Litríkur og fjölhæfur Frakki látinn

Henrik prins, eiginmaður Margrétar Þórhildar Danadrottningar lést í síðustu viku, að kvöldi13. febrúar. Prinsinn hafði glímt við veikindi og var í skyndi fluttur heim til Danmerkur frá Egyptalandi í lok janúar. Hann var alla tíð umdeildur.

danmork drottningarmaður henrik
Auglýsing

Dreng­ur­inn sem síðar fékk nafnið Henri Marie Jean André (greve de Laborde de Mon­pezat) fædd­ist í Frakk­landi 11. júní 1934. Hann ólst upp í Frakk­landi og franska Indókína (La­os, Kambodíu og Víetna­m). For­eldr­arnir voru efna­fólk með fyr­ir­tækja­rekstur í Frakk­landi og Asíu. Henri lauk her­skyldu, eins og lög gerðu ráð fyr­ir, lagði stund á píanó­nám en ákvað svo að fara aðra leið og  lauk magister­prófi í frönskum bók­menntum og asískum tungu­mál­um.

Ára­tugum síðar rifj­aði Henri (eða Hen­rik á dönsku) upp í við­tali að þegar hann var  í Asíu árið 1958, löngu áður en hann kynnt­ist Mar­gréti Þór­hildi, fór hann ásamt vin­konu sinni til kín­versks spá­manns. Spá­mað­ur­inn sagði Henri að hann myndi gift­ast konu sem byggi langt í burtu og ,,líf þitt verður spenn­andi, fullt af ýmsum hindr­unum og erf­ið­leik­um. Þú verður þekkt­ur, og rík­ur, og eyðir ævinni að mestu í landi umkringdu vatni, eyju.“ Vin­kon­unni þótti lítið til spá­manns­ins koma en þegar litið er til baka hitti spá­mað­ur­inn  naglann á höf­uð­ið.

Kvöld­verð­ar­boðið

Árið 1964 var Henri boðið til kvöld­verðar í London en hann var þá fyrir skömmu orð­inn starfs­maður franska sendi­ráðs­ins þar. Í þessu kvöld­verð­ar­boði sat hann við hlið ungrar konu, sem hann þekkti ekki,  Þau spjöll­uðu um heima og geima, einkum um listir og bók­mennt­ir.    ,,Okkur skorti ekki umræðu­efni en þegar þessi geð­þekka unga kona sagði mér að hún væri rík­is­arfi Dan­merkur brá mér nú aðeins“ sagði Henri í við­tali árið 2000. Skömmu síðar hitt­ust þau aftur og „svo kom Amor með örv­arn­ar“.

Auglýsing

Ham­ingjan hjálpi okk­ur, hann er franskur!

Í ausandi rign­ingu haustið 1966 sett­ist ung kona undir stýri á Volvo Amazon bif­reið og ók sem leið lá frá Amali­en­borg í Kaup­manna­höfn út á Kastrup flug­völl. Þetta var stuttur bílt­úr, ein­ungis átta kíló­metrar en hjartað í brjósti bíl­stjór­ans sló ótt og títt. Mar­grét Þór­hildur var að sækja unnust­ann sem var að koma í fyrsta sinn til Kaup­manna­hafn­ar. Hann var enn við störf í London en hafði fengið nokk­urra daga leyfi til að heim­sækja unnust­una. Dönsku blöðin komust á snoðir um heim­sókn­ina og grófu næstu daga upp allt sem þeim var unnt um þennan til­von­andi maka rík­is­arfans. Eitt blað­anna greindi frá því að þegar blaða­maður greindi gömlum konum sem sátu á bekk í miðbæ Kaup­manna­hafnar frá því að unnusti rík­is­arfans væri í borg­inni, og hann væri franskur, slógu gömlu kon­urnar sér á lær og sögðu ,,Gud bevare Dan­mark“. Nýárs­ræður drottn­ingar enda reyndar ætíð á þessum orðum en það er önnur saga! ,,Ætli hann sé ótta­legt snobb, þekkir örugg­lega ekki rúg­brauð og vill þrjár teg­undir af osti með krít­hvítum frönskum rúnn­stykkj­um“ sögðu gömlu kon­urnar á bekkn­um. Þær vissu ekki, og kannski jafn­gott, að unnusti rík­is­arfans myndi síðar iðu­lega klæð­ast rauðum bux­um, blárri skyrtu og gulum eða grænum jakka.

Hlust­aði ekki á pabba

Mar­grét Þór­hildur og Henri voru gefin saman í Hólms­ins kirkju í Kaup­manna­höfn 10. júní 1967. Henri tók þá upp danska nafnið Hen­rik og var jafn­framt kall­aður prins. Hen­rik sagði í við­tölum að sér væri mjög vel ljóst hlut­skipti sitt, sem maka rík­is­arfans og hann sætti sig fylli­lega við það. Það gerði hann líka fyrst í stað, en það átti eftir að breyt­ast.

Þegar Hen­rik greindi for­eldrum sínum frá fyr­ir­hug­uðum ráða­hag, að hann ætl­aði að kvæn­ast rík­is­arfa Dan­merk­ur, sagði faðir hans að hann yrði strax að fá á hreint hvaða skyldum honum væri ætlað að gegna og hvert hlut­verk hans yrði. Hen­rik þótti þetta óþarfa áhyggjur en sá síðar að hann hefði betur hlust­að, og tekið mark á, orðum föður síns. Danska hirðin vissi ekk­ert hvaða störf og verk­efni ætti að fela þessum nýja tengda­syni þjóð­ar­inn­ar, hann fékk litla skrif­stofu í höll­inni, síma, skrif­færi og rit­ara sem fyrst í stað hafði engin verk­efni, frekar en prins­inn. Þau Mar­grét Þór­hildur og Hen­rik eign­uð­ust tvo syni, krón­prins­inn Frið­rik árið 1968 og Jóakim ári síð­ar.

14. jan­úar 1972

Frið­rik IX kon­ungur lést aðfara­nótt 14. jan­úar 1972 og að morgni sama dags var Mar­grét Þór­hildur form­lega útnefnd þjóð­höfð­ingi Dana. Mar­grét Þór­hildur hafði skyndi­lega í mörg horn að líta, og Hen­rik fylgdi með, ætíð tveimur skrefum fyrir aftan eig­in­kon­una (sam­kvæmt hans eigin lýs­ing­u). Þessar skyldur tóku sinn tíma, en önnur verk­efni hafði Hen­rik ekki. Hann sagði síðar að hann hefði gjarna viljað verja meiri tíma með drengj­unum meðan þeir voru litlir en hann reyndi að bæta það upp með barna­börn­un­um. Syn­irnir eiga fjögur börn hvor.

Prinsa- og prinsessu­kraða­kið  

Þegar Hen­rik fékk tit­il­inn prins var hann einn um þann tit­il. Það fjölg­aði í hópnum þegar syn­irnir fæddust, krón­prins­inn Frið­riki og Jóakim prins. Síð­ar, þegar barna­börnin komu til sög­unnar bætt­ust við fleiri prinsar og einnig prinsess­ur. Mar­grét Þór­hildur og Hen­rik ákváðu þá að hann skyldi fram­veg­is, til aðgrein­ing­ar, bera tit­il­inn prins­gemal, drottn­ing­ar­mað­ur. Hen­rik var reyndar ósáttur við að vera ekki titl­aður kóng­ur, segir það ekki jafn­rétti og vísar þá til þess að Mary, eig­in­kona Frið­riks verði drottn­ing þegar Frið­rik tekur við krún­unni. Danska stjórn­ar­skráin leyfir hins­vegar ekki að kóngur sé lægra settur en drottn­ing og nöldrið í Hen­rik breytti engu þar um.

Kom víða við

Eins og áður sagði tók það Hen­rik nokkurn tíma að ,,f­inna fjöl­ina“. Þegar litið er yfir ævi hans og störf sést að hann hefur víða komið við og feng­ist við fjöl­breytt verk­efni. Árið 1974 keyptu þau hjónin vín­bú­garð­inn Chateau de Cayx í Suð­ur- Frakk­landi, skammt frá æsku­heim­ili Hen­riks. Þar hafði verið fram­leitt miðl­ungs­vín en Hen­rik stefndi mark­visst að því að fram­leiða gæða­vín og á síð­ustu árum hefur vínið frá Cayx unnið til verð­launa og hlotið við­ur­kenn­ing­ar. Drottn­ingin hefur iðu­lega dvalið á búgarð­inum á sumrin en ekki komið nálægt vín­fram­leiðsl­unni ,,læt duga að drekka hana“ sagði hún ein­hverju sinni í við­tali. Vín­fram­leiðsl­una seldu hjónin árið 2015 en héldu aðal­bygg­ing­unni á búgarð­in­um.

Allt frá æsku fékkst Hen­rik við ljóða­gerð, sendi frá sér átta ljóða­bæk­ur, sumar mynd­skreytti hann sjálfu en naut líka aðstoðar Mar­grétar Þór­hild­ar, sem er afkasta­mik­ill mynd­list­ar­mað­ur. Hen­rik fékkst einnig nokkuð við þýð­ing­ar, úr frönsku á dönsku, á verkum þekktra franskra rit­höf­unda. Tal­aði reyndar sex tungu­mál, slakastur í dönsku sagði hann sjálf­ur. Þau hjónin töl­uðu ætíð frönsku sín á milli.

Um ára­bil sótti Hen­rik tíma í högg­mynda­gerð á Kon­ung­lega lista­há­skól­anum og eftir hann liggur fjöld­inn allur af stytt­um, margar steyptar í brons. Fyrir fjórum árum hélt AROS lista­safnið í Árósum stóra sýn­ingu á verkum hans og Mar­grétar Þór­hild­ar. Tæp­lega 300 þús­und manns sáu sýn­ing­una.

Hen­rik var mik­ill áhuga­maður um mat og mat­ar­gerð (eins og sést á vaxt­ar­lag­inu sagði hann í við­tali fyrir nokkrum árum). Hann skrif­aði nokkrar mat­reiðslu­bækur og kom margoft fram í mat­ar­gerð­ar­þáttum í sjón­varpi, þar naut kímni­gáfa hans sín vel. Garð­ur­inn við Fredens­borg­ar­höll­ina, eft­ir­læt­is­stað Hen­riks, ber áhuga hans á garð­rækt gott vitni og þar eyddi hann miklum tíma ár hvert. Hann var mik­ill áhuga­maður um tón­list, var prýði­legur píanó­leik­ari og samdi nokkur tón­verk.

Það sem hér hefur verið talið flokk­ast allt undir tóm­stundagam­an. En Hen­rik kom víðar við. Hann tók virkan þátt í starfi Rauða Kross­ins og fleiri sam­taka, til dæmis á sviði nátt­úru­verndar og umhverf­is­mála. For­ystu­menn í dönskum iðn­aði segja hann hafa unnið ötul­lega að því að skapa við­skipta­sam­bönd, ekki síst í Asíu. Fram­kvæmda­stjóri eins stærsta fyr­ir­tækis Dan­merkur á sviði tækni­bún­að­ar­fram­leiðslu sagði í við­tali að um þessi störf Hen­riks vissu fáir en þau væru að sínu mati mik­il­væg­ari en allt annað sem prins­inn hefði feng­ist við.

Afmæli, eft­ir­launin og leg­stað­ur­inn

16. apríl 2015 varð Mar­grét Þór­hildur 75 ára og af því til­efni efnt til mik­illar og fjöl­mennrar veislu. Þar vant­aði þó einn: Hen­rik. Fjar­vera hans vakti athygli en skýr­ingin sögð sú að hann væri las­inn. Hann virt­ist hins­vegar við hesta­heilsu tveimur dögum síðar þegar til hans sást í Fen­eyj­um. Danskir fjöl­miðlar töldu hann vera í lang­tíma­fýlu, óánægja hans með að fá ekki kon­ungs­tit­il­inn yrði æ meira áber­andi.

Í nýársávarpi sínu á gamlárs­kvöld 2015 greindi Mar­grét Þór­hildur frá því að Hen­rik hefði ákveðið að fara á eft­ir­laun. Tæki fram­vegis  þátt í færri við­burð­um. Á vor­dögum 2016 til­kynnti Hen­rik að nú vildi hann ekki lengur bera tit­il­inn prins­gemal, nú yrði hann aftur prins Hen­rik.

3. ágúst 2017 varp­aði Hen­rik sprengju (orða­lag fjöl­miðla) inn í danskt sam­fé­lag. Til­kynnti að hann vildi ekki, þegar þar að kæmi hvíla við hlið drottn­ingar í Hró­arskeldu, ástæðan væri ein­föld ,,maður sem ekki stendur jafn­fætis konu sinni í líf­inu verð­skuldar ekki að hvíla við hlið hennar í gröf­inn­i.“ Danska þjóðin átti ekki til orð, þótt Hen­rik væri óánægður með að fá ekki að heita kóngur væri þetta nú einum of langt geng­ið. Ekki sagði Hen­rik neitt um það hvar hann vildi láta jarða sig.

Mörgum fannst sem prins­inn væri hreint ekki með fullum söns­um, sú til­gáta reynd­ist ekki fjarri lagi, þótt það kæmi ekki í ljós fyrr en nokkru síð­ar.

Greind­ist með ein­kenni heila­bil­unar

Í byrjun sept­em­ber í fyrra sendi fjöl­skylda drottn­ingar frá sér til­kynn­ingu. Þar sagði að prins Hen­rik hefði greinst með ein­kenni heila­bil­un­ar, Þetta væri nið­ur­staða ítar­legra rann­sókna sér­fræð­inga Rík­is­spít­al­ans í Kaup­manna­höfn. Fjöl­miðlar fjöll­uðu ítar­lega um þetta mál og öll þjóðin virt­ist á einu máli um að þarna væri skýr­ingin á hátta­lagi og sér­kenni­legum yfir­lýs­ingum prins­ins. ,,Mað­ur­inn er veikur og það verður að meta ummæli hans og og hátta­lag á þeim for­send­um“. Í nýársávarpi sínu að kvöldi gaml­árs­dags 2017 fór drottn­ingin nokkrum orðum um veik­indi Hen­riks og þakk­aði þann stuðn­ing sem fjöl­skyldan hefði notið hjá þjóð­inni.

Lést á Fredens­borg

Eftir um það bil hálfs mán­aðar veru á Rík­is­spít­al­anum í Kaup­manna­höfn var Hen­rik, þriðju­dag­inn 13. febr­ú­ar, að eigin ósk fluttur til Fredens­bog­ar­hallar á Norð­ur- Sjá­landi, þar vildi hann eyða sínum síð­ustu stund­um. Þær stundir urðu ekki marg­ar, því hann lést að kvöldi þess sama dags.  Fredens­borg var eft­ir­læt­is­staður Hen­riks, þar dvöldu þau hjónin að jafn­aði sex mán­uði árs­ins, þrjá að vori og þrjá að hausti.

Hvar vill hann hvíla?

Þetta var spurn­ingin sem strax vakn­aði þegar fréttin um and­lát Hen­riks barst. Ekki þurfti lengi að bíða svars því í ljós kom að hann var sjálfur búinn að skipu­leggja útfar­ar­at­höfn­ina og greftr­un­ar­stað­inn. Hann vildi láta brenna sig og hluta ösk­unnar skyldi dreift á dönsku haf­svæði, en duft­ker með ösku hans skyldi jarð­sett í einkareit fjöl­skyld­unnar í Fredens­borg­ar­garði. Útfar­ar­at­höfnin yrði ekki svokölluð ,,op­in­ber útför“ en kista hans skyldi flutt á Amali­en­bog, vera þar um kyrrt í um það bil sól­ar­hring og þaðan flutt í Krist­jáns­borg­ar­kirkj­una við hlið Krist­jáns­borg­ar. Allt gekk þetta eft­ir, sam­kvæmt fyr­ir­mælum Hen­riks, og þar stendur kistan, lok­uð, á ,,castrum doloris“, sér­stökum við­ar­palli (ekki til íslenskt orð) fram að útför sem gerð verður á þriðju­dag, 20. febr­ú­ar. Að Hen­rik skyldi ákveða að jarð­neskar leifar sínar skuli brenndar er ekki sam­kvæmt hefð kon­ungs­fjöl­skyld­unnar en sú ákvörðun hefur mælst vel fyrir og ekki síður fyr­ir­mæli hans varð­andi ösk­una.

Hver verða eft­ir­mælin

Umfjöllun um Hen­rik prins hefur verið mjög fyr­ir­ferð­ar­mikil í dönskum fjöl­miðlum und­an­farna daga. Að sögn sér­fróðra hefur aldrei í sög­unni verið jafn mikil umfjöllun um nokkra per­sónu og mátt hefur sjá og heyra und­an­farna daga. Ævi prins­ins hefur verið rakin í smá­at­rið­um, birt gömul og nýrri við­töl við hann, rætt við fólk sem þekkti hann vel, ótelj­andi myndir af hon­um, frá ýmsum tímum o.s.frv. Und­an­tekn­inga­laust tala allir sem kynnt­ust Hen­rik vel um hann. Hann hafi verið skemmti­leg­ur, áhuga­samur um fólk, mjög vel að sér um flesta hluti. Ekta frans­maður sem fór sínar eigin leiðir og það mælt­ist ekki alltaf vel fyrir í þessum ,,litla anda­polli“ eins og ein­hver komst að orði. Einn við­mæl­andi danska útvarps­ins sagði það hefðu ugg­laust verið mikil við­brigði fyrir þennan heims­vana Frakka að flytja til Dan­merk­ur, sem á þeim tíma var ,,þró­un­ar­land í mat­ar­gerð­ar­lyst“.

Hen­rik var oft skot­spónn fjöl­miðla. Þeir hædd­ust að klæðn­aði hans sem var lit­skrúð­ugri en hinir svart­klæddu Danir áttu, og eiga, að venj­ast. Mest grín var þó gert að dönsk­unni hjá prins­in­um. Hann hafði mik­inn orða­forða en náði aldrei góðum tökum á fram­burð­in­um. Sagði sjálfur að hann hefði þurft að leggja sig langtum meira fram til að ná tökum á dönsku tal­máli. Í við­tali við dag­blaðið Politi­ken sagði einn sem við var rætt að Danir ættu kannski að líta í eigin barm, þeir væru nú upp til hópa ekki neinir sér­stakir tungu­mála­snill­ing­ar.

Sjálfum var Hen­rik kannski alveg sama þótt grín væri gert að ýmsu í fari hans, honum sárn­aði hins­vegar þegar hann var sak­aður um að vera ekki ,,ekta Dan­i“. Flest­ir, ef ekki allir eru sam­mála um að hann hafi verið Mar­gréti Þór­hildi mikil stoð og stytta, bæði á opin­berum vett­vangi og sem lífs­föru­naut­ur, þau voru gift í rúma hálfa öld.

Það hve margir hafa séð ástæðu til að votta honum og fjöl­skyld­unni virð­ingu sína und­an­farna daga hefði ugg­laust glatt hann en þús­undir Dana hafa lagt leið sína til Amali­en­borg­ar, Fredens­borg­ar, Graasten­hallar og Mar­sel­is­hallar í Árósum og lagt þar blóm­vendi og kveðj­ur.Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar