Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þingmenn í fríi frá þingfundum í næstum 300 daga á árinu 2017

Á árinu 2017 hafa þingmenn lokið mánaðarlöngu jólafríi, farið í 17 daga langt páskafrí frá þingfundum og í sumarfrí sem stóð frá 1. júní til 12. september. Þingfundur hefur ekki verið haldin frá 26. september. Alþingi verður sett á fimmtudag og þá verða liðnir 79 dagar frá síðast þingfundi.

Alls hafa verið haldnir þing­fundi í 58 daga það sem af er árinu 2017. Búast má við því að þeir verði í allra mesta lagi 71 þegar árinu lýk­ur. Það þýðir að þing­fundir hafi ekki verið haldnir í næstum 300 daga á árinu 2017.

Þing­menn hafa á þessum tíma lokið rúm­lega mán­að­ar­löngu jóla­fríi, farið í páska­frí sem stóð í 17 daga og sum­ar­frí sem stóð frá 1. júní til 12. sept­em­ber.

Dag­inn eftir að fyrsta umræða um fjár­laga­frum­varp síð­ustu rík­is­stjórnar hófst sprakk svo sam­starf þeirra flokka sem að henni stóðu. Sex dögum eftir þing­setn­ingu var boðað til kosn­inga.

Þing verður sett á fimmtu­dag, 14. des­em­ber. Þá verða liðnir 79 dagar frá síð­asta þing­fundi, sem fór fram 26. sept­em­ber. Ástæða þess er auð­vitað sú að kosið var í annað sinn á tveimur árum 28. októ­ber síð­ast­lið­inn.

Venju­legur íslenskur launa­maður vinnur um 223 daga á ári þegar búið er að taka til­lit til orlofs­daga og ann­arra frí­daga.

Kjör­dæma­vika og páska­frí

Stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­urnar eftir kosn­ing­arnar 2016 tóku langan tíma og ný rík­is­stjórn, undir for­sæti Bjarna Bene­dikts­son­ar, tók ekki við völdum fyrr en 11. jan­ú­ar. Þrettán dögum síðar hóf Alþingi störf að nýju eftir rúm­lega mán­að­ar­langt jóla­frí, en þing­menn höfðu þá verið frá þing­fund­ar­störfum frá 22. des­em­ber 2016.Alls voru haldnir tíu þing­fundir eftir að þingið kom aftur saman og út fimmtu­dag­inn 9. febr­ú­ar. Eftir þann dag tók við kjör­dæma­vika sem varð til þess að þing­fundur var ekki haldin aftur fyrr en 21. febr­ú­ar.

Alls fóru fram 25 þing­fundir frá þeim degi og fram að páska­fríi, en að auki voru tveir dagar lagðir undir nefnd­ar­störf sam­kvæmt starfs­á­ætlun þings­ins. Páska­fríið stóð frá föstu­deg­inum 7. apríl og fram á mánu­dag­inn 24. apr­íl, þegar fyrsti þing­fundur að því loknu var hald­inn.

Fram að þing­frest­un, sem var 1. júní, voru 17 þing­fund­ar­dag­ar.

Yfir 100 daga sum­ar­frí frá þing­störfum

Sum­ar­fríið var svo ríf­legt. Þing var ekki sett aftur fyrr en 12. sept­em­ber, 103 dögum eftir að vor­þingi var slit­ið. Eld­hús­dags­um­ræður fóru fram kvöldið eftir og stóðu frá klukkan 19:30 til 22:07. Fimmtu­dag­inn 14. sept­em­ber var fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­innar lagt fram og fyrsta umræða um þau hófst. Skömmu eftir mið­nætti þann 15. sept­em­ber ákvað Björt fram­tíð að slíta sig frá rík­is­stjórn­ar­sam­starf­inu. Ástæðan var meint leyni­makk og trún­að­ar­brestur tveggja ráð­herra Sjálf­stæð­is­flokks­ins, Bjarna Bene­dikts­sonar og Sig­ríðar And­er­sen, sem flokks­menn Bjartar fram­tíðar töldu að hafi verið að hylma yfir með föður Bjarna og ganga erinda hans við að reyna að breiða yfir aðkomu hans að upp­reist æru dæmds barn­a­níð­ings.

Bjarni Benediktsson hélt blaðamannafund í Valhöll 15. september í kjölfar þess að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn.
Mynd: RÚV/Skjáskot

Áður en að rík­is­stjórnin sprakk náð­ist því að halda þrjá þing­fundi, þar af einn sem stóð í heilar tólf mín­útur og sner­ist að lang­mestu leyti um að raða þing­mönnum niður í sæti.

Á mánu­deg­inum eftir stjórn­ar­slitin var haldin tveggja mín­útna þing­fundur þar sem Bjarni Bene­dikts­son upp­fyllti það forms­at­riði að lesa upp for­seta­bréf um þing­rof og almennar kosn­ingar til Alþing­is, sem halda átti  28. októ­ber.

Átta dögum síð­ar, 26. sept­em­ber, voru síðan þing­fundir þar sem þau mál sem talið var knýj­andi að afgreiða voru afgreidd. Þann dag var fundað frá 13:30 og fram yfir mið­nætti.

Fund­ar­dagar gætu í mesta lagi orðið 71

Alþingi verður sett fimmtu­dag­inn 14. des­em­ber næst­kom­andi. Fjár­laga­frum­varp nýrrar rík­is­stjórnar verður venju sam­kvæmt fyrsta mál á dag­skrá og má búast við átökum um það. Ef fundað verður alla daga fram að Þor­láks­messu, líka um kom­andi helgi, munu þing­fund­ar­dagar verða níu tals­ins. Ef fundað verður á milli jóla og nýárs, að lok­inn jóla­há­tíð, munu lík­ast til þrír til fjórir dagar bæt­ast við.

Því liggur fyrir að þing­fundir hafa verið haldnir á 58 dögum það sem af er árinu 2017, og við bæt­ast að öllum lík­indum níu til þrettán dagar til við­bót­ar. Því verða þing­funda­dagar að hámarki 71 á árinu 2017. Til sam­an­burðar þá eru virkir dagar um 260 á ári. Venju­legur launa­maður gæti þurft að vinna í kringum 220 daga á ári þegar búið er að draga frá lög­bundna frí­daga og orlof hans, en án tek­ins til­lits til helga. Þing­fund­ar­dagar eru því vel tæp­lega þriðj­ungur af vinnu­dögum venju­legs launa­fólks. Vert er að taka fram að í starfi stjórn­mála­manna felst margt annað en að sitja þing­fundi. Þar ber helst að nefna nefnd­ar­störf í fasta­nefndum þings­ins og und­ir­bún­ing fyrir þing­fundi. Auk þess hafa þeir vit­an­lega þurft að und­ir­búa, og taka þátt í, kosn­inga­bar­áttu tví­vegis á einu ári.  

Skert starf­semi í fyrra líka

Það var nú reyndar ekki mjög mikið um þing­fund­ar­störf á síð­ari hluta árs­ins 2016 held­ur. Alþingi fór í frí 8. júní 2016 og fram til 15. ágúst sama ár, eða í rúma tvo mán­uði. Þingið starf­aði svo til 13. októ­ber þegar því var slitið vegna kosn­inga sem fram fóru í lok þess mán­að­ar.

Vegna þess að ekk­ert gekk að mynda rík­is­stjórn var þing kallað saman 6. des­em­ber til þess að hægt væri að afgreiða fjár­lög og önnur mál sem þurftu að kom­ast í gegn áður en að nýtt ár myndi hefj­ast. Því voru haldnir þing­fundir í sam­tals níu daga fram til 22. des­em­ber þegar þingi var slitið svo að þing­menn kæmust í jóla­frí. Það stóð, líkt og áður sagði, til 24. jan­úar 2017.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar