Sprungur í ástlausu hjónabandi ríkisstjórnarflokka
Varla líður sú vika án þess að komi upp ágreiningur milli stjórnarflokkanna og hluti þingmanna Sjálfstæðismanna eru skæðari í andstöðu en stjórnarandstöðuflokkarnir. Ekki er meirihluti á bakvið fjármálaáætlun. Mun ríkisstjórnin sem nánast engin vildi mynda lifa út árið?
Í liðinni viku voru liðnir 100 dagar frá því að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum. Fyrir liggur að hún var ekki draumaríkisstjórn neins þeirra sem að henni standa, og líklega heldur ekki flestra kjósenda. Það sýna kannanir. Samkvæmt MMR eru 34,5 prósent landsmanna ánægðir með ríkisstjórnina. Það eru færri en voru ánægðir með síðustu ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks daginn fyrir kosningarnar haustið 2016, sem hrökklaðist frá völdum áður en kjörtímabilið kláraðist vegna hneykslismála. Raunar hefur ríkisstjórn aldrei byrjað feril sinn með jafn lítinn mældan stuðning og sú sem núna situr. Reglan á undanförnum árum er sú að rúmur meirihluti styðji ríkisstjórn í byrjun, en svo dali stuðningurinn þegar á líður kjörtímabilið. En þessi ríkisstjórn er undantekningin.
Ljóst var frá byrjun að í ríkisstjórninni var leitt saman fólk með mjög mismunandi nálgun og áherslur í stjórnmálum. Og efasemdir eða andstaða stjórnarþingmanna – aðallega úr Sjálfstæðisflokknum – um aðgerðir og orð hinna ýmsu ráðherra hafa nánast verið vikulegur viðburður. Nú er svo komið að nokkur fjöldi stjórnarþingmanna ætlar ekki styðja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar óbreytta, nokkurs konar leiðarvísi um það sem hún ætlar sér að gera næstu fimm árin. Þar sem ríkisstjórnin er einungis með eins manns meirihluta – og mun ekki geta treyst á stjórnarandstöðuna til að hleypa málinu í gegn – liggur fyrir að upp er komin störukeppni. Og ómögulegt er að spá fyrir hver, ef einhver, muni gefa eftir.
Styðja ekki fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar
Það sem stingur umrædda stjórnarþingmenn mest í fjármálaáætlun Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, er hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu. Þegar hafa tveir þingmenn Sjálstæðisflokksins, Valgerður Gunnarsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson, sagt að þeir muni ekki samþykkja fjármálaáætlunina óbreytta vegna þessa. Þau eiga bæði hagsmuna að gæta í ferðaþjónustu. Njáll Trausti á hlut í ferðaþjónustufyrirtæki og synir Valgerðar reka slíkt.
Auk þeirra hafa bæði Óli Björn Kárason, Haraldur Benediktsson og Páll Magnússon lýst yfir efasemdum um hækkunina. Því styðja fjórir af sex nefndarformönnum Sjálfstæðisflokks ekki fjármálaáætlunina að óbreyttu. Benedikt ætlar hins vegar ekki að kvika frá ákvörðuninni um að afnema undanþágur og færa ferðaþjónustuna upp í hærra virðisaukakattsþrep, sem verður 22,5 prósent á næsta ári. Áætlunin sé enda þegar samþykkt af ríkisstjórn.
Undir eru miklir hagsmunir og áhrifamiklir aðilar innan ferðaþjónustunnar hafa sagt að breytingin muni kosta greinina í heild um 20 milljarða króna á ári. Rökin fyrir áframhaldandi skattalegri sérmeðferð eru gamalkunn, og orðræðan er að mörgu leyti sú sama sem önnur áhrifamikil efnahagsstoð – sjávarútvegurinn – notar ítrekað þegar hún fer fram á sértækar lausnir og ívilnanir. Þ.e. að eðli greinarinnar sé sérstakt, þegar sé verið að takast á við sterkara gengi og launahækkanir og að breytingarnar myndu bitna mest á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Í ferðaþjónustu, líkt og sjávarútvegi, eru það hins vegar nokkur mjög stór fyrirtæki sem skila langmestum rekstrarhagnaði. Þessi rök, og varðstaða um ofangreinda hagsmuni, skilar sér að venju inn á hið pólitíska svið.
Sú staða hefur áður komið upp að lykilfólk í ríkisstjórnarsamstarfi styðja ekki fjármálaáætlun ríkisstjórnar. Það gerðist í ágúst 2016 þegar Eygló Harðardóttir, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, sat hjá við atkvæðagreiðslu um hana þar sem hún vildi meira fjármagn í þá málaflokka sem hún stýrði. Brynjar Níelsson sagði við það tilefni á Facebook:
Óli Björn Kárason sagði á sama vettvangi:
Vandræðin byrjuðu áður en stjórnin var mynduð
Þótt samstöðuleysið um fjármálaáætlunina sé það alvarlegasta sem stjórnarsamstarfið unga hefur staðið frammi fyrir fer því fjarri að það sé eina ágreiningsmálið sem komið hefur upp á stuttum líftíma ríkisstjórnarinnar. Fyrsta vandræðamálið kom raunar upp áður en ríkisstjórnin var fullmynduð, og snerist um birtingu á skýrslu um aflandseignir Íslendinga, sem hafði verið tilbúin í þrjá mánuði en Bjarni Benediktsson valdi að opinbera ekki fyrr en nokkrum dögum áður en ríkisstjórnin var mynduð. Málið olli raunar svo miklum titringi að það var helsta ástæða þess að rúmur fjórðungur stjórnar Bjartrar framtíðar greiddi atkvæði á móti stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og að þingflokkur Viðreisnar brá á það ráð, daginn áður en að ríkisstjórnin var formlega mynduð, að fá Bjarna Benediktsson á símafund til að útskýra mál sitt. Slíkt er fordæmalaust.
Næsta deilumál snerist um ríkisstjórnarmyndunina sjálfa. Áðurnefndur Njáll Trausti sagði skömmu eftir myndun hennar að hún hefði ekki verið sinn fyrsti kostur og hefði yfir sér svip höfuðborgarsvæðisins. Páll Magnússon studdi síðan ekki ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins þar sem hann varð ekki sjálfur ráðherra.
Ríkisstjórnin var varla svo varla búin að fá lyklana af ráðuneytum sínum þegar Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngumála, kom fram í fjölmiðlum og sagðist ekki útiloka inngrip í skipulagsvald Reykjavíkurborgar til að tryggja veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni. Það er þvert á stefnu bæði Bjartrar framtíðar og Viðreisnar í málinu. Til að bæta gráu ofan á svart eru tíu þingmenn Sjálfstæðisflokks á meðal flutningsmanna þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar og hvort hann eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni.
Næsta stóra áskorun var þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stóð frammi fyrir kröfum um að íslenska ríkið myndi taka þátt í að greiða laun sjómanna til að að leysa launadeilu þeirra og útgerðarinnar. Töluverður þrýstingur skapaðist á hana frá útgerðarmönnum og stjórnmálamönnum í þeim kjördæmum þar sem hagsmunir útgerðarfyrirtækja skipta miklu, um að fæðispeningar sjómanna yrðu skattfrjálsir.
Næstu vikurnar kom fram hvert deilumálið á fætur öðru. M.a. ósætti um áfengisfrumvarpið og vegna endurskipunar á nefnd um endurskoðun búvörusamninga.
Jafnlaunavottun stendur fast í hluta Sjálfstæðismanna
Eitt þeirra mála sem Viðreisn lagði mikla áherslu á að myndi rata inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var lögfesting jafnlaunavottunar. Málið var eitt af flaggskipsmálum flokksins í kosningabaráttu hans og í ljósi eftirgjafar í öllum helstu stefnumálum Viðreisnar þegar stjórnarsáttmálinn var gerður var það flokknum afar mikilvægt að koma jafnlaunavottuninni að. Sem varð svo raunin. Þar stendur: „Í því skyni að sporna við launamisrétti af völdum kynferðis verði áskilið að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri taki upp árlega jafnlaunavottun.“ Til að undirstrika þessa áherslubreytingu var starfstitli annars velferðarráðherrans meðal annars breytt í félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorsteinn Víglundsson lagði fram frumvarp um jafnlaunavottun í byrjun apríl. Hluti þingflokks Sjálfstæðismanna styður ekki frumvarpið. Þeirra á meðal eru Óli Björn Kárason og Brynjar Nielsson. Auk þess hefur Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagt að kynbundinn launamunur hérlendis sé of lítill til að hægt sé að fullyrða að að kynbundið misrétti eigi sér stað. Karlar afli almennt meiri tekna en þeir vinni meira. Á sama tíma fái konur fleiri „dýrmætar stundir með börnum sínum.“
Ágreiningsefnin hafa haldið áfram að hrannast upp síðastliðnar vikur. Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar og formaður utanríkismálanefndar, fór til að mynda í viðtal við Washington Post fyrir skemmstu og sagði að EES-samningurinn og aðild Íslands að EFTA dygði ekki lengur til að tryggja hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagðist á Alþingi ekki vera sammála þeirri fullyrðingu.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og fjármála- og efnahagsráðherra, fór skömmu síðar í viðtal við Financial Times þar sem haft var eftir honum að óforsvaranlegt væri fyrir Ísland að halda sínum eigin fljótandi gjaldmiðli. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra brást við þessum ummælum með því að fara í viðtal hjá Bloomberg og segja að það stæði ekki til að festa gengi krónunnar við annan gjaldmiðil. Tveir valdamestu menn ríkisstjórnarinnar, frændurnir Bjarni og Benedikt, voru farnir að takast á um peningamálastefnu landsins í stærstu viðskipta- og efnahagsmálafjölmiðlum heims.
Þá eru ótalin sú vandræði sem kaup vogunarsjóða og Goldman Sachs á stórum hlut í Arion banka eru að valda. Ljóst er að mikill meirihluti er fyrir því innan Sjálfstæðisflokksins að bankinn verði seldur, og ekki sömu fyrirvarar gerðir þar gagnvart þeim og víða annars staðar. Þegar tilkynnt var um kaupin í mars sagði Bjarni að „viðskiptin sem slík eru mikið styrkleikamerki fyrir íslenskt efnahagslíf “ og að það væri „ljóst að íslenska krónan hefur ekki reynst fyrirstaða í þessum viðskiptum.“ Benedikt sagði: „Sjóðirnir eru að veðja með bankanum og Íslandi. Það er öfugt veðmál en fyrir hrun þegar veðjað var gegn Íslandi. Það er hægt að horfa á það jákvætt.“ Benedikt hefur síðan bakkað umtalsvert úr þeirri gleði og beitt sér umtalsvert gagnvart því að fá upplýsingar um hverjir séu endanlegir eigendur hins keypta hlutar. Íslenskt samfélag eigi einfaldlega heimtingu á því. Innan Bjartrar framtíðar eru síðan miklar efasemdir um málið. Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar og annar varaformaður fjárlaganefndar, hefur til að mynda sagt það „algjörlega óviðunandi“ í hennar huga hvernig staðið er að sölu á hlutnum í Arion banka.
Á síðustu dögum hafa svo bæst við fyrirsjáanlegar erjur um hvort Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra eigi að grípa inn í þá þróun að einkarekstur, með aðgengi að opinberu fé, sé sífellt að aukast í heilbrigðiskerfinu og um ákvörðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um að skipta þverpólitíska nefnd sem á að finna fyrirkomulag til gjaldtöku í sjávarútvegi. Þorgerður Katrín hafði áður sagt, þegar sjómannaverkfallsdeilan stóð sem hæst, að ekki kæmi til greina að lækka veiðigjöld. Frekar yrðu þau hækkuð. Morgunljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur sýnt það í verki að vera fylgjandi frekari einkarekstri í heilbrigðisþjónustu og lægri álögum á sjávarútveg, mun fylgjast náið með þessum tveimur málum sem heyra undir ráðuneyti samstarfsflokka hans.
Ekki óvanir því að þurfa að kyngja erfiðum málum
Það má auðvitað segja að Sjálfstæðismenn, sem hafa stýrt íslenskri þjóð í þrjú af hverjum fjórum árum frá því að landið fékk sjálfstæði, séu vanir ástlausum hjónaböndum. Á síðasta kjörtímabili þurftu þeir, flokkur minnkandi ríkisreksturs, markaðar og skattalækkana, til dæmis að kyngja því að greiða 72,2 milljarða króna úr ríkissjóði í skaðabætur fyrir verðbólguskot sem þróun húsnæðisverðs hafði þegar leiðrétt. Þorri upphæðarinnar fór til tekjuhárra og þeirra sem áttu miklar eignir, ekki til hópa sem þurftu raunverulega hjálp til að komast inn á húsnæðismarkað eða lifa af á honum. Flokkurinn þurfti að kyngja allskyns kjördæmapoti á borð við flutning Fiskistofu, samningsgerðar við Háholt og geðþóttaútdeilingu á 200 milljónum króna af skúffufé þáverandi forsætisráðherra, þar sem helmingurinn fór í hans eigið kjördæmi. En þegar kom að megináherslum og stóru málunum voru flokkarnir þó ávallt samstíga í vörn sinni fyrir kerfin. Þeir stóðu fastir fyrir gegn breytingum á þeim.
Svo er ekki nú, enda samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokks báðir yfirlýstir kerfisbreytingarflokkar. Tilurð þeirra snýst beinlínis um að hrista upp í því kerfisverki sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur búið til í gegnum áratugina. Þeir vilja aðrar reglur og nýjar áherslur. Þrátt fyrir að báðir hafi gefið eftir í öllum helstu baráttumálum sínum við gerð stjórnarsáttmála þá var sú skoðun mjög rík innan ráðherrahóps þeirra að með því að fá lyklana að lykilráðuneytum væri hægt að koma á ýmsum grundvallarbreytingum.
Fylgið mælist afleit
Pressan á Viðreisn og Bjarta framtíð eykst dag frá degi. Sú endurreisn heilbrigðiskerfisins sem var lofað er ekki sýnileg með neinum hætti, neyðarköll berast frá háskólum landsins vegna undirfjármögnunar og megn óánægja er með skort á fjármagni í samgöngumál. Eini maðurinn sem virðist virkilega ánægður með nýframlagða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er Benedikt Jóhannesson, sem lagði hana fram.
Fylgi beggja flokka mælist afleit samkvæmt skoðanakönnunum og við mörk þess að þeir kæmust inn á þing ef kosið væri í dag. Enn og aftur er það að opinberast að flokkar líða nær alltaf fyrir samstarf við Sjálfstæðisflokkinn með atkvæðum. Innan Bjartar framtíðar er staðan viðsjárverðari. Af stuðningsmönnum stjórnarflokkanna eru kjósendur Bjartrar framtíðar óánægðastir með stjórnarsamstarfið og stjórnarsáttmálann sem það byggir á. Í könnun Gallup frá því í byrjun mars kom í ljós að einungis þriðjungur kjósenda flokksins væri ánægður með ríkisstjórnina, 45 prósent sögðust ekki hafa neina sérstaka skoðun á henni og 22 prósent voru óánægð. Til samanburðar voru 57 prósent kjósenda Viðreisnar og 75 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks ánægðir með ríkisstjórnina. Mjög mikil andstaða var við stjórnarsamstarfið innan stjórnar Bjartar framtíðar þegar kosið var um það og nýverið sagði Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður flokksins og oddviti hans á Suðurlandi í kosningunum í haust, sig úr honum. Ástæðan: honum finnst Björt framtíð hafa gefið of mikið eftir í Evrópumálum, auðlinda- og umhverfismálum og málum sem snúast um stöðu barna í stjórnarsamstarfinu.
Við bætist að Bjarni Benediktsson, höfuð ríkisstjórnarinnar, er lítið sýnilegur og virðist eiga í vandræðum með að halda þingflokknum saman í lykilmálum. Þá vekur athygli að formaðurinn á lítinn stuðning hjá Morgunblaðinu, þar sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokks – Davíð Oddsson – stýrir málum. Páll Magnússon virðist ætla að verða formanni sínum sérstaklega erfiður og er meira áberandi en flestir þingmenn stjórnarandstöðu í mótþróa gagnvart verkum ríkisstjórnarinnar.
Auk þess truflar umræða um mögulega hagsmunaárekstra Bjarna vegna viðskiptaumsvifa fjölskyldu hans. Þótt greinar Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um þá teljist að mati margra Sjálfstæðismanna ekki svaraverðar þá vekja þær verulega athygli og skapa umræðu í samfélaginu. Sú umræða verður ekki stöðvuð með þögninni.
Samandregið þá er augljós kuldi og samstöðuleysi í lykilmálum í ríkisstjórnarsamstarfinu. Andstaðan við fjármálaáætlun hennar innan Sjálfstæðisflokksins opinberar þann vanda mjög skýrt. Nái leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna ekki að þétta raðirnar í kringum það mál gætu sprungurnar sem nú þegar eru til staðar orðið að einhverju stærra og meira.