Það er einhver með aðgang að fjármunum Dekhill Advisors
Aflandsfélag sem fékk tæplega þrjá milljarða króna greidda vegna leynisamninga sem gerðir voru við sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum er enn virkt. Félagið, Dekhill Advisors Limited, er með bankareikning í svissneskum banka sem einhverjir einstaklingar hafa aðgang að og gögn sýna að félagið var enn til fyrir rúmu hálfu ári síðan.
Dekhill Advisors Limited, aflandsfélagið sem fékk 2,9 milljarða króna greidda inn á reikning sinn vegna „Lunda-fléttunnar“ í kringum kaup S-hópsins á ráðandi hlut í Búnaðarbanka Íslands í janúar 2003, er virkt félag.
Í desember 2009 gerði félagið handveðssamning við svissneska bankann Julius Bäer vegna fjármálagjörnings sem það var að taka þátt í. Kjarninn og RÚV hafa undir höndum gögn sem sýna þetta. Þau gögn innihalda einnig skjal sem staðfestir að Dekhill Advisors var enn til og í virkni í lok september 2016, fyrir rúmu hálfu ári síðan.
Það er því skýrt að einhverjir hafa haft aðgang að og notað fjármunina sem greiddir voru inn í Dekhill Advisors í janúar 2006, á árunum eftir hrun. Og félagið var enn í starfsemi í fyrrahaust. Hverjir það eru sem nota fjármuni Dekhill Advisors er þó enn sem komið er ráðgáta. En fyrir liggur að svissneski bankinn Julius Bäer veit svarið við henni.
Sagðir hafa blekkt stjórnvöld og almenning
Í mars var birt skýrsla rannsóknarnefndar um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum á 45,8 prósent hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Í henni var opinberað að stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur hafi verið blekkt til að halda að þýski bankinn hafi raunverulega verið að kaupa hlut í Búnaðarbankanum fyrir eigin reikning. Svo var ekki.
Með vísun í ítarleg gögn sýndi rannsóknarnefndin fram á að íslenski bankinn Kaupþing, sem sameinaðist Búnaðarbankanum skömmu eftir söluna, hafi fjármagnað kaup Hauck & Aufhäuser að hluta í bankanum að fullu, að baki lágu baksamningar sem tryggðu Hauck & Aufhäuser fullt skaðleysi, þóknanatekjur upp á eina milljón evra fyrir að leppa og sölurétt á hlutnum eftir að þýski leppbankinn var búinn að halda á honum í tæp tvö ár.
Til viðbótar lá fyrir í fléttunni, sem var kölluð „Puffin“ (sem þýðir lundi á íslensku), að hagnaður sem gæti skapast hjá réttum eigenda hlutarins, aflandsfélagsins Welling & Partners á Bresku Jómfrúareyjunum, myndi renna til tveggja aflandsfélaga, skráð á sama stað, sem áttu það félag. Annað þeirra aflandsfélaga var Marine Choice Limited, í eigu Ólafs Ólafssonar. Hann hagnaðist um 3,8 milljarða króna á fléttunni.
Hitt félagið, Dekhill Advisors, hagnaðist um 2,9 milljarða króna á „Puffin“ verkefninu og fékk þá fjármuni greidda inn á reikning sinn á árinu 2006. Á núvirði er sameiginlegur hagnaður félaganna tveggja rúmlega 11 milljarðar króna.
Spurningunni sem var ekki svarað
Þau gögn sem rannsóknarnefndin var með undir höndum í vinnu sinni sýndu ekki fram á það með óyggjandi hætti hver eigandi, eða eigendur, Dekhill Advisors, væru. Þau sýndu heldur ekki hvort einhverjir aðrir en skráðir eigendur félagsins væru með aðgang að þeim fjármunum sem runnu inn í það.
Rannsóknarnefndin ályktaði að aðilar tengdir Kaupþingi hafi verið eigendur þess. Þar er átt við að mögulega hafi stjórnendur Kaupþings átt það, eða að minnsta kosti notið þeirra fjármuna sem flæddu inn í félagið. En það hefur líka öðrum möguleikum verið velt upp. Í samningsdrögum sem birt eru í skýrslunni kom á einum tíma til greina að Ágúst og Lýður Guðmundssynir myndu eiga hlut í Welling & Partners.
Allir þeir sem komu að „Lundafléttunni“ og voru kallaðir fyrir rannsóknarnefndina gátu ekki svarað því hverjir eigendur Dekhill væru. Þeim var síðan sent bréf frá nefndinni þann 13. mars þar sem þeim bauðst að svara spurningum nefndarinnar í ljósi þeirra gagna sem hún hafði aflað sér og þeirrar niðurstöðu sem hún hafði komist að. Svörin bárust flest 20. og 21. mars en skýrsla nefndarinnar var ekki birt fyrr en 29. mars.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, sagði í svarbréfi sínu við spurningum nefndarinnar að hann teldi „óhætt að fullyrða að ég hafi aldrei heyrt minnst á félagið Dekhill Advisors Limited fyrr en í bréfi nefndarinnar“. Ólafur Ólafsson sagðist í svarbréfi sínu til nefndarinnar ekki minnast þess „að hafa heyrt minnst á félagið Dekhill Advisors Limited.“ Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, sagðist í sínu bréfi ekki geta „aðstoðað nefndina við að svara þeim spurningum sem að mér er beint“. Bræðurnir Ágúst og Lýður sögðu í samhljóma svarbréfum að þeim reki ekki minni til þeirra atriða sem nefnd voru í bréfi rannsóknarnefndarinnar.
Finnur Ingólfsson, fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins, forstjóri VÍS, ráðherra og seðlabankastjóri, var hluti af S-hópnum. Hann sendi frá sér yfirlýsingu 31. mars þar sem hann sagði að „hvorki ég né nokkur sem mér tengist er eigandi að félaginu Dekhill Advisors“.
Verið að skoða gögn og upplýsingar
Hægt er að leggja fram beiðni um réttaraðstoð milli landa. Til þess að gera það þarf viðkomandi stjórnvald þó að gera grein fyrir hvaða mál sé til rannsóknar. Málið þarf auk þess að vera refsivert í báðum löndunum sem um ræðir.
Mögulegt er að þeir fjármunir sem runnu til Dekhill Advisors hafi átt að skattleggja hérlendis. Kjarninn beindi fyrirspurn til embættis skattrannsóknarstjóra um hvort það hefði hafið rannsókn á félaginu og hvort það hefði sent fyrirspurnir til fjármálastofnana erlendis sem vitað er að Dekhill var með bankareikninga hjá til að óska eftir upplýsingum um endanlega eigendur félagsins eða þá sem nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til Dekhill Advisors.
Í svari Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra segir að embættið hafi yfirfarið skýrslu rannsóknarnefndarinnar. „Það er verið að skoða frekari gögn og upplýsingar. Það liggur ekki fyrir hvort sú skoðun leiði til frekari aðgerða af hálfu embættisins og eftir atvikum formlegrar rannsóknar.“
Sú rannsóknarnefnd sem skipuð var um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum á 45,8 prósent hlut ríkisins í Búnaðarbankanum hefur ekki lengur neitt lagalegt umboð til aðgerða og getur því ekki leitað eftir frekari upplýsingum. Niðurstaða hennar er hins vegar til meðferðar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem fékk starfsmenn rannsóknarnefndarinnar á sinn fund í dag. Á morgun, miðvikudag, mun Ólafur Ólafsson svo koma fyrir nefndina, segja sína hlið á málinu og svara spurningum nefndarmanna.