Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hækkun á húsnæðisverði étur upp vaxtabætur en eykur skattbyrði

Frá árinu 2010 hafa vaxtabætur lækkað um 7,7 milljarða króna og þeim fjölskyldum sem eiga rétt á þeim fækkað um 30 þúsund. Á sama tíma hafa fasteignagjöld skilað Reykjavíkurborg 50 prósent meiri skatttekjum.

Almennar vaxta­bætur vegna vaxta­gjalda af lánum til kaupa á íbúð­ar­hús­næði, sem ein­stak­lingar greiddu af á árinu 2016, námu 4,3 millj­örðum króna. Það er lækkun um 16,8 pró­sent á milli ára. Alls fengu 26.107 þiggj­endur vaxta­bætur á síð­asta ári, eða 12,1 pró­sent færri en árið áður. Vaxta­bætur hafa sam­tals lækkað um 7,7 millj­arða króna síðan árið 2010 og þeim fjöl­skyldum sem fá þær hefur fækkað um rúm­lega 30 þús­und á saman tíma. Þetta er hægt að lesa úr fréttum fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins um nið­ur­stöðu álagn­ingu opin­berra gjalda á und­an­förnum árum.

Á sama tíma og sífellt færri fá vaxta­bætur vegna íbúð­ar­hús­næðis þá hafa fast­eigna­gjöld, sem sveit­ar­fé­lög leggja á, hækkað um 50 pró­sent vegna gríð­ar­legra hækk­ana á hús­næð­is­verði. Sam­an­dregið hafa því bóta­greiðslur til hús­næð­is­eig­enda hríð­lækkað og skattar á hús­næð­is­eig­endur hækkað umtals­vert.

Vaxta­bætur lækkað um 7,7 millj­arða

Árið 2010 fengu 56.600 fjöl­skyldur almennar vaxta­bætur upp á 12 millj­arða króna. Bætur vegna þess árs, og árs­ins 2011, voru þó hærri vegna þess að ákveðið var að greiða sér­staka vaxta­nið­ur­greiðslu sem var 0,6 pró­sent af skuldum íbúð­ar­hús­næðis til eigin nota, en þó að hámarki 200 þús­und krónur fyrir ein­stak­linga og 300 þús­und fyrir hjón eða sam­búð­ar­fólk. Þetta var gert vegna sér­stakra aðstæðna í kjöl­far hruns­ins. Hin sér­staka vaxta­nið­ur­greiðsla var ekki tekju­tengd heldur eign­ar­tengd. Hún byrj­aði að skerð­ast við nettó­eign upp á tíu millj­ónir króna og féll niður þegar nettó­eign náði 20 millj­ónum króna hjá ein­stak­ling­um, eða skert­ist við 15 millj­óna króna eign og féll niður við 30 millj­ónir króna hjá hjónum og sam­búð­ar­fólki.

Vegna áranna 2011 og 2012 voru greiddar út almennar vaxta­bætur upp á 8,6-8,7 millj­arða króna árlega og 45-46 þús­und fjöl­skyldur fengu slíkar bæt­ur. Vegna árs­ins 2013 voru almennar vaxta­bætur um átta millj­arðar króna og þiggj­endur þeirra tæp­lega 42 þús­und fjöl­skyld­ur. Það vor var skipt um rík­is­stjórn í land­inu og við tók stjórn Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæð­is­flokks.

Vegna árs­ins 2014 voru greiddar úr vaxta­bætur upp á sjö millj­arða króna til 38 þús­und fjöl­skyldna. Ári síðar voru almennar vaxta­bætur 5,2 millj­arðar króna og þiggj­endur þeirra 29.170 fjöl­skyld­ur. Þeim fækk­aði um heil 21,3 pró­sent milli áranna 2014 og 2015. Í fyrra héldu vaxta­bætur áfram að lækka og voru 4,3 millj­arðar alls. Þiggj­endur þeirra voru 26.107 tals­ins, eða 12,1 pró­sent færri en vegna árs­ins 2015. Vegna árs­ins 2016 voru greiddir út 4,3 millj­arðar króna til 26.107 fjöl­skyldna.

Sam­an­dregið þá hefur sú krónu­upp­hæð sem greidd hefur verið í vaxta­bætur dreg­ist saman um 7,7 millj­arða króna frá árinu 2010. Útgreiddar bætur voru tæp­lega þrisvar sinnum hærri þá en í fyrra. Á sama tíma hefur þiggj­endum vaxta­bóta fækkað gríð­ar­lega, eða um 30 þús­und. Nú fá rúm­lega helm­ingi færri fjöl­skyldur almennar vaxta­bætur en vegna árs­ins 2010.

Hús­næð­is­verð hækkað um 90 pró­sent

Ástæðan fyrir þessu er ein­föld: gríð­ar­leg hækkun á hús­næð­is­verði sam­hliða hags­felldum efna­hags­að­stæð­um. Frá því í des­em­ber 2010 hefur hús­næð­is­verð á höf­uð­­borg­­ar­­svæð­inu, á öllu hús­næði, hækkað um 90 pró­­sent. Hækk­­unin hefur verið drifin áfram af skorti á fram­­boði, sem hefur verið miklu minna en eft­ir­­spurn. Sam­hliða hafa efna­hags­að­­stæður batnað og kaup­máttur auk­ist og geta íbúa til að kaupa sér hús­næði þar af leið­andi meiri.

Við þetta hefur eigið fé lands­manna auk­ist mjög mik­ið. Nettó­eign heim­ila, skil­greind sem heild­ar­eignir að frá­dregnum heild­ar­skuld­um, jókst til að mynda um 13,4 pró­sent á árinu 2016 og nam sam­tals 3.194 millj­örðum króna. Frá árinu 2012 hefur sú nettó­eign auk­ist um 1.368 millj­arða króna í krónum talið. Sú eign hefur ann­ars vegar lent hjá fjár­magns­eig­endum á Íslandi, sem er nokkur þús­und rík­ustu fjöl­skyldur lands­ins, og hins vegar hjá eig­endum fast­eigna vegna hækk­unar á hús­næð­is­verði.

Eigið fé heim­ila lands­ins í fast­eignum þeirra sam­svarar nú 67 pró­sent af verð­mæti þeirra. Árið 2011 var eigið fé lands­manna í fast­eignum þeirra 55 pró­sent.

Við blasir þó að þeir sem losa um þennan ávinn­ing, aukið eigið fé í hús­næði, þurfa all­flestir að end­ur­fjár­festa hann á mark­aði sem tekur fullt til­lit til þeirra hækk­ana sem orðið hafa hús­næð­is­mark­aði, ætli þeir sér áfram að hafa þak yfir höf­uð­ið. Við slíkar aðstæður veitir hið aukna fé fyrst og fremst tæki­færi til að auka útborgun í dýr­ari eign, en skilur ekki mikið eftir á milli hand­anna. Und­an­tekn­ing­arnar eru fyrst og fremst þeir hús­næð­is­eig­endur sem flytj­ast erlendis og kaupa aftur á mark­aði sem hefur ekki hækkað jafn mikið og sá íslenski, þeir sem kaupa sér hús­næði á þeim land­svæðum inn­an­lands sem hafa ekki hækkað jafn mikið eða þeir sem erfa hús­næði og selja.

Skerð­ing­ar­mörkin ekki fylgt verð­lagi

Ástæður þess að vaxta­bætur skerð­ast jafn mikið og raun ber vitni, og að sífellt færri fá þær, er sú að réttur til vaxta­bóta byrja að skerð­ast ef eignir að frá­dregnum skuldum fara yfir ákveðin krónu­tölu­mörk. Frá 2010 til 2015 hélst sú krónu­tala óbreytt. Árið 2010 byrj­uðu vaxta­bætur að skerð­ast þegar eignir að frá­dregnum skuldum ein­hleyp­inga urðu fjórar millj­ónir króna og hjá hjónum eða sam­búð­ar­fólki þegar eignin varð 6,5 millj­ónir króna. Réttur til vaxta­bóta féll niður þegar nettó­eign ein­hleyp­inga varð 6,4 millj­ónir króna og þegar eign hjóna eða sam­búð­ar­fólks varð 10,4 millj­ónir króna. Vert er að taka fram að á þessum tíma voru líka greiddar út sér­stakar vaxta­bætur í tvö ár sem var 0,6 pró­sent af skuldum vegna íbúð­ar­hús­næðis en með hámarks­þaki upp 200 þús­und fyrir ein­stak­linga og 300 þús­und fyrir sam­búð­ar­fólk. Þetta var gert vegna aðstæðna í kjöl­far hruns­ins.

Reykjavík fær nú 12,1 milljarð króna í fasteignagjöld á ári, en fékk 18,2 milljarð króna árið 2010. Dagur B. Eggertsson er borgarstjóri Reykjavíkur.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þegar vaxta­bætur voru ákvarð­aðar í fyrra vegna árs­ins 2015 voru skerð­ing­ar- og nið­ur­fell­ing­ar­mörk vaxta­bóta enn sama tala, þrátt fyrir að vísi­tala neyslu­verðs hafi t.d. hækkað um 18 pró­sent á því tíma­bili, m.a. vegna áhrifa frá hærra hús­næð­is­verði. Með öðrum orðum fylgdu skerð­ing­ar- og nið­ur­fell­ing­ar­mörkin ekki verð­lagi.

Skerð­ing­ar- og nið­ur­fell­ing­ar­mörkin voru hækkuð þegar álagn­ing vegna árs­ins 2016 var ákveð­in, um 12,3-12,5 pró­sent. Það er fyrsta hækkun á þeim síðan á árinu 2011, þegar álagn­ing vegna árs­ins á undan var ákveð­in. Nú byrja vaxta­bætur að skerð­ast við 4,5 millj­óna króna eign hjá ein­hleypum og 7,3 millj­óna króna eign hjá hjónum og sam­búð­ar­fólki. Þær falla niður við 7,2 millj­óna króna eign hjá ein­hleypum og tæp­lega 11,7 millj­óna króna eign hjá hjónum og sam­búð­ar­fólki. Hámarks­greiðslur vaxta­bóta hafa auk þess hald­ist þær sömu frá árinu 2011. Ein­hleyp­ingur getur fengið 400 þús­und krón­um, ein­stætt for­eldri allt að 500 þús­und krónum og hjón og sam­búð­ar­fólk allt að 600 þús­und krón­um.

Borgum hærri skatta vegna verð­hækk­ana

Á sama tíma og vaxta­bætur hafa dreg­ist saman mjög hratt vegna hækk­unar á hús­næð­is­verði og skorts á breyt­ingum á skerð­ing­ar- og nið­ur­fell­ing­ar­mörk­um, hafa fast­eigna­gjöld sem hús­næð­is­eig­endur þurfa að greiða til sveit­ar­fé­laga hækkað gríð­ar­lega. Sú hækkun er ein­vörð­ungu vegna þess að hús­næð­is­verð hefur hækkað mjög mikið á örfáum árum.

Kjarn­inn greindi frá því í vik­unni að inn­heimt fast­­eigna­­gjöld í Reykja­vík hafi auk­ist um 50 pró­­sent frá árinu 2010. Vegna þess árs inn­­heimti Reykja­vík­­­ur­­borg tæp­­lega 12,1 millj­­arð króna í fast­­eigna­­gjöld. Áætlað er að borgin inn­­heimti 18,2 millj­­arða króna í fast­­eigna­­gjöld vegna árs­ins 2017. Mun­ur­inn er því 6,1 millj­arður króna. Í svörum frá Reykja­vík­ur­borg við fyr­ir­spurn Kjarn­ans kom einnig fram að inn­­heimta fast­­eigna­gjalda muni skila 2,6 millj­­arði króna meira í borg­­ar­­sjóð vegna árs­ins 2017 en hún gerði árið 2016. Það er tekju­aukn­ing upp á 16,6 pró­­sent milli ára. Gjöldin hafa ekk­ert verið lækkuð á því tíma­bili sem hús­næð­is­verð hefur rokið upp.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar