Mynd: Birgir Þór

Wintris greiddi ekki skatta í samræmi við lög og reglur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og eiginkona hans sóttust eftir því að fá breyta skattframtölum sínum eftir að Wintris-málið kom upp. Í bréfi til skattyfirvalda sögðu þau að ekki væri „útilokað að réttara hefði verið að haga skattskilum“ með öðrum hætti en gert var. Þau sömdu við ríkisskattstjóra um endurákvarðanir á skattgreiðslum sínum.

Aflandsfélagið Wintris greiddi ekki skatta í samræmi við lög og reglur um árabil. Mánuði eftir að tilvist félagsins var opinberuð fyrir heimsbyggðinni, og greint var frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra og eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, hefðu átt þetta félag, sendu hjónin bréf til ríkisskattstjóra þar sem óskað var eftir að skattframtöl þeirra frá 2011 til 2015 yrðu leiðrétt og þau opinberu gjöld sem þau áttu að greiða á tímabilinu yrðu endurákvörðuð. Í bréfinu gengust þau meðal annars við því að skattstofn eigna Wintris, sem álögur voru reiknaðar út frá, hafi verið vantalinn.

Í desember samþykkti ríkisskattstjóri beiðni forsætisráðherrahjónanna fyrrverandi um að greiða skatt sem þau höfðu komist upp með að greiða ekki áður en að tilvist Wintris var opinberuð. Í kjölfarið var meðal annars endurákvarðaður sá auðlegðarskattur sem lagður var á Önnu Sigurlaugu gjaldárin 2011 til 2014 og stofn hennar til tekjuskatts og útsvars frá 2011 til 2015 var auk þess hækkaður.

Í ársreikningum Wintris, sem búnir voru til í aðdraganda þess að umboðsmaður hjónanna sendu bréfið til ríkisskattstjóra í maí í fyrra, var uppgjörsmynt félagsins íslenskar krónur þótt félagið væri erlent, umsjón þess væri hjá erlendum banka, allar eignir þess væru erlendar og viðskipti með þær færu fram í erlendum gjaldmiðlum. Þessi uppgjörsaðferð gerði það að verkum að Wintris gat bókfært gengistap sem nýttist sem uppsafnað ónotað tap.

Það þýðir að Wintris gat talið það tap gegn framtíðar skattgreiðslum. Ríkisskattstjóri vildi ekki fallast á þessa uppgjörsaðferð og taldi hana ekki eiga sér stoð í lögum. Hann úrskurðaði hana því ólögmæta.

Sá úrskurður var Sigmundi Davíð og Önnu Sigurlaugu ekki að skapi. Þau kærðu hann til yfirskattanefndar sem féllst á þeirra sjónarmið og úrskurðaði þeim í hag 22. september síðastliðinn. 

Úrskurður nefndarinnar er hins vegar opinber og var settur á netið í lok síðustu viku. Og í honum er farið yfir öll samskipti hjónanna við ríkisskattstjóra síðasta eina og hálfa árið, eða frá 13. maí 2016 þegar þau létu skattayfirvöld vita að þau hefði ekki greitt skatta í samræmi við lög og reglur í landinu. Þar kemur ekki fram hvað þau greiddu mikið til viðbótar til ríkissjóðs í skatta eftir að skattstofn þeirra var hækkaður þar sem að hjónin samþykktu þær greiðslur. 

Sendu bréf rúmum mánuði eftir afsögn

Þann 13. maí 2016, rúmum mánuði eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra, barst ríkisskattstjóra erindi frá umboðsmanni hans og eiginkonu hans. Erindið var vegna aflandsfélags sem var um tíma í eigu þeirra beggja, en er nú einungis í eigu Önnu Sigurlaugar. Það félag heitir Wintris Ltd., sem hefur heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjunum.

Í erindinu óskaði umboðsmaður hjónanna eftir því að skattframtöl þeirra yrðu leiðrétt gjaldárin 2011 til og með 2015. Þar kom fram að Anna Sigurlaug hefði eignast Wintris í janúar 2008 og lagt félaginu til lánsfé til að fjárfesta á sama ári. Eignir Wintris samanstæðu af hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum, markaðsverðbréfum og innlánum í banka. Þær eignir höfðu alla tíð verið taldar fram til skatts hérlendis líkt og um eignir Önnu Sigurlaugar persónulega væri að ræða. Því hefði verið horft fram hjá tilvist Wintris í skattframtölum að öðru leyti en því að eignarhluti Önnu Sigurlaugar í félaginu var talin fram á kaupverði.

Í erindinu er því haldið fram að ekki væri „útilokað að réttara hefði verið að haga skattskilum kærenda gjaldárið 2011 og síðar“ í samræmi við lög og reglur um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, eða svokallaða CFC-löggjöf sem tók gildi hérlendis í byrjun árs 2010. Opinberlega hefur Sigmundur Davíð alltaf haldið því fram að ekki hafi þurft að skila CFC-framtölum vegna Wintris í ljósi þess að Wintris stundaði ekki atvinnustarfsemi. Í erindinu er hins vegar hinu gagnstæða haldið fram. Wintris átti að skila CFC-framtölum og eigendur félagsins vissu það.

Erindið snerist því um að eigendur Wintris vildu breyta skattskilum sínum eftir á. Eða eins og segir í úrskurði yfirskattanefndar: „Væru skattstofnar kærenda gjaldárin 2011 til og með 2016 því leiddir fram í erindinu í samræmi við framangreindar reglur.“

Þar kemur líka fram að Wintris hafi aldrei gert ársreikninga, enda ekki krafist slíkra á Bresku Jómfrúareyjunum. Í maí 2016 hafði ársreikningum fyrir árin 2010 til og með 2015 hins vegar verið stillt upp efnislega í samræmi við lög um ársreikninga. Og þeir ársreikningar voru allir í íslenskum krónum.

Í erindi forsætisráðherrahjónanna fyrrverandi var svo rakið að tap hefði orðið á starfsemi Wintris rekstrarárin 2010, 2013, 2014 og 2015 en hagnaður rekstrarárin 2011 og 2012. Þetta hefði gert það að verkum að yfirfæranlegt tap hefði safnast upp. Í úrskurði yfirskattanefndar segir: „Var þess óskað að opinber gjöld kærenda gjaldárin 2011 til og með 2015 yrðu endurákvörðuð á þessum grunni og álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2016 hagað með sama hætti teldi ríkisskattstjóri rétt að leiða skattstofna fram með þessum hætti. Þá var þess óskað að kærendur yrðu ekki látin sæta álagi[...]á vantalinn skattstofn gjaldársins 2011.“

Ríkisskattstjóri kallaði eftir upplýsingum um Wintris

Skattyfirvöld brugðust við með því að senda bréf á Sigmund Davíð og Önnu Sigurlaugu. Það var sent 21. júní 2016 og svo ítrekað 29. ágúst sama ár. Í bréfinu lagði ríkisskattstjóri fyrir þau að gera gein fyrir tilteknum atriðum varðandi innstæður í erlendum bönkum og tilteknum atriðum sem vörðuðu Wintris. Á meðal þess sem óskað var upplýsinga um var hver starfrækslugjaldmiðill Wintris væri, hvaða eignir lægju til grundvallar tekjufærðum söluhagnaði og gjaldfærðu sölutapi, hvernig Wintris væri fjármagnað og hvernig úttektum úr félaginu væri háttað. Þá var þess líka óskað að eigið fé Wintris fyrir árin 2010 til 2014 yrði sundurliðuð og að gerð yrði grein fyrir þróun óráðstafaðs eigin fjár félagsins frá stofnun þess til ársloka 2014.

Svar barst 13. september 2016. Þar kemur fram að Wintris geri upp í íslenskum krónum, og að söluhagnaður eða -tap væri vegna sölu á hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum. Í úrskurði yfirskattanefndar segir að fjármögnun Wintris hefði verið með þeim hætti að Anna Sigurlaug hefði keypt félagið á 337.995 krónur af Landsbankanum í Lúxemborg í janúar 2008. Það hefði verið svokallað lagerfélag sem hafi ekki haft neina eiginlega starfsemi né átt eignir eða borið skuldir. Anna Sigurlaug lagði Wintris svo til lánsfé til fjárfestinga. Úttektir hennar af fé Wintris hefðu því eingöngu verið í formi endurgreiðslna á lánsfé og engum arði hefði því verið úthlutað út úr félaginu. Skuldastaða Wintris við Önnu Sigurlaugu hefði verið 1.146.151.068 krónur í upphafi árs 2010 en síðan farið lækkandi vegna taps á starfseminni og endurgreiðslum lánsfjár til Önnu Sigurlaugar.

Vildi ekki samþykkja að leyfa Wintris að gera upp í íslenskum krónum

Þann 17. nóvember tilkynnti ríkisskattstjóri hjónunum að hann ætlaði að taka erindi þeirra til úrlausnar. Í bréfinu kom m.a. fram að ekki væri til að dreifa gengishagnaði eða -tapi af starfsemi Wintris. Það væri nefnilega þannig að með því að telja fram eignir Wintris, sem voru að öllu leyti erlendar, í íslenskum krónum myndaðist umtalsvert bókfært gengistap. Það tap gat nýst til að spara Sigmundi Davíð og Önnu Sigurlaugu umtalsverðar skattgreiðslur.

Wintris-málið leiddi til fjölmennustu mótmæla Íslandssögunnar þegar 26 þúsund manns mættu á Austurvöll.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þetta féllst ríkisskattstjóri ekki á og taldi uppgjörsmátann ekki eiga sér neina stoð í lögum. Félagið væri erlent, það starfaði erlendis með allar tekjur, gjöld, eignir og skuldir í erlendum gjaldmiðli. Þess vegna gengi ekki að gera félagið upp í íslenskum krónum og á það gæti embætti ekki sæst.

Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug svöruðu ríkisskattstjóra 12. desember 2016. Tíu dögum síðar úrskurðaði ríkisskattstjóri að hann gerði „tilteknar breytingar á skattframtölum kærenda sem ekki er ágreiningur um í máli þessu.“

Með öðrum orðum náðist samkomulag milli ríkisskattstjóra annars vegar og Sigmundar Davíðs og Önnu Sigurlaugar hins vegar, um að þau greiddi skatt sem þau höfðu komist upp með að greiða ekki áður en að Wintris-málið kom upp. Um er að ræða endurákvörðun á auðlegðarskatti gjaldárin 2011 til 2014, ákvörðun ríkisskattstjóra um fjárhæð meintrar afkomu af rekstri Wintris rekstrarárinu 2010 til 2014 sem fól í sér hækkun á stofni Önnu Sigurlaugar til tekjuskatts og útsvars gjaldárið 2011 „og ákvörðun eftirstöðva ójafnaðs rekstrartaps hennar gjaldárin 2012, 2013, 2014 og 2015.“ Enn fremur undu þau ákvörðum um að lækka stofn Sigmundar Davíðs til greiðslu skatts af fjármagnstekjum gjaldárin 2011 til 2015.

Hjónin greiddu þá upphæð sem ríkisskattstjóri endurákvarðaði á þau en sættu sig hins vegar ekki við allt í úrskurði ríkisskattstjóra. Þeim fannst að þau mættu gera Wintris upp í íslenskum krónum og bókfæra gengistap vegna þess sem nýttist sem uppsafnað skattalegt tap.

Þess vegna kærðu þau þann hluta málsins til yfirskattanefndar. Þau gátu ekki sætt sig við að uppsafnað ónotað tap Wintris hefði verið lækkað úr 162 milljónum króna í 50,6 milljónir króna í skattframtali árið 2015.

Yfirskattanefnd komst að niðurstöðu 22. september síðastliðinn og var sú niðurstaða eigendum Wintris í hag. Þau máttu gera Wintris upp í íslenskum krónum, bókfæra gengistap vegna sveiflna gjaldmiðilsins og nota það tap til að lækka skattgreiðslur sínar á Íslandi. Vegna ársins 2011 lækkuðu þær um 52,3 milljónir króna auk þess sem yfirfæranlegt tap í skattskilum Önnu Sigurlaugar gjaldárin 2012 til 2015 ákvarðaðist í samræmi við fjárhæðir sem tilgreindar voru í skatterindi kærenda.

En úrskurðir yfirskattanefndar eru líka opinberir. Og þótt nöfn þeirra sem kærðu séu ekki birt þá er augljóst á öllum tölum málsins og upplýsingum sem gefnar eru um aflandsfélagið, að um Wintris, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur er að ræða. Ef þau hefðu ekki kært þennan hluta ákvörðunar ríkisskattstjóra þá hefðu aðgerðir ríkisskattstjóra gagnvart hjónunum vegna Wintris, sem komu til eftir að þau viðurkenndu að hafa ekki gert upp í samræmi við lög og reglur, aldrei orðið opinberar.

Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug fóru fram á að ríkissjóður myndi greiða kostnað þeirra vegna kæru til yfirskattanefndar. Hann nam 2,1 milljón króna að meðtöldum virðisaukaskatti. Yfirskattanefnd ákvað hins vegar að hæfilegur málskostnaður væri 500 þúsund krónur, eða tæpur fjórðungur þess sem hjónin fóru fram á að ríkissjóður greiddi vegna kæru þeirra.

Greiddu ekki skatta með réttum hætti

Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug hafa alla tíð haldið því fram að allir skattar hafi verið greiddir af eignum Wintris. Tveimur dögum áður en umboðsmaður hjónanna sendi bréfið til ríkisskattstjóra, þar sem þau tilkynntu að þau hefði ekki greitt skatta í samræmi við lög og reglur, þá birti Sigmundur Davíð ýmis gögn um fjármál þeirra hjóna á heimasíðu sinni. Þau gögn eru öll byggð á því eftir á uppgjöri sem gert var á Wintris eftir þá atburði sem leiddu til þess að Sigmundur Davíð þurfti að segja af sér sem forsætisráðherra. Þ.e. þau byggja á þeim ársreikningum sem gerðir voru fyrir mörg fyrri ár og síðan sendir til ríkisskattstjóra vorið 2016. Nú er ljóst að árum saman voru ekki allir skattar greiddir rétt af þeim eignum sem geymdar eru inni í Wintris.

Wintris er með skráð heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjunum. Þar er ekki gerð krafa um gerð ársreikninga.

Við sama tækifæri greindi Sigmundur Davíð frá því að eiginkona hans hefði aldrei hagnast á því að geyma fjármagn sitt erlendis og hún hafi gert það til að forðast árekstra við stjórnmálastörf hans. Í ljósi þess að Wintris gerði upp í íslenskum krónum og bókfærði umtalsvert gengistap sem nýtist sem skattalegt tap er ljóst að sú fullyrðing stenst ekki. Wintris hagnaðist á því að gera upp í íslenskum krónum.

Sigmundur Davíð skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu í morgun þar sem hann reifar mál Wintris hjá ríkisskattstjóra að hluta. Í greininni segir hann m.a.: „Í ljósi umræðunnar ákváðum við þó, að eigin frumkvæði, að senda ríkisskattstjóra erindi þar sem mun ítarlegri grein var gerð fyrir umræddum eignum og tekjum af þeim en skattframtalsform gera ráð fyrir og gefa kost á. Ríkisskattstjóra var boðið að endurmeta þá aðferð sem lögð var til grundvallar skattlagningu.“

Sigmundur Davíð segir að meðferð ríkisskattstjóra á málinu sýni að engin skattaundanskot hafi átt sér stað þar sem ekkert álag sé ákvarðað á félagið eða eigendur þess. Sigmundur Davíð greinir þó frá því að skattstofn þeirra hjóna hafi verið hækkaður eftir meðferð ríkisskattstjóra en bendir á að þau hjónin, sem séu samsköttuð, hafi ofgreitt skatta í fyrra í samræmi við úrskurð ríkisskattstjóra. Í ljósi niðurstöðu yfirskattanefndar fái þau þær ofgreiðslur til baka.

Sigmundur Davíð greinir ekki frá því hversu mikið hjónin þurftu að greiða í viðbótarskatt í kjölfar þess að skattstofn þeirra var hækkaður af ríkisskattstjóra í fyrra.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar