Ef Landsbankinn hefði haldið 31,2 prósent eignarhlut sínum í Borgun, í stað þess að selja hann haustið 2014, væri virði hlutarins að minnsta kosti um 5,9 milljarða króna virði, samkvæmt síðasta verðmati sem gert var á hlutnum. Auk þess hefði bankinn fengið rúmlega 2,4 milljarða króna greidda í arð. Samanlagt hefði hluturinn því getað skilað bankanum að minnsta kosti 8,3 milljörðum króna ef hann hefði verið seldur nú og Landsbankinn notið síðustu þriggja arðgreiðslna sem greiddar hafa verið út úr Borgun.
Þess í stað var hluturinn seldur á 2,2 milljarða króna í nóvember 2014, á bakvið luktar dyr til hóps einkafjárfesta sem hafa ávaxtað pund sitt ævintýralega á einungis tveimur og hálfu ári. Landsbankinn hefur því orðið af rúmlega sex milljörðum króna vegna sölunnar.
Lokað ferli
Þegar Landsbankinn seldi Borgun var kaupandinn Eignarhaldsfélagið Borgun. Kaupin áttu sér þann aðdraganda að maður að nafni Magnús Magnússon, með heimilisfesti á Möltu, setti sig í samband við ríkisbankann og falaðist eftir eignarhlutnum fyrir hönd fjárfesta. Á meðal þeirra sem stóðu að kaupendahópnum voru stjórnendur Borgunar.
Hópurinn fékk að kaupa 31,2 prósent hlutinn á tæplega 2,2 milljarða króna án þess að hann væri settur í opið söluferli. Í fyrstu vörðu stjórnendur Landsbankans söluna og það að hluturinn hafi ekki verið boðinn út í opnu söluferli. Það breyttist þó fljótlega, sérstaklega þegar í ljós kom að á meðal eigna Borgunar var hlutur í Vísa Europe, sem var keyptur af Visa Inc. skömmu síðar. Þessi eignarhlutur var marga milljarða króna virði en hafði ekki verið metin þannig við söluna á eignarhlut Landsbankans.
Enn fremur var ekki gerður neinn fyrirvari í kaupsamningnum um viðbótargreiðslur vegna valréttar Borgunar vegna mögulegrar sölu Visa Europe til Visa Inc.
Þrír stærstu aðilarnir sem stóðu að Eignarhaldsfélaginu Borgun voru gamla útgerðarfyrirtækið Stálskip, félagið P126 ehf. (eigandi er félag í Lúxemborg og eigandi þess er Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra) og félagið Pétur Stefánsson ehf. (Í eigu Péturs Stefánssonar). Einhver viðskipti hafa síðan verið með hluti í Borgun frá því að Landsbankinn seldi sinn hlut.
Ofangreind þrjú félög eiga þó enn í dag Eignarhaldsfélagið Borgun sem á enn 30,9 prósent hlut í greiðslukortafyrirtækinu Borgun. Þetta er því þeir aðilar sem hafa hagnast mest á kaupunum á hlut ríkisbankans í Borgun.
Stjórnendur og starfsmenn Borgunar seldu hluta af eign sinni til Eignarhaldsfélagsins Borgunar í ágúst 2015, á verði sem er langt undir virði fyrirtækisins í dag. Félag stjórnenda og starfsmanna Borgunar, BPS ehf., á í dag 3,5 prósent hlut í Borgun.
Mjög góður rekstur
Rekstur Borgunar hefur gengið ótrúlega vel á undanförnum árum. Hagnaður ársins af reglulegri starfsemi var undir einum milljarði króna árið 2013. Í fyrra var hann rúmlega 1,6 milljarðar króna. En hlutdeildin í sölunni á Visa Europe skiptir auðvitað mestu máli þegar virðisaukning fyrirtækisins er metin. Sá lottóvinningur skilaði Borgun 6,2 milljörðum króna. Þrátt fyrir hana hefur virði Borgunar samt sem áður aukist umtalsvert.
Nýju eigendurnir hafa heldur betur notið þessa. Samtals verða greiddir 7,7 milljarðar króna í arðgreiðslur til eigenda Borgunar vegna síðustu þriggja ára.
Ef Landsbankinn, sem er nánast að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, hefði haldið 31,2 prósent hlut sínum í fyrirtækinu hefði hlutdeild hans í umræddum arðgreiðslum numið 2,4 milljörðum króna.
Í ljósi þess að hlutur Landsbankans var seldur í nóvember 2014 fyrir 2.184 milljónir króna hafa arðgreiðslurnar sem runnið hafa til nýrra eigenda að hlutnum frá því að hann var seldur verið 218 milljónir króna fram yfir það sem greitt var fyrir hlut ríkisbankans haustið 2014. Þeir eru búnir að fá allt sitt til baka auk 218 milljóna króna og eiga enn hlutinn í Borgun. Virði hans hefur einnig hækkað mikið.
Eignarhluturinn hækkað mikið í verði
Borgun er ekki skráð á markað og því ekkert opinbert markaðsvirði til fyrir fyrirtækið. Stjórn Borgunar lét hins vegar vinna verðmat á fyrirtækinu fyrir rúmu ári síðan. KPMG vann það mat og komst að þeirri niðurstöðu að virði fyrirtækisins væri 19 til 26 milljarðar króna.
Í umfjöllun Morgunblaðsins, sem greindi frá matinu, sagði að efri mörk verðmatsins tækju fullt tillit til þeirra áhrifa sem KPMG taldi að salan á Visa Europe myndi hafa á tekjur Borgunar. Ef miðað er við neðstu mörk matsins, þar sem ekki er tekið tillit til áhrifa af sölunni á Visa Europe, er virði þess hlutar sem Landsbankinn seldi í Borgun 5,9 milljarðar króna. Ef horft er á efri mörk matsins er virði hlutarins 8,1 milljarður króna.
Borgun hefur ekki birt ársreikning fyrir árið 2016 og því hefur ekki verið gert opinbert hver eiginfjárstaða fyrirtækisins er. Í árslok 2015 var eigin fé Borgunar hins vegar bókfært 10,6 milljarðar króna. Þar munaði mestu um fjáreignir sem færðar voru til sölu á gangvirði – en þar var átt við hlutdeild Borgunar í sölunni á Visa Europe – sem bókfærðar voru á 5,4 milljarða króna. Ef sú eign var dregin frá eigin fé fyrirtækisins var það 5,2 milljarðar króna.
Í tilkynningu sem stjórn Borgunar sendi frá sér nýverið kom fram að salan á Visa Europe hafi á endanum skilað fyrirtækinu enn hærri upphæð en bókfærð var í ársreikningi 2015, eða 6,2 milljörðum króna. Til viðbótar hagnaðist fyrirtækið um 1,6 milljarða króna af reglulegri starfsemi en greiddi tæplega 2,2 milljarða króna í arð til eigenda sinna vegna frammistöðu ársins 2015. Því má ætla að bókfært eigið fé fyrir arðgreiðslu vegna ársins 2016 hafi verið hærra en það var í árslok 2015. Þegar búið er að gera ráð fyrir útgreiðslu arðs vegna síðasta árs sé eigið féð að minnsta kosti rúmlega sex milljarðar króna.
Fjárfestar styðjast meðal annars við svokallað V/I hlutfall (e. Price to book ratio) þegar þeir meta fjárfestingar. Til að finna það út er markaðsvirði félags deilt í eigið fé þess.
Til að markaðsvirði Borgunar sé í neðri mörkum þess verðmats sem KPMG gerði fyrir ári síðan, þegar búið er að taka ágóðann vegna sölu á Visa Europe út, þarf V/I hlutfallið að vera tæplega 3,2.
Í Bandaríkjunum eru þrjú stærstu greiðslukortafyrirtækin – Visa, Mastercard og American Express – öll skráð á markað. Þau upplýsa því öll um helstu atriði í sínum rekstri í samræmi við tilkynningarskyldu markaðarins. Sem stendur er V/I hlutfallið, þ.e. markaðsvirði deilt í eigið fé, hjá Visa 7,8, hjá Mastercard er það 20,85 og hjá American Express er það 3,4.
Annar mælikvarði til að meta virði fjárfestinga er svokallað V/H hlutfall (e. Price Earnings Ratio). Hlutfallið segir til um hversu langan tíma það tekur að greiða upp núverandi markaðsvirði félagsins sem verið er að kaupa miðað við óbreyttan hagnað þess. Ef miðað er við lægri mörk síðasta birta verðmats á Borgun er V/H hlutfall fyrirtækisins tæplega 12. Til samanburðar má nefna að nefna að V/H hlutfall skráðra greiðslukortafyrirtækja í Bandaríkjunum er á bilinu 13,44 til 30.
Landsbankinn reynir að sækja skaðabætur
Ríkisendurskoðun birti í fyrrahaust svarta skýrslu um eignasölu Landsbankans á undanförnum árum. Salan á hlut bankans í Borgun leikur þar aðalhlutverk. Í kjölfar birtingu skýrslunnar missti Steinþór Pálsson, sem hafði verið bankastjóri Landsbankans frá 2010, starf sitt.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að erfitt væri að meta þá fjárhæð sem Landsbankinn fór á mis við þar sem hagnaður Borgunar varð að nokkru leyti til eftir sölu eignarhlutarins. Viðmælendur Kjarnans sem þekkja til málsins segja þó að sú fjárhæð sé að minnsta kosti sú sem er rakin hér að ofan.
Bankaráð Landsbankans tilkynnti í ágúst 2016 að ákveðið hefði verið að höfða mál fyrir dómstólum vegna sölunnar á 31,2 prósent eignarhlut bankans í Borgun hf. á árinu 2014. Þann 30. desember 2016 sendi Landsbankinn frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að bankinn hefði stefnt Borgun hf., forstjóra Borgunar hf., BPS ehf. og Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. vegna sölunnar. Í tilkynningunni segir: „Málið er höfðað til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu. Það er mat bankans að hann hafi orðið af söluhagnaði við sölu á 31,2 prósent hlut sínum í Borgun hf. árið 2014. Bankinn fékk ekki upplýsingar sem stefndu bjuggu yfir um að Borgun hf. ætti hlut í Visa Europe Ltd. og réttindi sem fylgdu hlutnum, þ.á.m. mögulega hlutdeild í söluhagnaði Visa Europe Ltd. við nýtingu söluréttar í valréttarsamningi Visa Inc. og Visa Europe Ltd.“
Miðað við ofangreint verða ansi háar upphæðir undir hjá Landsbankanum, og skattgreiðendum eigendum hans, í málinu.