Lögbrot að veita rannsóknarnefnd rangar eða villandi upplýsingar
Allt að tveggja ára fangelsi er við því að segja rannsóknarnefnd Alþingis ósatt. Þeir sem hönnuðu „Lundafléttuna“ í kringum aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum könnuðust ekki við hana þegar spurt var út í málið við skýrslutöku.
Samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir Alþingis er refsivert að láta rannsóknarnefndum í té rangar eða villandi upplýsingar. Ákæruvald getur saksótt þá sem það gera og við slíkum brotum liggja allt að tveggja ára fangelsisrefsing. Í nýlegri skýrslu rannsóknarnefndar um aðkomu þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser að kaupunum á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003 var birt gríðarlegt magn gagna – meðal annars skjöl og tölvupóstar – sem sýndu að Hauck & Aufhäuser var aldrei raunverulegur eigandi í Búnaðarbankanum heldur leppur. Allir þeir sem komu með beinum hætti að þeirri blekkingu sem sett var á fót í kringum meinta þátttöku bankans að kaupunum sögðu ósatt um vitneskju sína við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis.
Sá sem var lykilleikandi í þeirri fléttu sem sett var upp í kringum kaupin var Ólafur Ólafsson. Hann hefur óskað eftir því að koma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að skýra frá sinni hlið málsins. Formaður nefndarinnar hefur sagt opinberlega að hann vilji ekki að fundur hennar með Ólafi verði opinn fjölmiðlum. Verði það niðurstaðan munu almenningur og fjölmiðlar ekki fá upplýsingar um það sem Ólafur hefur að segja um málið, enda ólöglegt fyrir nefndarmenn að greina frá því sem gestir hennar segja á lokuðum nefndarfundum.
Sannreynt að stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur var blekktur
Nefndin sem rannsakaði aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á stórum hlut í Búnaðarbankanum árið 2003 skilaði skýrslu sinni 29. mars síðastliðinn. Í niðurstöðum hennar segir að sannreynt hafi verið með ítarlegum skriflegum gögnum að Ólafur Ólafsson, samstarfsmenn hans, stjórnendur hjá Kaupþingi og nokkrir erlendir samstarfsmenn, meðal annars innan Hauck & Aufhäuser, hefðu hannað fléttu sem sett var á svið í kringum kaupin. Í henni fólst að Kaupþing fjármagnaði meint kaup Hauck & Aufhäuser á hlut í Búnaðarbankanum, endanlegur eigandi þess hlutar var aflandsfélagið Welling & Partners á Bresku Jómfrúareyjunum og baksamningar tryggðu Hauck & Aufhäuser algjört skaðleysi af aðkomu sinni. Slíkir samningar tryggðu einnig að allur ávinningur af fléttunni, sem varð á endanum yfir 100 milljónir dala, skiptist á milli aflandsfélags Ólafs Ólafssonar og aðila sem tengdust Kaupþingi. Á gengi ársins 2005 nam sú upphæð 6,8 milljörðum króna. Í dag er hún um 11 milljarðar króna. Ekki var greint frá neinu ofangreindu opinberlega heldur því haldið fram að þýski bankinn væri raunverulega að kaupa hlutinn og hefði fjármagnað kaupin sjálfur. Með fléttunni voru stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur blekktir.
Fjórir lykilmenn í málinu voru boðaðir til skýrslutöku fyrir nefndina á meðan að vinnu hennar stóð, en neituðu að mæta. Um er að ræða Ólaf Ólafsson, Guðmund Hjaltason, Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurð Einarsson. Þegar rannsóknarnefndin beindi því til Héraðsdóms Reykjavíkur að boða þá kröfðust þrír þeirra þess að dómari viki sæti í málinu. Þeirri beiðni var hafnað.
Þegar beiðni rannsóknarnefndarinnar var tekin aftur fyrir í byrjun desember 2016 báru bæði Ólafur og Guðmundur brigður á að þeim væri skylt að svara spurningum nefndarinnar. Þessu var hafnað af Hæstarétti 17. janúar 2017.
Sögðu ósatt
Skýrslur voru loks teknar af mönnunum í lok janúar og byrjun febrúar. Allir fjórir ofangreindir svöruðu þar spurningum rannsóknarnefndarinnar með þeim hætti að framburður þeirra stangast með öllu á við gögn – bæði samninga og tölvupósta – sem nefndin hefur undir höndum og sýnir bæði beina aðkomu þeirra og fulla vitneskju um þá baksamninga sem gerðir voru þegar látið var líta út fyrir að Hauck & Aufhäuser hefði keypt stóran hlut í Búnaðarbanka Íslands í janúar 2003.
Ólafur og Guðmundur sögðu að þær upplýsingar sem stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar hefðu fengið um kaupin hafi verið réttar og nákvæmar. Bæði Hreiðar Már og Sigurður könnuðust ekkert við að Kaupþing, sem þeir stýrðu, hefði komið að eða fjármagnað kaup Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum. Þá höfnuðu þeir því báðir að hafa einhver annar en Hauck & Aufhäuser hefði verið raunverulegur eigandi að hlutnum sem keyptur var í Búnaðarbankanum.
Gögn málsins sýna, líkt og áður sagði, að allir fjórir mennirnir höfðu fulla vitneskju um, og tóku fullan þátt í, þeirri fléttu sem opinberuð er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þess utan liggur fyrir að Ólafur hagnaðist með beinum hætti um marga milljarða króna af fléttunni og að rannsóknarnefndin dregur þá ályktun að aðilar tengdir Kaupþingi hafi gert slíkt hið sama.
Rannsóknarnefndin tók líka skýrslur af Ármanni Þorvaldssyni, fyrrverandi forstöðumanni fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings, Bjarka Diego, þá starfsmanni fyrirtækjaráðgjafarinnar, Kristínu Pétursdóttur, þá forstöðumanni fjárstýringar Kaupþings, og Steingrími Kárasyni, þá yfirmanni áhættustýringar. Auk þess tók nefndin skýrslu af Magnúsi Guðmundssyni, sem stýrði Kaupþingi í Lúxemborg.
Enginn þessara aðila „kannaðist við eða rak minni til þess að Kaupþing eða dótturfélag þess í Lúxemborg hefðu komið að viðskiptum Hauck & Aufhäuser með hluti í Eglu hf. [félaginu sem keypti hlutinn í Búnaðarbankanum]“.
Gögn málsins, sem rakin eru í skýrslunni, sýna þó ótvírætt að allir ofangreindir, utan Ármanns, tóku beinan þátt í þeirri fléttu sem framkvæmd var í kringum kaupin á Búnaðarbankanum. Það sýna skjöl og tölvupóstar ótvírætt.
Þau sögðu því einnig ósatt við skýrslutöku.
Sigurður veitti annarri nefnd rangar og villandi upplýsingar
Þetta er ekki eina rannsóknarnefndin sem einn mannanna hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar um kaupin á ráðandi hlut í Búnaðarbankanum. Einkavæðing bankanna var líka á meðal þeirra atburða sem fjallað var um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök bankahrunsins, sem kom út í apríl 2010.
Rannsóknarnefndin tók meðal annars skýrslu af Sigurði Einarssyni. Þar sagði Sigurður m.a.: „Það er nefnilega þannig að þegar þetta einkavæðingarferli fer í gang þá komum við þar hvergi nálægt. Það er hins vegar þannig að bæði þeir sem keyptu Landsbankann og þeir sem keyptu Búnaðarbankann komu að máli við okkur – báðir þessir aðilar komu að máli við okkur áður en þeir keyptu – og spurðu hvort við, þegar þeir væru búnir að kaupa, ef þeir fengju að kaupa, ég man nú ekki nákvæmlega hvernig það var orðað, værum tilbúnir til að sameinast þeirra fyrirtæki. Ég man ég átti ítrekað fundi bæði með Björgólfi Thor og Björgólfi Guðmundssyni um þetta og þeir voru mjög áfram um það að Kaupþing og Landsbanki sameinuðust. Síðan koma Ólafur Ólafsson og Hjörleifur Jakobsson að máli við mig með nákvæmlega sama erindi. Við hins vegar komum hvergi nálægt kaupunum.“
Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarnefndar um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum er það ósatt að Kaupþing – og Sigurður – hafi hvergi komið nálægt kaupunum. Því er ljóst að Sigurður sagði einnig ósatt við skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni um bankahrunið, þegar hann gaf skýrslu fyrir henni 14. júlí 2009.
Allt að tveggja ára fangelsi
Í 10. grein laga um rannsóknarnefndir Alþingis segir: „Ef maður lætur af ásetningi rannsóknarnefnd í té rangar eða villandi upplýsingar samkvæmt fyrirmælum laga þessara fer um refsingu fyrir slík brot skv. 145. og 146. gr. almennra hegningarlaga[...]Um slík mál skal fara samkvæmt lögum um meðferð sakamála.“
Það þýðir að ákæruvald getur ákært þá sem segja nefndinni ósatt. Samkvæmt almennum hegningarlögum varðar það allt að tveggja ára fangelsi að gefa opinberu stjórnvaldi „ranga yfirlýsingu að viðlögðum drengskap eða á annan samsvarandi hátt, þar sem slík aðferð er boðin eða heimiluð“ ef sök er stórfelld.
Þögn um það sem fer fram á lokuðum fundum
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er nú með málið til meðferðar og hún gæti mælst til þess að viðeigandi ákæruvald myndi rannsaka hvort að vitnisburður þeirra sem sögðu ósatt fyrir rannsóknarnefndinni hafi gerst brotlegir við lög um rannsóknarnefndir með því athæfi sínu.
Meðferð nefndarinnar á málinu vekur reyndar nokkra furðu. Brynjar Níelsson, formaður nefndarinnar, var um tíma verjandi Bjarka Diego, sem gegndi lykilhlutverki í „Lundafléttunni“, vegna hrunmáls. Brynjar taldi fyrst ekkert athugavert við að hann myndi stýra umfjöllun nefndarinnar um skýrslu rannsóknarnefndarinnar en snerist svo hugur þegar töluverð andstaða kom fram gegn því innan nefndarinnar. Í fjölmiðlum var greint frá því að Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður nefndarinnar, yrði framsögumaður hennar í málinu og myndi stýra umfjöllun hennar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu Búnaðarbankans.
Þrátt fyrir þetta hefur Brynjar verið sá fulltrúi nefndarinnar sem hefur verið í sambandi við Ólaf Ólafsson vegna áhuga hans á að koma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna málsins. Í Fréttablaðinu í síðustu viku greindi Brynjar frá því að hann hefði rætt við Ólaf síðastliðinn miðvikudag um komu hans fyrir nefndina. Í þeirri frétt sagði Brynjar einnig að hann teldi ekki að fundur nefndarinnar með Ólafi ætti að vera opinn fjölmiðlum og almenningi. Það væri óskynsamlegt og óþægilegt fyrir nefndarmenn. Brynjar reiknaði þó með að Ólafur myndi koma fyrir nefndina í maímánuði.
Verði það niðurstaðan munu hvorki almenningur né fjölmiðlar fá neinar upplýsingar um það sem Ólafur hefur að segja fyrir nefndinni. Í 19. grein þingskaparlaga segir nefnilega að óheimilt sé fyrir nefndarmenn að vitna til orða gesta sem falli á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi.