Mynd: Birgir Þór

Wintris greiddi ekki skatta í samræmi við lög og reglur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og eiginkona hans sóttust eftir því að fá breyta skattframtölum sínum eftir að Wintris-málið kom upp. Í bréfi til skattyfirvalda sögðu þau að ekki væri „útilokað að réttara hefði verið að haga skattskilum“ með öðrum hætti en gert var. Þau sömdu við ríkisskattstjóra um endurákvarðanir á skattgreiðslum sínum.

Aflands­fé­lagið Wintris greiddi ekki skatta í sam­ræmi við lög og reglur um ára­bil. Mán­uði eftir að til­vist félags­ins var opin­beruð fyrir heims­byggð­inni, og greint var frá því að Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra og eig­in­kona hans, Anna Sig­ur­laug Páls­dótt­ir, hefðu átt þetta félag, sendu hjónin bréf til rík­is­skatt­stjóra þar sem óskað var eftir að skatt­fram­töl þeirra frá 2011 til 2015 yrðu leið­rétt og þau opin­beru gjöld sem þau áttu að greiða á tíma­bil­inu yrðu end­ur­á­kvörð­uð. Í bréf­inu geng­ust þau meðal ann­ars við því að skatt­stofn eigna Wintris, sem álögur voru reikn­aðar út frá, hafi verið van­tal­inn.

Í des­em­ber sam­þykkti rík­is­skatt­stjóri beiðni for­sæt­is­ráð­herra­hjón­anna fyrr­ver­andi um að greiða skatt sem þau höfðu kom­ist upp með að greiða ekki áður en að til­vist Wintris var opin­beruð. Í kjöl­farið var meðal ann­ars end­ur­á­kvarð­aður sá auð­legð­ar­skattur sem lagður var á Önnu Sig­ur­laugu gjald­árin 2011 til 2014 og stofn hennar til tekju­skatts og útsvars frá 2011 til 2015 var auk þess hækk­að­ur.

Í árs­reikn­ingum Wintris, sem búnir voru til í aðdrag­anda þess að umboðs­maður hjón­anna sendu bréfið til rík­is­skatt­stjóra í maí í fyrra, var upp­gjörs­mynt félags­ins íslenskar krónur þótt félagið væri erlent, umsjón þess væri hjá erlendum banka, allar eignir þess væru erlendar og við­skipti með þær færu fram í erlendum gjald­miðl­um. Þessi upp­gjörs­að­ferð gerði það að verkum að Wintris gat bók­fært geng­is­tap sem nýtt­ist sem upp­safnað ónotað tap.

Það þýðir að Wintris gat talið það tap gegn fram­tíðar skatt­greiðsl­um. Rík­is­skatt­stjóri vildi ekki fall­ast á þessa upp­gjörs­að­ferð og taldi hana ekki eiga sér stoð í lög­um. Hann úrskurð­aði hana því ólög­mæta.

Sá úrskurður var Sig­mundi Davíð og Önnu Sig­ur­laugu ekki að skapi. Þau kærðu hann til yfir­skatta­nefndar sem féllst á þeirra sjón­ar­mið og úrskurð­aði þeim í hag 22. sept­em­ber síð­ast­lið­inn. 

Úrskurður nefnd­ar­innar er hins vegar opin­ber og var settur á netið í lok síð­ustu viku. Og í honum er farið yfir öll sam­skipti hjón­anna við rík­is­skatt­stjóra síð­asta eina og hálfa árið, eða frá 13. maí 2016 þegar þau létu skatta­yf­ir­völd vita að þau hefði ekki greitt skatta í sam­ræmi við lög og reglur í land­inu. Þar kemur ekki fram hvað þau greiddu mikið til við­bótar til rík­is­sjóðs í skatta eftir að skatt­stofn þeirra var hækk­aður þar sem að hjónin sam­þykktu þær greiðsl­ur. 

Sendu bréf rúmum mán­uði eftir afsögn

Þann 13. maí 2016, rúmum mán­uði eftir að Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son sagði af sér sem for­sæt­is­ráð­herra, barst rík­is­skatt­stjóra erindi frá umboðs­manni hans og eig­in­konu hans. Erindið var vegna aflands­fé­lags sem var um tíma í eigu þeirra beggja, en er nú ein­ungis í eigu Önnu Sig­ur­laug­ar. Það félag heitir Wintris Ltd., sem hefur heim­il­is­festi á Bresku Jóm­frú­areyj­un­um.

Í erind­inu óskaði umboðs­maður hjón­anna eftir því að skatt­fram­töl þeirra yrðu leið­rétt gjald­árin 2011 til og með 2015. Þar kom fram að Anna Sig­ur­laug hefði eign­ast Wintris í jan­úar 2008 og lagt félag­inu til lánsfé til að fjár­festa á sama ári. Eignir Wintris sam­an­stæðu af hlut­deild­ar­skír­teinum í verð­bréfa­sjóð­um, mark­aðs­verð­bréfum og inn­lánum í banka. Þær eignir höfðu alla tíð verið taldar fram til skatts hér­lendis líkt og um eignir Önnu Sig­ur­laugar per­sónu­lega væri að ræða. Því hefði verið horft fram hjá til­vist Wintris í skatt­fram­tölum að öðru leyti en því að eign­ar­hluti Önnu Sig­ur­laugar í félag­inu var talin fram á kaup­verði.

Í erind­inu er því haldið fram að ekki væri „úti­lokað að rétt­ara hefði verið að haga skatt­skilum kærenda gjald­árið 2011 og síð­ar“ í sam­ræmi við lög og reglur um skatt­lagn­ingu vegna eign­ar­halds í lög­að­ilum á lág­skatta­svæð­um, eða svo­kall­aða CFC-lög­gjöf sem tók gildi hér­lendis í byrjun árs 2010. Opin­ber­lega hefur Sig­mundur Davíð alltaf haldið því fram að ekki hafi þurft að skila CFC-fram­tölum vegna Wintris í ljósi þess að Wintris stund­aði ekki atvinnu­starf­semi. Í erind­inu er hins vegar hinu gagn­stæða haldið fram. Wintris átti að skila CFC-fram­tölum og eig­endur félags­ins vissu það.

Erindið sner­ist því um að eig­endur Wintris vildu breyta skatt­skilum sínum eftir á. Eða eins og segir í úrskurði yfir­skatta­nefnd­ar: „Væru skatt­stofnar kærenda gjald­árin 2011 til og með 2016 því leiddir fram í erind­inu í sam­ræmi við fram­an­greindar regl­ur.“

Þar kemur líka fram að Wintris hafi aldrei gert árs­reikn­inga, enda ekki kraf­ist slíkra á Bresku Jóm­frú­areyj­un­um. Í maí 2016 hafði árs­reikn­ingum fyrir árin 2010 til og með 2015 hins vegar verið stillt upp efn­is­lega í sam­ræmi við lög um árs­reikn­inga. Og þeir árs­reikn­ingar voru allir í íslenskum krón­um.

Í erindi for­sæt­is­ráð­herra­hjón­anna fyrr­ver­andi var svo rakið að tap hefði orðið á starf­semi Wintris rekstr­ar­árin 2010, 2013, 2014 og 2015 en hagn­aður rekstr­ar­árin 2011 og 2012. Þetta hefði gert það að verkum að yfir­fær­an­legt tap hefði safn­ast upp. Í úrskurði yfir­skatta­nefndar seg­ir: „Var þess óskað að opin­ber gjöld kærenda gjald­árin 2011 til og með 2015 yrðu end­ur­á­kvörðuð á þessum grunni og álagn­ingu opin­berra gjalda gjald­árið 2016 hagað með sama hætti teldi rík­is­skatt­stjóri rétt að leiða skatt­stofna fram með þessum hætti. Þá var þess óskað að kærendur yrðu ekki látin sæta álag­i[...]á van­tal­inn skatt­stofn gjald­árs­ins 2011.“

Rík­is­skatt­stjóri kall­aði eftir upp­lýs­ingum um Wintris

Skatt­yf­ir­völd brugð­ust við með því að senda bréf á Sig­mund Davíð og Önnu Sig­ur­laugu. Það var sent 21. júní 2016 og svo ítrekað 29. ágúst sama ár. Í bréf­inu lagði rík­is­skatt­stjóri fyrir þau að gera gein fyrir til­teknum atriðum varð­andi inn­stæður í erlendum bönkum og til­teknum atriðum sem vörð­uðu Wintris. Á meðal þess sem óskað var upp­lýs­inga um var hver starf­rækslu­gjald­mið­ill Wintris væri, hvaða eignir lægju til grund­vallar tekju­færðum sölu­hagn­aði og gjald­færðu sölu­tapi, hvernig Wintris væri fjár­magnað og hvernig úttektum úr félag­inu væri hátt­að. Þá var þess líka óskað að eigið fé Wintris fyrir árin 2010 til 2014 yrði sund­ur­liðuð og að gerð yrði grein fyrir þróun óráð­stafaðs eigin fjár félags­ins frá stofnun þess til árs­loka 2014.

Svar barst 13. sept­em­ber 2016. Þar kemur fram að Wintris geri upp í íslenskum krón­um, og að sölu­hagn­aður eða -tap væri vegna sölu á hlut­deild­ar­skír­teinum í verð­bréfa­sjóð­um. Í úrskurði yfir­skatta­nefndar segir að fjár­mögnun Wintris hefði verið með þeim hætti að Anna Sig­ur­laug hefði keypt félagið á 337.995 krónur af Lands­bank­anum í Lúx­em­borg í jan­úar 2008. Það hefði verið svo­kallað lag­er­fé­lag sem hafi ekki haft neina eig­in­lega starf­semi né átt eignir eða borið skuld­ir. Anna Sig­ur­laug lagði Wintris svo til lánsfé til fjár­fest­inga. Úttektir hennar af fé Wintris hefðu því ein­göngu verið í formi end­ur­greiðslna á lánsfé og engum arði hefði því verið úthlutað út úr félag­inu. Skulda­staða Wintris við Önnu Sig­ur­laugu hefði verið 1.146.151.068 krónur í upp­hafi árs 2010 en síðan farið lækk­andi vegna taps á starf­sem­inni og end­ur­greiðslum láns­fjár til Önnu Sig­ur­laug­ar.

Vildi ekki sam­þykkja að leyfa Wintris að gera upp í íslenskum krónum

Þann 17. nóv­em­ber til­kynnti rík­is­skatt­stjóri hjón­unum að hann ætl­aði að taka erindi þeirra til úrlausn­ar. Í bréf­inu kom m.a. fram að ekki væri til að dreifa geng­is­hagn­aði eða -tapi af starf­semi Wintris. Það væri nefni­lega þannig að með því að telja fram eignir Wintris, sem voru að öllu leyti erlend­ar, í íslenskum krónum mynd­að­ist umtals­vert bók­fært geng­is­tap. Það tap gat nýst til að spara Sig­mundi Davíð og Önnu Sig­ur­laugu umtals­verðar skatt­greiðsl­ur.

Wintris-málið leiddi til fjölmennustu mótmæla Íslandssögunnar þegar 26 þúsund manns mættu á Austurvöll.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þetta féllst rík­is­skatt­stjóri ekki á og taldi upp­gjörsmát­ann ekki eiga sér neina stoð í lög­um. Félagið væri erlent, það starf­aði erlendis með allar tekj­ur, gjöld, eignir og skuldir í erlendum gjald­miðli. Þess vegna gengi ekki að gera félagið upp í íslenskum krónum og á það gæti emb­ætti ekki sæst.

Sig­mundur Davíð og Anna Sig­ur­laug svör­uðu rík­is­skatt­stjóra 12. des­em­ber 2016. Tíu dögum síðar úrskurð­aði rík­is­skatt­stjóri að hann gerði „til­teknar breyt­ingar á skatt­fram­tölum kærenda sem ekki er ágrein­ingur um í máli þessu.“

Með öðrum orðum náð­ist sam­komu­lag milli rík­is­skatt­stjóra ann­ars vegar og Sig­mundar Dav­íðs og Önnu Sig­ur­laugar hins veg­ar, um að þau greiddi skatt sem þau höfðu kom­ist upp með að greiða ekki áður en að Wintris-­málið kom upp. Um er að ræða end­ur­á­kvörðun á auð­legð­ar­skatti gjald­árin 2011 til 2014, ákvörðun rík­is­skatt­stjóra um fjár­hæð meintrar afkomu af rekstri Wintris rekstr­ar­ár­inu 2010 til 2014 sem fól í sér hækkun á stofni Önnu Sig­ur­laugar til tekju­skatts og útsvars gjald­árið 2011 „og ákvörðun eft­ir­stöðva ójafn­aðs rekstr­ar­taps hennar gjald­árin 2012, 2013, 2014 og 2015.“ Enn fremur undu þau ákvörðum um að lækka stofn Sig­mundar Dav­íðs til greiðslu skatts af fjár­magnstekjum gjald­árin 2011 til 2015.

Hjónin greiddu þá upp­hæð sem rík­is­skatt­stjóri end­ur­á­kvarð­aði á þau en sættu sig hins vegar ekki við allt í úrskurði rík­is­skatt­stjóra. Þeim fannst að þau mættu gera Wintris upp í íslenskum krónum og bók­færa geng­is­tap vegna þess sem nýtt­ist sem upp­safnað skatta­legt tap.

Þess vegna kærðu þau þann hluta máls­ins til yfir­skatta­nefnd­ar. Þau gátu ekki sætt sig við að upp­safnað ónotað tap Wintris hefði verið lækkað úr 162 millj­ónum króna í 50,6 millj­ónir króna í skatt­fram­tali árið 2015.

Yfir­skatta­nefnd komst að nið­ur­stöðu 22. sept­em­ber síð­ast­lið­inn og var sú nið­ur­staða eig­endum Wintris í hag. Þau máttu gera Wintris upp í íslenskum krón­um, bók­færa geng­is­tap vegna sveiflna gjald­mið­ils­ins og nota það tap til að lækka skatt­greiðslur sínar á Íslandi. Vegna árs­ins 2011 lækk­uðu þær um 52,3 millj­ónir króna auk þess sem yfir­fær­an­legt tap í skatt­skilum Önnu Sig­ur­laugar gjald­árin 2012 til 2015 ákvarð­að­ist í sam­ræmi við fjár­hæðir sem til­greindar voru í skatt­er­indi kærenda.

En úrskurðir yfir­skatta­nefndar eru líka opin­ber­ir. Og þótt nöfn þeirra sem kærðu séu ekki birt þá er aug­ljóst á öllum tölum máls­ins og upp­lýs­ingum sem gefnar eru um aflands­fé­lag­ið, að um Wintris, Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son og Önnu Sig­ur­laugu Páls­dóttur er að ræða. Ef þau hefðu ekki kært þennan hluta ákvörð­unar rík­is­skatt­stjóra þá hefðu aðgerðir rík­is­skatt­stjóra gagn­vart hjón­unum vegna Wintris, sem komu til eftir að þau við­ur­kenndu að hafa ekki gert upp í sam­ræmi við lög og regl­ur, aldrei orðið opin­ber­ar.

Sig­mundur Davíð og Anna Sig­ur­laug fóru fram á að rík­is­sjóður myndi greiða kostnað þeirra vegna kæru til yfir­skatta­nefnd­ar. Hann nam 2,1 milljón króna að með­töldum virð­is­auka­skatti. Yfir­skatta­nefnd ákvað hins vegar að hæfi­legur máls­kostn­aður væri 500 þús­und krón­ur, eða tæpur fjórð­ungur þess sem hjónin fóru fram á að rík­is­sjóður greiddi vegna kæru þeirra.

Greiddu ekki skatta með réttum hætti

Sig­mundur Davíð og Anna Sig­ur­laug hafa alla tíð haldið því fram að allir skattar hafi verið greiddir af eignum Wintris. Tveimur dögum áður en umboðs­maður hjón­anna sendi bréfið til rík­is­skatt­stjóra, þar sem þau til­kynntu að þau hefði ekki greitt skatta í sam­ræmi við lög og regl­ur, þá birti Sig­mundur Davíð ýmis gögn um fjár­mál þeirra hjóna á heima­síðu sinni. Þau gögn eru öll byggð á því eftir á upp­gjöri sem gert var á Wintris eftir þá atburði sem leiddu til þess að Sig­mundur Davíð þurfti að segja af sér sem for­sæt­is­ráð­herra. Þ.e. þau byggja á þeim árs­reikn­ingum sem gerðir voru fyrir mörg fyrri ár og síðan sendir til rík­is­skatt­stjóra vorið 2016. Nú er ljóst að árum saman voru ekki allir skattar greiddir rétt af þeim eignum sem geymdar eru inni í Wintris.

Wintris er með skráð heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjunum. Þar er ekki gerð krafa um gerð ársreikninga.

Við sama tæki­færi greindi Sig­mundur Davíð frá því að eig­in­kona hans hefði aldrei hagn­ast á því að geyma fjár­magn sitt erlendis og hún hafi gert það til að forð­ast árekstra við stjórn­mála­störf hans. Í ljósi þess að Wintris gerði upp í íslenskum krónum og bók­færði umtals­vert geng­is­tap sem nýt­ist sem skatta­legt tap er ljóst að sú full­yrð­ing stenst ekki. Wintris hagn­að­ist á því að gera upp í íslenskum krón­um.

Sig­mundur Davíð skrif­aði grein sem birt­ist í Frétta­blað­inu í morgun þar sem hann reifar mál Wintris hjá rík­is­skatt­stjóra að hluta. Í grein­inni segir hann m.a.: „Í ljósi umræð­unnar ákváðum við þó, að eigin frum­kvæði, að senda rík­is­skatt­stjóra erindi þar sem mun ítar­legri grein var gerð fyrir umræddum eignum og tekjum af þeim en skatt­fram­tals­form gera ráð fyrir og gefa kost á. Rík­is­skatt­stjóra var boðið að end­ur­meta þá aðferð sem lögð var til grund­vallar skatt­lagn­ing­u.“

Sig­mundur Davíð segir að með­ferð rík­is­skatt­stjóra á mál­inu sýni að engin skattaund­an­skot hafi átt sér stað þar sem ekk­ert álag sé ákvarðað á félagið eða eig­endur þess. Sig­mundur Davíð greinir þó frá því að skatt­stofn þeirra hjóna hafi verið hækk­aður eftir með­ferð rík­is­skatt­stjóra en bendir á að þau hjón­in, sem séu sam­sköttuð, hafi ofgreitt skatta í fyrra í sam­ræmi við úrskurð rík­is­skatt­stjóra. Í ljósi nið­ur­stöðu yfir­skatta­nefndar fái þau þær ofgreiðslur til baka.

Sig­mundur Davíð greinir ekki frá því hversu mikið hjónin þurftu að greiða í við­bót­ar­skatt í kjöl­far þess að skatt­stofn þeirra var hækk­aður af rík­is­skatt­stjóra í fyrra.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar