Hækkun á húsnæðisverði étur upp vaxtabætur en eykur skattbyrði
Frá árinu 2010 hafa vaxtabætur lækkað um 7,7 milljarða króna og þeim fjölskyldum sem eiga rétt á þeim fækkað um 30 þúsund. Á sama tíma hafa fasteignagjöld skilað Reykjavíkurborg 50 prósent meiri skatttekjum.
Almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2016, námu 4,3 milljörðum króna. Það er lækkun um 16,8 prósent á milli ára. Alls fengu 26.107 þiggjendur vaxtabætur á síðasta ári, eða 12,1 prósent færri en árið áður. Vaxtabætur hafa samtals lækkað um 7,7 milljarða króna síðan árið 2010 og þeim fjölskyldum sem fá þær hefur fækkað um rúmlega 30 þúsund á saman tíma. Þetta er hægt að lesa úr fréttum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um niðurstöðu álagningu opinberra gjalda á undanförnum árum.
Á sama tíma og sífellt færri fá vaxtabætur vegna íbúðarhúsnæðis þá hafa fasteignagjöld, sem sveitarfélög leggja á, hækkað um 50 prósent vegna gríðarlegra hækkana á húsnæðisverði. Samandregið hafa því bótagreiðslur til húsnæðiseigenda hríðlækkað og skattar á húsnæðiseigendur hækkað umtalsvert.
Vaxtabætur lækkað um 7,7 milljarða
Árið 2010 fengu 56.600 fjölskyldur almennar vaxtabætur upp á 12 milljarða króna. Bætur vegna þess árs, og ársins 2011, voru þó hærri vegna þess að ákveðið var að greiða sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem var 0,6 prósent af skuldum íbúðarhúsnæðis til eigin nota, en þó að hámarki 200 þúsund krónur fyrir einstaklinga og 300 þúsund fyrir hjón eða sambúðarfólk. Þetta var gert vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar hrunsins. Hin sérstaka vaxtaniðurgreiðsla var ekki tekjutengd heldur eignartengd. Hún byrjaði að skerðast við nettóeign upp á tíu milljónir króna og féll niður þegar nettóeign náði 20 milljónum króna hjá einstaklingum, eða skertist við 15 milljóna króna eign og féll niður við 30 milljónir króna hjá hjónum og sambúðarfólki.
Vegna áranna 2011 og 2012 voru greiddar út almennar vaxtabætur upp á 8,6-8,7 milljarða króna árlega og 45-46 þúsund fjölskyldur fengu slíkar bætur. Vegna ársins 2013 voru almennar vaxtabætur um átta milljarðar króna og þiggjendur þeirra tæplega 42 þúsund fjölskyldur. Það vor var skipt um ríkisstjórn í landinu og við tók stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Vegna ársins 2014 voru greiddar úr vaxtabætur upp á sjö milljarða króna til 38 þúsund fjölskyldna. Ári síðar voru almennar vaxtabætur 5,2 milljarðar króna og þiggjendur þeirra 29.170 fjölskyldur. Þeim fækkaði um heil 21,3 prósent milli áranna 2014 og 2015. Í fyrra héldu vaxtabætur áfram að lækka og voru 4,3 milljarðar alls. Þiggjendur þeirra voru 26.107 talsins, eða 12,1 prósent færri en vegna ársins 2015. Vegna ársins 2016 voru greiddir út 4,3 milljarðar króna til 26.107 fjölskyldna.
Samandregið þá hefur sú krónuupphæð sem greidd hefur verið í vaxtabætur dregist saman um 7,7 milljarða króna frá árinu 2010. Útgreiddar bætur voru tæplega þrisvar sinnum hærri þá en í fyrra. Á sama tíma hefur þiggjendum vaxtabóta fækkað gríðarlega, eða um 30 þúsund. Nú fá rúmlega helmingi færri fjölskyldur almennar vaxtabætur en vegna ársins 2010.
Húsnæðisverð hækkað um 90 prósent
Ástæðan fyrir þessu er einföld: gríðarleg hækkun á húsnæðisverði samhliða hagsfelldum efnahagsaðstæðum. Frá því í desember 2010 hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu, á öllu húsnæði, hækkað um 90 prósent. Hækkunin hefur verið drifin áfram af skorti á framboði, sem hefur verið miklu minna en eftirspurn. Samhliða hafa efnahagsaðstæður batnað og kaupmáttur aukist og geta íbúa til að kaupa sér húsnæði þar af leiðandi meiri.
Við þetta hefur eigið fé landsmanna aukist mjög mikið. Nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, jókst til að mynda um 13,4 prósent á árinu 2016 og nam samtals 3.194 milljörðum króna. Frá árinu 2012 hefur sú nettóeign aukist um 1.368 milljarða króna í krónum talið. Sú eign hefur annars vegar lent hjá fjármagnseigendum á Íslandi, sem er nokkur þúsund ríkustu fjölskyldur landsins, og hins vegar hjá eigendum fasteigna vegna hækkunar á húsnæðisverði.
Eigið fé heimila landsins í fasteignum þeirra samsvarar nú 67 prósent af verðmæti þeirra. Árið 2011 var eigið fé landsmanna í fasteignum þeirra 55 prósent.
Við blasir þó að þeir sem losa um þennan ávinning, aukið eigið fé í húsnæði, þurfa allflestir að endurfjárfesta hann á markaði sem tekur fullt tillit til þeirra hækkana sem orðið hafa húsnæðismarkaði, ætli þeir sér áfram að hafa þak yfir höfuðið. Við slíkar aðstæður veitir hið aukna fé fyrst og fremst tækifæri til að auka útborgun í dýrari eign, en skilur ekki mikið eftir á milli handanna. Undantekningarnar eru fyrst og fremst þeir húsnæðiseigendur sem flytjast erlendis og kaupa aftur á markaði sem hefur ekki hækkað jafn mikið og sá íslenski, þeir sem kaupa sér húsnæði á þeim landsvæðum innanlands sem hafa ekki hækkað jafn mikið eða þeir sem erfa húsnæði og selja.
Skerðingarmörkin ekki fylgt verðlagi
Ástæður þess að vaxtabætur skerðast jafn mikið og raun ber vitni, og að sífellt færri fá þær, er sú að réttur til vaxtabóta byrja að skerðast ef eignir að frádregnum skuldum fara yfir ákveðin krónutölumörk. Frá 2010 til 2015 hélst sú krónutala óbreytt. Árið 2010 byrjuðu vaxtabætur að skerðast þegar eignir að frádregnum skuldum einhleypinga urðu fjórar milljónir króna og hjá hjónum eða sambúðarfólki þegar eignin varð 6,5 milljónir króna. Réttur til vaxtabóta féll niður þegar nettóeign einhleypinga varð 6,4 milljónir króna og þegar eign hjóna eða sambúðarfólks varð 10,4 milljónir króna. Vert er að taka fram að á þessum tíma voru líka greiddar út sérstakar vaxtabætur í tvö ár sem var 0,6 prósent af skuldum vegna íbúðarhúsnæðis en með hámarksþaki upp 200 þúsund fyrir einstaklinga og 300 þúsund fyrir sambúðarfólk. Þetta var gert vegna aðstæðna í kjölfar hrunsins.
Þegar vaxtabætur voru ákvarðaðar í fyrra vegna ársins 2015 voru skerðingar- og niðurfellingarmörk vaxtabóta enn sama tala, þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hafi t.d. hækkað um 18 prósent á því tímabili, m.a. vegna áhrifa frá hærra húsnæðisverði. Með öðrum orðum fylgdu skerðingar- og niðurfellingarmörkin ekki verðlagi.
Skerðingar- og niðurfellingarmörkin voru hækkuð þegar álagning vegna ársins 2016 var ákveðin, um 12,3-12,5 prósent. Það er fyrsta hækkun á þeim síðan á árinu 2011, þegar álagning vegna ársins á undan var ákveðin. Nú byrja vaxtabætur að skerðast við 4,5 milljóna króna eign hjá einhleypum og 7,3 milljóna króna eign hjá hjónum og sambúðarfólki. Þær falla niður við 7,2 milljóna króna eign hjá einhleypum og tæplega 11,7 milljóna króna eign hjá hjónum og sambúðarfólki. Hámarksgreiðslur vaxtabóta hafa auk þess haldist þær sömu frá árinu 2011. Einhleypingur getur fengið 400 þúsund krónum, einstætt foreldri allt að 500 þúsund krónum og hjón og sambúðarfólk allt að 600 þúsund krónum.
Borgum hærri skatta vegna verðhækkana
Á sama tíma og vaxtabætur hafa dregist saman mjög hratt vegna hækkunar á húsnæðisverði og skorts á breytingum á skerðingar- og niðurfellingarmörkum, hafa fasteignagjöld sem húsnæðiseigendur þurfa að greiða til sveitarfélaga hækkað gríðarlega. Sú hækkun er einvörðungu vegna þess að húsnæðisverð hefur hækkað mjög mikið á örfáum árum.
Kjarninn greindi frá því í vikunni að innheimt fasteignagjöld í Reykjavík hafi aukist um 50 prósent frá árinu 2010. Vegna þess árs innheimti Reykjavíkurborg tæplega 12,1 milljarð króna í fasteignagjöld. Áætlað er að borgin innheimti 18,2 milljarða króna í fasteignagjöld vegna ársins 2017. Munurinn er því 6,1 milljarður króna. Í svörum frá Reykjavíkurborg við fyrirspurn Kjarnans kom einnig fram að innheimta fasteignagjalda muni skila 2,6 milljarði króna meira í borgarsjóð vegna ársins 2017 en hún gerði árið 2016. Það er tekjuaukning upp á 16,6 prósent milli ára. Gjöldin hafa ekkert verið lækkuð á því tímabili sem húsnæðisverð hefur rokið upp.