Mynd: Samsett

Skýrar línur milli fylkinga í Reykjavík

Frjálslyndir og vinstri flokkar vilja starfa saman í Reykjavík. Fylgi þeirra mælist það sama nú og það var í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Tvær skýrar fylkingar virðast vera að myndast fyrir kjósendur til að velja á milli.

Það er að kom­ast mynd á þær fylk­ingar sem takast munu á í Reykja­vík í kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um. Lík­legt er að Dagur B. Egg­erts­son borg­ar­stjóri verði leið­togi ann­arrar og Eyþór Arn­alds, sem sigr­aði í leið­toga­kjöri Sjálf­stæð­is­flokks nýver­ið, verður í fylk­ing­ar­brjósti hinn­ar. Flokkar þess­ara tveggja manna eru stærstu öflin í sitt­hvorri fylk­ing­unni og því eðli­legt að álykta að annar hvor þeirra muni setj­ast í borg­ar­stjóra­stól­inn í byrjun sum­ars, að kosn­ingum lokn­um.

Skilin milli fylk­ing­anna hafa lík­ast til aldrei verið skýr­ari. Val­kostir borg­ar­búa um hvernig þeir vilja að höf­uð­borgin þró­ist og hverjar áherslur verði við stjórn hennar eru enda mjög ólík­ir.

Mjög ólíkar áherslur

Önnur fylk­ing­in, sem sam­anstendur af frjáls­lyndum og vinstri­flokk­um, leggur áherslu á þétt­ingu byggð­ar, auknar almenn­ings­sam­göng­ur, styrk­ingu félags­lega kerf­is­ins og það sem gagn­rýnendur kalla „gælu­verk­efn­i“. Slík eru til að mynda rekstur mann­rétt­inda­skrif­stofu. Þar er litið á borg­ar­þróun sem mjög víð­feðmt verk­efni sem eigi að teygja sig inn í flesta anga til­veru þeirra sem í borg­inni búa. Og vilji er til þess að Reykja­vík­ur­flug­völlur víki úr Vatns­mýr­inni fyrir frek­ari upp­bygg­ingu á verð­mætasta bygg­ing­ar­landi borg­ar­inn­ar.

Hin fylk­ing­in, sem sam­anstendur af íhalds­sam­ari flokkum og nýjum flokkum sem náðu inn á þing í síð­ustu þing­kosn­ing­um, leggur áherslu á betra umferð­ar­flæði þar sem einka­bíll­inn er í fyr­ir­rúmi, bygg­ingu stór­tækra umferð­ar­mann­virkja á borð við mis­læg gatna­mót, frek­ari upp­bygg­ingu í útjaðri borg­ar­inn­ar, lækkun skulda og skatta og betri umhirðu. Þar er algjör and­staða við það að Reykja­vík­ur­flug­völlur víki og Borg­ar­línu­verk­efnið er veru­lega tor­tryggt. Henni finnst að meg­in­á­herslan eigi að vera á að bæta grunn­þjón­ustu á borð við dag­vistun og að borgin eigi ekk­ert með að vera að beita sér í fínni blæ­brigðum stjórn­mála­sviðs­ins.

Fyrri fylk­ing­unni til­heyra Sam­fylk­ing, Pírat­ar, Við­reisn, Björt fram­tíð og Vinstri græn. Við­mæl­endur Kjarn­ans innan allra þess­ara flokka segja að litlar sem engar líkur séu að þeir muni starfa með flokkum utan þess­arar fylk­ingar að loknum kosn­ingum í ljósi djúp­stæðs mál­efna­á­grein­ings.

Hinni síð­ari til­heyra Sjálf­stæð­is­flokk­ur, Fram­sókn­ar­flokk­ur, Mið­flokkur og Flokkur fólks­ins.

Kjós­endur í Reykja­vík hegða sér öðru­vísi

Kjós­endur í Reykja­vík hafa til­hneig­ingu til að kjósa með allt öðrum hætti en kjós­endur í öðrum kjör­dæmum lands­ins. Í höf­uð­borg­inni hafa félags­hyggju­öfl verið í meiri­hluta í borg­ar­stjórn frá árinu 1994, ef hluti kjör­tíma­bils­ins 2006-2010, þegar fjórir mis­mun­andi meiri­hlutar sátu að völd­um, er und­an­skil­ið. Í síð­­­ustu Alþing­is­­kosn­­ingum náðu vinstri menn og frjáls­­lynd öfl (Vinstri græn, Sam­­fylk­ing, Við­reisn og Pírat­­ar) nokkuð góðum meiri­hluta atkvæða í báðum Reykja­vík­­­ur­­kjör­­dæm­unum á meðan að flokk­­arnir fjórir voru saman langt frá því í hinum kjör­­dæm­unum sex.

Vigdís Hauksdóttir er borgarstjóraefni Miðflokksins.
Mynd: Anton Brink

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, stærsti flokkur lands­ins og sá sem oft­ast er við stjórn­völ­inn hér­lend­is, fær líka mun minna hlut­fall atkvæða í Reykja­vík­ur­kjör­dæm­unum en hann fær í öðrum kjör­dæm­um. Sömu sögu er að segja með Fram­sókn­ar­flokk og Mið­flokk. Sam­an­lagt fengu þessir þrír flokkar 46,8 pró­sent atkvæða í síð­ustu alþing­is­kosn­ingum á lands­vísu. Í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi Suður fengu þeir hins vegar 38,5 pró­sent og í Norður ein­ungis 34,5 pró­sent.

Sama staða og fyrir fjórum árum

Í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum 2014 náðu þeir flokkar sem nú mynda meiri­hluta í Reykja­vík: Sam­fylk­ing, Pírat­ar, Björt fram­tíð og Vinstri græn, sam­tals 61,7 pró­sent atkvæða.

Í könnun sem Við­skipta­blaðið gerði sum­arið 2017 kom í ljós að sömu flokkar myndu fá 61,4 pró­sent atkvæða ef kosið yrði þá. Við­skipta­blaðið birti síðan nið­ur­stöðu nýrrar könn­unar í vik­unni sem var að líða. Þar kom fram að ofan­greindir flokk­ar, að við­bættri Við­reisn sem mun bjóða fram stefnu­skrá sem rímar í meg­in­at­riðum algjör­lega við stefnu núver­andi meiri­hluta, mælist með 61,1 pró­sent fylgi. Gera má ráð fyrir því að Við­reisn muni ein­fald­lega taka stöðu Bjartrar fram­tíðar í stjórn­mála­mynstri höf­uð­borg­ar­inn­ar.

Staða frjáls­lyndu afl­anna og Vinstri grænna er því sú sama nú, þegar um þrír og hálfur mán­uður eru til kosn­inga, og hún var þegar síð­ast var kosið í borg­ar­stjórn.

Staða hinna flokk­anna sem lík­legir eru til að blanda sér í bar­áttu um sæti í borg­ar­stjórn: Sjálf­stæð­is­flokks, Fram­sókn­ar­flokks, Mið­flokks og Flokks fólks­ins, er þannig að 37,9 pró­sent aðspurðra ætlar að kjósa þá.

Í ljósi þess að borg­ar­full­trúum mun fjölga í 23 eftir næstu kosn­ingar er staðan nú þannig að meiri­hlut­inn að við­bættri Við­reisn fengi 14 borg­ar­full­trúa en minni­hlut­inn og flokkar sem eru lík­legir í sam­starf með honum níu.

Fylgið mun án efa fær­ast til á næstu vikum og mán­uð­um. Nú um stundir er verið að til­kynna inn odd­vita hvers flokks­ins á fætur öðr­um. Og fróð­legt verður að sjá hvort ein­hverjum flokkum innan fylk­ing­anna tveggja tak­ist að teygja sig eftir fylgi utan þeirra. Fátt virð­ist þó benda til þess að það sé lík­legt, miðað við stöð­una í könn­unum á und­an­förnum árum og kosn­inga­hegðun íslenskra kjós­enda. Frekar virð­ist lík­legt að aukið fylgi Mið­flokks eða Fram­sókn­ar­flokks verði til þess að fylgi Sjálf­stæð­is­flokks myndi dala. Og aukið fylgi Við­reisnar eða Vinstri grænna bitna á Sam­fylk­ingu, svo dæmi séu tek­in.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar