#stjórnarskrá

Munu Færeyingar og Grænlendingar fá nýja stjórnarskrá?

Svo virðist sem að Færeyingar og Grænlendingar gætu eignast nýja stjórnarskrá á næstu árum og stigið þannig mikilvægt skref í átt að sjálfstæði frá Danmörku.

Grænlenska stjórnarskrárnefndin sagðist vilja leita til sérfræðihjálpar á Íslandi vegna uppbyggingu nýrrar stjórnarskrár.
Grænlenska stjórnarskrárnefndin sagðist vilja leita til sérfræðihjálpar á Íslandi vegna uppbyggingu nýrrar stjórnarskrár.

Stjórn­ar­skrár­nefndir hafa verið stofn­aðar í Græn­landi og á Fær­eyj­um, en kosið verður í báðum löndum um nýja stjórn­ar­skrá á næstu árum. Svo gæti farið að báðar þjóðir öðlist sjálf­stæði frá Dönum í náinni fram­tíð, en litið er á nýja stjórn­ar­skrá sem mik­il­vægt skref í þeirri bar­áttu.

Kosið um stjórn­ar­skrána í apríl 2018

Tíma­rit­ið The Economist birti á þriðju­dag­inn frétta­skýr­ingu um stjórn­ar­skrár­gerð Fær­ey­inga og fyr­ir­hug­aða atkvæða­greiðslu um hana í apríl á næsta ári. Sam­kvæmt frétta­skýr­ing­unni gæti atkvæða­greiðslan markað fyrsta skref lands­ins í átt að sjálf­stæði, en ekki er minnst á Dan­mörku í drögum að stjórn­ar­skránni sem birt voru af Lög­manni Fær­eyja í júlí síð­ast­liðn­um.

Fær­ey­ingar eru að ganga í gegnum mikið hag­vaxt­ar­skeið þessa stund­ina, en vegna hækk­andi mark­aðs­verðs á fiski er lands­fram­leiðsla á mann þar orðin jafnhá og á Íslandi. Sam­hliða batn­andi efna­hags­stöðu eyj­anna hefur opin­ber styrkur frá danska rík­inu einnig minnkað hlut­falls­lega, en nú nemur hann 3,3% af lands­fram­leiðslu, miðað við 11,2% árið 2000. 

Á hinn bóg­inn er óvíst hvort nýja stjórn­ar­skráin verði sam­þykkt. Rík­is­stjórnin stendur höllum fæti og and­stæð­ingar sjálf­stæðis Fær­eyja krefj­ast stórra breyt­inga áður en hún verður lögð í atkvæða­greiðslu. 

Auglýsing

Enn óljós­ara er hvort Fær­eyjar muni öðl­ast sjálf­stæði í bráð, jafn­vel þótt ný stjórn­ar­skrá verði sam­þykkt. And­stæð­ingar sjálf­stæðis benda á ein­hæfni fær­eyska hag­kerf­is­ins og hversu við­kvæmt það er fram­boði og eft­ir­spurn á fiski. Þannig telji margir það vera efna­hags­lega ábata­samt fyrir Fær­eyjar að halda áfram ríkja­sam­bandi við Dan­mörku, en sam­kvæmt skoð­ana­könn­un Gallup Føroya í fyrra studdi meiri­hluti íbú­anna sam­band­ið. 

80% hlynnt sjálf­stæði

Á Græn­landi kveður við annan tón, en í við­tali við RÚV sagði Vivian Motz­feld, for­mað­ur­ græn­lensku ­stjórn­ar­skrár­nefnd­ar­inn­ar, um 80% lands­manna vera fylgj­andi sjálf­stæði. Stuðn­ing­ur­inn er mun meiri en í Fær­eyj­um, jafn­vel þótt lands­fram­leiðsla á mann sé um fjórð­ungi lægri þar í landi og Græn­lend­ingar fái sex sinnum hærri árlega styrki frá danska rík­inu.

Nýskipuð stjórnarskrárnefnd Grænlands. Heimild: Embætti forseta.

Vinna að nýrri stjórn­ar­skrá er hins vegar komin skemur á veg í Græn­landi, en engin drög hafa verið gerð að nýrri stjórn­ar­skrá þar, líkt og í Fær­eyj­um. Þó hefur sjö manna þverpóli­tísk stjórn­ar­skrár­nefnd verið skipuð og búist er við því að hún skili drögum á næstu þremur árum. Ekki er hægt að segja til um hvenær verði svo kosið um stjórn­ar­skrár­breyt­ingu enn sem komið er, sam­kvæmt Motz­feld.

Nefndin var í heim­sókn á Íslandi fyrr í vik­unni og heim­sótti þar meðal ann­ars for­set­ann í opin­berri heim­sókn. Sam­kvæmt græn­lenska miðl­in­um Sermitsiaq var til­gangur Íslands­heim­sókn­ar­innar að fá sér­fræði­ráð­gjöf um upp­bygg­ingu stjórn­ar­skrár og læra af reynslu lands sem áður til­heyrði Dan­mörku.

Viltu styrkja sjálfstæða íslenska fjölmiðlun?
Lesendur Kjarnans geta kosið að greiða fast mánaðarlegt framlag til fjölmiðilsins til að efla starfsemi hans enn frekar. Markmiðið er upplýstari, gagnrýnni og málefnalegri umræða. Hjálpið okkur við að ná því markmiði með því að ganga til liðs við Kjarnasamfélagið.
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiErlent