Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þingmenn í fríi frá þingfundum í næstum 300 daga á árinu 2017

Á árinu 2017 hafa þingmenn lokið mánaðarlöngu jólafríi, farið í 17 daga langt páskafrí frá þingfundum og í sumarfrí sem stóð frá 1. júní til 12. september. Þingfundur hefur ekki verið haldin frá 26. september. Alþingi verður sett á fimmtudag og þá verða liðnir 79 dagar frá síðast þingfundi.

Alls hafa verið haldnir þingfundi í 58 daga það sem af er árinu 2017. Búast má við því að þeir verði í allra mesta lagi 71 þegar árinu lýkur. Það þýðir að þingfundir hafi ekki verið haldnir í næstum 300 daga á árinu 2017.

Þingmenn hafa á þessum tíma lokið rúmlega mánaðarlöngu jólafríi, farið í páskafrí sem stóð í 17 daga og sumarfrí sem stóð frá 1. júní til 12. september.

Daginn eftir að fyrsta umræða um fjárlagafrumvarp síðustu ríkisstjórnar hófst sprakk svo samstarf þeirra flokka sem að henni stóðu. Sex dögum eftir þingsetningu var boðað til kosninga.

Þing verður sett á fimmtudag, 14. desember. Þá verða liðnir 79 dagar frá síðasta þingfundi, sem fór fram 26. september. Ástæða þess er auðvitað sú að kosið var í annað sinn á tveimur árum 28. október síðastliðinn.

Venjulegur íslenskur launamaður vinnur um 223 daga á ári þegar búið er að taka tillit til orlofsdaga og annarra frídaga.

Kjördæmavika og páskafrí

Stjórnarmyndunarviðræðurnar eftir kosningarnar 2016 tóku langan tíma og ný ríkisstjórn, undir forsæti Bjarna Benediktssonar, tók ekki við völdum fyrr en 11. janúar. Þrettán dögum síðar hóf Alþingi störf að nýju eftir rúmlega mánaðarlangt jólafrí, en þingmenn höfðu þá verið frá þingfundarstörfum frá 22. desember 2016.


Alls voru haldnir tíu þingfundir eftir að þingið kom aftur saman og út fimmtudaginn 9. febrúar. Eftir þann dag tók við kjördæmavika sem varð til þess að þingfundur var ekki haldin aftur fyrr en 21. febrúar.

Alls fóru fram 25 þingfundir frá þeim degi og fram að páskafríi, en að auki voru tveir dagar lagðir undir nefndarstörf samkvæmt starfsáætlun þingsins. Páskafríið stóð frá föstudeginum 7. apríl og fram á mánudaginn 24. apríl, þegar fyrsti þingfundur að því loknu var haldinn.

Fram að þingfrestun, sem var 1. júní, voru 17 þingfundardagar.

Yfir 100 daga sumarfrí frá þingstörfum

Sumarfríið var svo ríflegt. Þing var ekki sett aftur fyrr en 12. september, 103 dögum eftir að vorþingi var slitið. Eldhúsdagsumræður fóru fram kvöldið eftir og stóðu frá klukkan 19:30 til 22:07. Fimmtudaginn 14. september var fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar lagt fram og fyrsta umræða um þau hófst. Skömmu eftir miðnætti þann 15. september ákvað Björt framtíð að slíta sig frá ríkisstjórnarsamstarfinu. Ástæðan var meint leynimakk og trúnaðarbrestur tveggja ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar og Sigríðar Andersen, sem flokksmenn Bjartar framtíðar töldu að hafi verið að hylma yfir með föður Bjarna og ganga erinda hans við að reyna að breiða yfir aðkomu hans að uppreist æru dæmds barnaníðings.

Bjarni Benediktsson hélt blaðamannafund í Valhöll 15. september í kjölfar þess að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn.
Mynd: RÚV/Skjáskot

Áður en að ríkisstjórnin sprakk náðist því að halda þrjá þingfundi, þar af einn sem stóð í heilar tólf mínútur og snerist að langmestu leyti um að raða þingmönnum niður í sæti.

Á mánudeginum eftir stjórnarslitin var haldin tveggja mínútna þingfundur þar sem Bjarni Benediktsson uppfyllti það formsatriði að lesa upp forsetabréf um þingrof og almennar kosningar til Alþingis, sem halda átti  28. október.

Átta dögum síðar, 26. september, voru síðan þingfundir þar sem þau mál sem talið var knýjandi að afgreiða voru afgreidd. Þann dag var fundað frá 13:30 og fram yfir miðnætti.

Fundardagar gætu í mesta lagi orðið 71

Alþingi verður sett fimmtudaginn 14. desember næstkomandi. Fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar verður venju samkvæmt fyrsta mál á dagskrá og má búast við átökum um það. Ef fundað verður alla daga fram að Þorláksmessu, líka um komandi helgi, munu þingfundardagar verða níu talsins. Ef fundað verður á milli jóla og nýárs, að lokinn jólahátíð, munu líkast til þrír til fjórir dagar bætast við.

Því liggur fyrir að þingfundir hafa verið haldnir á 58 dögum það sem af er árinu 2017, og við bætast að öllum líkindum níu til þrettán dagar til viðbótar. Því verða þingfundadagar að hámarki 71 á árinu 2017. Til samanburðar þá eru virkir dagar um 260 á ári. Venjulegur launamaður gæti þurft að vinna í kringum 220 daga á ári þegar búið er að draga frá lögbundna frídaga og orlof hans, en án tekins tillits til helga. Þingfundardagar eru því vel tæplega þriðjungur af vinnudögum venjulegs launafólks. Vert er að taka fram að í starfi stjórnmálamanna felst margt annað en að sitja þingfundi. Þar ber helst að nefna nefndarstörf í fastanefndum þingsins og undirbúning fyrir þingfundi. Auk þess hafa þeir vitanlega þurft að undirbúa, og taka þátt í, kosningabaráttu tvívegis á einu ári.  

Skert starfsemi í fyrra líka

Það var nú reyndar ekki mjög mikið um þingfundarstörf á síðari hluta ársins 2016 heldur. Alþingi fór í frí 8. júní 2016 og fram til 15. ágúst sama ár, eða í rúma tvo mánuði. Þingið starfaði svo til 13. október þegar því var slitið vegna kosninga sem fram fóru í lok þess mánaðar.

Vegna þess að ekkert gekk að mynda ríkisstjórn var þing kallað saman 6. desember til þess að hægt væri að afgreiða fjárlög og önnur mál sem þurftu að komast í gegn áður en að nýtt ár myndi hefjast. Því voru haldnir þingfundir í samtals níu daga fram til 22. desember þegar þingi var slitið svo að þingmenn kæmust í jólafrí. Það stóð, líkt og áður sagði, til 24. janúar 2017.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar