1. Karlar stjórna landinu
Ríkisstjórninni er stýrt af körlum, þrír karlar stjórna þeim þremur stjórnmálaflokkum sem að henni koma. Karlar eru í meirihluta í ríkisstjórninni þrátt fyrir að kynjahlutföll á Alþingi hafi aldrei verið eins jöfn. Konur hefðu raunar verið í meirihluta á Alþingi í fyrsta sinn ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft jafnari kynjahlutföll á sínum framboðslistum en raunin varð.
2. Karlar eru meirihluti stjórnarmanna
Nýlegar tölur frá Hagstofunni sýna að hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja á Íslandi stendur í stað milli ára. Konur eru 25,9 prósent stjórnarmanna í fyrirtækjum á Íslandi. Frá árinu 1999 hefur hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hækkað úr 21,3 prósentum í 25,9 prósent. Þegar litið er til fyrirtækja með 50 eða fleiri starfsmenn voru konur 32,3 prósent stjórnarmanna í lok síðasta árs.
3. Lög um kynjakvóta ekki að virka almennilega
Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja tóku að fullu gildi hér á landi í september 2013 og samkvæmt þeim ber fyrirtækjum með 50 eða fleiri starfsmenn að tryggja að hlutfall hvors kyns í stjórn sé ekki undir 40 prósentum. Árið eftir það náði hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja af þessari stærð hámarki, fór upp í 33,2 prósent, en hefur síðan farið lækkandi aftur.
4. Karlar eru meirihluti framkvæmdastjóra
Konum fjölgaði lítillega í stöðum framkvæmdastjóra í fyrra, en hlutfall þeirra fór úr 21,9 prósenti í 22,1 prósent. Samkvæmt því voru 2.932 konur í stöðu framkvæmdastjóra hér á landi í lok ársins 2016. Hagstofan greinir tölurnar einnig eftir greinum, og í aðeins einni þeirra eru konur í meirihluta framkvæmdastjóra. Það er í félagasamtökunum og annarri þjónustustarfsemi, þar sem konur eru 64 prósent framkvæmdastjóra. Í fræðslustarfsemi eru konur 45,6 prósent framkvæmdastjóra og 39,6 prósent í heilbrigðis- og félagsþjónustu.
5. Karlar eru meirihluti stjórnarformanna
Í lok síðasta árs voru konur 23,9 prósent stjórnarformanna landsins. Það gera 3.691 konu sem gegndi slíku starfi. Aftur eru konur eingöngu í meirihluta stjórnarformennskustarfa í félagasamtökum og annarri þjónustustarfsemi, þar sem þær eru 58 prósent stjórnarformanna. Sömu sögu er svo að segja af stjórnarmennsku kvenna, þær eru í meirihluta stjórna félagasamtaka og annarrar þjónustustarfsemi, en hvergi annars staðar.
6. Karlar stýra peningum á Íslandi
Kjarninn hefur síðastliðin fjögur ár gert úttekt á stöðu kvenna á meðal æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, félaga á leið á markað, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og –miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða. Úttektin nær til æðsta stjórnanda hvers fyrirtækis eða sjóðs. Niðurstaðan í ár, samkvæmt úttekt sem framkvæmd var í febrúar 2017, er sú að æðstu stjórnendur í ofangreindum fyrirtækjum séu 88 talsins. Af þeim eru 80 karlar en átta konur. Það þýðir að 91 prósent þeirra sem stýra peningum á Íslandi eru karlar en níu prósent konur.
7. Karlar hafa alltaf stýrt peningum á Íslandi
Þegar Kjarninn framkvæmdi úttektina fyrst, í febrúar 2014, voru störfin sem hún náði yfir 88 talsins. Þá sátu 82 karlar í þeim störfum en sex konur. Hlutfallslega skiptingin var því þannig að karlar voru 93 prósent stjórnenda en konur sjö prósent. Árið 2015 voru störfin 87, karlarnir 80 og konurnar sjö. Hlutfallið hafði því „lagast“ en var samt þannig að 92 prósent stjórnenda voru karlar en átta prósent konur. Í fyrra var hlutfallið það sama og árið áður. 92 prósent þeirra sem stýrðu peningum hérlendis voru karlar. Hlutfallið hefur því nánast ekkert breyst á síðustu fjórum árum.
8. Lífeyrissjóðakerfið sérstaklega karlægt
Áhrifamestu leikendurnir á íslenskum fjármálamarkaði eru lífeyrissjóðirnir okkar. Samkvæmt nýjustu hagtölum Seðlabanka Íslands var hrein eign þeirra 3.637 milljarðar króna um síðustu áramót. Lífeyrissjóðirnir, sem eru nú 25 talsins samkvæmt yfirliti Fjármálaeftirlitsins um eftirlitsskyldra aðila, eru allt um lykjandi í íslensku viðskiptalífi. Þeir eiga meira en helming skráðra hlutabréfa annað hvort beint eða óbeint í gegnum sjóði sem þeir hafa fjárfest í. Sjóðirnir hafa líka fjárfest mikið í óskráðum eignum og eru að sækja mikið á í útlánum til fasteignakaupa, þar sem þeir geta boðið betri kjör en viðskiptabankarnir. Þá eru þeir helstu eigendur skuldabréfa á Íslandi.
Úttekt Kjarnans í febrúar náði til 17 stjórnenda lífeyrissjóða sem sumir hverjir stýra fleiri en einum sjóði. Af þessum 17 eru 15 karlar en tvær konur. Níu stærstu sjóðirnir stýra um 80 prósent af fjármagninu sem er til staðar í íslenska lífeyrissjóðakerfinu. Þeim er öllum stýrt af körlum.
9. Karlar stýra skráðum félögum
Öllum skráðum félögum á Íslandi er nú stýrt af körlum. Auk þess er forstjóri Kauphallarinnar karlinn Páll Harðarson.
10. Fleiri karlmenn forstöðumenn en konur
Konur eru 39 prósent forstöðumanna hjá stofnunum ríkisins. Hlutfallið hefur hækkað úr 37 prósentum í fyrra og 29 prósentum árið 2009. Forstöðumenn hjá ríkinu voru 154 í janúar á þessu ári, og hafði fækkað um tvo á einu ári. Konur eru nú samtals 60 talsins meðal 154 forstöðumanna hjá ríkinu. Allar stofnanir ríkisins eru meðtaldar í kynjabókhaldinu, að undanskildum stofnunum utan framkvæmdavaldsins, Alþingi, stofnunum þess og dómstólum.