Arion banki

Vogunarsjóðir mega eiga íslenska banka

Vogunar- og fjárfestingarsjóðir eru ekki fyrir fram útilokaðir frá því að eiga íslenskan viðskiptabanka, að sögn Fjármálaeftirlitsins. Tveir slíkir stefna að þvi að eignast beint fjórðung í Arion banka á næstunni.

Erlendir vog­un­ar­sjóðir mega eiga hlut í íslenskum við­skipta­banka svo lengi sem ákveðin skil­yrði séu upp­fyllt. Þetta segir í svari Fjár­mála­eft­ir­lits­ins við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um mál­ið. Fjórir slíkir sjóðir eru langt komnir með að kaupa 25 pró­sent hlut í Arion banka í lok­uðu útboði. Allir sjóð­irnir fjórir eru banda­rísk­ir.

Unnið er að því að fá íslenska líf­eyr­is­sjóði til að kaupa allt að fjórð­ungs­hlut í Arion banka sam­hliða söl­unni til banda­rísku vog­un­ar­sjóð­anna. Að minnsta kosti tveir þeirra – Taconic Capi­tal og Och-Ziff Capi­tal – eru jafn­­­framt á meðal kröf­u­hafa Kaup­­­þings, sem verður selj­andi á hlutnum í Arion banka. Í umfjöllun Frétta­blaðs­ins um málið fyrr í þess­ari viku sagði að eng­inn einn þeirra verði með meira en tíu pró­­­senta hlut í Arion banka en Taconic Capi­tal hyggst vera með­ ­stærsta ein­staka eign­­­ar­hlut­inn á meðal sjóð­anna.

Bene­dikt Jóhann­es­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sagði í sam­tali við Kjarn­ann í gær að hann fagni því ef Arion banki selj­ist á góðu verði og að eign­ar­hald á honum verði dreift. Íslenska ríkið á 13 pró­sent hluti Arion banka.

Ekki fyrir fram úti­lokað

Kjarn­inn beindi fyr­ir­spurn til Fjár­mála­eft­ir­lits­ins um hvort erlendir vog­un­ar- eða fjár­fest­ing­ar­sjóðir á borð við þá sem nú ætla að kaupa hlut í Arion banka geti verið hæfir til að fara með virkan eign­ar­hlut í íslenskum við­skipta­banka. Í stuttu máli var svarið já, stand­ist þeir hæf­is­mat. Í svari eft­ir­lits­ins seg­ir: „Þannig eru fjár­fest­ing­ar­sjóðir eins og aðrir aðilar ekki fyrir fram úti­lok­aðir frá því að upp­fylla hæfis­kröfur lag­anna. Þá má geta þess að það hversu ríkar kröfur eru gerðar til hæfis þess aðila sem hyggst eign­ast virkan eign­ar­hlut í fjár­mála­fyr­ir­tæki tekur mið af starf­semi umrædds fjár­mála­fyr­ir­tækis og hversu stóran eign­ar­hlut aðili ætlar sér að eign­ast.“

Mat Fjár­mála­eft­ir­lits­ins á hæfi virks eig­anda grund­vall­ast á ýmsum þáttum sem skil­greindir eru í lögum um fjár­mála­fyr­ir­tæki. Á meðal þeirra atriða sem til­greind eru í lög­unum og þurfa að vera í lagi eru orð­spor aðil­ans, reynsla hans, fjár­hags­legt heil­brigði, hvort ætla megi að eign­ar­haldið tor­veldi eft­ir­lit og hvort ætla megi að það leiði til pen­inga­þvættis eða fjár­mögn­unar hryðju­verka. Auk þess kemur til sér­stakrar skoð­unar hvort vafi leiki á því hver sé raun­veru­legur eig­andi virks eign­ar­hlut­ar.

Leynd yfir eig­endum Straums

Fái vog­un­ar­sjóðir að eiga Arion banka væri það í fyrsta sinn sem slíkir ættu íslenskan við­skipta­banka með beinum hætti. Vog­un­ar­sjóðir hafa hins vegar áður fengið heim­ild til að fara með virkað eign­ar­hlut í íslenskum fjár­mála­fyr­ir­tækj­um.

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist fagna því ef gott verð fæst fyrir Arion banka og að eignarhald verði dreift.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Á meðal stærstu kröfu­hafa Straums fjár­fest­inga­banka eftir að hann féll var banda­ríska sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækið Dav­id­son Kempner, sem rekur marga vog­un­ar- og fjár­fest­ing­ar­sjóði sem hafa sér­hæft sig í að fjár­festa í ríkjum sem hafa geng­iðí gegnum fjár­mála­á­föll, sér­stak­lega á Íslandi og í Grikk­landi. Hags­munir þess hér­lendis hafa að mestu leyti farið í gegnum írskt skúffu­fyr­ir­tæki, Burlington Loan Mana­gement Ltd. Írski sjóð­ur­inn er í raun í eigu góð­gerða­sam­taka en hann er fjár­magn­aður og honum er stýrt af Dav­id­son Kempner. Ágóð­inn af starf­sem­inni rennur auk þess allur þang­að. Eign­ar­haldið er því til mála­mynda.

Á meðan að á end­ur­skipu­lagn­ingu fjár­fest­inga­bank­ans Straums Burða­r­áss, sem var tek­inn yfir af skila­nefnd árið 2009, stóð var nafni eigna­um­sýslu­fé­lags­ins sem hélt utan um eft­ir­stand­andi eignir hans breytt í ALMC. Þegar nauða­samn­ingur Straums var sam­þykktur var kröfum kröfu­hafa, meðal ann­ars Dav­id­son Kempner, breytt í hlut­deild­ar­skír­teini. Útibú þýska stór­bank­ans Deutche Bank í Hollandi hélt á 99 pró­sent þeirra.

Ekki var hægt að fá upp­lýs­ingar um hversu stóran hlut Dav­id­son Kempner átti í ALMC þar sem Fjár­mála­eft­ir­litið telur sig ekki mega veita aðgang að þeim upp­lýs­ingum á grund­velli þagn­ar­skyldu. Samt sem áður fékk Straumur fjár­fest­inga­banka­leyfi árið 2011 og stund­aði víð­tæka fyr­ir­tækja­þjón­ustu og hafði meðal ann­ars umsjón með hluta­fjár­út­boð­um. Bank­inn sá auk þess um vörslu og umsýslu á öllum eignum SPB hf., sem áður hét Spari­sjóða­banki Íslands. En lands­menn máttu samt ekki vita hverjir áttu bank­ann.

Bandarískur vogunarsjóður er eigandi Lýsingar.

Árið 2014 keyptu íslenskir fjár­festar hlut ALMC í Straumi. Straumur sam­ein­að­ist síðan MP banka á árinu 2015 og sam­ein­aður banki tók upp nafnið Kvika banki skömmu síð­ar.

Vog­un­ar­sjóður fékk að eiga Lýs­ingu

Fyrir nokkrum vikum síð­an, í upp­hafi árs 2017, var eign­ar­hald dótt­ur­fé­lags Dav­id­son Kemper, Burlington Loan Mana­gement, á íslensku fjár­mála­fyr­ir­tæki aftur til umfjöll­unar í fjöl­miðl­um. Ástæða var sú að vog­un­ar­sjóð­ur­inn og tengdir aðilar höfðu verið metnir hæfir af Fjár­mála­eft­ir­lit­inu til að farra með 100 pró­sent virkan eign­ar­hlut í fjár­mögn­un­ar­fyr­ir­tæk­inu Lýs­inu, sem lýtur eft­ir­liti Fjár­mála­eft­ir­lits­ins. Það er því ljóst að erlendir vog­un­ar­sjóðir mega eiga íslensk fjár­mögn­un­ar­fyr­ir­tæki að öllu leyti, að mati Fjár­mála­eft­ir­lits­ins.

Í sam­tali við Morg­un­blaðið 31. jan­úar síð­ast­lið­inn var­aði Jón Þór Sturlu­son, aðstoð­ar­for­stjóri eft­ir­lits­ins, þó við því að of víð­tækar álykt­anir væru dregnar um for­dæm­is­gildi þeirra ákvörð­un­ar. Stutta svarið er að ef þetta væri við­skipta­­banki þá þurfa ekki end­i­­lega sömu við­mið að gilda,“ sagði Jón Þór aðspurður um for­dæm­is­gild­ið.

Hann bætti við að ítar­leg könnun hafi verið gerð á eign­ar­haldi Burlington en að það hafi verið flókið að ákvarða hver væri hinn raun­veru­legi eig­andi félags­ins. Fjár­mála­eft­ir­litið viti þóhverj­ir beri ábyrgð á rekstri Burlington, en það séu þrír fjár­­­fest­ing­­ar­­sjóð­ir. Upp­lýs­ingar um end­an­lega eig­endur Lýs­ing­ar, sem er mjög stór­tækt á íslenskum fjár­mögn­un­ar­mark­aði, eru þó ekki aðgengi­legar íslenskum almenn­ingi.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar