Maður klýfur flokk
Djúpstæður ágreiningur um Sigmund Davíð Gunnlaugsson hefur klofið hinn 100 ára gamla Framsóknarflokk. Átökin virðast ekki snúast að neinu leyti um málefni heldur um persónu Sigmundar Davíðs. Hann ætlar að stofna flokk utan um þá persónu.
Framsóknarflokkurinn er klofinn í herðar niður eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður hans, sagði sig úr honum í fyrradag og tilkynnti að hann ætlaði að fara fram á öðrum vettvangi. Sá vettvangur er, samkvæmt viðmælendum Kjarnans, sá sem Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi útgefandi Pressusamstæðunnar, hefur unnið að. Sigmundur Davíð hefur ekki viljað gangast við því opinberlega en ljóst þykir að þeir tveir, sem tengjast í gegnum marga sameiginlega bandamenn, eru ekki að fara að setja á fót sitt hvort framboðið.
Þeim hefur tekist að halda athyglinni á hinu væntanlega framboði með því að segja ekki af eða á og draga það að segja frá því hvað framboðið eigi að heita. Björn Ingi skráði sig fyrir léninu samvinnuflokkurinn.is þann 22. september síðastliðinn og í gær, 25. september, skráði bróðir Sigmundar Davíðs sig fyrir léninu midflokkurinn.is. Þar fyrir utan var Framfarafélag Sigmundar Davíðs formlega skráð hjá fyrirtækjaskrá í byrjun september. Það er skráð til heimilis hjá Hólmfríði Þórisdóttur og Sigurði Þ. Ragnarssyni veðurfræðingi, best þekktum sem Sigga Stormi.
Annað hvort aðal eða ekki með
Síðastliðið ár hefur legið fyrir að einungis tveir möguleikar voru fyrir hendi í þeirri stöðu sem upp var komin í Framsóknarflokknum: annað hvort næði Sigmundur Davíð formennsku í honum á ný á flokksþingi eða hann myndi fara úr flokknum og stofna nýtt framboð í kringum sjálfan sig.
Frá því að Sigurður Ingi Jóhannsson sigraði Sigmund Davíð í æsispennandi formannskjöri í Framsóknarflokknum í byrjun október í fyrra, nokkrum vikum fyrir þingkosningar, hefur Sigmundur Davíð ekki starfað með þingflokki Framsóknarflokks að neinu ráði. Hann hefur raunar tekið lítinn sem engan þátt í þingstörfum á því ári sem liðið er frá uppgjörinu.
Í maí stofnaði Sigmundur Davíð svo Framfarafélagið í kringum sig. Um tvö hundruð manns mættu á stofnfund þess, þar af margir áhrifamenn innan Framsóknarflokksins. Þeir sem sitja nú í forystu flokksins litu á stofnun félagsins sem fyrsta skref Sigmundar Davíðs í átt að stíga út úr flokknum. En þeir áttu þó fyrst von á því að hann myndi gera lokatilraun til að ná formennsku aftur á flokksþingi sem fyrirhugað var í janúar 2018. Ef það gengi ekki eftir myndi hann yfirgefa Framsóknarflokkinn.
Vegna undirbúnings fyrir það hafi Framfarafélagið verið formlega stofnað 1. september síðastliðinn. Samkvæmt stofngögnum er Sigmundur Davíð formaður félagsins. Aðrir aðalmenn í stjórn eru Sunna Gunnars Marteinsdóttir, Sveinn Hjörtur Guðfinnsson (fyrrverandi formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur), Anna Kolbrún Árnadóttir (formaður Landssambands framsóknarkvenna), Hólmfríður Þórisdóttir (fyrrverandi jafnréttisfulltrúi Framsóknarflokksins og fyrrverandi formaður Félags Framsóknarkvenna í Garðabær og Hafnarfirði), Gunnar Þór Sigurbjörnsson (fyrrverandi formaður Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Norðausturkjördæmi), og Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, systir Sigmundar Davíðs. Í varastjórn eru Regína Helgadóttir (formaður Framsóknarfélags Akureyrar og nágrennis), Jón Pétursson (fyrrverandi formaður Framsóknarfélags Mosfellsbæjar), og Gunnar Kristinn Þórðarson (fyrrverandi formaður samtaka meðlagsgreiðenda).
Í upphaflegri skráningu félagsins var Gunnar Bragi Sveinsson skráður í stjórn Framfarafélagsins. Hólmfríður Þórisdóttir, sem sá um skráningu félagsins, segir að um ranga tilkynningu hafi verið að ræða sem send hafi verið inn fyrir mistök. Nú hafi það verið leiðrétt. Hólmfríður er einnig skráð fyrir heimasíðu Framfarafélagsins.
Nýjar kosningar flýta áformum
Hin skyndilegu stjórnarslit, og boðun kosninga í lok október næstkomandi, hafi hins vegar breytt þeirri áætlun skyndilega. Innan Framsóknarflokksins voru öfl sem vildu gera allt til að koma í veg fyrir að innanflokksátök myndu lita kosningabaráttu flokksins annað árið í röð. Viðmælendur Kjarnans innan flokksins segja að þessi hópur hafi lagt alla áherslu á að stillt yrði upp á lista flokksins fyrir kosningarnar og að sú uppstilling myndi taka mið af þeim listum sem boðnir voru fram í fyrra. Þannig myndi Sigmundur Davíð leiða í Norðausturkjördæmi og Gunnar Bragi í Norðvesturkjördæmi. Forysta flokksins, Sigurður Ingi og þingflokksformaðurinn Þórunn Egilsdóttir, voru hins vegar á meðal þeirra sem lögðust gegn þessu. Í Norðvesturkjördæmi verður tvöfalt kjördæmisþing þar sem Ásmundur Einar Daðason hefur skorað Gunnar Braga á hólm. Og í Norðausturkjördæmi stefndi allt í að slíkt færi fram líka, þar sem Þórunn tilkynnti að hún ætlaði að berjast við Sigmund Davíð um oddvitasætið.
Sigmundur Davíð, og fylgismenn, litu á þetta sem enn eina aðförina persónulega gegn honum. Það varð til þess að hann tilkynnti, með birtingu um 3.500 orða bréfs á heimasíðu sinni, á sunnudag að hann ætlaði að yfirgefa Framsóknarflokkinn. Bréfið var birt 90 mínútum áður en að aukakjördæmisþing Framsóknarmanna, þar sem taka átti ákvörðun um val á lista, hófst. Eftir að Sigmundur Davíð hætti var ákveðið að stilla upp á lista Framsóknarflokksins í kjördæminu og mun Þórunn leiða hann.
Enginn sitjandi þingmaður elti Sigmund
Fjöldi manns sagði sig úr Framsóknarflokknum með Sigmundi Davíð. Á meðal þeirra sem hafa ákveðið að segja skilið við flokkinn eru fyrrverandi þingmaður, formenn Framsóknarfélaga, miðstjórnarmenn og meðlimir í félögum ungra Framsóknarmanna. Þá sagði öll stjórn Framsóknarfélags Mosfellsbæjar af sér vegna þess sem hún kallaði „aðförina sem gerð var að fyrrverandi formanni flokksins á síðasta Flokksþingi“. Það verður hins vegar að hafa í huga að þótt þessar úrsagnir hafi verið fyrirferðamiklar í fjölmiðlum undanfarna daga, meðal annars vegna þess að sérstakar tilkynningar hafa verið sendar í hrönnum á fjölmiðla til að greina frá þeim, þá er um brotabrot af því fólki sem gegnir trúnaðarstöðum fyrir flokkinn, enda aðildarfélög hans um land allt liðlega hundrað talsins.
Enginn sitjandi þingmaður hefur hins vegar fylgt Sigmundi Davíð út úr Framsóknarflokknum. Helst var búist við því að Gunnar Bragi Sveinsson, oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi, gæti farið þá leið enn hann hefur nú gefið það út að af því verði ekki.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, hefur staðið á milli fyrrverandi formanns og þess sem nú heldur um stjórnartaumanna, Sigurðar Inga Jóhannssonar. Lilja starfaði náið með Sigmundi Davíð þegar hann var forsætisráðherra og tók sæti í ríkisstjórn sem utanþingsráðherra þegar hann vék úr henni eftir að Panamaskjölin voru gerð opinber í apríl í fyrra. Hún ætlar hins vegar að halda áfram að starfa innan Framsóknarflokksins.
Ekkert hefur verið opinberað um hverjir verði á lista hins nýja framboðs Sigmundar Davíðs, að öðru leyti en það að Þorsteinn Sæmundsson hefur lýst því yfir að hann hafi hug á því að vera á lista og Sveinbjörn Birna Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi oddviti Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, hefur ekki útilokað framboð.
„Meginmarkmið að drepa mig“
Erfitt er að sjá að klofningurinn í Framsókn snúist um margt annað en persónuna Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Hann vill leiða flokkinn og vera í áhrifastöðu í ríkisstjórn. Í bréfinu sem hann birti á heimasíðu sinni á sunnudag fer hann í löngu máli yfir atlögur gegn sér. Sigmundur Davíð sagðist hafa treyst Sigurði Inga „fyrir fjöregginu mínu“ þegar hann samþykkti að segja af sér sem forsætisráðherra í apríl 2016 og taldi sig hafa loforð upp á vasann um að Sigurður Ingi myndi ekki fara gegn honum. Í kjölfarið hafi hins vegar verið gerðar sex tilraunir til að fella hann, og það hafi loks tekist í byrjun október 2016.
Ein slík atlaga hefði verið í september það ár á miðstjórnarfundi, þar sem Sigmundur Davíð hélt eftirminnilega ræðu sem sett var fram með myndrænum hætti. Á þeim fundi tilkynnti Sigurður Ingi einnig að hann myndi ekki starfa áfram sem varaformaður flokksins að óbreyttu. Sigmundur Davíð segir í bréfi sínu að þessi ræða Sigurðar Inga hefði verið „undarleg“ og að hann hafi ekki veitt sér „neinar vísbendingar í þessa veru fyrir fundinn og raunar komið sér hjá því að funda með mér allt frá því að ég hleypti honum í Stjórnarráðið.“ Sigmundur Davíð heldur því svo fram í bréfinu að lög og reglur Framsóknar hafi ítrekað verið brotin til að losna við hann.
Í bréfinu er hins vegar ekkert fjallað um málefnaágreining. Einungis ágreining um hvort að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigi að stýra, eða yfir höfuð að vera í framboði fyrir, Framsóknarflokkinn. Því eru það átök um persónur sem klofið hafa flokkinn, ekki málefnaágreiningur. Í viðtali við Fréttablaðið sagði Sigmundur: „Til hvers að berjast fyrir því að þú getir starfað áfram með fólki sem lítur á það sem meginmarkmið að drepa þig?“
Lítið gefið upp um helstu stefnumál
Raunar liggur ekkert fyrir hver helstu stefnumál nýs framboðs Sigmundar Davíðs verða. Í viðtölum á sunnudag sagði hann að það þyrfti að endurskipuleggja fjármálakerfið á Íslandi, gera upp við eldri borgara og aðra sem eigi „inni hjá okkur“ og að ráðast þyrfti í stórsókn í byggðamálum. Að öðru leyti hefur Sigmundur Davíð einungis talað um að vilja framhald af því „hvernig við unnum hlutina á árunum 2009-2016.“
Allt eru þetta mál sem eru ofarlega á baugi í stefnu Framsóknarflokksins. Lilja Alfreðsdóttir hefur til að mynda ítrekað sagt að það sé eitt af stærstu verkefnum stjórnmálanna að fara í heildarendurskoðun á fjármálakerfinu og útfæra framtíðarstefnu þess efnis. Fátt skilgreinir Framsóknarflokkinn jafn rækilega og öflug byggðastefna og í nýbirtum áherslum flokksins fyrir komandi kosningar, sem Sigurður Ingi greindi frá í bréfi til flokksmanna, var mjög sterk áhersla á velferðarmál og aukin jöfnuð, meðal annars með álagningu hátekjuskatts.
Eitt mál aðskilur Sigmund Davíð frá Framsóknarflokki dagsins í dag. Það er mál sem hann fjallaði um í aðsendri grein sem birt var í Viðskiptablaðinu í lok ágúst. Þar kallaði hann eftir þori til að ræða flóttamannamál. Í niðurlagi greinarinnar sagði hann: „Ef stjórnmálamenn, embættismenn, fjölmiðlar, fræðimenn og aðrir sem hafa það hlutverk að ræða lausnir, horfa til framtíðar og móta stefnu þora ekki að ræða stærstu úrlausnarefni samtímans eru þeir að eftirláta öfgamönnum umræðuna og lausnirnar.“
Sigmundur Davíð skrifaði svo stutta grein í Fréttablaðið í morgun þar sem hann boðaði enn og aftur komu hins nýja flokks síns. Þar segir hann að það muni „þurfa stjórnmálaflokka sem hafa þolgæði og festu. Flokka sem nálgast úrlausnarefnin af opnum hug en eru svo reiðubúnir til að beita sér fyrir skynsamlegustu lausnunum af krafti. Flokka sem eru reiðubúnir til að verja réttlætið bæði þegar það er auðvelt og þegar það er erfitt. Á næstu dögum birtist slíkur flokkur.“
Sá flokkur verður búinn til utan um persónuna Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
Árétting
Fréttaskýringin var uppfærð klukkan 11:50 eftir að Hólmfríður Þórisdóttir kom því á framfæri að Gunnar Bragi Sveinsson sé ekki í stjórn Framfarafélagsins heldur hafi röng tilkynning, með hans nafni, verið send til Ríkisskattstjóra. Hið rétta sé að Sunna Gunnars Marteinsdóttir, sem var aðstoðarmaður Gunnars Braga á meðan að hann gegndi ráðherraembætti, sé hins vegar skráð í stjórnina.