Óflokkað

Viggó viðutan sextugur

Uppreisn gleðinnar, mannúðin og að breyta heiminum með hlátri.

Andóf í myndasögum

Myndasögur eru magnað fyrirbæri. Þær eiga sér langa og flókna sögu; ræturnar liggja víða, í gömlum miðaldahandritum, barna- og dýrafræðibókum og lengi hefur maðurinn reynt að útskýra sín mál og segja sögur með myndum. Þetta er kröftugt og heillandi listform þar sem ritmálið og myndmálið renna saman í eitt. 

Myndasögur eru af mörgum toga. Stundum eru þær rætnar og í þeim birtist andóf og uppreisn. Enda eiga þær rætur sínar að rekja til skopmyndateikninga, sem eru jafnan grófar, beittar og hæðast gjarnan að yfirstétt og valdhöfum. Þetta er aldagamalt fyrirbæri og við sjáum slíkar skopmyndateikningar og veggjakrot í ævagömlum fornminjum. Tæki hinna kúguðu, hinna undirokuðu – að krota myndir á vegg í skjóli nætur: dónalegar, rætnar, fyndnar myndir og hæðast að þeim sem ráða. Draga þá niður í svaðið, sýna að þeir eru alveg eins og við hin; mannleg, rugluð, breysk – og síður en svo, eitthvað merkilegri en við hin. 

Skopmyndateikningar eru líka notaðar í pólitískum tilgangi til þess að gagnrýna og oftar en ekki niðurlægja andstæðinginn. Þetta gerðu Bretar t.d. með eftirminnilegum hætti þegar þeir háðu stríð við Frakka og teiknuðu Napóleon sem lítinn, trylltan og geðveikan mann. Skopmyndir Breta af Bonaparte þjöppuðu andstæðingum hans saman, og enn í dag eru allir með þá mynd af honum í kollinum að hann hafi verið lítill kall – þótt Napóleon hafi raunar verið meðalmaður á hæð.

Slíkur er máttur skopmynda. Nýlegt dæmi eru dönsku skopmyndateikningarnar af Múhameð sem sannarlega hreyfðu við hinum íslamska heimi. Skopmyndir (þegar vel tekst til) eru nefnilega hættulegt og beitt vopn. 

Myndasögur geta sömuleiðis verið hárbeittar, þær er oft jaðrinum og í mörgum tilfellum eru myndasögur einskonar jaðarlist. Jafnvel götulist og hafa takmarkaðan aðgang að heimi hinna æðri lista. Myndasögur hafa enda verið litnar hornauga þrátt fyrir gífurlegar vinsældir. Það er ekki svo langt síðan íslensk börn og foreldrar þeirra voru hreinlega vöruð við lestri myndasögubóka. Þær þykja ekki fín list. Sumar myndasögur eru forboðnar, grófar og miskunnarlausar. Hetjur og helstu söguhetjur myndasagna eru oftar en ekki andhetjur; gallaðar og breyskar, stundum hálfgerð „frík“, sem lifa og þrífast á jaðri samfélagsins. Barátta góðs og ills er yfirleitt í forgrunni, symbólisminn er sláandi og æpandi og þarna úir og grúir af allskonar ádeilu og baneitruðum boðskap. 

Í myndasögum nútímans sjáum við oft glögg merki hinnar pólitísku ádeilu. Frægasta saga síðari ára er án efa Persepolis eftir Marjane Satrapi sem segir frá uppvexti sínum í Íran á dögum byltingarinnar 1979. Þessi litla myndasaga, sem kom út árið 2000 og varð seinna kvikmynd olli miklu umtali, hreyfði við hinum íslamska heimi, var bönnuð víða um heim og skók jafnvel sjálft risaveldið Íran. Myndasögur eru nefnlega ekkert gamanmál – eða, jú, jú – þær eru vissulega oft og tíðum algjört gamanmál, grín og glens; en öllu gríni fylgir nefnilega oftast einhver alvara. 

Nú verður greint frá myndasögu sem er svo sem ekkert á jaðrinum, hér er ekkert gróft á ferðinni, einungis grallaraskapur og glens af bestu gerð. En það býr ýmislegt að baki í sögunum um hann Viggó viðutan.

Viggó er uppreisnarseggur

Viggó viðutan er einhver frægasta myndasögupersóna Belga. Hann er klassískur og það er eitthvað í fari hans sem heillar kynslóð eftir kynslóð. Viggó er engin hetja; hann er frekar andhetja. Hann vinnur engar dáðir, er latur, sumir myndu jafnvel segja að hann væri kjáni, en hann er samt enginn óþokki og í raun mesta gæðablóð. 

Það er töluverð pólitík og ádeila í þessum sögum, en það er á engan hátt augljóst eða yfirþyrmandi; höfundurinn,Franquin gerir þetta með svo hárfínum og beittum hætti að skilaboðin smjúga inn - jafnvel óafvitandi. Við finnum að Viggó er með uppátækjum sínum og grallaraskap að andæfa einhverju – einhverju kerfi sem er ómannúðlegt og blátt áfram leiðinlegt. En Viggó sýnir okkur kannski fyrst og fremst að best sé að brosa og hlæja; sama hvað á dynur - dragðu fram bros, það mun auðvelda þér allt. Að húmorinn sé eitthvað það mikilvægasta í lífinu.  

Sögurnar um Viggó eru ekki epískar, þetta eru litlar, stuttar og einfaldar myndasögur sem rúmast yfirleitt á einni blaðsíðu, stundum bara ein og ein skopmynd, enda sérstaklega hannaðar fyrir blöð og tímarit á þeim tíma þegar þær voru gerðar. Það eru aldrei neinar heildstæðar sögur í bókunum. Þetta eru brot, svipmyndir af ævintýrum hans sem öll eiga sér stað í hversdagslífinu – á skrifstofunni, úti á götu, eða í sveitarferð með kærustunni eða vinum. Hann fer aldrei til útlanda, hér eru engin hættuleg sakamál á ferðinni, það er lítið um yfirskilvitlega hluti – þetta gerist allt saman í afar hversdagslegum raunveruleika. Líf sem við öll þekkjum og tilheyrum. 

Og þetta er einmitt galdurinn við Viggó og kannski stærsti tilgangur hans – að rugla upp raunveruleikanum, að breyta hinum hefðbundna, vanafasta degi í eitthvað óvænt. Opna nýjar víddir og gera lífið að ævintýri. Í fyrstu eru þessar skrýtlur svona klassískt „slapstick“ grín (hann bónar gólfin í vinnunni svo illþyrmilega vel að allir fljúga á hausinn) - en með árunum þróast hann og verður ögn pólitískari, þar sem friðar- og umhverfisbarátta verður í forgrunni. Hæðist að hermönnum, yfirvaldi og er sífellt málsvari minnihlutans, sér í lagi saklausra dýra. 

Viggó viðutan er uppátækjasamur iðjuleysingi, hippi, bítnikkari, uppreisnargjarn rokkari sem hefur lag á því að finna upp furðulegustu hluti og setja allt á annan endann með uppátækjum sínum. Hann er táknmynd einstaklingsins sem hlýðir ekki yfirvaldinu – fer sínar eigin leiðir og gerir bókstaflega allt til þess að gera lífið skemmtilegra. Hann er í stöðugri, gamansamri uppreisn gegn kerfinu; hinu hefðbundna, hann er í stöðugu stríði gegn hinu stífa og leiðinlega, gegn yfirmönnum, peningavaldi og svo hefur hann með tímanum orðið, eins og áður sagði, tákn fyrir umhverfis- og mannréttindabaráttu og dýravernd. 

En fyrst og fremst er Viggó í dulbúnu stríði gegn leiðindum, hinu þurra og litlausa lífi. Sögurnar af Viggó eru fullar af krafti, lífi, litum og teikningar Franquins eru iðandi og fjörugar. 

Saga Viggós

Viggó  viðutan eða Gaston Lagaffe (eins og hann  heitir á frummálinu, frönsku) hóf feril sinn sem aukapersóna í blöðum og bókum um þá félaga Sval og Val. Það var ritstjóri SpirouYvan Delporte, sem átti hugmyndina að þessum húðlata en skondna karakter og gaukaði henni að Franquin. Hann birtist fyrst litlum ramma í febrúar 1957 í blaði um þá félaga. Það var þó einungis gert til þess að fylla upp í tómarúm sem myndast hafði í blaðinu. Þarna mætir Viggó á sjálfa teiknimyndastofuna til þess að sækja um vinnu. Í fyrstu segir hann ekki orð. Stendur bara með sígarettuna lafandi í munnvikinu - og um leið verður hann þessi senuþjófur. Kæruleysislegt og skondið yfirbragð hans grípur strax athyglina. Klæddur grænni peysu, gallabuxum, rauðum sokkum og bláum skóm –  sem með tímanum verður einkennisklæðnaður hans.  

Höfundur og skapari Viggós er Belginn André Franquin sem er einskonar goðsögn í heimi myndasagna.

Hann er mættur á teiknimyndastofu Svals og Vals með þetta einstaka fas og viðmót eins og honum sé skítsama um allt. Enginn veit með vissu hver ræður hann til starfa, sem er síðan ein af stóru ráðgátunum um Viggó, og ekki síður hvers vegna hann er aldrei rekinn. Hann veit í raun og veru ekkert sjálfur hvað hann er að gera eða til hvers hann er kominn. Enn meiri óvissa er síðan um það hvað hann beinlínis gerir, en svo virðist sem verk hans sé að flokka póst. En þarna s.s. birtist hann fyrst og verður síðan með tímanum lítil aukapersóna í vinsælum ævintýrum um þá félaga Sval og Val. Viggó kemur m.a. fyrir í bókunum Gormahreiðrið, Svalur og Górilluaparnir og Svaðilför til Sveppaborgar og verður síðan æ fyrirferðarmeiri senuþjófur þar til hann loks öðlast sjálfstætt líf

Franquin sem hafði um árabil haft umsjón með þeim Sval og Val, er að mörgum álitinn hinn klassíski höfundur og meistari þeirra sagna, en var orðinn leiður á þeim og ævintýrum þeirra og varð sífellt meira heillaður af Viggó. Franquin var nefnilega sjálfur dálítill uppreisnarseggur og sá tækifæri til þess að lauma að ýmsum boðskap og hugmyndum með Viggó sem var í raun ógerlegt í hasarævintýraheimi Svals og Vals. 

Þó spilar hér inni þunglyndi sem hrjáði Franquin alla ævi. Það var í raun og veru það sem olli því að hann þurfti a segja sig frá þeim Sval og Vali. Viggó var kannski hans leið til að létta lundina og sjá hið broslega í lífinu. Margir vilja meina að Viggó sé lukkutröll og gleðipilla höfundarins. Litli prinsinn hans sem gladdi hann og færði honum von á erfiðum stundum. 

En Viggó rímar líka við uppreisnareðli Franquins; Viggó er nefnilega anarkisti, dýravinur, umhverfissinni og  uppreisnarseggur í hugsun og aðgerðum eins og Franquin. Höfundurinn hefur meira að segja lánað Viggó ýmsum hugsjóna- og baráttusamtökum eins og Greenpeace og Amnesty International. Fræg er auglýsing fyrir Amnesty þar sem Viggó er pyntaður og Jógu kærustu hans nauðgað fyrir framan hann og undir skrifað: „Þetta er ekki fyndið en þetta er að gerast út um allan heim.“

Uppátæki og uppfinningar

Á skrifstofunni gerir Viggó flest annað en að vinna. Hann á að til að kollvarpa öllu og setja allt á annan endann. Hann býr til ár og læki í stigagöngum hússins, breytir skrifstofunni í sundlaug; þar fer hann líka í útilegu, tjaldar og kveikir varðeld. Viggó er uppfinningamaður af bestu gerð, en á það til að finna upp heldur sérkennilega og furðulega hluti. Hann finnur upp hluti eins og bindishnútavél, rafmagnsfuglahræðu, vasaljós með sólarrafhlöðum, straujárn með fjarstýringu og ljósabaðsregnhlíf þar sem hægt er að ganga um í sólskini í grenjandi rigningu. Viggó er líka mikill tónlistarmaður og leikur á ýmis hljóðfæri sem hann hefur fundið upp og smíðað sjálfur en ærir yfirleitt starfsfélaga sína með hávaða og látum. Frægasta hljóðfærið er Steinaldarharpan, risavaxið strengjahljóðfæri sem framkallar þvílík hljóð og hljóðbylgjur að allt splundrast og því veldur hljóðfærið gjarnan mikilli eyðileggingu þegar Viggó sest niður og spilar á það. 

Viggó breytist töluvert með árunum, hárið síkkar og sígarettan hverfur úr munninum en hann eldist ekki neitt. Hann er einskonar Pétur Pan sem aldrei vill fullorðnast. Franquin gaf eitt sinn skyn að hann væri ekki alveg unglingur en heldur ekki orðinn tvítugur – kannski svona 19 ára. Hann er húðlatur en um leið ofvirkur þegar kemur að efnafræðitilraunum, furðulegri eldamennsku, eldflaugum og innanhússhönnun. Svo er hann auðvitað mikill dýravinur og á árásargjarnan máv, ofvirkan kött, gullfisk og mús fyrir gæludýr sem oftar en ekki taka þátt í grallaraskapnum. 

Uppfinningar Viggós miða að því (eins og raunar öll vísindi) að gera lífið bæði skemmtilegra og betra. Gera lífið og starfið á skrifstofunni auðveldara. Búa til þægilegri stóla og jafnvel setustóla eða rúm í vinnunni, auðvelda allar boðleiðir, búa til ný og betri samgöngutæki, gera umhverfið skemmtilegra og margar uppfinningar Viggós bera hugsjónum hans vitni; hann býr til gulrótarbyssu þegar hann fer á kanínuskytterí. Hann skýtur ekki kanínur – heldur skýtur gulrótum til þeirra. Sem er auðvitað fáránlegt, fyndið en líka svo fallegt í sjálfu sér. Hann færir þeim líf í stað dauða. Þegar hann situr með veiðistöng við fallega laxveiðiá – er hann ekki að veiða fisk, heldur kæla hvítvínið.  

André Franquin

Höfundur og skapari Viggós er eins og áður sagði Belginn André Franquin sem er einskonar goðsögn í heimi myndasagna. Hann fæddist 3. janúar 1924 í Etterbeek í Belgíu. Franquin hafði mikil áhrif á framgang og stíl myndasagna. Hann skapaði bæði Viggó og undradýrið Gorm; hann gerði fjölmargar bækur um þá félaga Sval og Val. Gormur öðlaðist síðar sjálfstætt líf og um hann var gerð heil ritröð. Gormur er sjálfsagt heimsfrægasta persóna Franquin, því hann hefur ratað inn í vinsælar kvikmyndir og teiknimyndir.

Franquin lagði ungur stund á myndlist og teikningu og fór snemma að starfa við teiknimyndagerð þar sem hann komst í kynni við menn sem síðar urðu helstu snillingar belgískra myndasagna, menn eins og Morris sem síðar skóp Lukku Láka, Peyo höfund Strumpanna og fleiri. Þessi kynslóð lagði í raun grunn að nýrri hugsun og nýju formi teiknimyndasögunnar. Þeir útvíkkuðu hugmyndir, stíl og form og áttu þátt í því að stórauka vinsældir teiknimyndasögunnar í Evrópu. Ásamt Hergé, getum við alveg kallað þetta belgísku byltinguna í teiknimyndaheiminum. 

Franquin er stundum borin saman við Hergé, enda einhverjir áhrifamestu myndasöguhöfundar Belga. En þeir eru eiginlega andstæður. Á meðan Hergé er með þenna skýra, stílhreina og stillta stíl er Franquin allur á iði, kaótískari og villtari. Hergé er íhaldssamur í hugsun en Franquin er róttækur. Hergé, höfundur Tinna og félaga, var raunar mikill aðdáandi Franquins og sagði um hann: „Ég er einungis teiknari – en hann er listamaður.“      

Franquin er jafnvel álitinn einn af höfuðsnillingum 20. aldarinnar og skipar sér í flokk með Charlie Chaplin og Jacques Tati þegar kemur að hárbeittum en hlýjum húmor. Í sögum sínum um Sval og Val sjáum við hann hæðast að hernaðarbrölti og kaldrifjaðri vísindahyggju með Zorglúbb og öðrum slíkum. Öllu hans gríni fylgir nefnilega einhver alvara. Í síðustu verkum hans sem komu út undir lok áttunda áratugarins, svörtu sögunum, Idées noires, (það er enginn Viggó, Svalur eða Valur eða Gormur, aðeins skrímsli, furðufyrirbæri og hryllingur) þar eru litirnir farnir – kannski til að undirstrika  enn betur hinn svarta húmor sem þar er allsráðandi. En þar kristallast kannski fyrst og fremst, svart á hvítu,  þunglyndið sem höfundurinn barðist við alla ævi. Um svipað leyti og þessar svörtu sögur urðu til fékk Franquin taugaáfall og vonleysið og myrkrið, jafnvel grimmdin verða mun meira áberandi en áður þekktist í hans verkum. 

Þegar Viggó verður til á sjötta áratugnum er mikið umrót í hinum vestræna heimi. Hið mikla tómarúm eftir seinni heimsstyrjöldina kallaði á gagngerar breytingar. Krafa um mannúð, bætt samfélag, frið og gleði var allt umlykjandi á sama tíma og kalt stríð og vígbúnaðarkapphlaup stórveldanna var í fullum gangi. Verk Franquin endurspegla þetta ástand. Viggó endurspeglar líka framgöngu umhverfisbaráttunnar og vistfræðinnar sem braust fram í byrjun áttunda áratugarins. Franquin var meira að segja tilbúinn að selja Viggó í auglýsingar ef það þjónaði þeim tilgangi að vernda umhverfið, m.a. að auglýsa rafhlöður sem þá þótti umhverfisvænn orkugjafi. 

Viggó viðutan sver sig í ætt við heimspekistefnu sem gegnumsýrði ungt, hugsandi fólk á sjöunda áratugnum; tilvistarstefnuna eða existensíalismann. Sem gengur út á að ljá manninum reisn, gera hann lifandi og skapandi en ekki að hlut. Þessi róttæka heimspekikenning gefur skít í alla rökfræðilega raunhyggju og hefur lítinn áhuga á aðferðum raunvísindanna. Tilvistarstefnan er mannhyggja, fjallar fyrst og fremst um manninn og tilgang hans í þessu lífi. Og það er svo sem enginn tilgangur; upphaflega er maðurinn ekkert – hann verður ekki fyrr en síðar og hann verður að því sem hann gerir úr sér. Við eigum ekki að beygja okkur undir eitthvað sem heitir örlög, heldur vera okkar eigin gæfu smiðir. Maðurinn er ekkert annað en það sem hann gerir – heild athafna sinna – existensíalisminn er að reyna að kenna okkur að lifa. Það er enginn Guð, engin örlög, þú getur gert allt, allt er leyfilegt, hún boðar frelsi, frið og réttlæti. Það er einhver óþekkt í tilvistarstefnunni sem kveikti í uppreisnargjörnu fólki á þessum tíma. 

Þessar kennisetningar ríma vel við það sem Viggó viðutan stendur fyrir. Hann er existensíalisti; hann gerir það sem hann vill, hann ljær lífi sínu innihald; skapar sín eigin örlög. Í raun er hægt að útskýra þessa heimspekistefnu 20. aldarinnar og lífsstíl Viggós viðutans í eina setningu: lífið er stutt – njóttu þess!  

Vinir og félagar

Svo eru það aukapersónurnar; já, aukapersónurnar. Þær eru ekki síst mikilvægar í góðum myndasögum. Og þannig er það í sögunum um Viggó viðutan. Þar er kærastan Jóga, rauðhærð samstarfsstúlka á skrifstofunni sem elskar Viggó út af lífinu, umber tónlistina hans og öll hans uppátæki. Hún er sú sem hlær og dýrkar þennan gaur, sem sömuleiðis er stöðugt með rómantíska tilburði, til þess að gleðja ástina sína. Helsti vinur Viggós er síðan Júlli í Skarnabæ sem er eins konar hliðarútgáfa af Viggó; þeir eru eins, nánast að öllu leyti og vinnustaður Júlla er skammt frá vinnustað Viggós. Þeir eru stöðugt í samskiptum og bralla margt saman þótt, Júlli ávarpi Viggó ávalt formlega með eftirnafninu, Lagaffe. Félagi þeirra Berti er stundum þunglyndur og kvíðafullur og endurspeglar því á vissan hátt höfundinn sjálfan. Þeir Júlli og Viggó gera ítrekaðar tilraunir til þess að gleðja vin sinn í verstu þunglyndisköstunum og saman reka þeir litla háværa og furðulega hljómsveit með sérkennilegri hljóðfæraskipan; hljómsveit sem fáir umbera nema þá helst hún Jóka. 

Umgjörð sögunnar um Viggó er skrifstofan. Einhver leiðinlegasti staður hversdagslífsins; samstarfsmenn Viggós og yfirmenn eru stressaðir, fúlir og leiðinlegir – hreinar andstæður hans. Þar gerast hans helstu ævintýri sem ganga út á það brjóta upp gráan hversdagsleikann. Þetta er teiknimyndastofa sem gerir sögurnar um sjálfan Sval. Þarna mætast því margir heimar. Skáldskapurinn, höfundurinn, skáldskapurinn í skáldskapnum – allt rennur þetta saman í einn póstmódernískan heim. Eigandinn og útgefandinn, Depuis, treður sér meira að segja inn í sögurnar; oft er minnst á hann, en hann sést samt aldrei.

 Og þarna er Valur; sem í sögum Viggós er alveg óhemju pirraður yfirmaður og afar taugaveiklaður. Við sjáum Val stundum bryðja geðlyf í verstu köstum sínum og þarna er því kannski sjálfur höfundurinn að lauma sjálfum sér inn? Hver veit? 

Síðan bætist við Eyjólfur. Þeir eru fulltrúar hins venjulega og vanafasta, dansa dansinn við stimpilklukkuna, sjá til þess að allt gangi sinn gang. Þeir eru yfirmenn sem bera ábyrgð á vinnustaðnum  og trompast með reglulegum hætti yfir uppátækjum Viggós – en hið furðulega er – að Viggó, þrátt fyrir allt er aldrei rekinn. Og stundum kemur fram alveg ótrúleg væntumþykja milli þessara manna sem þó virðast stöðugt vera í stríði. Sem er ein af ráðgátum bókanna. Hvað er það við Viggó sem heldur honum á vinnustaðnum? Starfskraftur sem sennilega veldur milljónatjóni, er stöðugt að eyðileggja mikilvæga viðskiptasamninga, þegar fulltrúi peningavaldsins, Herra Seðlan mætir á svæðið til þess að semja um kaup og kjör, samningar sem aldrei nást vegna uppátækja Viggós. Þetta er eins og rauður þráður í gegnum flestar sögurnar: Herra Seðlan er á leiðinni, sennilega til þess að kaupa fyrirtækið og að öllum líkindum breyta því í einhvern, arðskapandi, leiðinda hrylling – en ávallt tekst Viggó að koma í veg fyrir slíkt. Viggó er kannski þrátt fyrir allt mikilvægur starfskraftur? Mikilvægur félagi? 

Hann er nefnilega maðurinn sem fær snjallar og mikilvægar hugmyndir, hann er ef til vill aflið sem knýr þennan skapandi vinnustað áfram? 

Þegar Viggó eyðileggur viðskiptasamninga Herra Seðlans þá er hann kannski að reyna að standa vörð um eitthvað; ef til vill frelsið sjálft? Passa að fyrirtækið verði ekki selt inn í eitthvert völundarhús veðlána- og verðbréfabrasks, þar sem það að lokum hverfur og eyðist í einhverjum furðulegum fléttusamningum og hagræðingum. Kannski er þetta  stríðið við kapítalismann, markaðshyggjuna? 

Herra Seðlan, þessi kaupahéðinn, er skúrkur sögunnar. Sömuleiðis lögregluþjónninn sem stöðugt gerir Viggó lífið leitt með sektarmiðum og handtökum. Þetta eru fulltrúar valdsins sem höfundur reynir stöðugt að hæðast að – en Viggó vinnur samt aldrei neinn fullnaðarsigur í þessari baráttu og stundum verður hann meira að segja að lúta í lægra haldi.   

Viggó snýr aftur

Bækurnar um Viggó eru 19 talsins, tólf bækur komu út á íslensku – og þær verða ekki fleiri. Fyrsta skrítlan leit dagsins ljós 1957 og sögunum, myndunum og öllu var safnað reglulega saman í bókum sem komu út með jöfnu millibili allt til ársins 1999, þegar síðasta bókin kom út, tveimur árum eftir andlát höfundarins. 

En nú getur ný kynslóð uppgötvað Viggó. Með nýjum barnabókum um Viggó hinn unga, á að kynna hann fyrir nýjum lesendum. Þær eru í anda gömlu bókanna og þar snúa aftur gamalkunnar persónur – allar þó á barnsaldri. Þótt Viggó sé alltaf barn og barn síns tíma og óskilgetið afkvæmi sjöunda áratugarins; 68-kynslóðarinnar, uppreisnar æskunnar, tunglferðarinnar, umhverfisbaráttunnar, rokksins – þá lifir hann áfram góðu lífi. Jafnvel þrátt fyrir að aldrei hafi verið gerðar um hann kvikmyndir eða nein Hollywoodævintýri. Hann er varla þekktur í hinum engilsaxneska heimi og lítið þýddur á ensku. En annars staðar í Evrópu, sér í lagi í Belgíu og Frakklandi er Viggó sívinsæll. Á næsta ári er væntanleg ný frönsk kvikmynd um Viggó og félaga hans.  

Hann er því enn fullur af lífi þó sextugur sé. Kannski lifir Viggó vegna þess að undir niðri blundar einhver uppreisn í hverjum manni; það er nefnilega einhver flippari í okkur öllum og stundum langar okkur óstjórnlega að brjóta upp hversdagslífið og hið vanafasta; hlæja, brosa, leika okkur og prófa eitthvað nýtt – og Viggó viðutan er holdgervingur þess. Hann er hinn forvitni unglingur í okkur öllum sem við eigum að rækta hvern dag.

Viggó viðutan boðar bjartsýni, frið, mannhyggju, og umfram allt að berjast fyrir frelsinu, að vera þú sjálfur, og umfram allt – að brosa og vera glaður. Allar kennisetningar, vísindi, öll pólitík og barátta er hjóm eitt miðað við sanna hamingju, fallegt og innilegt bros og hraustlegan hlátur –húmorinn, sem er sennilega besta og auðveldasta leiðin til þess að gera heiminn betri og fallegri. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnFreyr Eyjólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar