haftahopur.jpg

Af hverju er verið að selja Arion banka?

Færsla á íslensku bankakerfi yfir í hendur virkra einkafjárfesta er að hefjast, án þess að mikil pólitískt umræða hafi átt sér stað. Vogunarsjóðir og lífeyrissjóðir eru að kaupa helmingshlut í Arion banka. En af hverju?

Viðræður eru í gangi um að bandarískir vogunarsjóðir og íslenskir lífeyrissjóðir kaupi helmingshlut í íslenska viðskiptabankanum Arion banka. Hann er einn þeirra þriggja banka sem búnir voru til með handafli ríkissjóðs og löggjafarvaldsins utan um innstæður og innlendar eignir eftir að íslenska bankakerfið hrundi til grunna haustið 2008.

Íslenska ráðgjafafyrirtækið Icora Partners, í eigu Friðriks Jó­hanns­son­ar og Gunn­ars Páls Tryggva­son­ar, og Þórarinn V. Þórarinsson hæstaréttarlögmaður eru að vinna að því að greina stöðuna fyrir hönd lífeyrissjóðanna sem munu mögulega taka þátt í kaupunum. Um er að ræða stærstu lífeyrissjóði landsins: Lífeyrissjóð Verslunarmanna, Gildi og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) en ef af verður munu fleiri minni sjóðir, meðal annars Frjálsi lífeyrissjóðurinn, taka þátt í kaupunum.

Hugmyndin er að lífeyrissjóðirnir taki þá 25-30 prósent hlut í Arion banka en vogunarsjóðirnir Taconic Capital og Och-Ziff Capital – 20-25 prósent hlut. Stefnt var að því að klára kaupin í mars en nú er ljóst að af því verður ekki. Nú er vilji til að gera það, ef af verður, í apríl eða maí.

Karpað um verð

Viðræður um kaup lífeyrissjóða í Arion banka, með sömu milliliðum, hafa verið í gangi í lengri tíma. Þær hófust upprunalega í október 2015 og þá stóðu Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR, Gildi og Frjálsi lífeyrissjóðurinn að þeim. Ráðgjafarnir sem ráðnir voru til verksins voru Icora Partners og Þórarinn V. Þórarinnsson. Þeir áttu að greina stöðu Arion banka og leita eftir samningaviðræðum við slitabú Kaupþings, stærsta eiganda bankans. Í fyrra sigldu viðræðurnar í strand þótt þeim hafi aldrei formlega verið slitið. LSR dró sig hins vegar út úr hópnum þegar ekkert var að gerast.

Í upphafi árs 2017 hefur færst meiri alvara í málið. Viðmiðunarkaupverð var í kringum 0,8 krónur á hlut miðað við bókfært eigið fé bankans. Í árslok 2016 var eigið fé Arion banka 211 milljarðar króna og því yrði kaupverðið í kringum 85 milljarðar króna fyrir 50 prósent hlut. Kaupverðið má raunar ekki vera lægra, því þá virkjast ákvæði sem gerir íslenska ríkinu kleift að ganga inn í viðskiptin. Það ákvæði var sett inn þegar samið var um stöðugleikaframlög frá kröfuhöfum gömlu bankanna.

Viðmælendur Kjarnans segja hins vegar að það muni ýmislegt annað þurfa að fylgja með ef lífeyrissjóðirnir ætli að kaupa á þessu gengi. Ástæðan er meðal annars sú að arðsemi kjarnareksturs bankans sé töluvert undir því sem eðlilegt sé að gera kröfu til. Arðsemi eigin fjár allra íslensku viðskiptabankanna hefur enda verið að dragast saman á undanförnum árum. Það hefur hagnaður af reglulegri starfsemi líka verið að gera. Í fyrra var t.d. slíkur hagnaður hjá Arion banka 9,7 milljarðar króna í samanburði við 14,1 milljarð króna árið 2015.

Sjá tækifæri í „straumlínulögun“

Þrátt fyrir að undirliggjandi starfsemi Arion banka sé ekki mjög spennandi sjá lífeyrissjóðirnir tækifæri í bankanum. Viðmælendur Kjarnans hafa meðal annars bent á að kostnaðarhlutfall (tekjum deilt í rekstrarkostnað) Arion banka hafi verið 57,2 prósent í fyrra. Því séu miklir hagræðingarmöguleikar til staðar innan bankans. Þeir hagræðingarmöguleikar felist fyrst og síðast í því að fækka starfsfólki umtalsvert og „straumlínulaga“ rekstur bankans. Starfsmenn samstæðu Arion banka voru 1.239 talsins í lok árs 2016. Þar af voru 869 bara hjá Arion banka. Það er samdóma álit allra sem Kjarninn hefur rætt við um málið á undanförnum dögum að það vinni allt of margir í Arion banka og að starfsemi hans sé of víðtæk. Það eigi raunar við um alla íslensku viðskiptabankanna.

Þá er horft hýru auga til dótturfélaganna Valitor, sem stundar færsluhirðingu og greiðslumiðlun, Stefnis, stærsta sjóðstýringarfyrirtækis á Íslandi, og Varðar, tryggingafélags sem er alfarið í eigu Arion banka. Virði þessarra fyrirtækja er mikið og er jafnvel talið vanmetið.

Arion banki er í 87 prósent eigu Kaupþings og 13 prósent eigu ríkisins. Nú stendur til að selja um 50 prósent hlut til vogunarsjóða og lífeyrissjóða
Mynd: Birgir Þór

Auk þess telja þeir sem að viðræðunum koma að í því felist samkeppnisforskot fyrir þann banka sem losnar fyrst út eftirhruns-hrömmunum. Þ.e. komist í eign aðila sem leggi áherslu á arðsemi og vöxt. Slíkur banki muni eiga auðveldara með að fjármagna sig á alþjóðlegum fjármálamörkuðum í stað þess að vera að mestu fjármagnaður af innlánum viðskiptavina eins og er í dag (fjármögnun stóru íslensku bankanna þriggja er sirka 50-70 prósent í formi innlána, minnst hjá Arion banka).Þá gæti bankinn tekið þátt í t.d. fyrirtækjayfirtökum með viðskiptavinum sínum. Yfirtökum sem margir muna vel eftir frá því fyrir hrun, þegar slíkar voru hversdagslegir atburðir. Sérstaklega eftir að aðalleikendur innan stærstu fjárfestingarfélaga landsins voru orðnir stærstu eigendur bankanna líka.

Slíkur banki muni geta greitt hærri laun, boðið upp á meira spennandi vinnuumhverfi og myndi soga til sín helstu starfskrafta í fjármálageiranum á meðan að Landsbankinn og Íslandsbanki yrðu áfram, að minnsta kosti um stundarsakir, í eigu íslenska ríkisins. Og bundnir þeim skynsemis- og ábyrgðarhömlum sem slíku fylgir.

Enginn má sniglast með í „bakpokanum“

Lífeyrissjóðirnir setja þó ekki bara fram kröfur um sanngjarnt kaupverð í þeim viðræðum sem standa yfir. Þeir gera líka ýmsar aðrar kröfur, enda átta þeir sig á því að sala á banka á Íslandi er alltaf tortryggð, í ljósi sögunnar. Á meðal þeirra skilyrða sem þeir fara fram á er að enginn einkafjárfestir sé í „bakpokanum“ í kaupunum. Þ.e. að einstakir fjársterkir aðilar fái ekki að fljóta með í kaupum sjóðanna á sama gengi og þeim býðst, líkt og gerðist t.d. þegar seldur var hlutur í Símanum snemma árs 2015.

Benedikt Gíslason var í lykilhlutverki í framkvæmdahópi íslenskra stjórnvalda um losun hafta. Hann var einnig um tíma aðstoðarmaður og efnahagsráðgjafi Bjarna Benediktssonar. Nú vinnur hann fyrir Kaupþing, þ.e. kröfuhafanna sem áður voru hinum megin við borðið.
mynd:Birgir Þór Harðarson

Þá er gerð ófrávíkjanleg krafa um að Arion banki yrði skráður á markað sem fyrst eftir að kaupin yrðu frágengin. Er þar horft til komandi hausts og að Arion banki yrði tvískráður á markað, á Íslandi og í Svíþjóð. Vonir standa til að aðrir fjárfestar en íslenskir lífeyrissjóðir gætu þá keypt þau 37 prósent sem eftir stæðu af hlutafé ef ríkið, sem á 13 prósent hlut, myndi ekki selja sinn hlut strax. Virði 37 prósent hlutar miðað við 0,8 af bókfærðu eigin fé, er um 62,5 milljarðar króna.

Þótt ríkið myndi ekki selja sinn hlut í Arion banka myndi ríkiskassinn samt bólgna vel út ef af verður. Ástæða þess er sú að seljandinn, Kaupþing, myndi nota hluta af söluandvirðinu til að gera upp 84 milljarða króna veðskuldabréf sem gefið var út í byrjun árs 2016 í tengslum við greiðslu stöðugleikaeigna. Slík greiðsla myndi draga úr þörf íslenska ríkisins á því að gefa út ríkisskuldabréf og auka getu þess til að greiða niður skuldir eða ráðast í innviðauppbyggingu.

Háir bónusar undir

En það er líka hagur starfsmanna eignarhaldsfélagsins Kaup­þings, sem tók við hlut­verki slitabús Kaup­þings að loknum nauða­samn­ingum bank­ans í lok árs 2015, að selja 87 prósent hlut félagsins í Arion banka. Þeir geta fengið amtals tæp­lega 1.500 millj­ónir króna í bón­us­greiðslur ef mark­mið um hámörkum á virði óseldra eigna félags­ins næst. Bón­us­greiðsl­urnar eiga að greið­ast út ekki síðar en í lok apríl 2018.

Einn þeirra sem mun hagnast á slíkri sölu er Benedikt Gíslason, sem starfar sem ráðgjafi Arion banka við söluna á Arion banka. Hann sat áður í framkvæmdahópi íslenskra stjórnvalda um losun hafta. Í pólitískri orðræðu var sá hópur kynntur sem hönnuður þeirra barefla sem berja átti á vogunarsjóðum í hópi kröfuhafa með. Á endanum var síðan samið við óvininn, kröfuhafanna, um niðurstöðu sem var þeim mjög að skapi og var í takt við það sem þeir höfðu lengi lagt upp með.

Eftir að þeirri vinnu lauk réð Benedikt sig til vinnu hjá gamla „óvininum“ og gætir nú hagsmuna hans við söluna á Arion banka.

Verða virkir eigendur

Margir velta því fyrir sér af hverju vogunarsjóðir í eigendahópi Kaupþings séu að kaupa hlut í Arion banka, í ljósi þess að þeir eiga bankann nú þegar. Yrði það ekki eins og að færa eign úr vinstri vasanum yfir í þann hægri? Nei, ekki alveg.

Þegar samið var um stöðuleikaframlög setti íslenska ríkið inn ákvæði þess efnis að það gæti gengið inn í viðskipti með hluti í Arion banka ef gengið yrði lægra en 0,8 af bókfærðu eigin fé bankans. Í því samkomulagi var líka samið um að Kaup­­þing þurfi að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árs­­lok 2018. Tak­ist það ekki mun rík­­is­­sjóður leysa bank­ann til sín.

Það er því hagur fyrir vogunarsjóðina að selja sjálfum sér Arion banka áður en til þess kæmi. Sérstaklega ef þeir telja að með „straumlínulögun“ sé hægt að auka virði bankans til muna.

Viðmælendur Kjarnans telja meiri líkur en minni á því að af sölunni verði. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur þegar lýst því yfir að hann fagni því ef Arion banki selst á góðu verði og að eignarhald bankans verði dreift. Hann hefur ekki gert neinar sérstakar athugasemdir við að íslenskur viðskiptabanki verði að hluta í eigu bandarískra vogunarsjóða.

Þá hefur Fjármálaeftirlitið gefið það út að vogunarsjóðir verði ekki fyrirfram útilokaðir frá því að eiga íslenskan viðskiptabanka.

Seðlabanki Íslands virðist líka vera að greiða leið vogunarsjóðanna að kaupunum.

Forsætisráðherra viðraði hugmynd sína um að setja þak á atkvæðavægi lífeyrissjóða í fyrirtækjum sem þeir eiga í í viðtali við Morgunblaðið um helgina.
mynd: Birgir Þór Harðarson

Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, þann 22. febrúar var greint frá því að bandarísku sjóðirnir væru að bíða eftir samþykki Seðlabanka Íslands um undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál, vegna útgáfu afleiðusamninga í því skyni að verja sig gegn gengisþróun krónunnar, í tengslum við fjárfestingu þeirra í Arion banka.

Tveimur dögum síðar tilkynnti Seðlabankinn um að nú væru forsendur til að veita slíkar undanþágur.

Setja ummæli Bjarna strik í reikninginn?

Það hefur legið lengi ljóst fyrir að Bjarni Benediktsson, nú forsætisráðherra, hefur haft efasemdir um kaup íslenskra lífeyrissjóða á banka. Á umræðufundi sem haldinn var um eignarhald á atvinnufyrirtækjum, hlutverki lífeyrissjóða og áhrif á samkeppni, sem haldin var í maí 2016, sagði Bjarni, þá  fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, að það slái sig mjög illa að stærstu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins væru að tala sig sam­an­ um að kaupa Arion banka. „Þá yrði þetta orðið dálítið skrýt­ið. Líf­eyr­is­sjóð­irnir eru ­með um 45 pró­sent af skráðum hluta­bréfum og eru svo farnir að tala sig saman um að kaupa fjár­mála­fyr­ir­tæki sem eru að þjón­usta fyr­ir­tækin sem þeir eru aðal­eig­endur að.“

Bjarni var í viðtali við Morgunblaðið um liðna helgi og ljóst er að hann hefur enn sömu áhyggjur. En nú bætti Bjarni við að hann vildi skoða leið til að taka á þessu „vandamáli“. Bjarni sagði að vegna sam­þjöpp­unar á valdi sem geti fylgt fjár­fest­ingum líf­eyr­is­sjóð­anna í atvinnu­líf­inu finn­ist honum að taka þurfi til skoð­unar hvort þeir eigi að geta farið með atkvæð­is­rétt sem fylgja stórum eign­ar­hlutum „eða hvort setja beri þak á slíkan atkvæð­is­rétt.“ Það myndi þá þýða að líf­eyr­is­sjóðir, sem eru í eigu almennings, myndu ekki fá atkvæð­is­rétt í sam­ræmi eign sína í skráðum íslenskum félögum en aðrir minni fjár­festar fá atkvæð­is­rétt umfram eign sína.

Ljóst þykir að slík takmörkun geti sett verulegt strik í reikninginn hjá lífeyrissjóðum þegar kemur að stórum fjárfestingum í fjármálakerfinu. Þeir hafa enda áður brent sig á því að fjárfesta úr aftursætinu í íslenskum bönkum með gíraða einkafjárfesta við stýrið. Það endaði í bankahruni og kostaði íslenska lífeyrissjóði hundruð milljarða króna tapi.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar