Umfangsmikil málamiðlun sem hver getur túlkað með sínu nefi
Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er 40 blaðsíður og yfir 6.200 orð. Í honum eru sett fram nokkur mál og stefnur með skýrum hætti sem munu einkenna stjórnina, önnur sem eru loðnari í framsetningu og sum sem eru beinlínis óskiljanleg.
Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur ber þess merki að vera málamiðlun þriggja flokka með mjög ólíkar áherslur. Þar af leiðandi er lítið um útfærðar aðgerðir eða skýrar stefnur í honum. Þess í stað er mikill texti í sáttmálanum sem hver flokkur fyrir sig sem á aðild að ríkisstjórninni getur nýtt til að sýna að hann hafi náð helstu áherslum sínum fram. Þeim áherslum verður þó líkast til fyrst og fremst náð fram í gegnum þá ráðherrastóla sem hver flokkur fær í sinn hlut.
Í sáttmálanum er þó skýrt kveðið á um hvert meginmarkmið ríkisstjórnarinnar sé. Þar stendur að „umfram allt er á kjörtímabilinu lögð áhersla á að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og að aðgerðir tengdar vinnumarkaði skili sér í raunverulegum kjarabótum.“
Hægt er að lesa sáttmálann hér.
Það sem er fast í hendi
Það sem er nokkuð skýrt varðandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er að hún ætlar að hrinda geðheilbrigðisáætlun til ársins 2020 í framkvæmd, draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og ráðast í stórsókn á uppbyggingu hjúkrunarrýma. Tekið er fram í sáttmálanum að sú stórsókn muni birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þegar hún verður tekin upp.
Í menntamálum er minnst á að Ísland eigi að ná meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins fyrir árið 2020 og Norðurlanda árið 2025. Í byggðamálum á að ljúka við ljósleiðingarvæðingu landsins árið 2020.
Ráðist verður í breytingar á skattlagningu á tónlist, fjölmiðla og ritmáli og fyrsta skrefið þar verður að afnema virðisaukaskatt á bókum.
Þá verður stofnaður sérstakur Þjóðarsjóður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað verður á því að láta arð af orkuauðlindum renna þangað inn. „Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og styðja við vöxt og þroska sprotafyrirtækja.“
Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður upp í 22 prósent og samhliða verður skattstofn hans tekinn til endurskoðunar.
Þá er kveðið á um að ríkisstjórnin ætli, til að bæta alþjóðlega samkeppnishæfni landsins, að endurmeta fyrirkomulag á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum. Það þak er nú 300 til 450 milljónir króna á ári.
Áform síðustu ríkisstjórnar um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu verða lögð til hliðar og þess í stað verður kannað hvort leggja eigi á komu- eða brottfarargjald. Þá verður gistináttagjald fært yfir til sveitarfélaga og því verður breytt þannig að það verði hlutfallslegt.
Hækka á kolefnisgjald um 50 prósent strax og hækka það síðan áfram á næstu árum í takt við væntanlega aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Stefnt er á að Ísland verði kolefnishlutlaust í síðasta lagi árið 2040 og að banni við notkun á svartolíu í íslenskri efnahagslögsögu.
Þá verður frítekjumark atvinnutekna aldraðra hækkað í 100 þúsund krónur strax um komandi áramót og gjaldskrá vegna tannlækninga aldraðra og örorkulífeyrisþegar verður uppfærð.
Ríkisstjórnin segist vilja koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði í samræmi við nýútkomin tilmæli Evrópuráðsins vegna mannréttinda intersex-fólks. „Í þeim lögum yrði kveðið á um að einstaklingar megi sjálfir ákveða kyn sitt, kynvitund þeirra njóti viðurkenningar, einstaklingar njóti líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.“
Ríkisstjórnin ætlar að auka framlög til þróunarsamvinnu á næstu árum og stefnir að því að þau verði 0,35 prósent af landsframleiðslu eftir fimm ár. Þau hafa reyndar verið skammarlega lág á undanförnum árum og fóru lægst í 0,2 prósent af landsframleiðslu 2011 og 2012. Markmið Sameinuðu þjóðanna er að ríki greiði 0,7 prósent af landsframleiðslu sinni til málaflokksins og Ísland, eitt ríkasta land í heimi, verður því enn langt frá því markmiði eftir fimm ár.
Það sem er loðið
Svo virðist vera sem mörg helstu hitamál stjórnmálanna verði sett í þverpólitískar nefndir. Færa má rök fyrir því að það sé til marks um vilja til breyttra vinnubragða og þverpólitískrar samstöðu, en með því kemst hin nýja ríkisstjórn líka hjá því að taka eiginlega afstöðu til málanna.
Á meðal þeirra mála sem beina á til þverpólitískra hópa er stofnun Miðhálendisþjóðgarðs, mótun nýsköpunarstefnu, þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði, orkustefna, stjórnarskrá, framkvæmd og endurskoðun útlendingalaga og framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga.
Þá verður rituð hvítbók um framtíðarfyrirkomulag fjármálakerfisins. Hún á síðan að vera lögð fram áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar um fjármálakerfið. Eignarhald á kerfislega mikilvægum fjármálastofnunum á að verða gagnsætt og ríkisstjórnin vill að unnið verði að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda. Ekkert af ofangreindu er útfært eða skýrt nánar.
Ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir umbótum í húsnæðismálum „sem stuðla að eflingu og auknu jafnvægi húsnæðismarkaðar.“ Í sáttmálanum kemur fram að setja þurfi skýrari reglur um skammtímaleigu húsnæðis og efla eftirlit með henni, en ekkert er sagt um hvernig eða hvort það eigi að gera. Þá verði kannaðar „forsendur þess að sveitarfélög hafi ríkari heimildir til að stýra leigumarkaði.“
Í sáttmálanum er greint frá því að ríkisstjórnin muni fara í „aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Í því augnamiði verða stuðningskerfi hins opinbera endurskoðuð þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verða skoðaðir möguleikar á því að hægt verði að nýta lífeyrissparnað til þessa.“ Ekkert er fjallað um útfærslu á þessum markmiðum.
Í byggðarmálakaflanum er fjallað um að flutnings- og dreifikerfi raforku verði að mæta betur þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu og að uppbygging kerfisins geti stutt við áætlanir um orkuskipti. Ekkert er hins vegar fjallað um hvernig það eigi að mæta þessum þörfum og markmiðum.
Almenningssamgöngu- og flugmálahluti sáttmálans er ákaflega rýr og loðinn. Þar stendur: „Unnið verður að því að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna. Áfram þarf að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og stutt verður við borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“ Ekkert er rætt um til hvaða aðgerða þurfi að grípa til.
Í löggæslu- og fangelsismálum er lítið fjallað um útfærslu. Þess í stað segir að ljúka þurfi við gerð löggæsluáætlunar, tryggja Landhelgisgæslunni nægilegt fjármagn til að rækja starf sitt og „snúa þarf af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna en styrkja aðgerðir gegn fíkniefnasölum, innflutningi og framleiðslu fíkniefna. Tryggja þarf fíklum viðunandi meðferðarúrræði með samvinnu dóms-, félags- og heilbrigðiskerfis.
Þá á að innleiða „keðjuábyrgð í ólíkum atvinnugreinum, vinna gegn kynbundnum launamun, félagslegum undirboðum, mansali og kennitöluflakki og efla vinnueftirlit.“
Nefnd um endurskoðun peningastefnunnar fær að ljúka störfum og „í kjölfarið verða gerðar nauðsynlegar breytingar á ramma stefnunnar.“
Ríkisstjórnin leggur áherslu á jafnrétti kynjanna samkvæmt sáttmálanum. Meðal þess sem sett verður á dagskrá í samtali stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins verður lenging fæðingarorlofs og hækkun orlofsgreiðslna í fæðingarorlofi. Ekkert er fjallað um hver sú lenging eigi að verða, hver hækkunin eigi að verða né hvenær ráðast eigi í þessar aðgerðir.
Umfjöllun um innflytjendur, flóttamenn og hælisleitendur er af afar skornum skammti í sáttmálanum í ljósi þess hversu fyrirferðamikil þau mál eru í þjóðfélagsumræðunni og hversu miklar samfélagsbreytingar eru að verða vegna aukins straums innflytjenda til landsins. Þar segir einfaldlega: „Aldrei hafa fleiri verið á flótta vegna stríðsátaka, ofsókna og umhverfisvár. Ísland mun leggja sitt af mörkum til lausnar á flóttamannavandanum og taka á móti fleiri flóttamönnum.“ Engar útfærslur eða tímalínur fylgja þessum texta.
Þá er ótalið hvað eigendur sjávarútvegsfyrirtækja eigi að greiða fyrir nýtingu á þjóðarauðlindinni. Í stjórnarsáttmálanum segir: „Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. Auðlindagjöld eiga annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar.“
Það sem er óskiljanlegt
Alls er sáttmálin rúmlega 6.200 orð og hann er settur fram á 40 blaðsíðum, þótt sumar þeirra séu myndskreytingar. Í honum er mikið af innihaldslausum og mjög almennum setningum á borð við :„Lögð verður rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi“, „Öflug löggæsla er ein af forsendum þess að öryggi borgaranna sé tryggt“, „Ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir umbótum í húsnæðismálum sem stuðla að eflingu og auknu jafnvægi húsnæðismarkaðar“, „Forsenda þess að landbúnaður geti nýtt tækifæri framtíðarinnar er jafnvægi í framleiðslu, skilvirkt eftirlit og nýsköpun“, „Ríkisstjórnin mun fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland með hliðsjón af þörfum allra landsmanna“ og „Fjármálakerfið á að vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt.“
Allir flokkarnir fá pláss fyrir sín gæluverkefni og geta þannig sagt sínum flokksmönnum að þau hafi hlotið brautargengi, þótt ekkert sé um það getið hvernig eða hvenær eigi að ráðast í þau.
Þannig er til að mynda talað um að ríkisstjórnin muni taka „markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum“ og að hafin verði „ skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar.“ Þetta er klárlega inni í sáttmálanum að kröfu Framsóknarflokks. Þess ber að geta að í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var skipuð nefnd til að fjalla um afnám verðtryggingar. Hún skilaði skýrslu árið 2014. Verðtrygging er enn til staðar og hefur ekki verið afnumin að neinu leyti.
Þar er einnig fjallað um að „skattrannsóknir verða efldar samhliða því að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgari vinnumarkaði.“ Þar er verið að mæta kosningaloforði Vinstri grænna um að „stórefla skattaeftirlit og skattrannsóknir.“