Þróun sígarettureykinga á Íslandi hefur verið með ólíkindum síðustu þrjá áratugi. Hlutfall þeirra sem reykja daglega hefur lækkað um tvo þriðju á tímabilinu 1989-2015. Árið 2015 var hlutfall reykingamanna svo 12 prósent, en það er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Lækkunin hefur verið töluvert hraðari en hjá OECD-löndunum að meðaltali, þótt hún hafi verið nokkuð hröð þar líka.
Hlutfall daglegra reykingamanna á Íslandi og í löndum OECD
Þrátt fyrir þessa miklu lækkun lítur út fyrir að kostnaður þjóðfélagsins af reykingum sé enn mjög hár. Á málþingi um tóbaksvarnir sem fór fram síðastliðinn þriðjudag voru birtar fyrstu niðurstöður úr skýrslu Hagfræðistofnunnar um þjóðhagslegan kostnað reykinga. Niðurstöðurnar benda til þess að þótt hlutfall reykingamanna sé lágt á Íslandi þá kostaði það hvern íbúa tugi til hundruð þúsunda króna á ári. En hvernig er slíkur kostnaður metinn?
Brennir peninga
Þegar meta á þjóðhagslegan kostnað er oft vísað til hugtaks innan hagfræðinnar sem kallað er neikvæð ytri áhrif, en það er sá kostnaður sem utanaðkomandi aðilar verða fyrir. Sem dæmi um neikvæð ytri áhrif er mengun kísilverksmiðju sem spillir loftgæði íbúa í nágrenni þeirra. Sömuleiðis má segja að mengun stafi líka af sígarettum.
Í fyrsta lagi eru það óbeinar reykingar, en samkvæmt Hagfræðistofnun létust 15 Íslendingar af völdum þeirra árið 2015. Samfélagslegt tjón þessara dauðsfalla var metið á tæpa þrjá milljarða.
Í öðru lagi leiða reykingar til aukinnar skattbyrði vegna heilbrigðisútgjalda. Reykingamenn þurfa oftar á heilbrigðisþjónustu að halda og þar sem heilbrigðiskerfið er ríkisrekið þurfa allir skattgreiðendur að gjalda fyrir það. Útgjöld heilbrigðiskerfisins vegna reykinga voru samtals metin á um það bil níu milljarða.
Í þriðja lagi þarf vinnumarkaðurinn að gjalda þess að framleiðni reykingamanna sé minni. Hagfræðistofnun bendir á að ef gert er ráð fyrir því að reykingamenn taki sér 15 mínútur á dag í reykingahlé, þá verði samfélagið af verulegu framleiðslutapi. Þar að auki verða reykingamenn oftar veikari og taka að meðaltali 30 prósent fleiri veikindadaga en aðrir. Samanlagt framleiðslutap reykingamanna vegna reykingapása og veikindadaga var metið á 5,8 milljarða króna.
Við þetta bætast tveir minni kostnaðarliðir við, útgjöld til forvarnarstarfa og tjón af eldsvoðum sem rekja má til meðferðar á sígarettum. Þessir liðir ná saman upp í rúmar 100 milljónir og hafa því ekki teljanleg áhrif á heildarkostnað.
Ef þessir kostnaðarliðir eru lagðir saman fæst sú niðurstaða að öll neikvæðu ytri áhrifin vegna reykinga árið 2015 hefðu kostað Íslendinga 17,1 milljarð króna. Það gerir rúmar 50.000 krónur á hvern íbúa. Til að setja þennan kostnað í samhengi þá var kostnaður við byggingu Hörpu um 21 milljarður króna. Því er ljóst að þjóðfélagið verður af verulegum tekjum vegna ytri áhrifa sígarettureykinga.
Kostnaðarliður | Upphæð í millj ISK |
---|---|
Sjúkraflutningar | 17 |
Eignatap vegna eldsvoða | 25 |
Tóbaksvarnir | 120 |
Önnur heilbrigðisþjónusta | 251 |
Hjúkrunarheimili | 1.278 |
Lyfjanotkun | 1.600 |
Veikindadagar | 2.160 |
Óbeinar reykingar | 2.925 |
Reykingapásur | 3.680 |
Sjúkrahúsvist | 5.036 |
Skaðsemi reykingamanna
Það er gömul saga og ný að reykingar séu skaðleg hegðun. Landlæknisembætti Bandaríkjanna fullyrðir að finna megi beint orsakasamband milli reykinga og 19 sjúkdómaflokka, þá helst lungnakrabbameins, kransæðasjúkdóma og langvinnri lungnateppu. Jafnvel þótt hlutfall reykingamanna á Íslandi hafi verið með því lægsta í Evrópu árið 2015 áætlaði Hagfræðistofnun að á sama ári höfðu 355 reykingamenn látist og 54 orðið öryrkjar vegna þeirra.
Hvort taka eigi skert lífsgæði reykingamannanna sjálfra með í reikninginn þegar meta á þjóðhagslegan kostnað reykinga er umdeilt mál. Venjulega er ekki gert ráð fyrir því að einstaklingar myndu vísvitandi velja að skerða lífsgæði sín með því að reykja ef þeir fengju ekki jafnmikla ánægju af því. Hins vegar ánetjast margir tóbaki þegar þeir eru ungir og ekki fullkomlega meðvitaðir um skaðsemi þess.
Ef gert er ráð fyrir því að enginn reykingamaður hafi búist við skertum lífsgæðum þegar þeir byrjuðu að reykja, þá bætist við það tap sem þeir verða fyrir vegna dauða og örorku. Samanlagt var það tap metið á 68,8 milljarða árið 2015.
Samkvæmt niðurstöðum Hagfræðistofnunnar gæti þjóðhagslegur kostnaður reykinga árið 2015 því legið á breiðu bili. Að minnsta kosti var hann 17,8 milljarðar en gæti aukist alveg upp í 85,8 milljarða með breyttum forsendum. Með öðrum orðum kostuðu þær þjóðarbúið á bilinu 0,8-3,8 prósent af landsframleiðslu eftir því hversu mikið tillit er tekið til tapaðra lífsgæða reykingamannanna sjálfra.
Það yrði forvitnilegt að sjá hvort meira yrði gert í forvarnarmálum ef allir vissu af efnahagslega ábatanum af því. Í nýjasta fréttabréfi landlæknis komu fram þær upplýsingar að hlutfall þeirra sem reykja daglega hefði lækkað enn frekar árið 2016 og er þess vænst að hlutfallið muni halda áfram að minnka. Með minnkandi hlutfalli mun þjóðhagslegur kostnaður reykinga sömuleiðis minnka. Það ætti að vera fagnaðarefni, ekki aðeins vegna bættrar lýðheilsu heldur líka vegna jákvæðra efnahagslegra áhrifa.