Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þingmenn í fríi frá þingfundum í næstum 300 daga á árinu 2017

Á árinu 2017 hafa þingmenn lokið mánaðarlöngu jólafríi, farið í 17 daga langt páskafrí frá þingfundum og í sumarfrí sem stóð frá 1. júní til 12. september. Þingfundur hefur ekki verið haldin frá 26. september. Alþingi verður sett á fimmtudag og þá verða liðnir 79 dagar frá síðast þingfundi.

Alls hafa verið haldnir þing­fundi í 58 daga það sem af er árinu 2017. Búast má við því að þeir verði í allra mesta lagi 71 þegar árinu lýk­ur. Það þýðir að þing­fundir hafi ekki verið haldnir í næstum 300 daga á árinu 2017.

Þing­menn hafa á þessum tíma lokið rúm­lega mán­að­ar­löngu jóla­fríi, farið í páska­frí sem stóð í 17 daga og sum­ar­frí sem stóð frá 1. júní til 12. sept­em­ber.

Dag­inn eftir að fyrsta umræða um fjár­laga­frum­varp síð­ustu rík­is­stjórnar hófst sprakk svo sam­starf þeirra flokka sem að henni stóðu. Sex dögum eftir þing­setn­ingu var boðað til kosn­inga.

Þing verður sett á fimmtu­dag, 14. des­em­ber. Þá verða liðnir 79 dagar frá síð­asta þing­fundi, sem fór fram 26. sept­em­ber. Ástæða þess er auð­vitað sú að kosið var í annað sinn á tveimur árum 28. októ­ber síð­ast­lið­inn.

Venju­legur íslenskur launa­maður vinnur um 223 daga á ári þegar búið er að taka til­lit til orlofs­daga og ann­arra frí­daga.

Kjör­dæma­vika og páska­frí

Stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­urnar eftir kosn­ing­arnar 2016 tóku langan tíma og ný rík­is­stjórn, undir for­sæti Bjarna Bene­dikts­son­ar, tók ekki við völdum fyrr en 11. jan­ú­ar. Þrettán dögum síðar hóf Alþingi störf að nýju eftir rúm­lega mán­að­ar­langt jóla­frí, en þing­menn höfðu þá verið frá þing­fund­ar­störfum frá 22. des­em­ber 2016.



Alls voru haldnir tíu þing­fundir eftir að þingið kom aftur saman og út fimmtu­dag­inn 9. febr­ú­ar. Eftir þann dag tók við kjör­dæma­vika sem varð til þess að þing­fundur var ekki haldin aftur fyrr en 21. febr­ú­ar.

Alls fóru fram 25 þing­fundir frá þeim degi og fram að páska­fríi, en að auki voru tveir dagar lagðir undir nefnd­ar­störf sam­kvæmt starfs­á­ætlun þings­ins. Páska­fríið stóð frá föstu­deg­inum 7. apríl og fram á mánu­dag­inn 24. apr­íl, þegar fyrsti þing­fundur að því loknu var hald­inn.

Fram að þing­frest­un, sem var 1. júní, voru 17 þing­fund­ar­dag­ar.

Yfir 100 daga sum­ar­frí frá þing­störfum

Sum­ar­fríið var svo ríf­legt. Þing var ekki sett aftur fyrr en 12. sept­em­ber, 103 dögum eftir að vor­þingi var slit­ið. Eld­hús­dags­um­ræður fóru fram kvöldið eftir og stóðu frá klukkan 19:30 til 22:07. Fimmtu­dag­inn 14. sept­em­ber var fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­innar lagt fram og fyrsta umræða um þau hófst. Skömmu eftir mið­nætti þann 15. sept­em­ber ákvað Björt fram­tíð að slíta sig frá rík­is­stjórn­ar­sam­starf­inu. Ástæðan var meint leyni­makk og trún­að­ar­brestur tveggja ráð­herra Sjálf­stæð­is­flokks­ins, Bjarna Bene­dikts­sonar og Sig­ríðar And­er­sen, sem flokks­menn Bjartar fram­tíðar töldu að hafi verið að hylma yfir með föður Bjarna og ganga erinda hans við að reyna að breiða yfir aðkomu hans að upp­reist æru dæmds barn­a­níð­ings.

Bjarni Benediktsson hélt blaðamannafund í Valhöll 15. september í kjölfar þess að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn.
Mynd: RÚV/Skjáskot

Áður en að rík­is­stjórnin sprakk náð­ist því að halda þrjá þing­fundi, þar af einn sem stóð í heilar tólf mín­útur og sner­ist að lang­mestu leyti um að raða þing­mönnum niður í sæti.

Á mánu­deg­inum eftir stjórn­ar­slitin var haldin tveggja mín­útna þing­fundur þar sem Bjarni Bene­dikts­son upp­fyllti það forms­at­riði að lesa upp for­seta­bréf um þing­rof og almennar kosn­ingar til Alþing­is, sem halda átti  28. októ­ber.

Átta dögum síð­ar, 26. sept­em­ber, voru síðan þing­fundir þar sem þau mál sem talið var knýj­andi að afgreiða voru afgreidd. Þann dag var fundað frá 13:30 og fram yfir mið­nætti.

Fund­ar­dagar gætu í mesta lagi orðið 71

Alþingi verður sett fimmtu­dag­inn 14. des­em­ber næst­kom­andi. Fjár­laga­frum­varp nýrrar rík­is­stjórnar verður venju sam­kvæmt fyrsta mál á dag­skrá og má búast við átökum um það. Ef fundað verður alla daga fram að Þor­láks­messu, líka um kom­andi helgi, munu þing­fund­ar­dagar verða níu tals­ins. Ef fundað verður á milli jóla og nýárs, að lok­inn jóla­há­tíð, munu lík­ast til þrír til fjórir dagar bæt­ast við.

Því liggur fyrir að þing­fundir hafa verið haldnir á 58 dögum það sem af er árinu 2017, og við bæt­ast að öllum lík­indum níu til þrettán dagar til við­bót­ar. Því verða þing­funda­dagar að hámarki 71 á árinu 2017. Til sam­an­burðar þá eru virkir dagar um 260 á ári. Venju­legur launa­maður gæti þurft að vinna í kringum 220 daga á ári þegar búið er að draga frá lög­bundna frí­daga og orlof hans, en án tek­ins til­lits til helga. Þing­fund­ar­dagar eru því vel tæp­lega þriðj­ungur af vinnu­dögum venju­legs launa­fólks. Vert er að taka fram að í starfi stjórn­mála­manna felst margt annað en að sitja þing­fundi. Þar ber helst að nefna nefnd­ar­störf í fasta­nefndum þings­ins og und­ir­bún­ing fyrir þing­fundi. Auk þess hafa þeir vit­an­lega þurft að und­ir­búa, og taka þátt í, kosn­inga­bar­áttu tví­vegis á einu ári.  

Skert starf­semi í fyrra líka

Það var nú reyndar ekki mjög mikið um þing­fund­ar­störf á síð­ari hluta árs­ins 2016 held­ur. Alþingi fór í frí 8. júní 2016 og fram til 15. ágúst sama ár, eða í rúma tvo mán­uði. Þingið starf­aði svo til 13. októ­ber þegar því var slitið vegna kosn­inga sem fram fóru í lok þess mán­að­ar.

Vegna þess að ekk­ert gekk að mynda rík­is­stjórn var þing kallað saman 6. des­em­ber til þess að hægt væri að afgreiða fjár­lög og önnur mál sem þurftu að kom­ast í gegn áður en að nýtt ár myndi hefj­ast. Því voru haldnir þing­fundir í sam­tals níu daga fram til 22. des­em­ber þegar þingi var slitið svo að þing­menn kæmust í jóla­frí. Það stóð, líkt og áður sagði, til 24. jan­úar 2017.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar