirnir fylgi þeirri línu sem Bjarni leggur í blindni. Allt ofangreint er talið hafa spilað inn í ráðherraval Bjarna.
Pólitíkin í ráðherraskipan flokksins
Með því að skipa Sigríði Andersen í ríkisstjórn þá Bjarni leysti tvö möguleg vandamál. Sigríður hefur sýnt að hún er mjög fylgin sannfæringu sinni og sú sannfæring er á stundum mun róttækari en sú stefna sem flokkur hennar rekur. Hún greiddi til að mynda atkvæði gegn búvörusamningunum á Alþingi í september, ein þingmanna Sjálfstæðisflokks, þrátt fyrir að formaður hennar hafi verið annar þeirra sem undirrituðu þá fyrir hönd ríkisins og að ríkisstjórn sem flokkur hennar sat í hafi staðið fyrir afgreiðslu málsins. Það verður flóknara fyrir Sigríði að spila slíka einleiki sem hluti af ríkisstjórn. Svo er hún auðvitað kona.
Sigríður átti ekki tilkall til ráðherraembættis að mati margra innan flokksins. Hún lenti í fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Reykjavík fyrir síðustu kosningar og skipaði þriðja sæti á framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi Suður. Hún hafði sóst eftir því að leiða annað hvort Reykjavíkurkjördæmið.
Val á ráðherrum flokksins braut ýmsar venjur sem tíðkast hafa í Sjálfstæðisflokknum, meðal annars þess tillits sem tekið hefur verið til að fulltrúar allra kjördæma fái valdaembætti. Bjarni ákvað að skipa Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, sem skipaði annað sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi, í ráðherraembætti. Hún hefur umtalsverða reynslu af stjórnmálastarfi þrátt fyrir ungan aldur, en Þórdís Kolbrún var framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokks áður en að hún gerðist aðstoðarmaður Ólafar Nordal. Fyrir liggur þó að gengið var fram hjá oddvita þess kjördæmis, Haraldi Benediktssyni, meðal annars vegna kynjasjónarmiða. Haraldur staðfesti það sjálfur í viðtali við Morgunblaðið á miðvikudag þar sem hann sagði skipan hennar hafa verið sameiginlega hugmynd hans og Bjarna því hann vissi að formaður flokksins væri í vandræðum vegna kynjahalla. Kristján Þór Júlíusson var síðan alltaf öruggur með ráðherrastól.
Guðlaugur Þór Þórðarson hefur mjög sterka stöðu innan Sjálfstæðisflokks, sérstaklega í grasrótarstarfi flokksins og innan ákveðinna hverfisfélaga. Auk þess leiddi hann annað Reykjavíkurkjördæmið og gerði skýrt tilkall til ráðherraembættis. Órói hefði skapast í kreðsum innan flokksins ef gengið yrði fram hjá Guðlaugi Þór annað kjörtímabilið í röð.
Það val sem kom mest á óvart, samhliða valinu á Þórdísi Kolbrúnu, var á Jóni Gunnarssyni. Jón sat í þriðja sæti á lista Sjálfstæðismanna í Kraganum, kjördæmi Bjarna, og er náinn samstarfsmaður formannsins. Með því að hafa Jón í ríkisstjórn þá styrkir Bjarni stöðu sína innan hennar. Það skiptir máli í ljósi þess að flokkarnir sem í henni sitja hafa einungis eins manns meirihluta á þingi.
Skipan hans leiddi hins vegar til þess að Suðurkjördæmi, þar sem flokkurinn fékk fjögur af tíu þingsætum og vann mikinn kosningasigur, var án ráðherra. Bjarni leysti það með því að gera Unni Brá Konráðsdóttur, sem hafði verið færð upp í fjórða og síðasta sætið sem gaf þingsæti á lista Sjálfstæðismanna eftir að Ragnheiður Elín Árnadóttir hætti við framboð, að forseta Alþingis. Þannig gat hann rökstutt tillitsemi við kjördæmið og jafnræði kynja í ljósi þess að fjórir ráðherrar Sjálfstæðisflokks eru karlar en tveir konur.
Páll opinberar óánægju
Efsti maður á lista flokksins, Páll Magnússon, sá þetta ekki alveg sömu augum. Viðmælendur Kjarnans segja að hann sé fokillur vegna þess að gengið hafi verið framhjá honum. Hann setti stöðuuppfærslu á Facebook á miðvikudag þar sem hann sagði tvær ástæður fyrir því að ómögulegt hafi verið að styðja ráðherraskipanina. Önnur væri sú að skipanin gangi í veigamiklum atriðum gegn því lýðræðislega umboði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áunnið sér í prófkjörum og síðan í kosningunum í haust. Í öðru lagi fæli hún í sér „lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann sinn stærsta sigur í kosningunum.“
En af hverju gekk Bjarni fram hjá Páli? Hann hefði til dæmis mjög auðveldlega getað skipað hann í ríkisstjórn í stað Jóns Gunnarssonar með mjög skýrum rökum. Augljósasta ástæðan er sú að Páll er með öllu reynslulaus í stjórnmálum. Hann hóf einungis stjórnmálaþátttöku sína í aðdraganda prófkjörs í fyrra, en hafði þar áður starfað við fjölmiðla í áratugi.
En heimildir Kjarnans herma líka að heiftúðleg gagnrýni Páls á Illuga Gunnarsson, fráfarandi mennta- og menningarmálaráðherra, á opinberum vettvangi á undanförnum árum skipti þar líka máli. Illugi og Bjarni hafa verið mjög nánir samstarfsmenn.
Opinberar deilur Illuga og Páls hófust þegar Páll hætti sem útvarpsstjóri RÚV í desember 2013 þar sem hann taldi sig ekki njóta trausts stjórnar fyrirtækisins. Þá hafði stjórnin (Illugi var ráðherra málaflokksins) ákveðið að auglýsa starf hans til umsóknar. Þegar Orku Energy-málið kom upp – en það reyndist Illuga mjög pólitískt erfitt – gagnrýndi Páll þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra harðlega í blaðagreinum og kallaði eftir afsögn hans. Í grein sem Páll skrifaði í Fréttablaðið í maí 2015 sagði hann að framganga Illuga gæti „raunar tilheyrt dæmasafni í handbók um pólitískt siðleysi[...]Ráðherra getur ekki notað stöðu sína sem slíkur til að greiða fyrir viðskiptahagsmunum einstaklings eða fyrirtækis sem skömmu áður hefur rétt honum fjárhagslega, persónulega, hjálparhönd. Þetta hlýtur að vera öllum ljóst, jafnvel á Íslandi. Á Vesturlöndum víkur slíkur ráðherra.“
Í október sama ár skrifaði Páll aðra grein í sama blað. Þar kallaði hann aftur eftir afsögn Illuga og sagði: „Nú er liðið eitt sumar síðan upplýst var að menntamálaráðherra bað um og fékk persónulegan fjárstuðning frá aðila sem hann síðan veitti pólitíska fyrirgreiðslu vegna viðskiptahagsmuna í Kína. Pólitísk spilling verður ekki augljósari en þetta.“
Þessi framganga Páls er ekki gleymd innan Sjálfstæðisflokksins og margir stuðningsmenn Illuga hafa ekki fyrirgefið hana.
Sagði sáttmálann „frauðkenndan“
Morgunblaðið tjáði sig loks um stjórnarsáttmálann í leiðara í gærmorgun. Þar segir Davíð Oddsson að sáttmálinn sé frauðkenndur, margorður og segi oftast fátt „rétt eins og Dagur B. Eggertsson hefði gert uppkastið og lesið próförk.“
Fram komi í honum að ríkisstjórnin ætli að halda áfram tilburðum „vinstristjórnarinnar gegn íslensku stjórnarskránni“. Sú ákvörðun að skylda öll fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn til að taka upp jafnlaunavottun er harðlega gagnrýnd og tilvist kynbundins launamunar raunar yfir höfuð dregin í efa. Hnýtt er fast í þau ákvæði sáttmálans sem snúa að innflytjendamálum og segir forsögn um skattamál ekki lofa góðu. Samandregið virðast stjórnendur Morgunblaðsins alls ekki ánægðir með þá ríkisstjórn sem mynduð hefur verið né þann stjórnarsáttmála sem undirritaður var á þriðjudag, þrátt fyrir að um sé að ræða ríkisstjórn undir forsæti formanns Sjálfstæðisflokksins. Það eru nýmæli.