Afsláttur, ávöxtun og gríðarlegur gengishagnaður
Fjárfestar sem komu fyrstir með peninga í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans mega nú losa fjárfestingar sínar. Þeir fengu 49 milljarða í virðisaukningu og gengishagnað upp á rúmlega 80 milljarða. Fáir, ef einhverjir, hafa grætt jafn mikið á hruninu og þessi hópur.
Þeir aðilar sem komu með 1.100 milljónir evra inn í íslenskt hagkerfi í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands myndu fá um 1.840 milljónir evra fyrir þær krónur sem þeir skiptu evrunum sínum í miðað við gengi dagsins í dag. Því hefur styrking íslensku krónunnar gert það að verkum að gengishagnaður viðkomandi aðila er 67 prósent. Sá gengishagnaður, mældur í íslenskum krónum á gengi dagsins í dag, er 83,6 milljarðar króna. Í ljósi þess að heimildir til að færa peninga út úr íslenskum fjármagnshöftum voru rýmkaðar umtalsvert í fyrrahaust, og enn meira um liðin áramót, geta þeir sem komu með peninga í gegnum fjárfestingaleiðina farið hægt og rólega að færa þá peninga í aðra gjaldmiðla.
Ekki er þó víst að allir þeir sem komu með fé inn í landið með þessum hætti vilji fara í burtu alveg strax. Allt útlit er nefnilega fyrir áframhaldandi styrkingu krónunnar næstu misserin, og þar af leiðandi aukinn gengishagnað fyrir þá sem bíða lengur.
Hagnaður upp á annað hundrað milljarða
Þeir aðilar sem komu með peninga í gegnum fjárfestingaleiðina fengu einnig að skipta evrunum sínum í íslenskar krónur á mun betra gengi en venjulegum Íslendingum bauðst í næsta banka. Samtals fengu þeir 206 milljarða króna fyrir evrurnar sem þeir fluttu inn til landsins í gegnum leiðina. Ef þeim hefði verið skipt í banka á því gengi sem almenningi bauðst hefðu fengist 157 milljarðar króna fyrir þær. Virðisaukningin sem þeir aðilar sem nýttu sér fjárfestingarleiðina fengu vegna hennar var því 48,7 milljarðar króna.
Ef enginn þeirra sem kom með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum fjárfestingaleiðina hefur farið út með hann aftur þá er samanlagður gengishagnaður og virðisaukning vegna hagstæðs gengis þeirra sem bauðst að nýta sér leiðina rúmlega 132 milljarðar króna. Þá á auðvitað eftir að telja með þann hagnað sem viðkomandi höfðu af því að fjárfesta á Íslandi á árum þar sem nánast allir fjárfestingarmöguleikar skiluðu mikilli arðsemi.
Var fyrst og fremst fyrir ríkt fólk
Tilgangur fjárfestingarleiðarinnar var að vinna á hinni svokölluðu snjóhengju. Þ.e. krónueignum erlendra aðila sem voru fastar inni í íslenskum höftum og ómögulegt var að hleypa út úr þeim án þess að það myndi hafa gífurlegar neikvæðar afleiðingar á greiðslujöfnuð.
Þeir sem tóku þátt í leiðinni komu með gjaldeyri og fengu að skipta honum í íslenskar krónur á mun hagstæðara gengi en öðrum bauðst.
Þeir sem tóku á sig „tapið“ í þessum viðskiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu komast út úr íslenska hagkerfinu með þær. Seðlabankinn var síðan í hlutverki milligönguaðila í viðskiptunum.
Alls fóru fram 21 svona útboð á árunum 2012-2015. Framan af tímabilinu gátu einungis þeir sem áttu 50 þúsund evrur eða meira tekið þátt í útboðunum. Í byrjun árs 2013 var sú upphæð jafngildi um 8,1 milljón króna samkvæmt gengi Seðlabanka Íslands. Það er því ljóst að fyrst og fremst ríku fólki, sem átti yfir átta milljónir króna í lausu fé, stóð þessi leið til boða. Lágmarkið var síðar lækkað í 25 þúsund evrur, eða rúmlega fjórar milljónir króna á þáverandi gengi.
20 prósent afsláttur á íslenskum eignum
Að meðaltali fékkst um 20 prósent afsláttur á eignum á Íslandi með því að fara þessa leið. Sá böggull fylgdi skammrifi að það þurfti að binda fjárfestinguna í eignum í fimm ár hið minnsta, en það mátti þó greiða arð af fjárfestingunum út á meðan að á þeim tíma stóð. Margir notfærðu sér þetta með því gefa sjálfir út skuldabréf í íslensku félagi, selja sjálfum sér þau skuldabréf og láta síðan vexti á þeim vera háa eða þorra uppgreiðslu á fyrstu árum útgáfunnar. Þannig var hægt að losa upphæðina sem var flutt til landsins mun fyrr en Seðlabanki Íslands hafði ætlað, og nota hana í annað.
Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands var um 47,2 prósent af því fjármagnsinnstreymi sem kom til landsins fest í skuldabréfum, um 40 prósent í hlutabréfum, 12,2 prósent í fasteignum og 0,6 prósent í verðbréfasjóðum. Fyrir þá sem bundu þessa peninga raunverulega í t.d. fasteignum eða hlutabréfum þá hefur arðsemi þeirra verið gríðarleg. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur hækkað um 81 prósent frá því að fjárfestingarleiðin hóf göngu sína og fram til dagsins í dag. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 47 prósent.
Þá á eftir að taka inn gengisáhrifin ef fjárfestingin er mæld í evrum. Íslenska krónan hefur nefnilega styrkst gríðarlega á þessu tímabili og þeir sem keyptu hræódýrar íslenskar krónur á eftirhrunsárunum og eiga þær enn munu innleysa gríðarlegan gengishagnað þegar þeir skipta þeim aftur í evrur eða aðra mynt með tíð og tíma.
Í síðasta mánuði, febrúar 2017, voru liðin fimm ár frá því að fyrsti hópurinn sem kom með peninga í gegnum fjárfestingarleiðina mátti fara aftur út úr íslensku hagkerfi með peninganna. Fimm ára bindingin var liðin. Miðað við gengi evru í dag myndu fást um 1.840 milljónir evra fyrir allar þær íslensku krónur sem seldar voru vegna fjárfestingarleiðarinnar. Gengishagnaður þess hóps sem fékk að nýta sér þessa leið er því um 740 milljónir evra, eða 83,6 milljarðar króna á gengi dagsins í dag.
Hvernig sem litið er á það þá hafa þeir sem fengu að taka þátt í fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands hagnast óheyrilega á því. Þeir fengu 48,7 milljarða króna í afslátt á íslenskum eignum sem þeir geta nú innleyst. Þeir fengu nánast fordæmalausa ávöxtun á fjárfestingar sínar, sérstaklega í hlutabréfum og fasteignum. Og þeir geta innleyst um 84 milljarða króna gengishagnað.
Íslendingar áttu 35 prósent af upphæðinni
Það voru ekki bara útlendingar sem nýttu sér fjárfestingarleiðina. Alls komu 794 innlendir aðilar með peninga inn í íslenskt hagkerfi með þessum hætti. Um er að ræða 35 prósent þeirrar upphæðar sem kom inn í landið með þessum hætti. Það þýðir að þriðja hver króna sem var seld með afslætti í gegnum leiðina var seld innlendum aðila.
Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir um 385 milljónir evra sem þeir skiptu. Virðisaukningin sem þeir fengu vegna þess góða gengis sem Seðlabanki Íslands bauð efnuðu fólki upp á í gegnum fjárfestingarleiðina var um 17 milljarðar króna. Til viðbótar myndi gengishagnaður hópsins, ef öllum krónunum sem keyptar voru yrði skipt í evrur í dag, vera 256,5 milljónir evra, eða 28,8 milljarðar króna. Það þýðir að innlendir aðilar hafa hagnast um 45,8 milljarða króna vegna virðisaukningar og gengishagnaðar. Til viðbótar kemur hagnaður vegna þess að fjárfestingar þeirra, sem flestar voru á brunaútsöluverði á tímabilinu sem fjárfestingarleiðin var í boði, hafa hækkað gríðarlega í verði.
Trúnaður um hverjir fengu að nýta leiðina
Seðlabanki Íslands hefur aldrei viljað upplýsa um hvaða aðilar það voru sem fengu að nýta sér þetta einstaka viðskiptatækifæri. Kjarninn hefur margsinnis beint fyrirspurnum um málið til hans, en bankinn hefur ávallt borið fyrir sig þagnarskyldu. Bankaráð Seðlabanka Íslands, sem er pólitískt skipað, tók undir þá afstöðu í lok janúar síðastliðins.
Á meðal þeirra sem fjölmiðlar hafa þó uppljóstrað um að hafi nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, Hreiðars Más Sigurðssonar, Jóns Ólafssonar, Jóns Von Tetzchner, knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar, Ólafs Ólafssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Ármanns Þorvaldssonar, Kjartans Gunnarssonar, Skúla Mogensen, rekstrarfélags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Steingríms Wernerssona og danskra eigenda Húsasmiðjunnar.
Ákveðin skilyrði voru fyrir því að mega fara í gegnum fjárfestingarleiðina. Á meðal þeirra er að fjárfestirinn væri raunverulegur eigandi þeirra fjármuna sem hann ætlar sér að flytja inn til landsins. Auk þess er óheimilt að flytja fjármuni fyrir hönd annars eða annarra aðila. Annað skilyrði var að fjárfestir lægi„ekki undir rökstuddum grun hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans um meint brot, ákærður af handhafa ákæruvalds eða kærður til lögreglu af Seðlabankanum, og máli vegna þess sé enn ólokið hjá ákæruvaldi eða lögreglu“.
Skilmálunum var þó breytt í desember 2012 þegar því var bætt inn að þeir aðilar sem lágu undir rökstuddum grun hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans um meint brot mættu ekki heldur taka þátt í útboðum fjárfestingarleiðarinnar.
Engar takmarkanir voru hins vegar á þátttöku í fjárfestingarleiðinni fyrir aðila sem voru til rannsóknar eða jafnvel í ákæruferli hjá öðrum embættum en gjaldeyriseftirliti Seðlabankans.
Í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem birt var í byrjun janúar, er fjallað um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólögmætum hætti, hafi skilað sér Íslands með gengisafslætti í gegnum fjárfestingarleiðina.
Orðrétt segir í skýrslunni: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“