Vogunarsjóðir mokgræða á nýju tilboði Seðlabankans
Það margborgaði sig fyrir vogunarsjóðina og hina fjárfestana sem áttu aflandskrónur að hafna því að taka þátt í útboði Seðlabanka Íslands í fyrra. Þeir fá nú 38 prósent fleiri evrur fyrir krónurnar sínar.
Þeir vogunarsjóðir sem neituðu að taka þátt í aflandskrónuútboði Seðlabanka Íslands í fyrra hafa hagnast mjög á ákvörðun sinni. Í því útboði bauðst þeim að borga 190 krónur fyrir hverja evru en samkvæmt nýju samkomulagi sem Seðlabanki Íslands hefur gert við eigendur krónueignanna þurfa þeir einungis að greiða 137,5 krónur á hverja evru. Ávinningur þeirra, í evrum talið, er um 38 prósent. Þ.e. þeir fá um 38 prósent fleiri evrur fyrir krónurnar sínar en þeir hefðu fengið ef sjóðirnir hefðu tekið tilboði Seðlabanka Íslands í fyrrasumar.
Raunar hefur krónan styrkst svo mikið síðan þá að skráð gengi Seðlabanka Íslands á þeim tíma sem útboðið fór fram, sem var 16. júní 2016, var 138,6 krónur gagnvart evru. Það þýðir að vogunarsjóðirnir sem eiga þessar krónueignir fá nú fleiri evrur fyrir krónurnar sínar en ef þeir hefðu fengið að skipta þeim í banka síðastliðið sumar.
Þrátt fyrir þetta hafa ekki allir erlendir eigendur krónueigna samþykkt að fara út úr íslensku hagkerfi á þeim kjörum sem Seðlabanki Íslands býður. Alls hafa eigendur 90 milljarða króna samþykkt tilboð Seðlabanka Íslands en eigendur 105 milljarða króna hafa ekki tekið því tilboði. Að minnsta kosti ekki ennþá. Þar gæti spilað inn í væntingar um að íslenska krónan muni styrkjast enn meira eftir að höftum verður lyft að fullu. Þeir gætu því tekið út enn meiri gengishagnað en þeim býðst nú ef svo fer og leið opnast fyrir þá út úr íslensku efnahagskerfi.
Hótunin reyndist innihaldslítil
Íslensk stjórnvöld voru digurbarkaleg þegar þau tilkynntu um stór skref í átt að losun hafta snemma síðasta sumar. Þá var boðað að í aðdraganda skrefa sem átti að stíga til að losa um höft á einstaklinga og fyrirtæki myndu aflandskrónueigendum, að mestu bandarískir vogunarsjóðir, bjóðast afarkostir. Þeir yrðu þannig að annað hvort myndu þeir sætta sig við það gengi sem Seðlabanki Íslands bauð þeim fyrir krónurnar þeirra eða að eignir þeirra yrðu settar inn á nær vaxtalausa reikninga í refsingarskyni og þeim færu aftast í röðina þegar kæmi að því að fá að yfirgefa íslenskt efnahagskerfi eftir losun hafta. Stærstir á meðal þessara sjóða eru bandarísku sjóðirnir Eaton Vance Corp. og Autonomy Capital LP.
Flestir aflandskrónueigendurnir sáu í gegnum þessar hótanir og neituðu að taka þátt. Heildarumfang vandans á þeim tíma þegar útboðin, þau voru tvö, fóru fram var 319 milljarðar króna. Fjárhæð samþykktra tilboða í báðum útboðunum var 83 milljarðar króna sem þýddi að þorri eigenda krónanna fannst tilboðið ekki ásættanlegt.
Þess í stað fólu sjóðirnir lögmanni sínum að kanna grundvöll fyrir mögulegri málshöfðun á hendur íslenska ríkinu auk þess sem þeir kvörtuðu til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna lagasetningar sem samþykkt voru aðfaranótt 23. maí 2016 og þeir töldu að fæli í sér eignarupptöku og brot á jafnræðisreglu.
Keyptu auglýsingar gegn íslenskum stjórnvöldum
Þeir gerðu raunar ýmislegt annað líka. Eða réttara sagt keyptar hugveitur á þeirra vegum. Á síðasta ári, og sérstaklega í aðdraganda kosninga, fóru auglýsingarnar að birtast um afstöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart erlendum fjárfestum. Auglýsingarnar voru frá fyrirbæri sem kallar sig Iceland Watch, og er rekið af hugveitunni Institute for Liberty.
IcelandWatch.org verkefnið vakti fyrst athygli hérlendis þegar það keypti birtingar á Twitter til að koma boðskap sínum á framfæri. Augljóst var að tilgangurinn var að gæta hagsmuna erlendra kröfuhafa sem neituðu að taka þátt í aflandskrónuuppboði Seðlabanka Íslands.
Þann 14. október 2016 birtust síðan heilsíðuauglýsingar í bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu frá Iceland Watch. Auglýsingarnar birtust einnig á á dönsku í dönskum fjölmiðlum, m.a. viðskiptablaðinu Börsen, og á ensku í bandarískum fjölmiðlum.
Í auglýsingunni voru Íslendingar varaðir við því að mismuna alþjóðafjárfestum. Þar sagði:„Við höfum séð þetta áður. Þegar kærulaus stjórnvöld fyrirgera réttarríkinu hverfur erlend fjárfesting og landsmenn gjalda fyrir það. Á Íslandi mismuna ný lög alþjóðlegum fjárfestum og neyða þá til að selja skuldabréf sem tryggð eru í krónum með miklum afslætti, eða til að láta eignir sínar á reikninga sem bera enga vexti. Tölum skýrt: Svívirðileg ný lög landsins mismuna fjárfestum eftir þjóðerni þeirra. Frekar en að halda áfram viðræðum við alþjóðlega fjárfesta sem reynt hafa að ná samningum í góðri trú hefur Ísland stillt þeim upp við vegg.“
Daganna fyrir kosningarnar í lok október 2016 birti Iceland Watch svo nýja auglýsingu í Morgunblaðinu. Nú var hún með mynd af Má Guðmundssyni seðlabankastjóra og spurt hver „greiði fyrir spillingu og mismununarreglur á Íslandi“ og sagt að lesendur gerðu það. Þar var einnig spurt hvort Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri hjá Seðlabankanum, hafi „notað þekkingu sína á nýlega tilkynntri löggjöf um gjaldeyrishöft sem mismunar erlendum fjárfestum um að stunda innherjaviðskipti“.
Í auglýsingunni var því haldið fram að mismununarstefna íslenskra íslensku gjaldeyrishaftanna hafi kostað hvern Íslending á bilinu 1,7 til 3,1 milljón króna. Þetta hafi komið fram í „nýrri rannsókn“ sem er þó ekki tiltekið hver hafi framkvæmt eða hvernig.
Iceland Watch reyndi einnig að fá auglýsinguna birta í Fréttablaðinu en blaðið neitaði að gera það.
Ráðherranefnd um efnahagsmál fundaði sérstaklega um málið nokkrum dögum áður en að kosningarnar fóru fram. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sat líka þá fundi. Í yfirlýsingu sem ráðherranefndin sendi frá sér 28. október 2016, daginn fyrir þingkosningar, var þeim rangfærslum sem birtust í auglýsingunum mótmælt. „Ljóst er að erlendir aðilar, sem telja sig hafa hagsmuni af því að ráðstöfunum um meðferð aflandskróna verði breytt, standa að baki þessum auglýsingum, þar sem einnig er vegið með ósmekklegum hætti að starfsheiðri tiltekinna starfsmanna Seðlabanka Íslands. Einstakir stærri aflandskrónueigendur hafa að undirförnu freistað þess að hafa áhrif á alþjóðlegar stofnanir, lánshæfismatsfyrirtæki og almenna fjölmiðlaumfjöllun en orðið lítið ágengt.“
Það þarf neyð til að beita neyðarrétti
En aflandskrónueigendunum varð þrátt fyrir allt ágengt. Fyrir skemmstu var greint frá því að fulltrúar íslenskra stjórnvalda hefðu fundað með fulltrúum sjóðanna í New York til að reyna að höggva á hnútinn. Bara það að íslensk stjórnvöld, sem höfðu ítrekað sagt að ekki yrði kvikað frá þeirri hörðu línu sem lögð hafði verið gagnart vogunarsjóðunum, vildu hitta þá til að ræða lausnir var sigur í sjálfu sér.
Batnandi efnahagsaðstæður hérlendis, og mikil styrking krónunnar, hefur gert það að verkum að erfiðara og erfiðara hefur verið að réttlæta sértækar lagasetningar gagnvart einum hópi. Heimildir Kjarnans herma að fleiri og fleiri innan stjórnsýslunnar séu komnir á þá skoðun að slíkar hömlur gætu mögulega ekki staðist lög, en lagasetning sem Alþingi setti í aðdraganda aflandskrónuútboðanna í fyrra var rökstudd með því að aðgerðirnar þættu nauðsynlegar til að stuðla að greiðslujafnvægi í íslenska efnahagskerfinu og verja stöðugleika landsins.
Það þarf að vera neyð ef setja á neyðarlög. Og land sem var með 7,2 prósent hagvöxt í fyrra, sem hefur upplifað stanslausan háan vöxt árum saman, sem er búið að semja við kröfuhafa bankanna um að gefa eftir hluta innlendra eigna þeirra gegn því að fá aðganga að öðrum eignum, sem er komið með gott lánshæfismat og mjög viðráðanlega ríkisskuldastöðu, og upplifir tugprósenta styrkingu á gjaldmiðli sínum á mjög skömmu tímabili, getur illa borið fyrir sig neyð til að rökstyðja sértækar aðgerðir. Þessa stöðu lásu vogunarsjóðirnir og munu nú njóta árangur þolinmæði sinnar.