kjarninn og kristján þór

Hvað verður um íslenska fjölmiða?

Einkareknir fjölmiðlar á Íslandi eru reknir með tapi. Þeir stærstu treysta á milljarðameðgjöf auðugra eigenda. Gömul viðskiptamódel eru hrunin og neysluvenjur hafa gjörbreyst samhliða tæknibyltingu. Hvað er hægt að gera? Og eru frjálsir fjölmiðlar svo mikilvægir að það þurfi að gera eitthvað? Þetta er viðfang síðast þáttar Kjarnans á Hringbraut.

Staða einka­rek­inna fjöl­miðla á Íslandi hefur ekki verð beysin á und­an­förnum árum. Flestir stóru miðl­arnir fóru að minnsta kosti lang­leið­ina á hlið­ina eftir hrun og þeir rekstr­ar­erf­ið­leikar hafa magn­ast vegna gíf­ur­legrar tækni­fram­þró­unar og neyslu­breyt­inga. Þær breyt­ingar hafa grafið undan þeim við­skipta­mód­elum sem hefð­bundnir fjöl­miðlar not­uðu til að fjár­magna starf­semi sína ára­tugum sam­an, þ.e. blöndu áskriftar og aug­lýs­inga­sölu.

Þótt mun auð­veld­ara sé að setja á fót staf­ræna fjöl­miðla sem krefj­ast ekki þess að fjár­fest sé í dreif­ing­ar­kerfi með til­heyrj­andi kostn­aði, heldur sem geta nýtt sér inter­netið og sam­fé­lags­miðla til að miðla efni sínu fyrir engan eða lít­inn pen­ing, þá glímir sú leið líka við ýmis konar vanda. Staða staf­rænu miðl­anna er líka sífellt að vera þrengri, meðal ann­ars vegna þess að Face­book, Google, Youtube og fleiri erlendir aðilar taka til sín sífellt fleiri aug­lýs­inga­krón­ur. Og vilji almenn­ings til að borga fyrir fréttir hefur dvínað mjög und­an­farin ára­tug án þess að nýjar tekju­leiðir hafi getað bætt þá þróun upp.

En byrjum á smá sagn­fræði.

Stórir miðlar í miklum vand­ræðum eftir hrun

Hvað gerð­ist á fjöl­miðla­mark­aðnum eftir hrun? Sam­an­dregið má segja að allir einka­reknir fjöl­miðlar sem störf­uðu fyrir hrun hafi lent í vand­ræðum á sama tíma og bank­arnir hrundu. Þeir voru enda flestir komnir í eigu áhrifa­manna í íslensku við­skipta­lífi á þeim tíma, að mestu menn sem áttu líka stóra hluti í við­skipta­bönk­unum þremur sem féllu í októ­ber 2008.

Við­skipta­blaðið var til að mynda í eigu félags sem hét Fram­tíð­ar­sýn fyrir hrun og var farið að koma út fjórum sinnum í viku. Eig­endur þess voru Bakka­var­ar­bræð­urnir Ágúst og Lýður Guð­munds­syn­ir. Allar eignir Fram­tíð­ar­sýnar voru seldar til blaða­manns­ins Gísla Freys Val­dórs­sonar á eina krónu. Hann áfram seldi svo rekst­ur­inn, sem meðal ann­ars inni­hélt áskrif­enda­grunn blaðs­ins, til Myllu­set­urs ehf. í nóv­em­ber 2008. Með fylgdu hluti skulda. Í kjöl­farið Fram­tíð­ar­sýn sett í þrot og stór hluti starfs­manna Við­skipta­blaðs­ins þurftu að sækja van­greidd laun til ábyrgð­ar­sjóðs launa. Myllu­setur er enn þann dag í dag eig­andi blaðs­ins og syst­ur­blaða þess.

Stærsta einka­rekna fjöl­miðla­­fyr­ir­tæki lands­ins er 365 mið­l­­ar. Það félag, sem hét einu Rauð­­sól, keypti alla fjöl­miðla „gamla“ 365 í nóv­­em­ber 2008 á 1,5 millj­­arð króna og með yfir­­­töku skulda. Eig­andi Rauð­sólar var Jón Ásgeir Jóhann­es­son, sem hafði líka verið aðal­eig­andi gamla 365.

Gamla 365 ehf., sem var end­­­­ur­­­­nefnt Íslensk afþrey­ing ehf., fór í þrot og kröf­u­hafar þess töp­uðu 3,7 millj­­­­örðum króna. Á meðal kröf­u­hafa þess voru íslenskir líf­eyr­is­­sjóðir og rík­­is­­bank­inn Lands­­banki Íslands. Félagið skuld­aði tíu millj­arða í lok árs 2015 og hefur tapað millj­örðum króna á síð­ustu árum sam­hliða því að fjarað hefur undan við­skipta­mód­elum helstu miðla þess. Aðal­eig­andi 365 miðla í dag er eig­in­kona Jóns Ásgeirs, meðal ann­ars í gegnum erlend félög þar sem hann hefur pró­kúru.

Næst stærsta einka­rekna fjöl­miðla­­fyr­ir­tæki lands­ins er Árvak­­ur, sem gefur m.a. út Morg­un­­blaðið og heldur úti mbl.is. Það félag fór líka nán­ast í þrot eftir banka­hrun­ið. Nýr eig­enda­hóp­ur, sem sam­an­stóð aðal­lega að útgerð­ar­mönn­um, keypti það snemma árs 2009 og fengu um leið gíf­ur­legar afskriftir af skuldum félags­ins. Alls hafa 4,5 millj­arðar króna verið afskrif­aðar hjá Árvakri auk þess sem hinir áhrifa­miklu, og ríku, eig­endur fjöl­miðla­fyr­ir­tæk­is­ins lögðu því til 1,2 millj­arða króna. Þrátt fyrir þessa gíf­ur­legu með­gjöf hefur rekstr­­­­ar­tap félags­­­­ins verið að minnsta kosti 1,5 millj­­arði króna frá því að nýir eig­endur tók við félag­inu árið 2009. Nú er verið að safna nýju hlutafé og segja heim­ildir að til þurfi um 400 millj­ónir króna til að brúa tap síð­ast árs og fyr­ir­sjá­an­legt tap í ár.

Það hefur verið opin­berað að Morg­un­blaðið hafi sett sér póli­tíska stefnu­skrá sem í fólst m.a. að standa gegn breyt­ingum á fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerf­inu, gegn aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, gegn vinstri stjórn­inni sem sat hér eftir hrun og gegn stjórn­ar­skrár­breyt­ing­um. Það gerð­ist meðal ann­ars í neð­an­greindu við­tali við Óskar Magn­ús­son, fyrr­ver­andi útgef­anda Árvak­urs, á Hring­braut í fyrra.

Hjá 365 hefur fyrr­ver­andi eig­andi, og nú maki eig­anda og skugga­stjórn­andi, fyr­ir­tæk­is­ins margoft orðið upp­vís að því að skipta sér að frétta­flutn­ingi um saka­mál sem rekin eru gegn honum og reynt að beita miðl­unum fyrir sig í frels­is­bar­áttu sinni og ann­arra sem glíma við sömu bar­áttu.

Fjöl­miðla­veldi Björns Inga

Í mars 2010 keypti hópur fólks DV og vef­inn DV.is af Birt­ingi, en rekstur þess ráð­setta dag­blaðs hafði þá verið þungur um nokk­urt skeið. Reynir Trausta­son, og sonur hans Jón Trausti, voru í for­grunni hóps­ins og þeir tóku við stjórn fyr­ir­tæk­is­ins eftir að kaupin gengu í gegn. Um þá stjórn héldu þeir í rúm fjögur ár. Rekst­ur­inn var erf­iður og DV-­tíð feðganna end­aði með því að Pressan, fjöl­miðla­fyr­ir­tæki Björns Inga Hrafns­son­ar, tók yfir hann eftir gríð­ar­leg átök seinni hluta árs 2014. Fyrr­ver­andi stjórn­ar­for­maður DV sagði að yfir­takan hefði verið tengd Fram­sókn­ar­flokknum. Því var hafnað af þáver­andi fram­kvæmda­stjóra flokks­ins.

Pressan var stofnuð af Birni Inga eftir að hann hætti sem við­skipta­rit­stjóri Frétta­blaðs­ins í kjöl­far hruns­ins. Hún hóf starf­semi sem ein frétta­vef­síða snemma árs 2009. Upp­haf­legir eig­endur voru VÍS (33 pró­sent), sem þá var enn undir stjórn Bakka­var­ar­bræðr­anna Ágústar og Lýðs Guð­munds­sona, Björn Ingi sjálfur (26,37 pró­sent), félag í eigu Róbert Wessman (23,08 pró­sent) og Arn­ars Ægis­sonar (17,58 pró­sent).

Pressan hefur vaxið hratt á und­an­förnum árum og tekið yfir margar ein­ingar á fjöl­miðla­mark­aði. Þar má nefna ÍNN, Eyj­una og ýmis konar svæð­is­miðla. Stærsta yfir­takan var þó þegar Pressan komst yfir DV og DV.is. Þessi veg­ferð hefur kostað skild­ing­inn. Skuldir Sam­stæð­unnar sex­­föld­uð­ust á milli áranna 2013 og 2015 og stóðu í lok þess árs í 444 millj­­ónum króna. Líkt og komið verður betur að síðar er skulda­staðan nú enn verri. Ljóst er að hluti skuld­anna hafa verið selj­enda­lán. En ekki hafa feng­ist neinar upp­lýs­ingar um hverjir aðrir voru að lána Pressu­sam­stæð­unni, eða eig­endum henn­ar, allt það fé sem hún hefur brennt á liðnum árum.

Fyrir utan ofan­greinda, sem taka til sín langstærstan hluta af öllum þeim tekjum sem eru í boði á fjöl­miðla­mark­aðn­um, hafa ýmsir minni fjöl­miðlar sem leggja áherslu á þjóð­fé­lags­mál og fréttir verið stofn­að­ir. Þar er um að ræða miðla eins og Kjarn­ann, Stund­ina og Hring­braut. Þeir, líkt og rót­grónu miðl­arn­ir, hafa allir glímt við tap­rekst­ur.

Þá er auð­vitað ótalin ris­inn á mark­aðn­um, RÚV. Á sama tíma og nær allir einka­reknir miðlar töp­uðu fé hagn­að­ist rík­is­mið­ill­inn um 1,4 millj­arða króna í fyrra. Uppi­staðan var vegna sölu á bygg­inga­rétti en það var líka hagn­aður af reglu­legri starf­semi RÚV upp á 95 millj­ónir króna. Aug­lýs­inga­tekjur RÚV á síð­asta ári voru 2,2 millj­arðar króna og fyr­ir­tækið fékk auk þess 3,8 millj­arða króna úr rík­is­sjóði á ári.

Þrír ráð­andi þættir skekkja umhverfið

Allt ofan­greint hefur gert það að verkum að rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla hefur verið mjög erfitt eftir hrun. Þeir fjöl­miðlar sem hafa haft úr mestu að spila hafa ekki verið reknir á rekstr­ar­legum for­sendum heldur fengið millj­arða króna með­gjöf frá auð­ugum aðilum til að halda úti víð­feðmi starf­semi sinni. Sú staða, að hags­muna­að­ilar borgi undir tap­rekstur stórra fjöl­miðla og að bankar afskrifi millj­arða skuldir þeirra, hefur haft mikil áhrif á sam­keppni á fjöl­miðla­mark­aði. Og dregið úr mögu­leikum þeirra fjöl­miðla­fyr­ir­tækja sem eru að reyna að reka sig á sjálf­bæran, og jafn­vel arð­bæran, hátt til að geta keppt á jafn­rétt­is- og sam­keppn­is­grund­velli.

Aukin fyr­ir­ferð RÚV á mark­aðnum skiptir þar einnig máli ásamt miklum tækni­fram­förum og neyslu­breyt­ingum sem hafa kippt fót­unum undan gömlu við­skipta­mód­elum einka­rek­inna fjöl­miðla. Stjórn­völd brugð­ust við þess­ari stöðu með því að skipa nefnd um stöð­una seint á síð­asta ári og  er vinnu hennar að mestu lok­ið. Hún mun skila Krist­jáni Þór Júl­í­us­syni, mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra, skýrslu fyrir lok þessa mán­að­ar. Krist­ján Þór var gestur í síð­asta þætti Kjarn­ans á Hring­braut. Þar viðr­aði hann hug­myndir sínar um hvað sé hægt að gera til að bæta þessa stöðu.

Miklar svipt­ingar á nokkrum vikum

Á síð­ustu örfáu vikum höfum við séð birt­ing­ar­mynd þessa í þremur svipt­ingum sem átt hafa sér stað á fjöl­miðla­mark­aði.

Í fyrsta lagi hefur fjar­skipta­fyr­ir­tækið Fjar­skipti, móð­ur­fé­lag Voda­fone, keypt flesta fjöl­miðla 365 miðla. Rekstr­ar­for­sendur stærsta einka­rekna fjöl­miðla­fyr­ir­tækis lands­ins ganga ekki lengur upp í óbreyttri mynd.

Skil fjöl­miðl­unar og fjar­skipta eru því að hverfa. Píp­urnar eru að taka yfir efn­ið. Og það eru ansi margir sem eru hræddir um að það muni bitna á gagn­rýnni frétta­mennsku þar sem áherslan verði aðal­lega á afþr­ey­ingu.

Í öðru lagi fór Frétta­tím­inn, frí­blað sem hafði komið út frá árinu 2010 á hlið­ina eftir að hafa tapað yfir 150 millj­ónum króna á einu ári og ekki átt einu sinni fyrir launum starfs­fólks.

Í þriðja lagi var til­kynnt um nýja eig­endur Pressu­sam­stæð­unnar og það að Björn Ingi Hrafns­son, sem leitt hefur þá sam­steypu myndi stíga til hliðar sam­hliða um 300 milljón króna hluta­fjár­aukn­ingu. Líkt og Kjarn­inn hefur greint frá að und­an­förnu er sú björgun þó í full­komnu upp­námi þar sem nýju fjár­fest­arnir áætla að það þurfi um 700 millj­ónir króna til að koma rekstr­inum á réttan kjöl. Óreiðan er sögð svo mikil að þeir sem hafa verið kjörnir til að sitja í stjórn félags­ins hafa neitað að taka við þeim störfum þar sem þeir vilja ekki bera laga­lega ábyrgð á ástand­inu. Þeir eru nú hættir við frek­ari fjár­fest­ingu og telja engar rekstr­ar­for­sendur fyrir áfram­hald­andi rekstri. Sam­an­lagt hafi skuldir vegna van­gold­inna opin­berra gjalda, líf­eyr­is­sjóðs­greiðslna sem ekki hafi verið skilað og stétt­ar­fé­lags­gjalda verið yfir 300 millj­ónir króna. Ólög­legt er að skila ekki slíkum gjöldum eftir að búið er að draga þau af launum starfs­manna. Þá hefur sam­runa Pressunnar og tíma­rita­út­gáf­unnar Birt­ings verið rift og ásak­anir ganga á víxl milli aðila um að þeir skuldi hver öðrum pen­inga.

Í lið­inni viku hófust upp­sagnir innan Pressu­sam­stæð­unnar og útgáfu­dögum DV hefur þegar verið fækkað í einn.

Það er því morg­un­ljóst að erf­ið­leik­arnir á einka­reknum fjöl­miðla­mark­aði eru miklir og að þessi mark­aður muni breyt­ast mjög mikið á næstu miss­er­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar