Birgir Þór Harðarson

Fordæmalausar óvinsældir nýrrar ríkisstjórnar

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar nýtur einungis stuðnings 35 prósent landsmanna. Síðustu áratugi hafa nýjar ríkisstjórnir alltaf notið stuðnings rúmlega helmings kjósenda hið minnsta á fyrstu starfsdögum sínum.

Ný rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar byrjar setu sína með vind­inn í fang­ið. Tvær kann­anir sem birtar voru í lið­inni viku sýna að ánægja með, og stuðn­ingur við, hana er ekki mik­ill. Í könnun Mask­ínu sögð­ust ein­ungis fjórð­ungur aðspurðra vera ánægður með rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks, Við­reisnar og Bjartrar fram­tíð­ar. Í könnun MMR, þar sem stuðn­ingur við rík­is­stjórn­ina var kann­aður í fyrsta sinn frá því að hún var mynd­uð, mæld­ist hann ein­ungis 35 pró­sent.

Það er sama hlut­fall og studdi rík­is­stjórn Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæð­is­flokks í síð­ustu könnun sem MMR gerði fyrir kosn­ing­arnar í októ­ber síð­ast­liðn­um. Rík­is­stjórn sem hafði gengið í gengum for­dæma­laus hneyksl­is­mál, afsögn for­sæt­is­ráð­herra og log­andi inn­an­flokks­deilur innan Fram­sókn­ar­flokks­ins. Rík­is­stjórn sem kol­féll í síð­ustu kosn­ingum og tap­aði níu þing­mönn­um.

Raunar hefur engin rík­is­stjórn kom­ist nærri því að mæl­ast með svona lít­inn stuðn­ing í sinni fyrstu mæl­ingu eftir að hafa tekið við síð­ast­liðin 20 ár hið minnsta.

61-83 pró­sent studdu nýjar rík­is­stjórnir

MMR birtir ein­ungis tölur á heima­síðu sinni sem sýna stuðn­ing við rík­is­stjórnir aftur til þess þegar rík­is­stjórn Jóhönnu Sig­urð­ar­dóttur tók við snemma árs 2009. Gallup hefur hins vegar mælt stuðn­ing við rík­is­stjórnir mun leng­ur. Þótt aðferð­ar­fræði fyr­ir­tækj­anna tveggja sé ekki nákvæm­lega sú sama þá skeikar ekki miklu á nið­ur­stöðum þeirra þegar bæði hafa mælt stuðn­ing á svip­uðum tíma.

Gallup á mæl­ingar á stuðn­ingi ára­tugi aftur í tím­ann. Í gögnum fyr­ir­tæk­is­ins er til að mynda hægt að finna upp­lýs­ingar um að rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks, þar sem Davíð Odds­son var for­sæt­is­ráð­herra, hafi mælst með stuðn­ing um 74 pró­sent kjós­enda skömmu eftir Alþing­is­kosn­ing­arnar 1995. Fjórum árum síð­ar, þegar flokk­arnir tveir end­ur­nýj­uðu stjórn­ar­sam­starf sitt á ný undir for­sætis Dav­íðs, mæld­ist stuðn­ing­ur­inn aftur um 74 pró­sent.

Í þing­kosn­ing­unum 2003 tap­aði rík­is­stjórnin fjórum þing­mönnum og tæp­lega átta pró­sent af sam­eig­in­legu fylgi sínu. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn héldu samt sem áður áfram sam­starfi sínu og stuðn­ingur við þá rík­is­stjórn mæld­ist 61 pró­sent í fyrstu mæl­ingu eftir að hún tók við.

Fjórum árum síðar tók hins vegar nýtt fólk við kefl­inu og ann­ars konar sam­starf varð til. Ingi­björg Sól­rún Gísla­dóttir og Geir H. Haarde leiddu turn­anna tvo í íslenskum stjórn­mál­um, Sam­fylk­ingu og Sjálf­stæð­is­flokk, saman í sterka rík­is­stjórn. Árið var 2007 og góð­ærið stóð sem hæst. Smjör virt­ist drjúpa af hverju strái og íslensk fjár­mála­starf­semi virt­ist vera í slíkum blóma að fram undan væri stans­laus efna­hags­vöxt­ur. Stuðn­ingur við hana mæld­ist for­dæma­laust mik­ill í júní 2007, mán­uði eftir að hún tók við völd­um. Alls sögð­ust 83 pró­sent aðspurðra styðja rík­is­stjórn­ina.

Sterk staða vinstri stjórn­ar­innar í byrjun

Næsta rík­is­stjórn, sem leidd var af Jóhönnu Sig­urð­ar­dótt­ur, tók við völdum við ansi breyttar aðstæð­ur. Banka­kerfi lands­ins hafði hrunið og gjald­mið­ill­inn með. Þús­undir starfa höfðu horf­ið, lífs­gæði lands­manna höfðu dreg­ist stór­kost­lega saman og raun­veru­leg óvissa var uppi um hvort að Ísland gæti staðið við skuld­bind­ingar sínar eða ekki. Áður óþekkt mót­mæli, hin svo­kallað bús­á­hald­ar­bylt­ing, hafði leitt til þess að Sam­fylk­ingin og Vinstri græn mynd­uðu minni­hluta­stjórn með stuðn­ingi Fram­sókn­ar­flokks sem sat í nokkra mán­uði fram að kosn­ing­um. Þegar minni­hluta­stjórnin tók við mæld­ist stuðn­ingur við hana 65 pró­sent. Eftir kosn­ing­arnar í apríl 2009 mæld­ist hann 61 pró­sent.

Icesave-málið setti mark sitt á stjórnartíð vinstri stjórnarinnar, og hafði mjög neikvæð áhrif á stuðning við ríkisstjórnina.

Rík­is­stjórn Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar tók svo við völdum vorið 2013. Í fyrstu stuðn­ings­mæl­ingu Gallup mæld­ist stuðn­ingur við hana 62,4 pró­sent.

Stuðn­ings­kann­anir MMR voru ekki langt frá því sem fram kom í könn­unum Gallup. Þar mæld­ist stuðn­ingur við rík­is­stjórn Jóhönnu 56,1 pró­sent í fyrstu mæl­ingu og stuðn­ingur við rík­is­stjórn Sig­mundar Dav­íðs 59,9 pró­sent þegar hann var fyrst mældur í byrjun júní 2013.

Því hafa allar rík­is­stjórnir síð­ustu rúm­lega 20 ára byrjað sinn feril með því að vera með stuðn­ing tæp­lega 60 pró­sent þjóð­ar­innar hið minnsta og allar höfðu þær skýran meiri­hluta­stuðn­ing að baki sér. Þ.e. þar til að rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar sem tók við völdum fyrr í þessum mán­uði. Hún mælist með ein­ungis 35 pró­sent stuðn­ing í fyrstu mæl­ingu, eða rétt rúm­lega þriðj­ungs þjóð­ar­inn­ar.

Stuðn­ingur við nýju stjórn­ina ekki langt frá lág­punktum síð­ustu stjórna

Það er athygl­is­vert að stuðn­ingur við hana er sá sami og mæld­ist við rík­is­stjórn Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæð­is­flokks í síð­ustu könnun MMR fyrir kosn­ing­arnar í októ­ber 2016. Rík­is­stjórnar sem kol­féll í þeim kosn­ing­um.

Hinn litli stuðn­ingur við rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks, Við­reisnar og Bjartrar fram­tíðar er í raun ekki mikið meiri en sá stuðn­ingur sem síð­ustu rík­is­stjórnir hafa mælst með þegar þær hafa verið sem óvin­sælast­ar.

Mótmælin sem áttu sér stað í kjölfar Wintris-málsins eru þau fjölmennustu í Íslandssögunni.
mynd: Birgir Þór Harðarson

Í könn­unum Gallup á stuðn­ingi við rík­is­stjórn hvers tíma má t.d. sjá að stuðn­ingur við rík­is­stjórn Geirs H. Haarde náði lág­punkti í jan­úar 2009, þegar Bús­á­hald­ar­bylt­ingin stóð sem hæst og hrunið hafði nýlega riðið yfir. Þá mæld­ist stuðn­ingur við hana ein­ungis 26 pró­sent. Rík­is­stjórn Jóhönnu Sig­urð­ar­dóttur fór í gegnum marga erf­iða dali, m.a. Ices­ave þjóð­ar­at­kvæða­greiðsl­urn­ar. Í kjöl­far seinni atkvæða­greiðsl­unn­ar, sem fór fram í apríl 2011, mæld­ist stuðn­ingur við rík­is­stjórn­ina 36 pró­sent hjá Gallup en 30,8 pró­sent hjá MMR. Lægst fór hann í 28,4 pró­sent í mars 2012 hjá Gallup en hækk­aði lít­il­lega á loka­metrum líf­tíma henn­ar, þegar hún var í reynd orðin minni­hluta­stjórn sem log­aði í inn­an­mein­um, og naut stuðn­ings 34 pró­sent kjós­enda skömmu fyrir kosn­ing­arnar vorið 2013 í könn­unum fyr­ir­tæk­is­ins. Hjá MMR náð­ist botn­inn í októ­ber 2010 þegar ein­ungis 22,8 pró­sent aðspurðra sögð­ust styðja rík­is­stjórn­ina sem hafði verið kjörin til valda einu og hálfu ári áður. Þá var Ices­a­ve-­málið í algleym­ingi. Stuðn­ingur við rík­is­stjórn Jóhönnu mæld­ist 32,1 pró­sent hjá MMR í aðdrag­anda kosn­ing­anna 2013.

Eins og við var að búast mæld­ist stuðn­ingur við rík­is­stjórn Sig­mundar Dav­íðs minnstur í kringum Wintris-­mál­ið. Hjá MMR fór hann niður í 26 pró­sent í byrjun apríl 2016 og lægsti vin­sæld­ar­punktur hennar í könn­unum Gallup var 30,9 pró­sent í maí sama ár. Stuðn­ingur við rík­is­stjórn Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæð­is­flokks end­aði í 35 pró­sentum hjá MMR og 37,3 pró­sent hjá Gallup.

Byrj­un­ar­punktur rík­is­stjórnar Bjarna Bene­dikts­sonar er því sam­bæri­legur enda­punkti síð­ustu rík­is­stjórnar þegar horft er til stuðn­ings. Rík­is­stjórnar sem kol­féll í kosn­ing­unum í októ­ber 2016.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar