haftahopur.jpg

Af hverju er verið að selja Arion banka?

Færsla á íslensku bankakerfi yfir í hendur virkra einkafjárfesta er að hefjast, án þess að mikil pólitískt umræða hafi átt sér stað. Vogunarsjóðir og lífeyrissjóðir eru að kaupa helmingshlut í Arion banka. En af hverju?

Við­ræður eru í gangi um að banda­rískir vog­un­ar­sjóðir og íslenskir líf­eyr­is­sjóðir kaupi helm­ings­hlut í íslenska við­skipta­bank­anum Arion banka. Hann er einn þeirra þriggja banka sem búnir voru til með handafli rík­is­sjóðs og lög­gjaf­ar­valds­ins utan um inn­stæður og inn­lendar eignir eftir að íslenska banka­kerfið hrundi til grunna haustið 2008.

Íslenska ráð­gjafa­fyr­ir­tækið Icora Partners, í eigu Frið­riks Jó­hanns­­son­ar og Gunn­­ars Páls Tryggva­­son­­ar, og Þór­ar­inn V. Þór­ar­ins­son hæsta­rétt­ar­lög­maður eru að vinna að því að greina stöð­una fyrir hönd líf­eyr­is­sjóð­anna sem munu mögu­lega taka þátt í kaup­un­um. Um er að ræða stærstu líf­eyr­is­sjóði lands­ins: Líf­eyr­is­sjóð Versl­un­ar­manna, Gildi og Líf­eyr­is­sjóð starfs­manna rík­is­ins (LSR) en ef af verður munu fleiri minni sjóð­ir, meðal ann­ars Frjálsi líf­eyr­is­sjóð­ur­inn, taka þátt í kaup­un­um.

Hug­myndin er að líf­eyr­is­sjóð­irnir taki þá 25-30 pró­sent hlut í Arion banka en vog­un­ar­sjóð­irnir Taconic Capi­tal og Och-Ziff Capi­tal – 20-25 pró­sent hlut. Stefnt var að því að klára kaupin í mars en nú er ljóst að af því verður ekki. Nú er vilji til að gera það, ef af verð­ur, í apríl eða maí.

Karpað um verð

Við­ræður um kaup líf­eyr­is­sjóða í Arion banka, með sömu milli­lið­um, hafa verið í gangi í lengri tíma. Þær hófust upp­runa­lega í októ­ber 2015 og þá stóðu Líf­eyr­is­sjóður versl­un­ar­manna, LSR, Gildi og Frjálsi líf­eyr­is­sjóð­ur­inn að þeim. Ráð­gjaf­arnir sem ráðnir voru til verks­ins voru Icora Partners og Þór­ar­inn V. Þór­ar­inns­son. Þeir áttu að greina stöðu Arion banka og leita eftir samn­inga­við­ræðum við slitabú Kaup­þings, stærsta eig­anda bank­ans. Í fyrra sigldu við­ræð­urnar í strand þótt þeim hafi aldrei form­lega verið slit­ið. LSR dró sig hins vegar út úr hópnum þegar ekk­ert var að ger­ast.

Í upp­hafi árs 2017 hefur færst meiri alvara í mál­ið. Við­mið­un­ar­kaup­verð var í kringum 0,8 krónur á hlut miðað við bók­fært eigið fé bank­ans. Í árs­lok 2016 var eigið fé Arion banka 211 millj­arðar króna og því yrði kaup­verðið í kringum 85 millj­arðar króna fyrir 50 pró­sent hlut. Kaup­verðið má raunar ekki vera lægra, því þá virkj­ast ákvæði sem gerir íslenska rík­inu kleift að ganga inn í við­skipt­in. Það ákvæði var sett inn þegar samið var um stöð­ug­leika­fram­lög frá kröfu­höfum gömlu bank­anna.

Við­mæl­endur Kjarn­ans segja hins vegar að það muni ýmis­legt annað þurfa að fylgja með ef líf­eyr­is­sjóð­irnir ætli að kaupa á þessu gengi. Ástæðan er meðal ann­ars sú að arð­semi kjarna­rekst­urs bank­ans sé tölu­vert undir því sem eðli­legt sé að gera kröfu til. Arð­semi eigin fjár allra íslensku við­skipta­bank­anna hefur enda verið að drag­ast saman á und­an­förnum árum. Það hefur hagn­aður af reglu­legri starf­semi líka verið að gera. Í fyrra var t.d. slíkur hagn­aður hjá Arion banka 9,7 millj­arðar króna í sam­an­burði við 14,1 millj­arð króna árið 2015.

Sjá tæki­færi í „straum­línu­lög­un“

Þrátt fyrir að und­ir­liggj­andi starf­semi Arion banka sé ekki mjög spenn­andi sjá líf­eyr­is­sjóð­irnir tæki­færi í bank­an­um. Við­mæl­endur Kjarn­ans hafa meðal ann­ars bent á að kostn­að­ar­hlut­fall (tekjum deilt í rekstr­ar­kostn­að) Arion banka hafi verið 57,2 pró­sent í fyrra. Því séu miklir hag­ræð­ing­ar­mögu­leikar til staðar innan bank­ans. Þeir hag­ræð­ing­ar­mögu­leikar felist fyrst og síð­ast í því að fækka starfs­fólki umtals­vert og „straum­línu­laga“ rekstur bank­ans. Starfs­menn sam­stæðu Arion banka voru 1.239 tals­ins í lok árs 2016. Þar af voru 869 bara hjá Arion banka. Það er sam­dóma álit allra sem Kjarn­inn hefur rætt við um málið á und­an­förnum dögum að það vinni allt of margir í Arion banka og að starf­semi hans sé of víð­tæk. Það eigi raunar við um alla íslensku við­skipta­bank­anna.

Þá er horft hýru auga til dótt­ur­fé­lag­anna Valitor, sem stundar færslu­hirð­ingu og greiðslu­miðl­un, Stefn­is, stærsta sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækis á Íslandi, og Varð­ar, trygg­inga­fé­lags sem er alfarið í eigu Arion banka. Virði þess­arra fyr­ir­tækja er mikið og er jafn­vel talið van­met­ið.

Arion banki er í 87 prósent eigu Kaupþings og 13 prósent eigu ríkisins. Nú stendur til að selja um 50 prósent hlut til vogunarsjóða og lífeyrissjóða
Mynd: Birgir Þór

Auk þess telja þeir sem að við­ræð­unum koma að í því felist sam­keppn­is­for­skot fyrir þann banka sem losnar fyrst út eft­ir­hruns-hrömm­un­um. Þ.e. kom­ist í eign aðila sem leggi áherslu á arð­semi og vöxt. Slíkur banki muni eiga auð­veld­ara með að fjár­magna sig á alþjóð­legum fjár­mála­mörk­uðum í stað þess að vera að mestu fjár­magn­aður af inn­lánum við­skipta­vina eins og er í dag (fjár­mögnun stóru íslensku bank­anna þriggja er sirka 50-70 pró­sent í formi inn­lána, minnst hjá Arion banka).Þá gæti bank­inn tekið þátt í t.d. fyr­ir­tækja­yf­ir­tökum með við­skipta­vinum sín­um. Yfir­tökum sem margir muna vel eftir frá því fyrir hrun, þegar slíkar voru hvers­dags­legir atburð­ir. Sér­stak­lega eftir að aðal­leik­endur innan stærstu fjár­fest­ing­ar­fé­laga lands­ins voru orðnir stærstu eig­endur bank­anna líka.

Slíkur banki muni geta greitt hærri laun, boðið upp á meira spenn­andi vinnu­um­hverfi og myndi soga til sín helstu starfs­krafta í fjár­mála­geir­anum á meðan að Lands­bank­inn og Íslands­banki yrðu áfram, að minnsta kosti um stund­ar­sakir, í eigu íslenska rík­is­ins. Og bundnir þeim skyn­sem­is- og ábyrgð­ar­hömlum sem slíku fylg­ir.

Eng­inn má snigl­ast með í „bak­pok­an­um“

Líf­eyr­is­sjóð­irnir setja þó ekki bara fram kröfur um sann­gjarnt kaup­verð í þeim við­ræðum sem standa yfir. Þeir gera líka ýmsar aðrar kröf­ur, enda átta þeir sig á því að sala á banka á Íslandi er alltaf tor­tryggð, í ljósi sög­unn­ar. Á meðal þeirra skil­yrða sem þeir fara fram á er að eng­inn einka­fjár­festir sé í „bak­pok­an­um“ í kaup­un­um. Þ.e. að ein­stakir fjár­sterkir aðilar fái ekki að fljóta með í kaupum sjóð­anna á sama gengi og þeim býð­st, líkt og gerð­ist t.d. þegar seldur var hlutur í Sím­anum snemma árs 2015.

Benedikt Gíslason var í lykilhlutverki í framkvæmdahópi íslenskra stjórnvalda um losun hafta. Hann var einnig um tíma aðstoðarmaður og efnahagsráðgjafi Bjarna Benediktssonar. Nú vinnur hann fyrir Kaupþing, þ.e. kröfuhafanna sem áður voru hinum megin við borðið.
mynd:Birgir Þór Harðarson

Þá er gerð ófrá­víkj­an­leg krafa um að Arion banki yrði skráður á markað sem fyrst eftir að kaupin yrðu frá­geng­in. Er þar horft til kom­andi hausts og að Arion banki yrði tví­skráður á mark­að, á Íslandi og í Sví­þjóð. Vonir standa til að aðrir fjár­festar en íslenskir líf­eyr­is­sjóðir gætu þá keypt þau 37 pró­sent sem eftir stæðu af hlutafé ef rík­ið, sem á 13 pró­sent hlut, myndi ekki selja sinn hlut strax. Virði 37 pró­sent hlutar miðað við 0,8 af bók­færðu eigin fé, er um 62,5 millj­arðar króna.

Þótt ríkið myndi ekki selja sinn hlut í Arion banka myndi rík­is­kass­inn samt bólgna vel út ef af verð­ur. Ástæða þess er sú að selj­and­inn, Kaup­þing, myndi nota hluta af sölu­and­virð­inu til að gera upp 84 millj­arða króna veð­skulda­bréf sem gefið var út í byrjun árs 2016 í tengslum við greiðslu stöð­ug­leika­eigna. Slík greiðsla myndi draga úr þörf íslenska rík­is­ins á því að gefa út rík­is­skulda­bréf og auka getu þess til að greiða niður skuldir eða ráð­ast í inn­viða­upp­bygg­ingu.

Háir bónusar undir

En það er líka hagur starfs­manna eign­ar­halds­fé­lags­ins Kaup­­þings, sem tók við hlut­verki slita­bús Kaup­­þings að loknum nauða­­samn­ingum bank­ans í lok árs 2015, að selja 87 pró­sent hlut félags­ins í Arion banka. Þeir geta fengið amtals tæp­­lega 1.500 millj­­ónir króna í bón­us­greiðslur ef mark­mið um hámörkum á virði óseldra eigna félags­­ins næst. Bón­us­greiðsl­­urnar eiga að greið­­ast út ekki síðar en í lok apríl 2018.

Einn þeirra sem mun hagn­ast á slíkri sölu er Bene­dikt Gísla­son, sem starfar sem ráð­gjafi Arion banka við söl­una á Arion banka. Hann sat áður í fram­kvæmda­hópi íslenskra stjórn­valda um losun hafta. Í póli­tískri orð­ræðu var sá hópur kynntur sem hönn­uður þeirra bar­efla sem berja átti á vog­un­ar­sjóðum í hópi kröfu­hafa með. Á end­anum var síðan samið við óvin­inn, kröfu­hafanna, um nið­ur­stöðu sem var þeim mjög að skapi og var í takt við það sem þeir höfðu lengi lagt upp með.

Eftir að þeirri vinnu lauk réð Bene­dikt sig til vinnu hjá gamla „óvin­in­um“ og gætir nú hags­muna hans við söl­una á Arion banka.

Verða virkir eig­endur

Margir velta því fyrir sér af hverju vog­un­ar­sjóðir í eig­enda­hópi Kaup­þings séu að kaupa hlut í Arion banka, í ljósi þess að þeir eiga bank­ann nú þeg­ar. Yrði það ekki eins og að færa eign úr vinstri vas­anum yfir í þann hægri? Nei, ekki alveg.

Þegar samið var um stöðu­leika­fram­lög setti íslenska ríkið inn ákvæði þess efnis að það gæti gengið inn í við­skipti með hluti í Arion banka ef gengið yrði lægra en 0,8 af bók­færðu eigin fé bank­ans. Í því sam­komu­lagi var líka samið um að Kaup­­­þing þurfi að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árs­­­lok 2018. Tak­ist það ekki mun rík­­­is­­­sjóður leysa bank­ann til sín.

Það er því hagur fyrir vog­un­ar­sjóð­ina að selja sjálfum sér Arion banka áður en til þess kæmi. Sér­stak­lega ef þeir telja að með „straum­línu­lög­un“ sé hægt að auka virði bank­ans til muna.

Við­mæl­endur Kjarn­ans telja meiri líkur en minni á því að af söl­unni verði. Bene­dikt Jóhann­es­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, hefur þegar lýst því yfir að hann fagni því ef Arion banki selst á góðu verði og að eign­ar­hald bank­ans verði dreift. Hann hefur ekki gert neinar sér­stakar athuga­semdir við að íslenskur við­skipta­banki verði að hluta í eigu banda­rískra vog­un­ar­sjóða.

Þá hefur Fjár­mála­eft­ir­litið gefið það út að vog­un­ar­sjóðir verði ekki fyr­ir­fram úti­lok­aðir frá því að eiga íslenskan við­skipta­banka.

Seðla­banki Íslands virð­ist líka vera að greiða leið vog­un­ar­sjóð­anna að kaup­un­um.

Forsætisráðherra viðraði hugmynd sína um að setja þak á atkvæðavægi lífeyrissjóða í fyrirtækjum sem þeir eiga í í viðtali við Morgunblaðið um helgina.
mynd: Birgir Þór Harðarson

Í Mark­aðnum, fylgi­riti Frétta­blaðs­ins um efna­hags­mál og við­skipti, þann 22. febr­úar var greint frá því að banda­rísku sjóð­irnir væru að bíða eftir sam­þykki Seðla­banka Íslands um und­an­þágu frá lögum um gjald­eyr­is­mál, vegna útgáfu afleiðu­samn­inga í því skyni að verja sig gegn geng­is­þróun krón­unn­ar, í tengslum við fjár­fest­ingu þeirra í Arion banka.

Tveimur dögum síðar til­kynnti Seðla­bank­inn um að nú væru for­sendur til að veita slíkar und­an­þág­ur.

Setja ummæli Bjarna strik í reikn­ing­inn?

Það hefur legið lengi ljóst fyrir að Bjarni Bene­dikts­son, nú for­sæt­is­ráð­herra, hefur haft efa­semdir um kaup íslenskra líf­eyr­is­sjóða á banka. Á umræðu­fundi sem hald­inn var um eign­ar­hald á atvinnu­fyr­ir­tækj­um, hlut­verki líf­eyr­is­sjóða og áhrif á sam­keppni, sem haldin var í maí 2016, sagði Bjarni, þá  fjár­­­mála- og efna­hags­ráð­herra, að það slái sig mjög illa að stærstu líf­eyr­is­­sjóðir lands­ins væru að tala sig sam­an­ um að kaupa Arion banka. „Þá yrði þetta orðið dálítið skrýt­ið. Líf­eyr­is­­sjóð­irnir eru ­með um 45 pró­­sent af skráðum hluta­bréfum og eru svo farnir að tala sig saman um að kaupa fjár­­­mála­­fyr­ir­tæki sem eru að þjón­usta fyr­ir­tækin sem þeir eru aðal­­eig­endur að.“

Bjarni var í við­tali við Morg­un­blaðið um liðna helgi og ljóst er að hann hefur enn sömu áhyggj­ur. En nú bætti Bjarni við að hann vildi skoða leið til að taka á þessu „vanda­máli“. Bjarni sagði að vegna sam­­þjöpp­unar á valdi sem geti fylgt fjár­­­fest­ingum líf­eyr­is­­sjóð­anna í atvinn­u­líf­inu finn­ist honum að taka þurfi til skoð­unar hvort þeir eigi að geta farið með atkvæð­is­rétt sem fylgja stórum eign­­ar­hlutum „eða hvort setja beri þak á slíkan atkvæð­is­rétt.“ Það myndi þá þýða að líf­eyr­is­­sjóð­ir, sem eru í eigu almenn­ings, myndu ekki fá atkvæð­is­rétt í sam­ræmi eign sína í skráðum íslenskum félögum en aðrir minni fjár­­­festar fá atkvæð­is­rétt umfram eign sína.

Ljóst þykir að slík tak­mörkun geti sett veru­legt strik í reikn­ing­inn hjá líf­eyr­is­sjóðum þegar kemur að stórum fjár­fest­ingum í fjár­mála­kerf­inu. Þeir hafa enda áður brent sig á því að fjár­festa úr aft­ur­sæt­inu í íslenskum bönkum með gíraða einka­fjár­festa við stýr­ið. Það end­aði í banka­hruni og kost­aði íslenska líf­eyr­is­sjóði hund­ruð millj­arða króna tapi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar