Hauck &Aufhauser

Hauck & Auf­häuser-blekkingin opinberuð á miðvikudag

Rannsóknarnefnd er með gögn undir höndum sem sýna að aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupum á Búnaðarbankanum var blekking. Kaupþing virðist hafa hannað gjörninginn með aðkomu aflandsfélags.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis á aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser á kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum snemma árs 2003 er tilbúin og verður gerð opinber á miðvikudag, samkvæmt heimildum Kjarnans.

Í Fréttablaðinu í morgun er greint frá bréfi sem rannsóknarnefndin hefur sent til ýmissa einstaklinga sem komu að kaupunum. Á meðal þeirra eru Ólafur Ólafsson, sem leiddi S-hópinn, og Sigurður Einarsson, sem varð starfandi stjórnarformaður sameinaðs banka Búnaðarbankans og Kaupþings. Í bréfunum kemur fram að rannsóknarnefndin, sem samanstendur af héraðsdómaranum Kjartani Björgvinssyni, hafi gögn undir höndum sem sýni að aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupunum á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum hafi í reynd aðeins verið að nafninu til. Kaupin hafi verið fjármögnuð í gegnum aflandsfélagið Welling & Partners, með heimilisfesti á Bresku-Jómfrúareyjunum, og gerðir voru samningar um annars vegar sölurétt og hins vegar veð- og tryggingarráðstafanir. Þá var Hauck & Aufhäuser tryggð skaðleysi af þátttöku sinni í viðskiptunum. Fyrir aðkomu sína fékk Hauck & Aufhäuser greidda þóknun.

Samandregið virðist niðurstaða nefndarinnar, sem verður kynnt opinberlega á miðvikudag, vera sú að kaup Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum hafi verið málamyndagjörningur sem hópur Íslendinga stóð að. Um er að ræða einstaklinga sem tengdust kaupunum á Búnaðarbankanum af íslenska ríkinu og starfsmenn Kaupþings, sem virðast hafa hannað gjörninginn. Búnaðarbankanum og Kaupþingi var rennt saman þremur mánuðum eftir að kaup S-hópsins á ráðandi hlut í Búnaðarbankanum voru frágengin. Tveimur árum eftir kaupin var Hauck & Aufhäuser búinn að selja sig alfarið út úr Búnaðarbankanum.

Frægasti leppur Íslandssögunnar

Sú skýr­ing sem gefin var um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum hefur lengi verið dregin í efa og því oft verið haldið fram í opin­berri um­ræðu að bank­inn hafi verið leppur fyrir ráð­andi aðila í S-hópn­um.

Þá hefur sú skoðun verið mjög ríkjandi lengi að einkavæðing ríkisbankanna tveggja, Landsbanka Íslands og Búnaðarbankans, hafi farið fram eftir meintri helmingaskiptareglu þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Samkvæmt þeirri kenningu fengu Björgólfsfeðgar, sem þóttu Sjálfstæðisflokknum þóknanlegir, að kaupa Landsbankann og Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sat áfram í bankaráði hans eftir einkavæðingu. S-hópurinn fékk að kaupa Búnaðarbankann, en hann var leiddur af Ólafi Ólafssyni kenndum við Samskip, sem hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm vegna Al Thani-málsins svokallaða, og Finni Ingólfssyni, þá forstjóra VÍS en áður varaformanni og ráðherra Framsóknarflokksins. Finnur var þá tiltölulega nýhættur sem seðlabankastjóri.

Í júní 2016 sendi Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem hann lagði til að skipuð yrði rannsóknarnefnd til að komast til botns í aðkomu þýska einkabankans Hauck &Aufhäuser að kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003. Þetta ætti að gera vegna þess að Tryggvi hefði nýjar upplýsingar sem byggðu á ábendingum um hver raunveruleg þátttaka þýska bankans var. Kjarninn greindi frá því í kjölfarið að þær upplýsingar hafi meðal annars snúið að því að Kaupþing, sem var sameinaður Búnaðarbankanum skömmu eftir að söluna á bankanum, hafi fjármagnað Hauck & Aufhäuser.

Davíð vildi lögreglurannsókn

Finnur Ingólfsson var sá fyrsti úr S-hópnum sem brást við fréttunum. Í samtali við Fréttablaðið neitaði hann því að kannast við að Hauck & Aufhäuser hefði verið leppur og bar meðal annars fyrir sig skoðun ríkisendurskoðunar á ásökunum þar um frá árinu 2006.

Yfirstjórn þess einkavæðingarferlis sem átti sér stað á árunum í kringum síðustu aldamót var í höndum ríkisstjórnar Íslands og fjögurra manna ráðherranefndar á hennar vegum. Nefndin bar því ábyrgð á sölunni.

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisáðherra, vildi að lögreglurannsókn færi fram á kaupunum.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í þeirri ráðherranefnd áttu sæti Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra auk bankamálaráðherra, sem kom úr röðum Framsóknarflokksins. Fram til desember 1999 var sá áðurnefndur Finnur Ingólfsson en eftir það Valgerður Sverrisdóttir.

Bæði Davíð og Valgerður hafa tjáðu sig um meinta leppun Hauck & Aufhäuser í vikunni eftir að bréf Tryggva var sent. Valgerður sagði að upplýsingarnar sem fram væru að koma styrktu þann grun um að villt hafi verið um fyrir íslenskum stjórnvöldum á sínum tíma og mögulega hafi þýski bankinn verið leppur fyrir innlenda fjárfesta. Davíð sagði við útvarpsþáttinn Spegilinn að hann vilji að málið verði rannsakað. Líklega hafi þarna pottur verið brotinn og Davíð vildi ganga lengra en að skipa rannsóknarnefnd. Hann vildi lögreglurannsókn.

Hvítþvottarskýrslur Ríkisendurskoðunar

Raunar hefur áður farið fram skoðun á einkavæðingu bankanna. Ríkisendurskoðun vann skýrslu árið 2003 þar sem niðurstaðan var sú að „íslensk stjórnvöld hafi í meginatriðum náð helstu markmiðum sínum með einkavæðingu ríkisfyrirtækja á árunum 1998-2003.“ Engar athugasemdir voru gerðar við það hvernig staðið var að sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins í skýrslunni.

Í mars 2006 vann Ríkisendurskoðun síðan átta blaðsíðna samantekt í kjölfar fundar Vilhjálms Bjarnasonar, núverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann lagði fram nýjar upplýsingar um söluna á Búnaðarbankanum til S-hópsins. Vilhjálmur hefur lengi verið þeirrar skoðunar, og taldi sig hafa gögn til að sýna fram á, að aðkoma Hauck & Aufhäuser hafi aldrei verið raunverulegur eigandi að hlut í Búnaðarbankanum.

Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var sú að ekkert sem lagt hafi verið fram í málinu hafi stutt víðtækar ályktanir Vilhjálms. „Þvert á móti þykja liggja óyggjandi upplýsingar og gögn um hið gagnstæða,“ segir í skýrslu hennar.

Því hefur Ríkisendurskoðun tvívegis sent frá sér skýrslu eða samantekt þar sem stofnunin vottar að ekkert athugavert hafi verið við söluna á 45,8 prósent hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins og að aðkoma Hauck & Aufhäuser hafi alls ekki verið tortyggileg.

Kaupþing sameinaðist Búnaðarbankanum þremur mánuðum eftir að S-hópurinn keypti hann.

Rannsóknarnefnd Alþingis fjallaði einnig um einkavæðinguna í skýrslu sinni. Í skýrslu hennar sagði: „Það er ljóst að það væri umfangsmikið verk ef fjalla ætti í heild um framkvæmd einkavæðingar eignarhluta ríkisins í bönkum og fjármálafyrirtækjum á árunum 1997 til og með 2003. Rannsóknarnefndinni er ætlaður takmarkaður tími til að sinna þeim verkefnum sem henni eru fengin[...]Eftir athugun á fyrirliggjandi upplýsingum og með tilliti til þess tíma sem nefndin hafði til að vinna að rannsókn sinni ákvað hún að beina athugun sinni sérstaklega að ákveðnum atriðum sem snerta undirbúning og töku ákvarðana um sölu á eignarhlutum í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., einkum á síðari hluta árs 2002.[...] Nefndin ítrekar að hér er ekki um að ræða heildarúttekt á einkavæðingu bankanna eða tengdum málefnum. Nefndin telur að þau atriði sem valin voru til nánari skoðunar séu þess eðlis að ástæða sé til að staðnæmast við þau með tilliti til þess hvernig fór um rekstur hinna einkavæddu banka aðeins nokkrum árum eftir að eignarhaldi ríkisins lauk.“

Þar sem rannsóknarnefndin taldi sig ekki hafa svigrúm til að gera tæmandi rannsókn á einkavæðingu bankanna var lögð fram þingsályktunartillaga um slíka rannsókn í september 2012. Hún var síðan samþykkt í nóvember sama ár. Af þeirri rannsókn varð aldrei.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None