EPA

Af hverju eru allir að horfa á NFL?

Ofurskálin eða Super Bowl er í kvöld. New England Patriots mæta Philadelphia Eagles í Minnesota og búist er við því að venju samkvæmt muni hundruðir milljóna víðs vegar um heiminn horfa á bæði leikinn og hálfleiks sýninguna. En af hverju er þetta svona gríðarlega vinsæll viðburður og af hverju í ósköpunum eru svona margir farnir að fylgjast með amerískum fótbolta?

Ofurskálin eða Super Bowl er í kvöld. Þar mætast liðin New England Patriots og Philadelphia Eagles.

Um er að ræða einn vinsælasta sjónvarpsviðburð í heimi þar sem ríflega hundrað milljónir áhorfenda í Bandaríkjunum fylgjast með, ásamt umtalsvert fleirum um heim allan. Stöð 2 Sport sýnir leikinn á Íslandi og hefur gert undanfarin ár. Engar tölur um áhorf eru fáanlegar en leiða má að því líkum að fleiri og fleiri bætist við íslenska áhorfendahópinn á ári hverju ef marka má aukna þáttöku í umræðu um íþróttina á samfélagsmiðlum.

Þjóðaríþróttin

Ameríski fótboltinn er án efa þjóðaríþrótt Bandaríkjamanna. Hún nýtur fádæma vinsælda og til samanburðar má nefna að um 20,4 milljónir manna horfðu á úrslitaleik bandaríska körfuboltans í fyrra, sem er nokkurn veginn sama á horf og venjulegur sunnudagsleikur fær í NFL. Á úrslitaleik NFL í fyrra horfðu hins vegar 111 milljónir.

Rétt eins og í öðrum íþróttum byrja menn (kvennadeildir í amerískum fótbolta hafa náð afar takmörkuðum vinsældum) snemma að æfa.

Íþróttaiðkun í Bandaríkjunum yfirleitt er nokkuð frábrugðin því sem við þekkjum, en þar spila leikmenn iðulega fyrir skóla sína en ekki sérstök lið. High school fótboltinn er meðal vinsælustu íþróttanna meðal ungs fólks vestan hafs og mikið látið með leiki og leikmenn liðanna. Oft og tíðum eru sérstök pep rallies, einhvers konar stuðnings hátíðir, haldnar fyrir leiki, skólahljómsveitirnar spila, klappstýrur koma fram sem og ýmis lukkudýr ásamt öðru. Það er engin sérstök deild fyrir yngri iðkendur ameríska fótboltans og því eru keppnir milli skólaliðanna í raun grunnurinn að framhaldsiðkun leikmanna og oft kölluð þriðja stoð ameríska fótboltans í Bandaríkjunum, ásamt háskólaboltanum og sjálfri NFL deildinni.

Háskólarnir (colleges) fá til liðs við sig leikmenn sem bera af með því að bjóða þeim skólastyrki, stórar leikmannabúðir eru settar upp á háskólasvæðunum þar sem prufur eru haldnar áður en leikmenn eru ráðnir til liðs við skólana. Leikmenn eru prófaðir í 40 yarda sprettum, lipurð, stökkum, köstum og lyftingum af ýmsu tagi. Flestir háskólarnir ráða til sín líkmenn frá sínu landsvæði eða ríki, en hinir stærri leita að efnilegum leikmönnum á landsvísu og hafa innan sinna ráða útsendara sem fylgjast með leikjum alls staðar í Bandaríkjunum.

Háskóladeildinn, önnur stoð ameríska fótboltans, er rétt eins og NFL deildin gríðarlega vinsæl. Sums staðar í Bandaríkjunum meira að segja vinsælli en atvinnumannadeildin. Frammistaða leikmanna í háskólaboltanum hefur bein áhrif á möguleika þeirra til að verða atvinnumenn, en bestu leikmennirnir eru valdir formlega í svokölluðu „drafti“ eftir þrjú til fjögur ár í háskóla. Draftið er haldið á vorin þar sem 256 leikmenn eru valdir inn í NFL deildina af hverju og einu liði.

Háskólaboltinn, eins vinsæll og hann er, er ekki óumdeildur. Gríðarlegir fjármunir fara í deildina, en þó þannig að óheimilt er að greiða leikmönnum nokkur laun. Þess í stað fá þeir greitt í gegnum skólastyrki sem nýtast þeim í skólagjöld, húsnæði og bókakostnað. Í einhverjum tilfellum er það þannig að þjálfarar fótboltaliðanna fá hærri laun en skólastjórar skólanna, leikmenn fá ívilnandi meðferð við nám sitt sem og ef þeir gerast brotlegir við lög eða reglur skólanna. Þetta er þó alls ekki algilt og á helst við um stærri liðin. Raunin er þó sú að flest háskólaliðinn skiluðu til dæmis tapi árið 2014.

Patriots - hinn augljósi sigurvegari

New England Patriots er liðið til að vinna. Patriots hafa komist í Super Bowl tíu sinnum, mest allra liða. Þar af átta sinnum síðan núverandi þjálfari, Bill Belichick og leikstjórnandinn og súperstjarnan Tom Brady komu til liðs við liðið árið 2000. Liðið er það sigursælasta í sögu NFL, hafa fimmtán sinnum unnið AFC deildina frá 2001 og sett hvert metið á fætur öðru á síðustu árum. Liðið hefur fimm sinnum orðið Super Bowl meistarar, sem er jafn oft og San Francisco 49ers og Dallas Cowboys, en aðeins lið Pittsburg Steelers hefur sigrað oftar eða sex sinnum. Patriots gætu jafnað það í kvöld.

Þjálfarinn Bill Belichick, fullu nafni William Stephen Belichick, er stjarna í ameríska fótboltanum. Bill, sem er 65 ára gamall, er í rauninni bæði yfirþjálfari og framkvæmdastjóri Patriots. Hann hefur þjálfað í NFL deildinni frá árinu 1975, byrjaði hjá Baltimore Colts sem aðstoðarmaður þjálfara en varð fyrst yfirþjálfari hjá Cleveland Browns árið 1991.

Bill Belichick þjálfari New England Patriots. Mynd: EPA.Áður en hann varð yfirþjálfari hjá Patriots stoppaði hann stutt við í sama starfi hjá New York Jets, eða í aðeins tvo daga áður en hann færði sig yfir. Belichick er margverðlaunaður fyrir störf sín, slegið óteljandi met og hlotið margvíslega titla. Enginn hefur verið eins lengi í starfi yfirþjálfara.

En valdatíð Belichick hefur ekki gengið snuðrulaust fyrir sig. Tveir stórir skandalar standa upp úr á ferli þessa farsæla þjálfara. Annars vegar svo kallað „Spygate“ og hins vegar „Deflategate“.

Spygate

„Njósnamálið“ var stórmál árið 2007. Þá varð liðið uppvíst af því að taka upp á myndband merkin sem varnarþjálfarar New York Jets gáfu leikmönnum sínum í leik. Upptökur sem slíkar af þjálfurum annarra liða eru ekki óheimilar, en það eru aðeins sérstök svæði þar sem slíkt er leyft. Patriots hins vegar tóku myndböndin upp af hliðarlínunni sem er bannað. Belichick var persónulega sektaður um hálfa milljón Bandaríkjadala (sem er hæsta upphæð sem hægt er að sekta og hæsta upphæð sem þjálfari hefur nokkurn tímann verið sektaður um í sögu NFL) og Patriots liðið um 250 þúsund dali. Þá var liðið svipt rétti sínum til að velja leikmann í fyrstu umferð leikmannavalsins eða draftsins árið eftir.

Deflategate

Skandallinn sem líklegast ætti réttilega að heita lekamálið (sem því miður er frátekið), er Deflategate eða stóra boltamálið eins og Vísir nefndi það í umfjöllun sinni. Þar var liðið sektað um milljón Bandaríkjadala fyrir að hafa tekið loft úr keppnisboltum fyrir leik í úrslitakeppninni árið 2015. Þá var leikstjórnandinn Tom Brady settur í fjögurra leikja bann vegna vitneskju og þáttöku í málinu. Félagið missti einnig tvo valrétti, þar af annan þeirra í fyrstu umferð nýliðavalsins árið eftir. Um var að ræða undanúrslitaleik Patriots gegn Indianapolis Colts sem Patriots vann 45-7. Í skýrslu sem NFL lét vinna um málið var komist að þeirri niðurstöðu að Patriots hafi viljandi reynt að svindla með því að láta einstaklinginn sem sá um búnað félagsins taka loft úr boltunum eftir að dómararnir höfðu gengið úr skugga um að þeir væru löglegir. Minna loft í boltunum átti að auðvelda Tom Brady að ná betra gripi á boltanum.

En skandalarnir skyggja líklegast lítið á glæstan feril Belichick. Undir hans stjórn hefur liðið orðið eitt það agaðasta í sögu NFL. Gríðarleg áhersla er lögð á liðsandann, bæði innanvallar og utan, og þrátt fyrir að sportið í heild sinni sé eitthvert það strategískasta í heimi fyrir utan mögulega skákina, þá er Patriots liðið sérstaklega þekkt fyrir afar strategískan leik, þar sem mikil áhersla er lögð á undirbúning og endurtekningar, vinnusemi, fjölbreytni og að klippa út stór egó.

Uppselt hefur verið á hvern einasta heimaleik Patriots, sem spilar á Gillette vellinum rétt fyrir utan Boston, frá árinu 1994 og er liðið það þriðja verðmætasta í deildinni, á eftir Dallas Cowboys og Washington Redskins.

Brady - GOAT

Stærsta stjarna liðsins, og líklegast einhver farsælasti íþróttamaður sögunnar, er liðsstjórnandinn Tom Brady. Tom, sem heitir fullu nafni Thomas Edward Patrick Brady Junior, er fæddur árið 1977 og því 40 ára gamall. Enginn yfir fertugu hefur leitt lið sitt til sigurs í Super Bowl en það er aðeins eitt af fjölmörgum metum sem Brady getur slegið um helgina. Hann er nú þegar einn af aðeins tveimur leikmönnum sem hefur unnið fimm Super Bowl titla og gæti unnið sinn sjötta í kvöld.

Tom Brady. Mynd: EPABrady spilaði fyrir Háskólann í Michigan og var valinn til Patriots í sjöttu umferð nýliðavalsins árið 2000. Hann hefur fjórum sinnum verið valinn verðmætasti leikmaður Super Bowl, MVP, tvisvar sinnum verið MVP deildarinnar, á ýmis met í sendingu móttekinna sendinga, marksendinga og öðrum sérstökum frammistöðulegum þáttum.

Brady er ekki aðeins þekktur fyrir það sem hann gerir innanvallar. Hann er til að mynda giftur súpermódelinu Gisele Bündchen og á með henni tvö börn, og eitt til úr fyrra sambandi. Hann er mikið heilsugúrú og heldur úti vefsíðunni TB12Sports.com þar sem hann skýrir frá æfingaprógrammi sínu og selur varning. Þar á meðal sérstakt fæði en þau hjónin eru þekkt fyrir mjög strangt mataræði, sem samanstendur aðallega af hráfæði, veganinnihaldi og lífrænum vörum. Þau borða ekki heldur neitt glútein eða mjólkurvörur. Bók í þessum anda kom út í september í fyrra, The TB12 Method, og komst innan tveggja sólarhringa á toppstölulista Amazon.

Stjórnmálaskoðanir Brady hafa vakið töluverða eftirtekt. Brady var viðstaddur stefnuræðu þá forsetans George W. Bush árið 2004. Hann er einnig einhvers konar vinur núverandi forseta Donald Trump og hefur sagt frá því að þeir hafi verið vinir lengi. Trump sjálfur hélt því fram daginn fyrir kosningarnar árið 2016 að Brady hefði hringt í hann og lýst yfir stuðningi við hann. Gisele hins vegar þvertók fyrir það þegar hún varð spurð. Eftir að ljósmynd náðist af derhúfu með slagorði Trump úr kosningabaráttunni, „Make America Great Again“ í búningsklefa Brady sagði hann við fjölmiðla að Gisele hefði bannað honum að ræða um pólitík sem hann taldi vera góð hugmynd.

Eagles - undirhundarnir

Mótherjar Patriots í úrslitaleiknum á eftir eru Philadelphia Eagles. Ernirnir eiga einhverja sterkustu stuðningsmenn í deildinni og hafa selt upp á hvern einasta heimaleik frá árinu 1999. En þeir hafa hins vegar aldrei unnið Super Bowl.

Yfirþjálfarinn er Doug Pederson, sem er á engan hátt sama stjarna og kollegi hans Bill Belichick. Hann hefur starfað innan þjálfarateymis Eagles frá árinu 2005 en spilaði sjálfur með liðinu frá árinu 2001 til 2004. Sem leikmaður var hann lengst hjá Green Bay Packers, frá árinu 1995 til 1998 og síðan aftur frá 2001 til 2004, sem varaliðstjórnandi. Pederson var gerður að aðalþjálfara Eagles árið 2016.

Doug Pederson þjálfari Philadelphia Eagles. Mynd: EPAFyrsta tímabil Pederson með Örnunum gekk upp og ofan. Liðið vann fyrstu þrjá leiki sína en endaði með sjö leiki sigraða og níu sem töpuðust og komst ekki í umspil eða úrslit. Tímabilið 2017 gekk mun betur og endaði eins og gefur að skilja nú í sjálfum úrslitaleiknum.

Liðið vann 13 af 16 leikjum sínum og sló síðan Atlanta Falcons og Minnesota Vikings út í úrslitakeppninni á leið sinni í Super Bowl.

Leikstjórnandinn sem mun leiða liðið á eftir heitir Nick Foles. Foles þessi er áhugaverður. Eftir að hafa næstum því lagt skónna á hilluna til að gerast prestur var hann tekinn inn í liðið að nýju til þess að bakka aðalleikstjórnanndann Carson Wentz upp. Hann er því í raun varaliðsstjórnandi, en Eagles missti Wentz í krossbandaslit undir lok tímabilsins. 

Foles átti stórleik gegn Vikings í undanúrslitunum, þar sem hann átti þrjár snertimarkssendingar auk þess sem hlutfall heppnaðra sendinga var afar gott, 26 af 33. Hann kastaði alls 353 yarda í leiknum.

Greinendur á vefsíðu NFL deildarinnar segja að Foles sé lélegur undir pressu, og hún er sannarlega líkleg til að láta sjá sig á eftir, en er þó til alls líklegur og mjög óútreiknanlegur og því ómögulegt að afskrifa hann.

Verður þetta leikur?

Flestir búast við sigri Patriots. Og öll tölfræði bendir í þá átt. En það er síðan þessi x faktor í íþróttunum sem getur leitt til hvaða niðurstöðu sem er. Brady gæti átt slæman dag. Eagles gæti spilað umfram getu. Það getur alltaf allt gerst inn á vellinum.

Ernirnir hafa með undraverðum hætti tekið „undirhunda“ eða„ underdog“ hlutverk sitt í fangið. Fáir höfðu trú á þeim í úrslitakeppninni, en þar komu þeir, sáu og sigurðu - og notuðu nokkrir stuðningsmenn þeirra meira að segja grímur með andlitum þýskra fjárhunda til að undirstrika samlíkinguna.

Doug Pederson hefur sagst hafa verið undirhundur allan sinn starfsferil, allt sitt líf. „Allt sem ég hef gert, þá hef ég annað hvort ekki verið nógu góður eða eitthvað neikvætt hefur verið sagt eða skrifað um það. Og ég bara blæs á það. Ég hef trú á þessum strákum og þessu liði.“

Ernirnir eru að taka þessu persónulega. Þeir eru á heildina litið með sterkt lið sem ætti að geta skilað af sér góðu verki.

Talið er að besta tækifæri Eagles til að sigra Patriots sé með því að keyra á Brady. Að vörnin standi sína plikt og gefi honum ekki tækifæri til að kasta sínum ótrúlegu köstum á sóknarmennina sína. Það er hins vegar hægara sagt en gert, Brady stendur sig aldrei betur en undir álagi og helst þegar hann verður svolítið pirraður.

Vörnin hjá Örnunum er feiknasterk og hefðu þeir Wentz heilan til að spila leikinn væru þeir í töluvert betri málum. En hann er bara ekki til staðar og erfitt að segja til um hvernig Foles mun standa sig á stóra sviðinu. Svo stór hluti af örlögum leiksins munu ráðast á sekúntu ákvarðanatöku leikstjórnandanna tveggja - og þar stendur Patriots umtalsvert betur að vígi. Reynslan af stórleikjum eins og þessum getur einnig komið liðinu langt. Þeir hafa verið þarna áður og kunna það upp á 10. Þeir eru hins vegar ekki með neitt sérlega sterka vörn sem gæti komið sér vel fyrir Eagles.

Þeir Andri, Henry og Eiríkur Stefán spá í NFL spilin.
Mynd: Skjáskot.

Spekingar spá í spilin

Eins og fyrr segir verður Super Bowl leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Leikurinn sjálfur hefst klukkan 23.30 en upphitun hefst í beinni klukkan 22.00. Þáttastjórnandinn verður sem fyrr Andri Ólafsson, en honum til halds og trausts til að greina leikinn verða íþróttafréttamennirnir Eiríkur Stefán Ásgeirsson og Henry Birgir Gunnarsson. Hinn trausti og glettni íþróttafréttamaður, Tómas Þór Þórðarson, mun síðan sjá um að lýsa sjálfum leiknum.

Þeir félagarnir búast við góðum leik og skynja aukinn áhuga á íþróttinni hér á landi frá ári til árs.

„Maður sér það á umræðunni, til dæmis á Twitter,“ segir Eiríkur í samtali við Kjarnann. „Fólk er líklega að átta sig á því hversu ótrúlega skemmileg íþrótt þetta er. Það hefur þótt fráhrindandi hversu langar útsendingarnar eru með tíðum auglýsingahléum en fólk sem hefur sogast inn hefur ekki sloppið út aftur. Margir hafa kynnst íþróttinni í gegnum Fantasy-leikinn, sem er afar vinsæll á Íslandi, sem skemmir ekki fyrir,“ segir Eiríkur Stefán.

Andri spáir spennandi leik. Hann segir Super Bowl leikina undanfarin ár oftar en ekki hafa verið mjög spennadi, ekki síst þegar Patriots eru að spila, hvort sem liðið hefur tapað eða sigrað, þá sé spennustigið í leikjum þeirra almennt mjög hátt. „Það er það sem ég og allir aðdáendur íþróttarinnar vonumst eftir,“ segir Andri.

Hann bendir á að úrslitaleikirnir séu alltaf á allt öðru tempói eða hraða en venjulegir deildarleikir. Vegna auglýsinganna séu öll leikhlé helmingi lengri, öll leikstopp eru lengri og hálfleikurinn, þar sem Justin Timberlake mun koma fram ásamt fríðu föruneyti er tvöfalt lengri en í öðrum leikjum. „Leikurinn er því allt öðruvísi upp settur en maður á að venjast og það getur haft áhrif. Leikmennirnir koðna kannski niður í þessum löngu hléum og Patriots kunna þetta miklu betur.“

Sylvester Stallone lék bardagakappann frá Philadelphia, Rocky Balboa. Mynd: EPA.Andri segir að hvernig svo sem þetta fer þá verði niðurstaðan falleg. „Það að Patriots vinni, fari svo, er svo mikil undirstrikun á yfirburðum Brady-Belichick samstarfinu og að ná að kreista út enn einn Super Bowl sigurinn með ekki sterkari mannskap og Brady fertugan yrði mjög geggjað. Að sama skapi, ef að Eagles vinnur verður það ekkert síður fallegt. Ef að þessi fornfræga íþróttaborg nær loksins að vinna titilinn, gleymum ekki að Rocky kemur frá Philadelphiu, og það gegn Brady og Belichick, verður það virkilega skemmtilegt. Sama hvernig þetta fer þá verður það sögulegt og eitthvað sem allir íþrótta-rómantíkerar ættu að elska,“ segir Andri.

Ekki bara fótbolti heldur stemmningin

En það er ekki bara út af ást á leiknum sem svo margir heillast af íþróttinni, og ekki síst Super Bowl. Úrslitaleikurinn er ekki síður einhvers konar menningarviðburður. Leikurinn fer að þessu sinni fram á U.S. Bank Statium, heimavelli Minnesota Vikings, sem er nýjasti leikvangur deildarinnar - með glerþaki sem gerir það að verkum að völlurinn þolir hvers kyns veður og vinda.

Söngkonan Pink mun syngja bandaríska þjóðsögninn fyrir leikinn og hálfleiks sýningin verður í höndum Justin Timberlake. Timberlake hefur eins og flestir vita komið fram áður í hálfleikssýningu Super Bowl. Hálfleikssýningin árið 2004 var stjörnum hlaðin, ásamt Timberlake komu þau fram Kid Rock, Nelly, Jessica Simpson, P. Diddy og síðan Janet nokkur Jackson.

Við lok sýningar allra þessara listamanna reif Timberlake hluta af klæðnaði Jackson sem gerði það að verkum að geirvarta hennar sást. Óhætt er að segja að allt hafi orðið vitlaust, en CBS sjónvarpstöðin sem hafði sýningarréttinn var sektuð um rúma hálfa milljón Bandaríkjadala fyrir atvikið. Hæstiréttur Bandaríkjanna dró síðar sektina til baka.

Búast má við mikilli sýningu frá Timberlake á eftir en svo skemmtilega vill til að hann gaf einmitt út nýja plötu nú á föstudaginn, en hvort frammistaðan mun verða eins umdeild og síðast skal ósagt látið.

Auglýsingar ársins og djúpsteikt allt

Auglýsingatíminn sem seldur er í Bandaríkjunum yfir Super Bowl er sá allra dýrasti sem fyrirfinnst. Í aðsendri grein í Fréttablaðinu segir Björn Berg Gunnarsson fræðslustjóri Íslandsbanka og íþróttaspekúlant, frá því að 93 prósent áhorfenda segjast ræða auglýsingarnar sem birtast á skjánum yfir leiknum við félaga sína eftir leikinn. Talið er að greiða þurfu um hálfan milljarð króna fyrir hálfa mínútu í auglýsingatíma á meðan leiknum stendur. Björn áætlar að bandarískir fjölmiðlar hali inn um 40 milljörðum króna frá auglýsendum á þessum örfáu klukkustundum á eftir, sem er tæplega fjórum sinnum meira en nemur öllum auglýsingum á Íslandi, í öllum miðlum á heilu ári.

Björn segir að auki frá því að áætlað sé að fullorðnir íbúar Bandaríkjanna verji 8.200 krónum að meðaltali í neyslu á þessum degi, sem er 8,5 prósenta aukning frá síðasta ári og 72 prósenta aukning frá 2010. Yfir milljarður lítra bjórs skolar niður vængjum af 650 milljónum kjúklinga og kaloríurnar eru fleiri en á jóladag.

Andri segir Íslendingana sem fylgjast með NFL ekkert frábrugðna bandarískum félögum sínum að þessu leyti. „Ég fór í Costco í gær og sá bara ótrúlega margar innkaupakerrur fullar af amerísku ruslfæði og það er náttúrulega bara frábært. Það er svo mikill event í þessu og það skemmtilega við þetta er hvað fólk er duglegt að taka myndir og deila þeim með öðrum á Twitter. Og það er ákveðin kaldhæðni falin í því, ákveðin stemmning og líka ákveðin keppni. Menn vilja vera með almennilegar veitingar og það er að myndast skemmtileg hefð í þessu,“ segir Andri sem býst við fjörugri NFL umræðu undir myllumerkinu #NFLísland.

Enginn spekinga Stöðvar 2 Sport vildi spá fyrir um úrslitin, en allir gerðu þeir ráð fyrir skemmtilegum leik og góðu kvöldi yfir þessari þjóðaríþrótt að vestan!

Hvað er NFL?

Super Bowl er úrslitaleikurinn í NFL deildinni, National Football League, sem er aðaldeild ameríska fótboltans í Bandaríkjunum. Deildin samanstendur af 32 liðum, hvaðanæva úr landinu. Deildinni er skipt í tvær deildir, Ameríkudeildina AFC og Þjóðardeildina NFC.

Þessum tveimur deildum er síðan báðum skipt niður í fjóra riðla eftir höfuðáttunum þar sem fjögur lið eru í hverjum riðli. Hvert lið spilar 16 deildarleiki þar sem tólf lið, sex úr hvorri deild, AFC og NFC, komast í umspil, sem er útsláttarkeppni sem síðan endar í úrslitaleik sigurvegara hvorrar deildar, Super Bowl.

Leikurinn sjálfur er samtímis einfaldur og gríðarlega flókinn. Markmið leiksins er að skora sem flest stig með því að koma boltanum yfir marklínu andstæðingsins eða sparka honum milli markstanga við enda leikvallarins. Til að koma boltanum áfram upp völlinn er heimilt að kasta honum, hlaupa með hann eða rétta boltann áfram.

Hver leikur samanstendur af fjórum korters leikhlutum, með hálfleik eftir annan leikhluta og stutt hlé milli annarra fjórðunga. Leikklukkan er reyndar stöðvuð við ýmis tilefni í leiknum, til dæmis þegar leikmaður hleypur út af vellinum, ef sending ratar í jörðina en ekki fangið á leikmanni eða þegar lið tekur leikhlé. Þetta leiðir eðli málsins samkvæmt af sér töluvert lengri leik og geta leikir vel staðið yfir í meira en þrjá klukkutíma.

Völlurinn skiptist upp í 100 „yarda“.

Völlurinn skiptist upp þannig að við hvorn enda vallarins er marksvæði eða teigur, þangað sem leikmenn þurfa að komast til að skora mark. Á milli þessara svæða eru 100 „yardar“ (einn yard er tæpur metri að lengd, 0,914).

Í upphafi hverrar sóknar fær sóknarliðið 4 tilraunir til að koma boltanum áfram 10 yarda. Náist það byrja tilraunirnar upp á nýtt og reynir liðið þannig að vinna sig upp völlinn að markteig andstæðingsins. Takist ekki að komast þessa 10 yarda fær hitt liðið boltann. Yfirleitt nota liðin aðeins fyrstu þrjár tilraunirnar til að komast áfram en sú fjórða er þá notuð til að sparka boltanum (punta) áfram upp völlinn til þess að hitt liðið hefji sína sókn eins aftarlega og þannig langt frá markteignum og mögulegt er.

Mörk eru skoruð með svokölluðu snertimarki, eða touchdown þegar leikmaður hleypur með boltann inn í markteig andstæðinganna. Slíkt mark gefur sex stig. Hægt er að fá eitt aukastig með vallamarki sem fæst með því að spyrna boltanum í gegnum markstangirnar. Reyndar er líka hægt að sleppa þessu aukastigi en freista þess í staðinn að fá tvö stig, með því að hlaupa í einni tilraun inn í markteiginn og skora þannig annað snertimark.

Að auki er hægt að skora þriggja stiga vallarmark, en yfirleitt eru slík mörk skoruð ef lið er komið nægilega nálægt markstöngunum í fjórðu tilraun eða þegar lítill tími er eftir af leiknum.

Í hvoru liði eru 11 leikmenn inn á í einu. Hver leikmaður hefur mjög sérhæft hlutverk og liðin skipta leikmönnum sínum í þrjú lið, sóknarliðið, varnarliðið og sérhæfa liðið. Leyfilegt er að skipta leikmönnum inn og út eftir hverja sóknartilraun en alls geta 46 mismunandi leikmenn tekið þátt í einum og sama leiknum. Sérhæfðu liðin sjá til dæmis um vallarmörkin, upphafsspörk og spyrnur úr höndum leikmanna, puntin, en hlutverk sóknar- og varnarliðanna segja sig nokkurn veginn sjálf.

Bæði einfalt og virkilega flókið

Gríðarlega margar reglur og útfærslur sóknar- og varnarleikja eru í NFL. Hver leikmaður inni á vellinum hefur ákveðið hlutverk, sumir kasta, sumir verjast, aðrir hlaupa og ekki allir mega grípa. Dómararnir eru sjö, hver og einn með ákveðið hlutverk og eru þeir fyrirferðamiklir í hverjum leik. Þegar brot á sér stað kasta þeir upp litlu gulu flaggi og geta til dæmis fært liðin nær eða fjær markteignum. Dómararnir kveða upp dóma sína í hátalarakerfi svo áhorfendur heyra og skilja vel hvert brot og afleiðingarnar. Þá er notast við myndbandsupptökur af atvikum og má þjálfari hvers liðs kastað inn litlu rauðu flaggi, efist hann um niðurstöðu dómaranna, og er atvik þá skoðað sérstaklega á myndbandi.

Mesti og dýpsti skilningurinn á leiknum fæst hins vegar ekki með því að lesa reglurnar og ómenntaðar fréttaskýringar áhugamanna um leikinn, heldur einfaldlega með því að horfa reglulega á leikina og hlusta á lýsingar lýsenda.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnFanney Birna Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiErlent