Bílasýningin í Frankfurt er í fullum gangi núna, í 67. sinn sem hún er haldin. Þjóðverjar hafa lengi tekið bílaiðnaðinn alvarlega enda ein af undirstöðugreinum þjóðarinnar og það er kannski til marks um stöðu greinarinnar að bæði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Sheryl Sandberg, framkvæmdastjóri hjá Facebook, fluttu ræður við opnunina. Sagði Sandberg stolt frá því að Facebook væri eina fyrirtækið í Silicon Valley sem væri ekki að þróa bíla.
Bílaiðnaðurinn hefur líklegast aldrei staðið frammi fyrir jafnmikilli óvissu og jafnstórum spurningum um framtíðina og akkúrat núna. Yfirskrift sýningarinnar er „Framtíðin er núna“ sem undirstrikar hversu mikill þrýstingur er á framleiðendur til þess að koma með lausnir á göturnar strax til að bregðast við loftslagsvandanum og ekki síður tryggja að bílaiðnaðurinn í Þýskalandi verði áfram samkeppnishæfur og skapi störf í landinu.
Spennandi nýjungar
Að vanda voru sýnd væntanleg módel sem mörg hver eiga eftir að fylla þjóðvegi landsins þegar á næsta ári eins og nýr Dacia Duster jeppi og smájeppinn Kona frá Hyundai sem á eflaust eftir að veita honum harða samkeppni. Kona mun í lok næsta árs koma á markaðinn sem rafbíll með 500 km drægni sem verður áhugaverður kostur fyrir íslenskar bílaleigur sem vilja bjóða upp á umhverfisvæna bíla á hagkvæmu verði. Einnig voru kynntir nýir smájeppar frá Skoda, VW, Kia, Opel og Renault sem flestir eru væntanlegir sem tvinnbílar.
Áberandi var fjöldi rafmagnsbíla sem sýndur var, ekki bara sem hugmyndabílar heldur sem bílar sem eru komnir eða alveg að koma á markaðinn. Sérstaklega athygli vöktu rafbílarnir Urban frá Honda sem minnir á fyrsta Civic bílinn fyrir 40 árum síðan og BMW i5 sem er engum líkur. Sérstaklega vinsælt var líka Buzz rafbrauðið frá VW sem skartaði að sjálfsögðu tveimur brimbrettum á toppnum en enn munu líða 5 ár þar til það kemur á markaðinn.
Kínverjar setja tóninn
Áberandi er hvernig Kínverjar eru að setja aukinn þrýsting á bílaiðnaðinn. Árum saman hefur fjöldinn allur af íhlutum verið framleiddur í Kína en nú voru þrír kínverskir framleiðendur að kynna bíla undir eigin merkjum. Wey sem er með lúxusjeppa af ýmsum stærðum með tvinnvélum, Chery sem er með breiða línu af ódýrum hefðbundnum bílum og síðan Thunderstorm sem er að koma með stóran rafknúinn fólksbíl á markaðinn sem kemst 650 km á rafhleðslunni.
Kínverjar hafa líka keypt gamalt þýskt merki sem hefur legið í dvala í 50 ár og eru að koma með bíla sem líkjast Audi jeppunum á markað auk þess að eiga Volvo bílaframleiðandann sem tilkynnti þegar í síðasta mánuði að frá og með 2019 munu allir bílar vera með tvinnvélum eða rafmótorum. Þýsku bílamerkin hafa öll komið með yfirlýsingar undanfarna daga um að þau muni einnig bjóða alla bíla sína sem tvinn- eða rafbíla þó þau fari mun hægar í sakirnar.
Truflun á bílamarkaðnum
Heil sýningarhöll var tekin undir samgöngur framtíðarinnar, „New Mobility World“, þar sem fyrirlesarar ræddu hvernig fólk mun ferðast um borgir framtíðarinnar og tæknifyrirtæki sýndu hvernig bílar aka sjálfir, eiga samskipti við mannvirki og sín á milli.
Bílaiðnaðurinn stendur á krossgötum. Bretland, Frakkland og nú síðast Kína hafa ákveðið að banna dísilbíla ýmist frá árunum 2030 eða 2040 og í raun er orðið ljóst að tími bensín- og dísilvéla er liðinn. Rafknúnir, sjálfkeyrandi bílar eru orðin raunveruleiki og næsta áskorun er einfaldlega hvernig markaðurinn og iðnaðurinn nær að aðlagast þessum breytingum. Eða eins og skipuleggjendur sýningarinnar orða það sjálfir, framtíðin er núna.
Meira að segja fljúgandi bílar eru orðnir staðreynd en hollenskur framleiðandi sýndi flugbíl sinn á sýningunni sem er að fara í framleiðslu og er þegar búið að selja fyrstu 90 bílana.
Framtíðarsýn núll
Mér hafa þótt sjálfkeyrandi bílar leiðinlegir alveg síðan ég fór í gömlu bílana í Tívolí í Kaupmannahöfn í fyrsta skipti 5 ára gamall og áttaði mig á því að ég væri í rauninni ekki að stýra sjálfur þó ég fengi að halda í stýrið. Hinir sjálfkeyrandi bílar framtíðarinnar eru þó mun meira spennandi og akstursunnendum til huggunar get ég sagt að væntanlega er enn langt þangað til að bílar á einkamarkaðnum verða eingöngu sjálfkeyrandi. Í stað þess verður stýrið eitthvað sem þú getur kallað fram með takka þegar þú þarft á því að halda og tekið yfir stjórnina, en notið þess annars að spjalla, horfa á kvikmyndir eða vinna á meðan bíllinn ekur innanbæjar eða á þjóðvegum við réttar aðstæður.
Sjálfkeyrandi bílar eru samt sem áður mun nær en margur heldur enda fyrstu prufubílarnir komnir á göturnar og Mercedes Benz kynnti á sýningunni strætó í fullri stærð sem er sjálfkeyrandi.
Mikið af þeim búnaði sem þarf fyrir sjálfkeyrandi bíla er þegar kominn inn í nýjustu módelin sem „akstursaðstoð“ og má þar nefna Kia með sjálfvirka hraðastýringu og árekstrarvörn sem hægir á bílnum ef umferð er hægara á móti, sjálfvirkan umferðarteppuakstur (sem við Íslendingar þekkjum best frá rúntinum niður Laugarveginn) og bíla sem leggja sjálfir í stæði eins og Ford hefur sett á markaðinn.
Gervigreindin mun hámarka afköst og lágmarka áhættu í samgöngum framtíðarinnar. Tæknin er tilbúin þó regluverkið og markaðurinn séu kannski ekki andlega búin undir þessa breytingu enn. Markmiðin eru einföld, og kannski í fyrsta sinn sem þau hljóma raunhæf. Framtíðarsýn núll. Núll slys. Núll mengun. Núll umferðarteppa.
Hvað ætlar Ísland að gera?
Ísland hefur á undanförnum árum dregist langt aftur úr öðrum þjóðum þegar kemur að rafbílavæðingu en hefur þó verið að taka við sér á undanförnum mánuðum. Með alla þá ódýru innlendu orku sem Ísland býr yfir myndi maður ætla að stjórnvöldum væri mjög í mun að auka hlutfall rafbíla en drægni bílanna hefur gert þá óhentuga nema fyrir borgarakstur. Aukið framboð af langdrægum rafbílum, hraðvirkari hleðslustöðvar og snertilaus hleðsla gera það hins vegar að verkum að rafbílar eru nú orðnir raunhæfur kostur, líka fyrir íslenskar aðstæður. Það verður því spennandi að sjá hvernig bæði markaðurinn, bílaleigurnar og stjórnvöld munu taka undir þær breytingar sem nú þegar eru að umbylta bílaiðnaðinum.