Root

Enn beðið eftir upplýsingum um hver á Dekhill Advisors

Skattrannsóknarstjóri hefur enn ekki fengið upplýsingar frá Sviss um aflandsfélagið Dekhill Advisors, sem fékk milljarða króna í fléttu sem ofin var í kringum sölu ríkisins á Búnaðarbankanum árið 2003. Enn er á huldu hver á Dekhill Advisors.

Emb­ætti skatt­rann­sókn­ar­stjóra bíður enn eftir upp­lýs­ingum frá sviss­neskum yfir­völdum um aflands­fé­lagið Dek­hill Advis­ors Limited, skráð á Bresku Jóm­frú­areyj­un­um.

Í skýrslu rann­sókn­ar­nefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Auf­häuser að kaup­unum á 45,8 pró­­sent hlut í Bún­­að­­ar­­bank­­anum í jan­úar 2003, sem birt var í fyrra, kom fram að aflands­fé­lagið Dek­hill Advis­ors Limited, skráð á Tortóla, hafi hagn­ast um 46,5 millj­ónir Banda­ríkja­dala, 2,9 millj­arða króna á þávirði, á fléttu sem ofin var í kringum kaupin á bank­an­um. Á núvirði er upp­hæðin um 4,7 millj­arðar króna.

Nið­ur­stöður rann­sókn­ar­innar sýndu að ítar­leg gögn styðji að Hauck & Auf­häuser, Kaup­­þing hf. á Íslandi, Kaupt­hing Bank Lux­em­bo­urg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafs­­sonar fjár­­­festis hafi not­að leyn­i­­lega samn­inga til að fela raun­veru­­legt eign­­ar­hald þess hlutar sem Hauck & Auf­häuser átti í Bún­­að­­ar­­bank­­anum í orði kveðnu.  

Rann­sókn­ar­nefndin komst ekki að því hver væri eig­andi Dek­hill Advis­ors með óyggj­andi hætti né hverjir hafi haft aðgang að þeim fjár­munum sem fóru til félags­ins í gegnum bak­samn­inga. Nefndin ályktaði hins vegar að aðilar tengdir Kaup­þingi hafi verið eig­endur þess.

Dek­hill er virkt félag

Kjarn­inn greindi frá því í maí 2017 að Dek­hill Advis­ors væri virkt félag. Í des­em­ber 2009 gerði félagið hand­veðs­samn­ing við sviss­neska bank­ann Julius Bäer vegna fjár­mála­gjörn­ings sem það var að taka þátt í. Gögn sem Kjarn­inn hefur undir höndum sýna þetta. Þau gögn inni­héldu einnig skjal sem stað­festi að Dek­hill Advis­ors var enn til og í virkni í lok sept­em­ber 2016.

Það er því skýrt að ein­hverjir hafa haft aðgang að og notað fjár­mun­ina sem greiddir voru inn í Dek­hill Advis­ors í jan­úar 2006, á árunum eftir hrun. Og félagið var enn í starf­semi haustið 2016.

Mögu­legt er að þeir fjár­munir sem runnu til Dek­hill Advis­ors hafi átt að skatt­leggj­ast hér­lend­is. Þess vegna er emb­ætti skatt­rann­sókn­ar­stjóra að rann­saka mál­efni félags­ins.

Sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá emb­ætti skatt­rann­sókn­ar­stjóra óskaði það eftir upp­lýs­ingum og gögnum  frá sviss­neskum yfir­völdum í júní á síð­asta ári um Dek­hill Advis­ors. Eftir þeim gögnum er enn beðið nú, tæpum níu mán­uðum síð­ar. Þær upp­lýs­ingar og gögn eru, að sögn skatt­rann­sókn­ar­stjóra,  nauð­syn­leg til að geta tekið ákvörðun um næstu skref.

Kerfið í Sviss virkar þannig að sá aðili sem beiðnin varð­ar, í þessu til­felli bank­inn Julius Bäer, getur mót­mælt henni. Þá tekur við ferli þar sem úr þeim ágrein­ingi er skor­ið. Í því ferli er beiðni skatt­rann­sókn­ar­stjóra sem stend­ur. Í svari emb­ætt­is­ins segir að sviss­nesk yfir­völd hafi reglu­lega upp­lýst skatt­rann­sókn­ar­stjóra um stöðu mála en beðið sé nið­ur­stöðu.

Sagðir hafa blekkt stjórn­völd og almenn­ing

Í mars 2017 var birt skýrsla rann­sókn­ar­nefndar um aðkomu þýska bank­ans Hauck & Auf­häuser að kaupum á 45,8 pró­sent hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­an­um. Í henni var opin­berað að stjórn­völd, fjöl­miðlar og almenn­ingur hafi verið blekkt til að halda að þýski bank­inn hafi raun­veru­lega verið að kaupa hlut í Bún­að­ar­bank­anum fyrir eigin reikn­ing. Svo var ekki.

Ólafur Ólafsson átti annað félagið sem hagnaðist á baksamningum sem gerðir voru vegna kaupanna á Búnaðarbankanum. Eigendur hins félagsins hafa aldrei verið opinberaðir.
Mynd: söluferli.is

Með vísun í ítar­leg gögn sýndi rann­sókn­ar­nefndin fram á að íslenski bank­inn Kaup­þing, sem sam­ein­að­ist Bún­að­ar­bank­anum skömmu eftir söl­una, hafi fjár­magnað kaup HauckAuf­häuser að hluta í bank­anum að fullu, að baki lágu bak­samn­ingar sem tryggðu Hauck & Auf­häuser fullt skað­leysi, þókn­ana­tekjur upp á eina milljón evra fyrir að leppa og sölu­rétt á hlutnum eftir að þýski lepp­bank­inn var búinn að halda á honum í tæp tvö ár.

Til við­bótar lá fyrir í flétt­unni, sem var kölluð „Puffin“ (sem þýðir lundi á íslensku), að hagn­aður sem gæti skap­ast hjá réttum eig­enda hlut­ar­ins, aflands­fé­lags­ins Well­ing & Partners á Bresku Jóm­frú­areyj­un­um, myndi renna til tveggja aflands­fé­laga, skráð á sama stað, sem áttu það félag. Annað þeirra aflands­fé­laga var Mar­ine Choice Limited, í eigu Ólafs Ólafs­son­ar. Hann hagn­að­ist um 3,8 millj­arða króna á flétt­unni.

Hitt félag­ið, Dek­hill Advis­ors, hagn­að­ist um 2,9 millj­arða króna á „Puffin“ verk­efn­inu og fékk þá fjár­muni greidda inn á reikn­ing sinn á árinu 2006. Á núvirði er sam­eig­in­legur hagn­aður félag­anna tveggja um 11 millj­arðar króna.

Spurn­ing­unni sem var ekki svarað

Þau gögn sem rann­sókn­ar­nefndin var með undir höndum í vinnu sinni sýndu ekki fram á það með óyggj­andi hætti hver eig­andi, eða eig­end­ur, Dek­hill Advis­ors, væru. Þau sýndu heldur ekki hvort ein­hverjir aðrir en skráðir eig­endur félags­ins væru með aðgang að þeim fjár­munum sem runnu inn í það.

Rann­sókn­ar­nefndin ályktaði að aðilar tengdir Kaup­þingi hafi verið eig­endur þess. Þar er átt við að mögu­lega hafi stjórn­endur Kaup­þings átt það, eða að minnsta kosti notið þeirra fjár­muna sem flæddu inn í félag­ið. En það hefur líka öðrum mögu­leikum verið velt upp. Í samn­ings­drögum sem birt eru í skýrsl­unni kom á einum tíma til greina að Ágúst og Lýður Guð­munds­synir myndu eiga hlut í Well­ing & Partners.

Kjartan Bjarni Björgvinsson og Finnur Vilhjálmsson rannsökuðu söluna á Búnaðarbankanum og opinberuðu „Lundafléttuna“.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Allir þeir sem komu að „Lunda­flétt­unni“ og voru kall­aðir fyrir rann­sókn­ar­nefnd­ina gátu ekki svarað því hverjir eig­endur Dek­hill væru. Þeim var síðan sent bréf frá nefnd­inni þann 13. mars þar sem þeim bauðst að svara spurn­ingum nefnd­ar­innar í ljósi þeirra gagna sem hún hafði aflað sér og þeirrar nið­ur­stöðu sem hún hafði kom­ist að. Svörin bár­ust flest 20. og 21. mars en skýrsla nefnd­ar­innar var ekki birt fyrr en 29. mars.

Hreiðar Már Sig­urðs­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaup­þings, sagði í svar­bréfi sínu við spurn­ingum nefnd­ar­innar að hann teldi „óhætt að full­yrða að ég hafi aldrei heyrt minnst á félagið Dek­hill Advis­ors Limited fyrr en í bréfi nefnd­ar­inn­ar“. Ólafur Ólafs­son sagð­ist í svar­bréfi sínu til nefnd­ar­innar ekki minn­ast þess „að hafa heyrt minnst á félagið Dek­hillA­dvis­ors Limited.“ Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­for­maður Kaup­þings, sagð­ist í sínu bréfi ekki geta „að­stoðað nefnd­ina við að svara þeim spurn­ingum sem að mér er bein­t“. Bræð­urnir Ágúst og Lýður sögðu í sam­hljóma svar­bréfum að þeim reki ekki minni til þeirra atriða sem nefnd voru í bréfi rann­sókn­ar­nefnd­ar­inn­ar.

Finnur Ing­ólfs­son, fyrr­ver­andi vara­for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, for­stjóri VÍS, ráð­herra og seðla­banka­stjóri, var hluti af S-hópn­um. Hann sendi frá sér yfir­lýs­ingu 31. mars þar sem hann sagði að „hvorki ég né nokkur sem mér teng­ist er eig­andi að félag­inu Dek­hill Advis­ors“.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar