Vogunarsjóðir mega eiga íslenska banka
Vogunar- og fjárfestingarsjóðir eru ekki fyrir fram útilokaðir frá því að eiga íslenskan viðskiptabanka, að sögn Fjármálaeftirlitsins. Tveir slíkir stefna að þvi að eignast beint fjórðung í Arion banka á næstunni.
Erlendir vogunarsjóðir mega eiga hlut í íslenskum viðskiptabanka svo lengi sem ákveðin skilyrði séu uppfyllt. Þetta segir í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn Kjarnans um málið. Fjórir slíkir sjóðir eru langt komnir með að kaupa 25 prósent hlut í Arion banka í lokuðu útboði. Allir sjóðirnir fjórir eru bandarískir.
Unnið er að því að fá íslenska lífeyrissjóði til að kaupa allt að fjórðungshlut í Arion banka samhliða sölunni til bandarísku vogunarsjóðanna. Að minnsta kosti tveir þeirra – Taconic Capital og Och-Ziff Capital – eru jafnframt á meðal kröfuhafa Kaupþings, sem verður seljandi á hlutnum í Arion banka. Í umfjöllun Fréttablaðsins um málið fyrr í þessari viku sagði að enginn einn þeirra verði með meira en tíu prósenta hlut í Arion banka en Taconic Capital hyggst vera með stærsta einstaka eignarhlutinn á meðal sjóðanna.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í samtali við Kjarnann í gær að hann fagni því ef Arion banki seljist á góðu verði og að eignarhald á honum verði dreift. Íslenska ríkið á 13 prósent hluti Arion banka.
Ekki fyrir fram útilokað
Kjarninn beindi fyrirspurn til Fjármálaeftirlitsins um hvort erlendir vogunar- eða fjárfestingarsjóðir á borð við þá sem nú ætla að kaupa hlut í Arion banka geti verið hæfir til að fara með virkan eignarhlut í íslenskum viðskiptabanka. Í stuttu máli var svarið já, standist þeir hæfismat. Í svari eftirlitsins segir: „Þannig eru fjárfestingarsjóðir eins og aðrir aðilar ekki fyrir fram útilokaðir frá því að uppfylla hæfiskröfur laganna. Þá má geta þess að það hversu ríkar kröfur eru gerðar til hæfis þess aðila sem hyggst eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki tekur mið af starfsemi umrædds fjármálafyrirtækis og hversu stóran eignarhlut aðili ætlar sér að eignast.“
Mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi virks eiganda grundvallast á ýmsum þáttum sem skilgreindir eru í lögum um fjármálafyrirtæki. Á meðal þeirra atriða sem tilgreind eru í lögunum og þurfa að vera í lagi eru orðspor aðilans, reynsla hans, fjárhagslegt heilbrigði, hvort ætla megi að eignarhaldið torveldi eftirlit og hvort ætla megi að það leiði til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Auk þess kemur til sérstakrar skoðunar hvort vafi leiki á því hver sé raunverulegur eigandi virks eignarhlutar.
Leynd yfir eigendum Straums
Fái vogunarsjóðir að eiga Arion banka væri það í fyrsta sinn sem slíkir ættu íslenskan viðskiptabanka með beinum hætti. Vogunarsjóðir hafa hins vegar áður fengið heimild til að fara með virkað eignarhlut í íslenskum fjármálafyrirtækjum.
Á meðal stærstu kröfuhafa Straums fjárfestingabanka eftir að hann féll var bandaríska sjóðstýringarfyrirtækið Davidson Kempner, sem rekur marga vogunar- og fjárfestingarsjóði sem hafa sérhæft sig í að fjárfesta í ríkjum sem hafa gengiðí gegnum fjármálaáföll, sérstaklega á Íslandi og í Grikklandi. Hagsmunir þess hérlendis hafa að mestu leyti farið í gegnum írskt skúffufyrirtæki, Burlington Loan Management Ltd. Írski sjóðurinn er í raun í eigu góðgerðasamtaka en hann er fjármagnaður og honum er stýrt af Davidson Kempner. Ágóðinn af starfseminni rennur auk þess allur þangað. Eignarhaldið er því til málamynda.
Á meðan að á endurskipulagningu fjárfestingabankans Straums Burðaráss, sem var tekinn yfir af skilanefnd árið 2009, stóð var nafni eignaumsýslufélagsins sem hélt utan um eftirstandandi eignir hans breytt í ALMC. Þegar nauðasamningur Straums var samþykktur var kröfum kröfuhafa, meðal annars Davidson Kempner, breytt í hlutdeildarskírteini. Útibú þýska stórbankans Deutche Bank í Hollandi hélt á 99 prósent þeirra.
Ekki var hægt að fá upplýsingar um hversu stóran hlut Davidson Kempner átti í ALMC þar sem Fjármálaeftirlitið telur sig ekki mega veita aðgang að þeim upplýsingum á grundvelli þagnarskyldu. Samt sem áður fékk Straumur fjárfestingabankaleyfi árið 2011 og stundaði víðtæka fyrirtækjaþjónustu og hafði meðal annars umsjón með hlutafjárútboðum. Bankinn sá auk þess um vörslu og umsýslu á öllum eignum SPB hf., sem áður hét Sparisjóðabanki Íslands. En landsmenn máttu samt ekki vita hverjir áttu bankann.
Árið 2014 keyptu íslenskir fjárfestar hlut ALMC í Straumi. Straumur sameinaðist síðan MP banka á árinu 2015 og sameinaður banki tók upp nafnið Kvika banki skömmu síðar.
Vogunarsjóður fékk að eiga Lýsingu
Fyrir nokkrum vikum síðan, í upphafi árs 2017, var eignarhald dótturfélags Davidson Kemper, Burlington Loan Management, á íslensku fjármálafyrirtæki aftur til umfjöllunar í fjölmiðlum. Ástæða var sú að vogunarsjóðurinn og tengdir aðilar höfðu verið metnir hæfir af Fjármálaeftirlitinu til að farra með 100 prósent virkan eignarhlut í fjármögnunarfyrirtækinu Lýsinu, sem lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Það er því ljóst að erlendir vogunarsjóðir mega eiga íslensk fjármögnunarfyrirtæki að öllu leyti, að mati Fjármálaeftirlitsins.
Í samtali við Morgunblaðið 31. janúar síðastliðinn varaði Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri eftirlitsins, þó við því að of víðtækar ályktanir væru dregnar um fordæmisgildi þeirra ákvörðunar. Stutta svarið er að ef þetta væri viðskiptabanki þá þurfa ekki endilega sömu viðmið að gilda,“ sagði Jón Þór aðspurður um fordæmisgildið.
Hann bætti við að ítarleg könnun hafi verið gerð á eignarhaldi Burlington en að það hafi verið flókið að ákvarða hver væri hinn raunverulegi eigandi félagsins. Fjármálaeftirlitið viti þóhverjir beri ábyrgð á rekstri Burlington, en það séu þrír fjárfestingarsjóðir. Upplýsingar um endanlega eigendur Lýsingar, sem er mjög stórtækt á íslenskum fjármögnunarmarkaði, eru þó ekki aðgengilegar íslenskum almenningi.