Hauck &Aufhauser

Hauck & Auf­häuser-blekkingin opinberuð á miðvikudag

Rannsóknarnefnd er með gögn undir höndum sem sýna að aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupum á Búnaðarbankanum var blekking. Kaupþing virðist hafa hannað gjörninginn með aðkomu aflandsfélags.

Skýrsla rann­sókn­ar­nefndar Alþingis á aðkomu þýska bank­ans Hauck & Auf­häuser á kaupum á hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­anum snemma árs 2003 er til­búin og verður gerð opin­ber á mið­viku­dag, sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans.

Í Frétta­blað­inu í morgun er greint frá bréfi sem rann­sókn­ar­nefndin hefur sent til ýmissa ein­stak­linga sem komu að kaup­un­um. Á meðal þeirra eru Ólafur Ólafs­son, sem leiddi S-hóp­inn, og Sig­urður Ein­ars­son, sem varð starf­andi stjórn­ar­for­maður sam­ein­aðs banka Bún­að­ar­bank­ans og Kaup­þings. Í bréf­unum kemur fram að rann­sókn­ar­nefnd­in, sem sam­anstendur af hér­aðs­dóm­ar­anum Kjart­ani Björg­vins­syni, hafi gögn undir höndum sem sýni að aðkoma Hauck & Auf­häuser að kaup­unum á 45,8 pró­sent hlut í Bún­að­ar­bank­anum hafi í reynd aðeins verið að nafn­inu til. Kaupin hafi verið fjár­mögnuð í gegnum aflands­fé­lagið Well­ing & Partners, með heim­il­is­festi á Bresku-Jóm­frú­areyj­un­um, og gerðir voru samn­ingar um ann­ars vegar sölu­rétt og hins vegar veð- og trygg­ing­ar­ráð­staf­an­ir. Þá var Hauck & Auf­häuser tryggð skað­leysi af þátt­töku sinni í við­skipt­un­um. Fyrir aðkomu sína fékk Hauck & Auf­häuser greidda þókn­un.

Sam­an­dregið virð­ist nið­ur­staða nefnd­ar­inn­ar, sem verður kynnt opin­ber­lega á mið­viku­dag, vera sú að kaup Hauck & Auf­häuser í Bún­að­ar­bank­anum hafi verið mála­mynda­gjörn­ingur sem hópur Íslend­inga stóð að. Um er að ræða ein­stak­linga sem tengd­ust kaup­unum á Bún­að­ar­bank­anum af íslenska rík­inu og starfs­menn Kaup­þings, sem virð­ast hafa hannað gjörn­ing­inn. Bún­að­ar­bank­anum og Kaup­þingi var rennt saman þremur mán­uðum eftir að kaup S-hóps­ins á ráð­andi hlut í Bún­að­ar­bank­anum voru frá­geng­in. Tveimur árum eftir kaupin var Hauck & Auf­häuser búinn að selja sig alfarið út úr Bún­að­ar­bank­an­um.

Fræg­asti leppur Íslands­sög­unnar

Sú skýr­ing sem gefin var um aðkomu Hauck & Auf­häuser að kaup­unum hefur lengi verið dregin í efa og því oft verið haldið fram í opin­berri um­ræðu að bank­inn hafi verið leppur fyrir ráð­andi aðila í S-hópn­­um.

Þá hefur sú skoðun verið mjög ríkj­andi lengi að einka­væð­ing rík­is­bank­anna tveggja, Lands­banka Íslands og Bún­að­ar­bank­ans, hafi farið fram eftir meintri helm­inga­skipta­reglu þáver­andi stjórn­ar­flokka, Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks. Sam­kvæmt þeirri kenn­ingu fengu Björg­ólfs­feðgar, sem þóttu Sjálf­stæð­is­flokknum þókn­an­leg­ir, að kaupa Lands­bank­ann og Kjartan Gunn­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Sjálf­stæð­is­flokks­ins sat áfram í banka­ráði hans eftir einka­væð­ingu. S-hóp­ur­inn fékk að kaupa Bún­að­ar­bank­ann, en hann var leiddur af Ólafi Ólafs­syni kenndum við Sam­skip, sem hlaut fjög­urra og hálfs árs fang­els­is­dóm vegna Al Than­i-­máls­ins svo­kall­aða, og Finni Ing­ólfs­syni, þá for­stjóra VÍS en áður vara­for­manni og ráð­herra Fram­sókn­ar­flokks­ins. Finnur var þá til­tölu­lega nýhættur sem seðla­banka­stjóri.

Í júní 2016 sendi Tryggvi Gunn­ars­son, umboðs­maður Alþing­is, bréf til stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefndar Alþingis þar sem hann lagði til að skipuð yrði rann­sókn­ar­nefnd til að kom­ast til botns í aðkomu þýska einka­bank­ans Hauck &Auf­häuser að kaupum S-hóps­ins á Bún­að­ar­bank­anum í byrjun árs 2003. Þetta ætti að gera vegna þess að Tryggvi hefði nýjar upp­lýs­ingar sem byggðu á ábend­ingum um hver raun­veru­leg þátt­taka þýska bank­ans var. Kjarn­inn greindi frá því í kjöl­farið að þær upp­lýs­ingar hafi meðal ann­ars snúið að því að Kaup­þing, sem var sam­ein­aður Bún­að­ar­bank­anum skömmu eftir að söl­una á bank­an­um, hafi fjár­magnað Hauck & Auf­häuser.

Davíð vildi lög­reglu­rann­sókn

Finnur Ing­ólfs­son var sá fyrsti úr S-hópnum sem brást við frétt­un­um. Í sam­tali við Frétta­blaðið neit­aði hann því að kann­ast við að Hauck & Auf­häuser hefði verið leppur og bar meðal ann­ars fyrir sig skoðun rík­is­end­ur­skoð­unar á ásök­unum þar um frá árinu 2006.

Yfir­stjórn þess einka­væð­ing­ar­ferlis sem átti sér stað á árunum í kringum síð­ustu alda­mót var í höndum rík­is­stjórnar Íslands og fjög­urra manna ráð­herra­nefndar á hennar veg­um. Nefndin bar því ábyrgð á söl­unni.

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisáðherra, vildi að lögreglurannsókn færi fram á kaupunum.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í þeirri ráð­herra­nefnd áttu sæti Davíð Odds­son, þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra, Hall­dór Ásgríms­son, þáver­andi utan­rík­is­ráð­herra, Geir H. Haarde, þáver­andi fjár­mála­ráð­herra auk banka­mála­ráð­herra, sem kom úr röðum Fram­sókn­ar­flokks­ins. Fram til des­em­ber 1999 var sá áður­nefndur Finnur Ing­ólfs­son en eftir það Val­gerður Sverr­is­dótt­ir.

Bæði Davíð og Val­gerður hafa tjáðu sig um meinta leppun Hauck & Auf­häuser í vik­unni eftir að bréf Tryggva var sent. Val­gerður sagði að upp­lýs­ing­arnar sem fram væru að koma styrktu þann grun um að villt hafi verið um fyrir íslenskum stjórn­völdum á sínum tíma og mögu­lega hafi þýski bank­inn verið leppur fyrir inn­lenda fjár­festa. Davíð sagði við útvarps­þátt­inn Speg­il­inn að hann vilji að málið verði rann­sak­að. Lík­lega hafi þarna pottur verið brot­inn og Davíð vildi ganga lengra en að skipa rann­sókn­ar­nefnd. Hann vildi lög­reglu­rann­sókn.

Hvít­þvott­ar­skýrslur Rík­is­end­ur­skoð­unar

Raunar hefur áður farið fram skoðun á einka­væð­ingu bank­anna. Rík­is­end­ur­skoðun vann skýrslu árið 2003 þar sem nið­ur­staðan var sú að „ís­lensk stjórn­völd hafi í meg­in­at­riðum náð helstu mark­miðum sínum með einka­væð­ingu rík­is­fyr­ir­tækja á árunum 1998-2003.“ Engar athuga­semdir voru gerðar við það hvernig staðið var að sölu á hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­anum til S-hóps­ins í skýrsl­unni.

Í mars 2006 vann Rík­is­end­ur­skoðun síðan átta blað­síðna sam­an­tekt í kjöl­far fundar Vil­hjálms Bjarna­son­ar, núver­andi þing­manns Sjálf­stæð­is­flokks­ins, þar sem hann lagði fram nýjar upp­lýs­ingar um söl­una á Bún­að­ar­bank­anum til S-hóps­ins. Vil­hjálmur hefur lengi verið þeirrar skoð­un­ar, og taldi sig hafa gögn til að sýna fram á, að aðkoma Hauck & Auf­häuser hafi aldrei verið raun­veru­legur eig­andi að hlut í Bún­að­ar­bank­an­um.

Nið­ur­staða Rík­is­end­ur­skoð­unar var sú að ekk­ert sem lagt hafi verið fram í mál­inu hafi stutt víð­tækar álykt­anir Vil­hjálms. „Þvert á móti þykja liggja óyggj­andi upp­lýs­ingar og gögn um hið gagn­stæða,“ segir í skýrslu henn­ar.

Því hefur Rík­is­end­ur­skoðun tví­vegis sent frá sér skýrslu eða sam­an­tekt þar sem stofn­unin vottar að ekk­ert athuga­vert hafi verið við söl­una á 45,8 pró­sent hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­anum til S-hóps­ins og að aðkoma Hauck & Auf­häuser hafi alls ekki verið tor­tyggi­leg.

Kaupþing sameinaðist Búnaðarbankanum þremur mánuðum eftir að S-hópurinn keypti hann.

Rann­sókn­ar­nefnd Alþingis fjall­aði einnig um einka­væð­ing­una í skýrslu sinni. Í skýrslu hennar sagði: „Það er ljóst að það væri umfangs­mikið verk ef fjalla ætti í heild um fram­kvæmd einka­væð­ingar eign­ar­hluta rík­is­ins í bönkum og fjár­mála­fyr­ir­tækjum á árunum 1997 til og með 2003. Rann­sókn­ar­nefnd­inni er ætl­aður tak­mark­aður tími til að sinna þeim verk­efnum sem henni eru feng­in[...]Eftir athugun á fyr­ir­liggj­andi upp­lýs­ingum og með til­liti til þess tíma sem nefndin hafði til að vinna að rann­sókn sinni ákvað hún að beina athugun sinni sér­stak­lega að ákveðnum atriðum sem snerta und­ir­bún­ing og töku ákvarð­ana um sölu á eign­ar­hlutum í Lands­banka Íslands hf. og Bún­að­ar­banka Íslands hf., einkum á síð­ari hluta árs 2002.[...] Nefndin ítrekar að hér er ekki um að ræða heild­ar­út­tekt á einka­væð­ingu bank­anna eða tengdum mál­efn­um. Nefndin telur að þau atriði sem valin voru til nán­ari skoð­unar séu þess eðlis að ástæða sé til að staðnæmast við þau með til­liti til þess hvernig fór um rekstur hinna einka­væddu banka aðeins nokkrum árum eftir að eign­ar­haldi rík­is­ins lauk.“

Þar sem rann­sókn­ar­nefndin taldi sig ekki hafa svig­rúm til að gera tæm­andi rann­sókn á einka­væð­ingu bank­anna var lögð fram þings­á­lykt­un­ar­til­laga um slíka rann­sókn í sept­em­ber 2012. Hún var síðan sam­þykkt í nóv­em­ber sama ár. Af þeirri rann­sókn varð aldrei.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None