Mynd: Birgir Þór Harðarson

Landsbankinn varð af sex milljörðum hið minnsta

Hópurinn sem keypti hlut Landsbankans í Borgun hefur fengið rúmlega allt kaupverðið til baka á tveimur og hálfu ári. Auk þess hefur virði hlutarins nær þrefaldast. Ríkisbankinn, og þar með skattgreiðendur, hafa orðið af milljörðum króna vegna sölunnar.

Ef Lands­bank­inn hefði haldið 31,2 pró­sent eign­ar­hlut sínum í Borg­un, í stað þess að selja hann haustið 2014, væri virði hlut­ar­ins að minnsta kosti um 5,9 millj­arða króna virði, sam­kvæmt síð­asta verð­mati sem gert var á hlutn­um. Auk þess hefði bank­inn fengið rúm­lega 2,4 millj­arða króna greidda í arð. Sam­an­lagt hefði hlut­ur­inn því getað skilað bank­anum að minnsta kosti 8,3 millj­örðum króna ef hann hefði verið seldur nú og Lands­bank­inn notið síð­ustu þriggja arð­greiðslna sem greiddar hafa verið út úr Borg­un.

Þess í stað var hlut­ur­inn seldur á 2,2 millj­arða króna í nóv­em­ber 2014, á bak­við luktar dyr til hóps einka­fjár­festa sem hafa ávaxtað pund sitt ævin­týra­lega á ein­ungis tveimur og hálfu ári. Lands­bank­inn hefur því orðið af rúm­lega sex millj­örðum króna vegna söl­unn­ar.

Lokað ferli

Þegar Lands­bank­inn seldi Borgun var kaup­and­inn Eign­ar­halds­fé­lagið Borg­un. Kaupin áttu sér þann aðdrag­anda að maður að nafni Magnús Magn­ús­son, með heim­il­is­festi á Möltu, setti sig í sam­band við rík­is­bank­ann og fal­að­ist eftir eign­ar­hlutnum fyrir hönd fjár­festa. Á meðal þeirra sem stóðu að kaup­enda­hópnum voru stjórn­endur Borg­un­ar.

Hóp­ur­inn fékk að kaupa 31,2 pró­sent hlut­inn á tæp­lega 2,2 millj­arða króna án þess að hann væri settur í opið sölu­ferli. Í fyrstu vörðu stjórn­endur Lands­bank­ans söl­una og það að hlut­ur­inn hafi ekki verið boð­inn út í opnu sölu­ferli. Það breytt­ist þó fljót­lega, sér­stak­lega þegar í ljós kom að á meðal eigna Borg­unar var hlutur í Vísa Europe, sem var keyptur af Visa Inc. skömmu síð­ar. Þessi eign­ar­hlutur var marga millj­arða króna virði en hafði ekki verið metin þannig við söl­una á eign­ar­hlut Lands­bank­ans.

Enn fremur var ekki gerður neinn fyr­ir­vari í kaup­­samn­ingnum um við­­bót­­ar­greiðslur vegna val­réttar Borg­unar vegna mög­u­­legrar sölu Visa Europe til Visa Inc.

Þrír stærstu aðil­arnir sem stóðu að Eign­ar­halds­fé­lag­inu Borgun voru gamla útgerð­ar­fyr­ir­tækið Stál­skip, félagið P126 ehf. (eig­andi er félag í Lúx­em­borg og eig­andi þess er Einar Sveins­son, föð­ur­bróðir Bjarna Bene­dikts­sonar for­sæt­is­ráð­herra) og félagið Pétur Stef­áns­son ehf. (Í eigu Pét­urs Stef­áns­son­ar). Ein­hver við­skipti hafa síðan verið með hluti í Borgun frá því að Lands­bank­inn seldi sinn hlut.

Ofan­greind þrjú félög eiga þó enn í dag Eign­ar­halds­fé­lagið Borgun sem á enn 30,9 pró­sent hlut í greiðslu­korta­fyr­ir­tæk­inu Borg­un. Þetta er því þeir aðilar sem hafa hagn­ast mest á kaup­unum á hlut rík­is­bank­ans í Borg­un.

Stjórn­endur og starfs­menn Borg­unar seldu hluta af eign sinni til Eign­ar­halds­fé­lags­ins Borg­unar í ágúst 2015, á verði sem er langt undir virði fyr­ir­tæk­is­ins í dag. Félag stjórn­enda og starfs­manna Borg­un­ar, BPS ehf., á í dag 3,5 pró­sent hlut í Borg­un.

Mjög góður rekstur

Rekstur Borg­unar hefur gengið ótrú­lega vel á und­an­förnum árum. Hagn­aður árs­ins af reglu­legri starf­semi var undir einum millj­arði króna árið 2013. Í fyrra var hann rúm­lega 1,6 millj­arðar króna. En hlut­deildin í söl­unni á Visa Europe skiptir auð­vitað mestu máli þegar virð­is­aukn­ing fyr­ir­tæk­is­ins er met­in. Sá lottó­vinn­ingur skil­aði Borgun 6,2 millj­örðum króna. Þrátt fyrir hana hefur virði Borg­unar samt sem áður auk­ist umtals­vert.

Nýju eig­end­urnir hafa heldur betur notið þessa. Sam­tals verða greiddir 7,7 millj­­arðar króna í arð­greiðslur til eig­enda Borg­unar vegna síð­ustu þriggja ára.

Salan á Borgun kostaði Steinþór Pálsson á endanun starf bankastjóra Landsbankans.

Ef Lands­­bank­inn, sem er nán­­ast að öllu leyti í eigu íslenska rík­­is­ins, hefði haldið 31,2 pró­­sent hlut sínum í fyr­ir­tæk­inu hefði hlut­­deild hans í umræddum arð­greiðslum numið 2,4 millj­­örðum króna.

Í ljósi þess að hlutur Lands­bank­ans var seldur í nóv­­em­ber 2014 fyrir 2.184 millj­­ónir króna hafa arð­greiðsl­­urnar sem runnið hafa til nýrra eig­enda að hlutnum frá því að hann var seldur verið 218 millj­­ónir króna fram yfir það sem greitt var fyrir hlut rík­­is­­bank­ans haustið 2014. Þeir eru búnir að fá allt sitt til baka auk 218 millj­óna króna og eiga enn hlut­inn í Borg­un. Virði hans hefur einnig hækkað mik­ið.

Eign­ar­hlut­ur­inn hækkað mikið í verði

Borgun er ekki skráð á markað og því ekk­ert opin­bert mark­aðsvirði til fyrir fyr­ir­tæk­ið. Stjórn Borg­unar lét hins vegar vinna verð­mat á fyr­ir­tæk­inu fyrir rúmu ári síð­an. KPMG vann það mat og komst að þeirri nið­ur­stöðu að virði fyr­ir­tæk­is­ins væri 19 til 26 millj­arðar króna.

Í umfjöllun Morg­un­blaðs­ins, sem greindi frá mat­inu, sagði að efri mörk verð­mats­ins tækju fullt til­lit til þeirra áhrifa sem KPMG taldi að salan á Visa Europe myndi hafa á tekjur Borg­un­ar. Ef miðað er við neðstu mörk mats­ins, þar sem ekki er tekið til­lit til áhrifa af söl­unni á Visa Europe, er virði þess hlutar sem Lands­bank­inn seldi í Borgun 5,9 millj­arðar króna. Ef horft er á efri mörk mats­ins er virði hlut­ar­ins 8,1 millj­arður króna.

Borgun hefur ekki birt árs­reikn­ing fyrir árið 2016 og því hefur ekki verið gert opin­bert hver eig­in­fjár­staða fyr­ir­tæk­is­ins er. Í árs­lok 2015 var eigin fé Borg­unar hins vegar bók­fært 10,6 millj­arðar króna. Þar mun­aði mestu um fjár­eignir sem færðar voru til sölu á gang­virði – en þar var átt við hlut­deild Borg­unar í söl­unni á Visa Europe – sem bók­færðar voru á 5,4 millj­arða króna. Ef sú eign var dregin frá eigin fé fyr­ir­tæk­is­ins var það 5,2 millj­arðar króna.

Í til­kynn­ingu sem stjórn Borg­unar sendi frá sér nýverið kom fram að salan á Visa Europe hafi á end­anum skilað fyr­ir­tæk­inu enn hærri upp­hæð en bók­færð var í árs­reikn­ingi 2015, eða 6,2 millj­örðum króna. Til við­bótar hagn­að­ist fyr­ir­tækið um 1,6 millj­arða króna af reglu­legri starf­semi en greiddi tæp­lega 2,2 millj­arða króna í arð til eig­enda sinna vegna frammi­stöðu árs­ins 2015. Því má ætla að bók­fært eigið fé fyrir arð­greiðslu vegna árs­ins 2016 hafi verið hærra en það var í árs­lok 2015. Þegar búið er að gera ráð fyrir útgreiðslu arðs vegna síð­asta árs sé eigið féð að minnsta kosti rúm­lega sex millj­arðar króna.

Fjár­­­festar styðj­­ast meðal ann­ars við svo­­kallað V/I hlut­­fall (e. Price to book ratio) þegar þeir meta fjár­fest­ing­ar. Til að finna það út er mark­aðsvirði félags deilt í eigið fé þess.

Til að mark­aðsvirði Borg­unar sé í neðri mörkum þess verð­mats sem KPMG gerði fyrir ári síð­an, þegar búið er að taka ágóð­ann vegna sölu á Visa Europe út, þarf V/I hlut­fallið að vera tæp­lega 3,2.

Í Banda­­ríkj­unum eru þrjú stærstu greiðslu­korta­­fyr­ir­tækin – Visa, Mastercard og Amer­ican Express – öll skráð á mark­að. Þau upp­­lýsa því öll um helstu atriði í sínum rekstri í sam­ræmi við til­­kynn­ing­­ar­­skyldu mark­að­­ar­ins. Sem stendur er V/I hlut­fall­ið, þ.e. mark­aðsvirði deilt í eigið fé, hjá Visa 7,8, hjá Mastercard er það 20,85 og hjá Amer­ican Express er það 3,4.

Annar mæli­kvarði til að meta virði fjár­fest­inga er svo­­kallað V/H hlut­­fall (e. Price Earn­ings Ratio). Hlut­­fallið segir til um hversu langan tíma það tekur að greiða upp núver­andi mark­aðsvirði félags­­ins sem verið er að kaupa miðað við óbreyttan hagnað þess. Ef miðað er við lægri mörk síð­asta birta verð­mats á Borgun er V/H hlut­fall fyr­ir­tæk­is­ins tæp­lega 12. Til sam­an­burðar má nefna að nefna að V/H hlut­fall skráðra greiðslu­korta­fyr­ir­tækja í Banda­ríkj­unum er á bil­inu 13,44 til 30.

Lands­bank­inn reynir að sækja skaða­bætur

Rík­is­end­ur­skoðun birti í fyrra­haust svarta skýrslu um eigna­sölu Lands­bank­ans á und­an­förnum árum. Salan á hlut bank­ans í Borgun leikur þar aðal­hlut­verk. Í kjöl­far birt­ingu skýrsl­unnar missti Stein­þór Páls­son, sem hafði verið banka­stjóri Lands­bank­ans frá 2010, starf sitt.

Í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar kom fram að erfitt væri að meta þá fjár­hæð sem Lands­bank­inn fór á mis við þar sem hagn­aður Borg­unar varð að nokkru leyti til eftir sölu eign­ar­hlut­ar­ins. Við­mæl­endur Kjarn­ans sem þekkja til máls­ins segja þó að sú fjár­hæð sé að minnsta kosti sú sem er rakin hér að ofan.

Banka­ráð Lands­­­bank­ans til­­kynnti í ágúst 2016 að ákveðið hefði verið að höfða mál fyrir dóm­stólum vegna söl­unnar á 31,2 pró­­­sent eign­­­ar­hlut bank­ans í Borgun hf. á árinu 2014. Þann 30. des­em­ber 2016 sendi Lands­bank­inn frá sér til­kynn­ingu þar sem greint var frá því að bank­inn hefði stefnt Borgun hf., for­­stjóra Borg­unar hf., BPS ehf. og Eign­­ar­halds­­­fé­lag­inu Borgun slf. vegna söl­unn­ar. Í til­kynn­ing­unni seg­ir: „Málið er höfðað til við­­ur­­kenn­ingar á skaða­­bóta­­skyldu stefndu. Það er mat bank­ans að hann hafi orðið af sölu­hagn­aði við sölu á 31,2 pró­sent hlut sínum í Borgun hf. árið 2014. Bank­inn fékk ekki upp­­lýs­ingar sem stefndu bjuggu yfir um að Borgun hf. ætti hlut í Visa Europe Ltd. og rétt­indi sem fylgdu hlutn­um, þ.á.m. mög­u­­lega hlut­­deild í sölu­hagn­aði Visa Europe Ltd. við nýt­ingu sölu­réttar í val­rétt­­ar­­samn­ingi Visa Inc. og Visa Europe Ltd.“

Miðað við ofan­greint verða ansi háar upp­hæðir undir hjá Lands­bank­an­um, og skatt­greið­endum eig­endum hans, í mál­inu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar