Mynd: Pexels.com

Vogunarsjóðir mokgræða á nýju tilboði Seðlabankans

Það margborgaði sig fyrir vogunarsjóðina og hina fjárfestana sem áttu aflandskrónur að hafna því að taka þátt í útboði Seðlabanka Íslands í fyrra. Þeir fá nú 38 prósent fleiri evrur fyrir krónurnar sínar.

Þeir vogunarsjóðir sem neituðu að taka þátt í aflandskrónuútboði Seðlabanka Íslands í fyrra hafa hagnast mjög á ákvörðun sinni. Í því útboði bauðst þeim að borga 190 krónur fyrir hverja evru en samkvæmt nýju samkomulagi sem Seðlabanki Íslands hefur gert við eigendur krónueignanna þurfa þeir einungis að greiða 137,5 krónur á hverja evru. Ávinningur þeirra, í evrum talið, er um 38 prósent. Þ.e. þeir fá um 38 prósent fleiri evrur fyrir krónurnar sínar en þeir hefðu fengið ef sjóðirnir hefðu tekið tilboði Seðlabanka Íslands í fyrrasumar.

Raunar hefur krónan styrkst svo mikið síðan þá að skráð gengi Seðlabanka Íslands á þeim tíma sem útboðið fór fram, sem var 16. júní 2016, var 138,6 krónur gagnvart evru. Það þýðir að vogunarsjóðirnir sem eiga þessar krónueignir fá nú fleiri evrur fyrir krónurnar sínar en ef þeir hefðu fengið að skipta þeim í banka síðastliðið sumar.

Þrátt fyrir þetta hafa ekki allir erlendir eigendur krónueigna samþykkt að fara út úr íslensku hagkerfi á þeim kjörum sem Seðlabanki Íslands býður. Alls hafa eigendur 90 milljarða króna samþykkt tilboð Seðlabanka Íslands en eigendur 105 milljarða króna hafa ekki tekið því tilboði. Að minnsta kosti ekki ennþá. Þar gæti spilað inn í væntingar um að íslenska krónan muni styrkjast enn meira eftir að höftum verður lyft að fullu. Þeir gætu því tekið út enn meiri gengishagnað en þeim býðst nú ef svo fer og leið opnast fyrir þá út úr íslensku efnahagskerfi.

Hótunin reyndist innihaldslítil

Íslensk stjórnvöld voru digurbarkaleg þegar þau tilkynntu um stór skref í átt að losun hafta snemma síðasta sumar. Þá var boðað að í aðdraganda skrefa sem átti að stíga til að losa um höft á einstaklinga og fyrirtæki myndu aflandskrónueigendum, að mestu bandarískir vogunarsjóðir, bjóðast afarkostir. Þeir yrðu þannig að annað hvort myndu þeir sætta sig við það gengi sem Seðlabanki Íslands bauð þeim fyrir krónurnar þeirra eða að eignir þeirra yrðu settar inn á nær vaxtalausa reikninga í refsingarskyni og þeim færu aftast í röðina þegar kæmi að því að fá að yfirgefa íslenskt efnahagskerfi eftir losun hafta. Stærstir á meðal þessara sjóða eru bandarísku sjóðirnir Eaton Vance Corp. og Autonomy Capital LP.

Flestir aflandskrónueigendurnir sáu í gegnum þessar hótanir og neituðu að taka þátt. Heildarumfang vandans á þeim tíma þegar útboðin, þau voru tvö, fóru fram var 319 milljarðar króna. Fjár­hæð sam­þykktra til­boða í báðum útboð­unum var 83 millj­arðar króna sem þýddi að þorri eigenda krónanna fannst tilboðið ekki ásættanlegt.

Þess í stað fólu sjóð­irnir lögmanni sínum að kanna grund­völl fyrir mögu­legri máls­höfðun á hendur íslenska rík­inu auk þess sem þeir kvörtuðu til Eft­ir­lits­stofn­unar EFTA (ESA) vegna laga­setn­ingar sem sam­þykkt voru aðfara­nótt 23. maí 2016 og þeir töldu að fæli í sér eign­ar­upp­töku og brot á jafn­ræð­is­reglu.

Keyptu auglýsingar gegn íslenskum stjórnvöldum

Þeir gerðu raunar ýmislegt annað líka. Eða réttara sagt keyptar hugveitur á þeirra vegum. Á síðasta ári, og sérstaklega í aðdraganda kosninga, fóru aug­lýs­ing­arnar að birtast um afstöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart erlendum fjárfestum. Auglýsingarnar voru frá fyrirbæri sem kallar sig Iceland Watch, og er rekið af hug­veit­unni Institute for Liberty.

IcelandWatch.org verk­efnið vakti fyrst athygli hér­­­lendis þegar það keypti birt­ingar á Twitter til að koma boð­­skap sínum á fram­­færi. Aug­­ljóst var að til­­­gang­­ur­inn var að gæta hags­muna erlendra kröf­u­hafa sem neit­uðu að taka þátt í aflandskrón­u­­upp­­­boði Seðla­­banka Íslands.

 Ein þeirra auglýsinga sem birtar voru í fyrrahaust.

Þann 14. októ­ber 2016 birt­ust síðan heil­síðu­aug­lýs­ingar í bæði Frétta­blað­inu og Morg­un­blað­inu frá Iceland Watch. Aug­lýs­ing­arnar birt­ust einnig á  á dönsku í dönskum fjöl­miðlum, m.a. við­­skipta­­blað­inu Börsen, og á ensku í banda­rískum fjöl­mið­l­­um.

Í aug­lýs­ing­unni voru Íslend­ingar varaðir við því að mis­muna alþjóða­fjár­fest­um. Þar sagð­i:„Við höfum séð þetta áður­. Þegar kæru­­laus stjórn­­völd fyr­ir­­gera rétt­­ar­­rík­­inu hverfur erlend fjár­­­fest­ing og lands­­menn gjalda fyrir það. Á Íslandi mis­­muna ný lög alþjóð­­legum fjár­­­festum og neyða þá til að selja skulda­bréf sem ­tryggð eru í krónum með miklum afslætti, eða til að láta eignir sínar á reikn­inga sem ber­a enga vext­i. ­Tölum skýrt: Sví­virð­i­­leg ný lög lands­ins mis­­muna fjár­­­festum eftir þjóð­erni þeirra. Frekar en að halda áfram við­ræðum við alþjóð­­lega fjár­­­festa sem reynt hafa að ná ­samn­ingum í góðri trú hefur Ísland stillt þeim upp við vegg.“

Daganna fyrir kosningarnar í lok október 2016 birti Iceland Watch svo nýja aug­lýs­ingu í Morg­un­blað­inu. Nú var hún með mynd af Má Guð­munds­syni seðla­banka­stjóra og spurt hver „greiði fyrir spill­ingu og mismununarreglur á Íslandi“ og sagt að les­endur gerðu það. Þar var einnig spurt hvort Sturla Páls­son, fram­kvæmda­stjóri hjá Seðla­bank­an­um, hafi „notað þekk­ingu sína á nýlega til­kynntri lög­gjöf um gjald­eyr­is­höft sem mis­munar erlendum fjár­festum um að stunda innherjaviðskipti“.

Í aug­lýs­ing­unni var því haldið fram að mismununarstefna íslenskra íslensku gjald­eyr­is­haft­anna hafi kostað hvern Íslend­ing á bil­inu 1,7 til 3,1 milljón króna. Þetta hafi komið fram í „nýrri rann­sókn“ sem er þó ekki til­tekið hver hafi fram­kvæmt eða hvern­ig.

Iceland Watch reyndi einnig að fá aug­lýs­ing­una birta í Frétta­blað­inu en blaðið neit­aði að gera það.

Ráð­herra­nefnd um efna­hags­mál fund­aði sérstaklega um málið nokkrum dögum áður en að kosningarnar fóru fram. Már Guð­munds­son seðla­banka­stjóri sat líka þá fundi. Í yfir­lýs­ingu sem ráð­herra­nefnd­in sendi frá sér 28. október 2016, daginn fyrir þingkosningar, var þeim rang­færslum sem birt­ust í aug­lýs­ing­unum mót­mælt. „Ljóst er að erlendir aðil­ar, sem telja sig hafa hags­muni af því að ráð­stöf­unum um með­ferð aflandskróna verði breytt, standa að baki þessum aug­lýs­ing­um, þar sem einnig er vegið með ósmekk­legum hætti að starfs­heiðri til­tek­inna starfs­manna Seðla­banka Íslands. Ein­stakir stærri aflandskrónu­eig­endur hafa að und­ir­förnu freistað þess að hafa áhrif á alþjóð­legar stofn­an­ir, láns­hæf­is­mats­fyr­ir­tæki og almenna fjöl­miðlaum­fjöllun en orðið lítið ágengt.“

Það þarf neyð til að beita neyðarrétti

En aflandskrónueigendunum varð þrátt fyrir allt ágengt. Fyrir skemmstu var greint frá því að fulltrúar íslenskra stjórnvalda hefðu fundað með fulltrúum sjóðanna í New York til að reyna að höggva á hnútinn. Bara það að íslensk stjórnvöld, sem höfðu ítrekað sagt að ekki yrði kvikað frá þeirri hörðu línu sem lögð hafði verið gagnart vogunarsjóðunum, vildu hitta þá til að ræða lausnir var sigur í sjálfu sér.

Ríkisstjórnin sem tók við 2013 skilgreindi sig að mörgu leyti út frá þeirri hörku sem hún taldi sig hafa sýnt vögunarsjóðum. Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson leiddu þá ríkisstjórn.
Mynd: Birgir Þór

Batnandi efnahagsaðstæður hérlendis, og mikil styrking krónunnar, hefur gert það að verkum að erfiðara og erfiðara hefur verið að réttlæta  sértækar lagasetningar gagnvart einum hópi. Heimildir Kjarnans herma að fleiri og fleiri innan stjórnsýslunnar séu komnir á þá skoðun að slíkar hömlur gætu mögulega ekki staðist lög, en lagasetning sem Alþingi setti í aðdraganda aflandskrónuútboðanna í fyrra var rök­studd með því að aðgerð­­irnar þættu nauð­­syn­­legar til að stuðla að greiðslu­­jafn­­vægi í íslenska efna­hags­­kerf­inu og verja stöð­ug­­leika lands­ins.

Það þarf að vera neyð ef setja á neyðarlög. Og land sem var með 7,2 prósent hagvöxt í fyrra, sem hefur upplifað stanslausan háan vöxt árum saman, sem er búið að semja við kröfuhafa bankanna um að gefa eftir hluta innlendra eigna þeirra gegn því að fá aðganga að öðrum eignum, sem er komið með gott lánshæfismat og mjög viðráðanlega ríkisskuldastöðu, og upplifir tugprósenta styrkingu á gjaldmiðli sínum á mjög skömmu tímabili, getur illa borið fyrir sig neyð til að rökstyðja sértækar aðgerðir. Þessa stöðu lásu vogunarsjóðirnir og munu nú njóta árangur þolinmæði sinnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None