kjarninn og kristján þór

Hvað verður um íslenska fjölmiða?

Einkareknir fjölmiðlar á Íslandi eru reknir með tapi. Þeir stærstu treysta á milljarðameðgjöf auðugra eigenda. Gömul viðskiptamódel eru hrunin og neysluvenjur hafa gjörbreyst samhliða tæknibyltingu. Hvað er hægt að gera? Og eru frjálsir fjölmiðlar svo mikilvægir að það þurfi að gera eitthvað? Þetta er viðfang síðast þáttar Kjarnans á Hringbraut.

Staða einkarekinna fjölmiðla á Íslandi hefur ekki verð beysin á undanförnum árum. Flestir stóru miðlarnir fóru að minnsta kosti langleiðina á hliðina eftir hrun og þeir rekstrarerfiðleikar hafa magnast vegna gífurlegrar tækniframþróunar og neyslubreytinga. Þær breytingar hafa grafið undan þeim viðskiptamódelum sem hefðbundnir fjölmiðlar notuðu til að fjármagna starfsemi sína áratugum saman, þ.e. blöndu áskriftar og auglýsingasölu.

Þótt mun auðveldara sé að setja á fót stafræna fjölmiðla sem krefjast ekki þess að fjárfest sé í dreifingarkerfi með tilheyrjandi kostnaði, heldur sem geta nýtt sér internetið og samfélagsmiðla til að miðla efni sínu fyrir engan eða lítinn pening, þá glímir sú leið líka við ýmis konar vanda. Staða stafrænu miðlanna er líka sífellt að vera þrengri, meðal annars vegna þess að Facebook, Google, Youtube og fleiri erlendir aðilar taka til sín sífellt fleiri auglýsingakrónur. Og vilji almennings til að borga fyrir fréttir hefur dvínað mjög undanfarin áratug án þess að nýjar tekjuleiðir hafi getað bætt þá þróun upp.

En byrjum á smá sagnfræði.

Stórir miðlar í miklum vandræðum eftir hrun

Hvað gerðist á fjölmiðlamarkaðnum eftir hrun? Samandregið má segja að allir einkareknir fjölmiðlar sem störfuðu fyrir hrun hafi lent í vandræðum á sama tíma og bankarnir hrundu. Þeir voru enda flestir komnir í eigu áhrifamanna í íslensku viðskiptalífi á þeim tíma, að mestu menn sem áttu líka stóra hluti í viðskiptabönkunum þremur sem féllu í október 2008.

Viðskiptablaðið var til að mynda í eigu félags sem hét Framtíðarsýn fyrir hrun og var farið að koma út fjórum sinnum í viku. Eigendur þess voru Bakkavararbræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir. Allar eignir Framtíðarsýnar voru seldar til blaðamannsins Gísla Freys Valdórssonar á eina krónu. Hann áfram seldi svo reksturinn, sem meðal annars innihélt áskrifendagrunn blaðsins, til Mylluseturs ehf. í nóvember 2008. Með fylgdu hluti skulda. Í kjölfarið Framtíðarsýn sett í þrot og stór hluti starfsmanna Viðskiptablaðsins þurftu að sækja vangreidd laun til ábyrgðarsjóðs launa. Myllusetur er enn þann dag í dag eigandi blaðsins og systurblaða þess.

Stærsta einka­rekna fjöl­miðla­fyr­ir­tæki lands­ins er 365 miðl­ar. Það félag, sem hét einu Rauð­sól, keypti alla fjöl­miðla „gamla“ 365 í nóv­em­ber 2008 á 1,5 millj­arð króna og með yfir­töku skulda. Eigandi Rauðsólar var Jón Ásgeir Jóhannesson, sem hafði líka verið aðaleigandi gamla 365.

Gamla 365 ehf., sem var end­­­ur­­­nefnt Íslensk afþrey­ing ehf., fór í þrot og kröf­u­hafar þess töp­uðu 3,7 millj­­­örðum króna. Á meðal kröfu­hafa þess voru íslenskir líf­eyr­is­sjóðir og rík­is­bank­inn Lands­banki Íslands. Félagið skuldaði tíu milljarða í lok árs 2015 og hefur tapað milljörðum króna á síðustu árum samhliða því að fjarað hefur undan viðskiptamódelum helstu miðla þess. Aðaleigandi 365 miðla í dag er eiginkona Jóns Ásgeirs, meðal annars í gegnum erlend félög þar sem hann hefur prókúru.

Næst stærsta einka­rekna fjöl­miðla­fyr­ir­tæki lands­ins er Árvak­ur, sem gefur m.a. út Morg­un­blaðið og heldur úti mbl.is. Það félag fór líka nánast í þrot eftir bankahrunið. Nýr eigendahópur, sem samanstóð aðallega að útgerðarmönnum, keypti það snemma árs 2009 og fengu um leið gífurlegar afskriftir af skuldum félagsins. Alls hafa 4,5 milljarðar króna verið afskrifaðar hjá Árvakri auk þess sem hinir áhrifamiklu, og ríku, eigendur fjölmiðlafyrirtækisins lögðu því til 1,2 milljarða króna. Þrátt fyrir þessa gífurlegu meðgjöf hefur rekstr­­­ar­tap félags­­­ins verið að minnsta kosti 1,5 millj­arði króna frá því að nýir eig­endur tók við félag­inu árið 2009. Nú er verið að safna nýju hlutafé og segja heimildir að til þurfi um 400 milljónir króna til að brúa tap síðast árs og fyrirsjáanlegt tap í ár.

Það hefur verið opinberað að Morgunblaðið hafi sett sér pólitíska stefnuskrá sem í fólst m.a. að standa gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu, gegn aðild að Evrópusambandinu, gegn vinstri stjórninni sem sat hér eftir hrun og gegn stjórnarskrárbreytingum. Það gerðist meðal annars í neðangreindu viðtali við Óskar Magnússon, fyrrverandi útgefanda Árvakurs, á Hringbraut í fyrra.

Hjá 365 hefur fyrrverandi eigandi, og nú maki eiganda og skuggastjórnandi, fyrirtækisins margoft orðið uppvís að því að skipta sér að fréttaflutningi um sakamál sem rekin eru gegn honum og reynt að beita miðlunum fyrir sig í frelsisbaráttu sinni og annarra sem glíma við sömu baráttu.

Fjölmiðlaveldi Björns Inga

Í mars 2010 keypti hópur fólks DV og vefinn DV.is af Birtingi, en rekstur þess ráðsetta dagblaðs hafði þá verið þungur um nokkurt skeið. Reynir Traustason, og sonur hans Jón Trausti, voru í forgrunni hópsins og þeir tóku við stjórn fyrirtækisins eftir að kaupin gengu í gegn. Um þá stjórn héldu þeir í rúm fjögur ár. Reksturinn var erfiður og DV-tíð feðganna endaði með því að Pressan, fjölmiðlafyrirtæki Björns Inga Hrafnssonar, tók yfir hann eftir gríðarleg átök seinni hluta árs 2014. Fyrrverandi stjórnarformaður DV sagði að yfirtakan hefði verið tengd Framsóknarflokknum. Því var hafnað af þáverandi framkvæmdastjóra flokksins.

Pressan var stofnuð af Birni Inga eftir að hann hætti sem viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins í kjölfar hrunsins. Hún hóf starfsemi sem ein fréttavefsíða snemma árs 2009. Upphaflegir eigendur voru VÍS (33 prósent), sem þá var enn undir stjórn Bakkavararbræðranna Ágústar og Lýðs Guðmundssona, Björn Ingi sjálfur (26,37 prósent), félag í eigu Róbert Wessman (23,08 prósent) og Arnars Ægissonar (17,58 prósent).

Pressan hefur vaxið hratt á undanförnum árum og tekið yfir margar einingar á fjölmiðlamarkaði. Þar má nefna ÍNN, Eyjuna og ýmis konar svæðismiðla. Stærsta yfirtakan var þó þegar Pressan komst yfir DV og DV.is. Þessi vegferð hefur kostað skildinginn. Skuldir Samstæðunnar sex­föld­uð­ust á milli áranna 2013 og 2015 og stóðu í lok þess árs í 444 millj­ónum króna. Líkt og komið verður betur að síðar er skuldastaðan nú enn verri. Ljóst er að hluti skuldanna hafa verið seljendalán. En ekki hafa fengist neinar upplýsingar um hverjir aðrir voru að lána Pressusamstæðunni, eða eigendum hennar, allt það fé sem hún hefur brennt á liðnum árum.

Fyrir utan ofangreinda, sem taka til sín langstærstan hluta af öllum þeim tekjum sem eru í boði á fjölmiðlamarkaðnum, hafa ýmsir minni fjölmiðlar sem leggja áherslu á þjóðfélagsmál og fréttir verið stofnaðir. Þar er um að ræða miðla eins og Kjarnann, Stundina og Hringbraut. Þeir, líkt og rótgrónu miðlarnir, hafa allir glímt við taprekstur.

Þá er auðvitað ótalin risinn á markaðnum, RÚV. Á sama tíma og nær allir einkareknir miðlar töpuðu fé hagnaðist ríkismiðillinn um 1,4 milljarða króna í fyrra. Uppistaðan var vegna sölu á byggingarétti en það var líka hagnaður af reglulegri starfsemi RÚV upp á 95 milljónir króna. Auglýsingatekjur RÚV á síðasta ári voru 2,2 milljarðar króna og fyrirtækið fékk auk þess 3,8 milljarða króna úr ríkissjóði á ári.

Þrír ráðandi þættir skekkja umhverfið

Allt ofangreint hefur gert það að verkum að rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hefur verið mjög erfitt eftir hrun. Þeir fjölmiðlar sem hafa haft úr mestu að spila hafa ekki verið reknir á rekstrarlegum forsendum heldur fengið milljarða króna meðgjöf frá auðugum aðilum til að halda úti víðfeðmi starfsemi sinni. Sú staða, að hagsmunaaðilar borgi undir taprekstur stórra fjölmiðla og að bankar afskrifi milljarða skuldir þeirra, hefur haft mikil áhrif á samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Og dregið úr möguleikum þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem eru að reyna að reka sig á sjálfbæran, og jafnvel arðbæran, hátt til að geta keppt á jafnréttis- og samkeppnisgrundvelli.

Aukin fyrirferð RÚV á markaðnum skiptir þar einnig máli ásamt miklum tækniframförum og neyslubreytingum sem hafa kippt fótunum undan gömlu viðskiptamódelum einkarekinna fjölmiðla. Stjórnvöld brugðust við þessari stöðu með því að skipa nefnd um stöðuna seint á síðasta ári og  er vinnu hennar að mestu lokið. Hún mun skila Kristjáni Þór Júlíussyni, mennta- og menningarmálaráðherra, skýrslu fyrir lok þessa mánaðar. Kristján Þór var gestur í síðasta þætti Kjarnans á Hringbraut. Þar viðraði hann hugmyndir sínar um hvað sé hægt að gera til að bæta þessa stöðu.

Miklar sviptingar á nokkrum vikum

Á síðustu örfáu vikum höfum við séð birtingarmynd þessa í þremur sviptingum sem átt hafa sér stað á fjölmiðlamarkaði.

Í fyrsta lagi hefur fjarskiptafyrirtækið Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, keypt flesta fjölmiðla 365 miðla. Rekstrarforsendur stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtækis landsins ganga ekki lengur upp í óbreyttri mynd.

Skil fjölmiðlunar og fjarskipta eru því að hverfa. Pípurnar eru að taka yfir efnið. Og það eru ansi margir sem eru hræddir um að það muni bitna á gagnrýnni fréttamennsku þar sem áherslan verði aðallega á afþreyingu.

Í öðru lagi fór Fréttatíminn, fríblað sem hafði komið út frá árinu 2010 á hliðina eftir að hafa tapað yfir 150 milljónum króna á einu ári og ekki átt einu sinni fyrir launum starfsfólks.

Í þriðja lagi var tilkynnt um nýja eigendur Pressusamstæðunnar og það að Björn Ingi Hrafnsson, sem leitt hefur þá samsteypu myndi stíga til hliðar samhliða um 300 milljón króna hlutafjáraukningu. Líkt og Kjarninn hefur greint frá að undanförnu er sú björgun þó í fullkomnu uppnámi þar sem nýju fjárfestarnir áætla að það þurfi um 700 milljónir króna til að koma rekstrinum á réttan kjöl. Óreiðan er sögð svo mikil að þeir sem hafa verið kjörnir til að sitja í stjórn félagsins hafa neitað að taka við þeim störfum þar sem þeir vilja ekki bera lagalega ábyrgð á ástandinu. Þeir eru nú hættir við frekari fjárfestingu og telja engar rekstrarforsendur fyrir áframhaldandi rekstri. Samanlagt hafi skuldir vegna vangoldinna opinberra gjalda, lífeyrissjóðsgreiðslna sem ekki hafi verið skilað og stéttarfélagsgjalda verið yfir 300 milljónir króna. Ólöglegt er að skila ekki slíkum gjöldum eftir að búið er að draga þau af launum starfsmanna. Þá hefur samruna Pressunnar og tímaritaútgáfunnar Birtings verið rift og ásakanir ganga á víxl milli aðila um að þeir skuldi hver öðrum peninga.

Í liðinni viku hófust uppsagnir innan Pressusamstæðunnar og útgáfudögum DV hefur þegar verið fækkað í einn.

Það er því morgunljóst að erfiðleikarnir á einkareknum fjölmiðlamarkaði eru miklir og að þessi markaður muni breytast mjög mikið á næstu misserum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar