Stærsti skandall síðustu áratuga

Áætlun Dana um breytta innheimtu á sköttum vakti upp efasemdir hjá mörgum þegar í hana var ráðist 2004. Tölvukerfið sem tók við hlutverkinu hefur verið nefnt dýrasti tölvuleikur sögunnar. Og nú á að rannsaka þetta kostnaðarsama klúður.

 Lars Løkke Rasmussen og Anders Fogh Rasmussen voru tveir af þeim fjórum mönnum sem tóku ákvörðun um hið nýja fyrirkomulag á innheimtu skatta.
Lars Løkke Rasmussen og Anders Fogh Rasmussen voru tveir af þeim fjórum mönnum sem tóku ákvörðun um hið nýja fyrirkomulag á innheimtu skatta.
Auglýsing

„Jeg har en plan,“ er ein þekktasta setning í danskri kvikmyndasögu. Egon Olsen, forsprakki þremenninganna í Olsen banden, sem margir þekkja, hafði alltaf „en plan“ sem átti að tryggja þeim félögum áhyggjulaust líf. Þær stórkostlegu áætlanir fóru undantekningalaust á sama veg: lögreglan batt enda á þessa sjálfsbjargarviðleitni þremenninganna og Egon Olsen, sem ætíð kenndi félögum sínum um að allt fór út um þúfur, fékk fría ferð í steininn. Þar sem hann upphugsaði nýja áætlun, nýtt plan. 

Í apríl árið 2004 kynntu fjórir danskir ráðherrar nýtt og breytt fyrirkomulag, sem eins og plönin hjá Egon Olsen, átti ekki að geta brugðist. Þessir fjórir menn voru Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra, Lars Løkke Rasmussen innanríkis- og heilbrigðisráðherra, Thor Pedersen fjármálaráðherra og Bendt Bendtsen efnahags- og atvinnumálaráðherra. Þetta nýja fyrirkomulag sem fjórmenningarnir kynntu með pomp og prakt var breytt fyrirkomulag á innheimtu skatta og gjalda hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Skatttekjur eru ein helsta stoð samfélagsins og þess vegna skiljanlegt að breytt fyrirkomulag innheimtunnar þætti fréttnæmt. Skattar varða alla borgara og miklu skiptir að allt „kerfið“ í kringum það sé vandað og fullkomið.  

Frá sveitarfélögum til ríkisins

Auglýsing

Í stuttu máli gekk þetta nýja fyrirkomulag sem ráðherrarnir kynntu í apríl 2004 út á að innheimtan yrði færð frá innheimtumönnum á vegum sveitarfélaganna til stofnunar á vegum ríkisins, SKAT.

Lars Løkke Rasmussen, sem hafði stjórnað undirbúningsvinnunni, hafði orð fyrir ráðherrunum. Hann sagði að tilgangurinn væri að einfalda og samræma innheimtuna með nýju tölvukerfi. Því fullkomasta sem völ er á sagði Lars Løkke. Þegar fréttamenn spurðu hvort nýja fyrirkomulagið hefði aukinn kostnað í för með sér var því svarað til að þótt tilgangurinn væri ekki sparnaður yrði hann samt nokkur. Færra fólk þyrfti til að vinna verkin.

Margar efasemdaraddir 

Þótt ráðherrarnir teldu þetta breytta fyrirkomulag „mikið framfaraskref“  eins og þeir margendurtóku á kynningarfundinum voru ekki allir á sama máli. Margir úr hópi innheimtumanna, og ýmsir fleiri, höfðu miklar efasemdir, töldu undirbúningnum ábótavant og margt ófrágengið. Vel þyrfti að vanda til verka við svona stórt og yfirgripsmikið verkefni og hnýta alla lausa enda. Ráðherrar gáfu lítið fyrir slíkar „úrtöluraddir“ eins og þeir komust að orði. 

Umdeilt í þinginu

Í sumarbyrjun 2004 var frumvarpið um flutning innheimtunnar komið til þingsins. Þar urðu miklar deilur um frumvarpið og ekki tókst að ljúka afgreiðslu þess fyrr en í maí árið eftir, 2005.  Mjótt var á munum í atkvæðagreiðslunni, stjórnarflokkarnir Venstre og Konservative nutu stuðnings Danska Þjóðarflokksins. Lögin tóku gildi 1. nóvember 2005. Kristian Jensen úr Venstre flokknum, var í millitíðinni orðinn skattamálaráðherra (2004) og gegndi embættinu til ársins 2010. Þetta var hans fyrsta ráðherraembætti en hann hafði verið þingmaður frá 1998, „dugnaðarforkur“ sagði Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra á fréttamannafundi vegna breytinga á stjórninni. 

„Nýja tölvukerfið“ og tekjurnar sem tapast hafa

Á kynningarfundinum 2004 lagði Lars Løkke Rasmussen formaður undirbúningsnefndarinnar sérstaka áherslu á nýja tölvukerfið sem myndi einfalda innheimtuna og gera hana bæði markvissari og öruggari. Kerfið væri í mótun, sagði Lars Løkke, og yrði tekið í notkun árið 2007. Danskir fjölmiðlar sögðu að bjartsýni væri vissulega góður eiginleiki en fyrir stjórnmálamenn væri raunsæi ekki síður mikilvægt, fáir tryðu því að tölvukerfið yrði tilbúið árið 2007. 

Fljótlega kom í ljós að tölvukerfið kæmist ekki í notkun árið 2007, um mitt ár var greint frá því að það yrði tilbúið árið 2009. Það kom á daginn að það ártal myndi ekki standast og reyndar var það ekki fyrr en árið 2013 að kerfið var loks tilbúið. Formlega heitir þetta tölvukerfi EFI en Danir kalla það 7- 9 -13. Það hefur þó ekki dugað að þylja þessar þrjár tölur og banka í tré, kerfið var frá upphafi meingallað og árið 2016 var ákveðið að loka því. Fjölmiðlarnir kalla þetta dýrasta tölvuleik sögunnar, kostnaðurinn við að útbúa tölvukerfið og að loka því kostar að minnsta kosti 1.2 milljarða (ca. 18 milljarðar íslenskir). Þótt það sé há upphæð eru það smámunir miðað við hvað tapast hefur vegna klúðurs og mistaka sem tengjast EFI.

Segja má að þetta umdeilda tölvukerfi hafi aldrei „snúist réttan snúning“, allt mögulegt hefur verið gert til að lappa upp á þennan gallagrip en allt hefur komið fyrir ekki. 

100 milljarðar

Danski skatturinn og allt klúðrið í kringum hann hefur verið til umfjöllunar í dönskum fjölmiðlum nær daglega um langt skeið. Almenningur á vart til orð yfir endalausum frásögnum af töpuðum skatttekjum, endurgreiddum virðisaukaskatti (sem aldrei hafði verið borgaður) og mörgu öðru, sem á einn eða annan hátt tengist tölvukerfinu umdeilda og vinnulaginu hjá skattinum. Stjórnmálamenn hafa talað um að skatttekjur sem ekki hafa verið innheimtar nemi, varlega áætlað, að minnsta kosti 100 milljörðum króna (rúmlega 1500 milljarðar íslenskir) og stærstur hluti þessara peninga fáist aldrei innheimtur. 

5000 uppsagnir frá árinu 2005

Nýja tölvukerfið átti að vera öruggara og ódýrara. Myndi leysa mannshöndina af hólmi. Mannshöndunum hjá skattinum hefur vissulega fækkað verulega. Samtals hefur um 5000 manns verið sagt upp á undanförnum árum og starfsmenn eru nú 6100. Nær árlega hefur verið skorið niður þrátt fyrir að starfsmenn, stjórnmálamenn og margir aðrir hafi margsinnis varað við að komið væri í óefni, starfsemi skattsins væri í molum. Slíkar viðvaranir breyttu engu, einn stjórnmálaskýrandi orðaði það svo að allir skattamálaráðherrar frá árinu 2004 (samtals níu) væru heyrnarlausir á öðru eyra, eyranu sem þeir hafi snúið að gagnrýnendum. Almenningur hefur sakað þingmenn um aðgerðaleysi, þeir haldi hlífiskildi hver yfir öðrum og ekki hlustað á gagnrýnisraddir. Stjórnarflokkurinn Venstre (sem er ekki vinstri flokkur þrátt fyrir nafnið) hefur haft takmarkaðan áhuga á að rannsaka allt sem miður hefur farið hjá skattinum og Karsten Lauritzen skattamálaráðherra hefur frekar viljað horfa fram á veginn en til baka. Starfsfólki skattsins hefur aftur fjölgað þótt það sé enn langtum færra en þegar niðurskurðurinn hófst.

Allsherjar rannsókn

Fyrir nokkrum dögum gerðist það að Mette Frederiksen formaður sósíaldemókrata, Kristian Thulesen Dahl formaður Danska Þjóðarflokksins og Uffe Elbæk formaður Alternativet náðu samkomulagi um að krefjast allsherjar rannsóknar á skattinum. Þessir þrír flokkar hafa samtals 93 þingmenn (af 179) og hafa þvingað stjórnina til að setja rannsókn af stað, hún hefst síðar á þessu ári. Ýmsir hafa velt vöngum yfir því hvers vegna Danski Þjóðarflokkurinn (sem er stuðningsflokkur stjórnarinnar) gangi í lið með sósíaldemókrötum í þessu máli. Kristian Thulesen Dahl hefur sagt að rannsóknin sé nauðsynleg en ýmsir stjórnmálaskýrendur halda því fram að Danski Þjóðarflokkurinn hafi lítið dálæti á Kristian Jensen,sem nú er fjármálaráðherra, og hafi ekkert á móti því að láta hann finna til tevatnsins. Kristian Jensen hefur til þessa verið talinn lang líklegastur til að taka við formannsembættinu í Venstre þegar Lars Løkke hættir, sem enginn veit reyndar hvenær verður.

Kristian Jensen var, eins og áður var nefnt skattamálaráðherra frá árinu 2004 til 2010, í hans tíð hófst vinna við EFI tölvukerfið. Hann er iðulega nefndur sem sá sem beri mesta ábyrgð, af þeirri einföldu ástæðu að hann er sá sem lengst hefur setið sem skattamálaráðherra síðan innheimtukerfinu var breytt. Sumir hinna átta sem gegnt hafa embættinu sátu mjög stutt, Karsten Lauritzen, núverandi skattamálaráðherra hefur setið næst lengst, tók við í júní 2015.

Tekst að finna Svarta Pétur?

Höfuðmarkmið rannsóknar þingsins er að leita skýringa á orsökum þess að starfsemi skattsins er í molum. Þegar Mette Frederiksen og Kristian Thulesen Dahl greindu frá samkomulaginu um rannsóknina lögðu þau áherslu á mikilvægi þess að skatturinn, og starfsemi hans, sé óumdeildur og að danska þjóðin geti treyst því að þar sé allt gert með réttum hætti. Þau lögðu líka áherslu á að draga fram hver, eða hverjir, beri ábyrgðina á því  sem þau kölluðu stærsta skandal síðustu áratuga. Eins og áður sagði beinast spjótin fyrst og fremst að Kristian Jensen fjármálaráðherra og varaformanni Venstre. Hvort hann situr uppi með Svarta Pétur, eða apann í fanginu, eins og Danir segja iðulega, er útilokað að segja til um. Hins vegar má nokkurn veginn slá því föstu að hver sem niðurstaðan verður hefur orðspor Kristians Jensen beðið skaða og hann er kannski ekki hinn sjálfgefni erfðaprins Venstre flokksins.  

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar