Skýrar línur milli fylkinga í Reykjavík
Frjálslyndir og vinstri flokkar vilja starfa saman í Reykjavík. Fylgi þeirra mælist það sama nú og það var í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Tvær skýrar fylkingar virðast vera að myndast fyrir kjósendur til að velja á milli.
Það er að komast mynd á þær fylkingar sem takast munu á í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Líklegt er að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri verði leiðtogi annarrar og Eyþór Arnalds, sem sigraði í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokks nýverið, verður í fylkingarbrjósti hinnar. Flokkar þessara tveggja manna eru stærstu öflin í sitthvorri fylkingunni og því eðlilegt að álykta að annar hvor þeirra muni setjast í borgarstjórastólinn í byrjun sumars, að kosningum loknum.
Skilin milli fylkinganna hafa líkast til aldrei verið skýrari. Valkostir borgarbúa um hvernig þeir vilja að höfuðborgin þróist og hverjar áherslur verði við stjórn hennar eru enda mjög ólíkir.
Mjög ólíkar áherslur
Önnur fylkingin, sem samanstendur af frjálslyndum og vinstriflokkum, leggur áherslu á þéttingu byggðar, auknar almenningssamgöngur, styrkingu félagslega kerfisins og það sem gagnrýnendur kalla „gæluverkefni“. Slík eru til að mynda rekstur mannréttindaskrifstofu. Þar er litið á borgarþróun sem mjög víðfeðmt verkefni sem eigi að teygja sig inn í flesta anga tilveru þeirra sem í borginni búa. Og vilji er til þess að Reykjavíkurflugvöllur víki úr Vatnsmýrinni fyrir frekari uppbyggingu á verðmætasta byggingarlandi borgarinnar.
Hin fylkingin, sem samanstendur af íhaldssamari flokkum og nýjum flokkum sem náðu inn á þing í síðustu þingkosningum, leggur áherslu á betra umferðarflæði þar sem einkabíllinn er í fyrirrúmi, byggingu stórtækra umferðarmannvirkja á borð við mislæg gatnamót, frekari uppbyggingu í útjaðri borgarinnar, lækkun skulda og skatta og betri umhirðu. Þar er algjör andstaða við það að Reykjavíkurflugvöllur víki og Borgarlínuverkefnið er verulega tortryggt. Henni finnst að megináherslan eigi að vera á að bæta grunnþjónustu á borð við dagvistun og að borgin eigi ekkert með að vera að beita sér í fínni blæbrigðum stjórnmálasviðsins.
Fyrri fylkingunni tilheyra Samfylking, Píratar, Viðreisn, Björt framtíð og Vinstri græn. Viðmælendur Kjarnans innan allra þessara flokka segja að litlar sem engar líkur séu að þeir muni starfa með flokkum utan þessarar fylkingar að loknum kosningum í ljósi djúpstæðs málefnaágreinings.
Hinni síðari tilheyra Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins.
Kjósendur í Reykjavík hegða sér öðruvísi
Kjósendur í Reykjavík hafa tilhneigingu til að kjósa með allt öðrum hætti en kjósendur í öðrum kjördæmum landsins. Í höfuðborginni hafa félagshyggjuöfl verið í meirihluta í borgarstjórn frá árinu 1994, ef hluti kjörtímabilsins 2006-2010, þegar fjórir mismunandi meirihlutar sátu að völdum, er undanskilið. Í síðustu Alþingiskosningum náðu vinstri menn og frjálslynd öfl (Vinstri græn, Samfylking, Viðreisn og Píratar) nokkuð góðum meirihluta atkvæða í báðum Reykjavíkurkjördæmunum á meðan að flokkarnir fjórir voru saman langt frá því í hinum kjördæmunum sex.
Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins og sá sem oftast er við stjórnvölinn hérlendis, fær líka mun minna hlutfall atkvæða í Reykjavíkurkjördæmunum en hann fær í öðrum kjördæmum. Sömu sögu er að segja með Framsóknarflokk og Miðflokk. Samanlagt fengu þessir þrír flokkar 46,8 prósent atkvæða í síðustu alþingiskosningum á landsvísu. Í Reykjavíkurkjördæmi Suður fengu þeir hins vegar 38,5 prósent og í Norður einungis 34,5 prósent.
Sama staða og fyrir fjórum árum
Í sveitarstjórnarkosningunum 2014 náðu þeir flokkar sem nú mynda meirihluta í Reykjavík: Samfylking, Píratar, Björt framtíð og Vinstri græn, samtals 61,7 prósent atkvæða.
Í könnun sem Viðskiptablaðið gerði sumarið 2017 kom í ljós að sömu flokkar myndu fá 61,4 prósent atkvæða ef kosið yrði þá. Viðskiptablaðið birti síðan niðurstöðu nýrrar könnunar í vikunni sem var að líða. Þar kom fram að ofangreindir flokkar, að viðbættri Viðreisn sem mun bjóða fram stefnuskrá sem rímar í meginatriðum algjörlega við stefnu núverandi meirihluta, mælist með 61,1 prósent fylgi. Gera má ráð fyrir því að Viðreisn muni einfaldlega taka stöðu Bjartrar framtíðar í stjórnmálamynstri höfuðborgarinnar.
Staða frjálslyndu aflanna og Vinstri grænna er því sú sama nú, þegar um þrír og hálfur mánuður eru til kosninga, og hún var þegar síðast var kosið í borgarstjórn.
Staða hinna flokkanna sem líklegir eru til að blanda sér í baráttu um sæti í borgarstjórn: Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Miðflokks og Flokks fólksins, er þannig að 37,9 prósent aðspurðra ætlar að kjósa þá.
Í ljósi þess að borgarfulltrúum mun fjölga í 23 eftir næstu kosningar er staðan nú þannig að meirihlutinn að viðbættri Viðreisn fengi 14 borgarfulltrúa en minnihlutinn og flokkar sem eru líklegir í samstarf með honum níu.
Fylgið mun án efa færast til á næstu vikum og mánuðum. Nú um stundir er verið að tilkynna inn oddvita hvers flokksins á fætur öðrum. Og fróðlegt verður að sjá hvort einhverjum flokkum innan fylkinganna tveggja takist að teygja sig eftir fylgi utan þeirra. Fátt virðist þó benda til þess að það sé líklegt, miðað við stöðuna í könnunum á undanförnum árum og kosningahegðun íslenskra kjósenda. Frekar virðist líklegt að aukið fylgi Miðflokks eða Framsóknarflokks verði til þess að fylgi Sjálfstæðisflokks myndi dala. Og aukið fylgi Viðreisnar eða Vinstri grænna bitna á Samfylkingu, svo dæmi séu tekin.