Valdatafl í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík

Sá armur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem kenndur er við Guðlaug Þór Þórðarson hefur tögl og hagldir í borgarmálum flokksins sem stendur. Hann studdi Eyþór Arnalds í leiðtogasætið og með meirihluta í kjörnefnd og fulltrúaráði, sem raðar öðrum frambjóðendum á lista.

Það er ólga á meðal Sjálfstæðismanna í Reykjavík í kjölfar þess að væntanleg uppstilling á framboðslista flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar lak út. Oddviti listans, Eyþór Arnalds, var kosinn í sérstöku leiðtogakjöri í janúar. Kjörnefnd var svo falið að raða í önnur sæti listans. Kjarninn greindi frá því í gærmorgun hverjir muni sitja í þeim sætum sem líkleg eru til að ná kjöri.

Um er að ræða, að mestu leyti, fólk sem tilheyrir armi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra innan Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúaráð flokksins á eftir að taka afstöðu til listans og gerir það á morgun. Viðmælendur Kjarnans búast ekki við því að breytingar verði gerðar í ljósi þess að fulltrúaráðið er að mestu skipað fólki úr sama armi.

Helsta birtingarmynd þeirra átaka sem eru innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er sú að Áslaug Friðriksdóttir, sitjandi borgarfulltrúi sem lenti í öðru sæti í leiðtogakjöri flokksins, og Kjartan Magnússon, sem hefur verið borgarfulltrúi í tæp 19 ár, fá ekki sæti á lista. Þess í stað er einungis einn sitjandi borgarfulltrúi á listanum, Marta Guðjónsdóttir. Aðrir sem stillt hefur verið upp eru reynslulitlir eða -lausir í stjórnmálum og/eða óþekktir.

Áralöng barátta milli fylkinga

Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og eitt sinn borgarstjóraefni Sjálfstæðismanna í Reykjavík, skrifaði grein í tímaritið Þjóðmál í byrjun árs. Þar sagði hann m.a. að Guðlaugur Þór Þórðarson sé ábyrgur fyrir stöðu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg, en hann hefur setið nær óslitið í minnihluta í höfuðborginni frá árinu 1994, ef frá er talin aðkoma að þremur af fjórum meirihlutum sem myndaðir voru á umrótsárunum 2006-2010. Í grein Björns sagði að nú tali vinstrisinnaðir álitsgjafar um það sem gefna staðreynd að kjósendur í Reykjavík hafi færst svo mjög til vinstri að Sjálfstæðisflokkurinn nái sér aldrei á strik í borginni. „Gegn þessari þróun verður að snúast. Innan Sjálfstæðisflokksins hvílir sú skylda fyrst og síðast á Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, sem hefur lagt mest af mörkum til þess valdakerfis sem þróast hefur innan flokksins í höfuðborginni og sækir orku sína til innbyrðis átaka frekar en baráttu við andstæðinga flokksins.“

Guðlaugur Þor Þórðarson utanríkisráðherra hefur lengi verið mjög áhrifamikill innan hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í þessum orðum Björns kristallast þau átök sem átt hafa sér stað árum saman milli fylkinga í Reykjavík. Þau átök náðu ákveðnu hámarki, að minnsta kosti opinberlega, í prófkjöri fyrir Alþingiskosningarnar 2007 þegar Guðlaugur felldi Björn úr öðru sæti á lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þá sakaði Björn Guðlaug Þór um að vera handbendi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og annarra svokallaðra Baugsmanna, sem höfðu lagt Guðlaugi Þór til háa styrki í baráttu hans.

Ástæða þess að þetta er rifjað upp hér er að í þessum átökum kristallast átakalínurnar sem verið hafa í Reykjavík alla tíð síðan. Öðru megin hafa verið stjórnmálamenn eins og Björn Bjarnason, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Ólöf Nordal heitin, Illugi Gunnarsson, Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon. Hinu megin hafa verið Guðlaugur Þór og hans bakland.

Langur aðdragandi

Nýjustu átökin sem átt hefur sér stað á milli þessara fylkinga hófust í fyrra. Nánar tiltekið í fyrrasumar, áður en að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk, leit fyrir að næstu stórátök á hinu pólitíska sviði yrðu borgarstjórnarkosningarnar sem fram fara í lok maí 2018.

Fyrsta alvöru orustan var háð á fundi Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, 9. ágúst 2017. Í aðdraganda fundarins var ekkert sem benti til þess að til stæði að fjalla um val á lista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Þar af leiðandi var ekki fullmætt á fundinn. Engin dagskrá var send til stjórnarmanna áður en að hann fór fram. Á fundinum ákvað Gísli Kr. Björnsson, formaður Varðar, hins vegar að halda umræðu og atkvæðagreiðslu um að leiðtogakjör yrði haldið í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Sú tillaga var samþykkt.

Hildur Björnsdóttir og Eyþór Arnalds verða í tveimur efstu sætunum á lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor, samkvæmt tillögu kjörnefndar.
Mynd: Samsett

Það að farið yrði í leiðtogakjör en stillt upp í önnur sæti á lista var fjarri því sem tíðkast hefur innan Sjálfstæðisflokksins, þar sem prófkjör þykja lýðræðislegasta leiðin til að velja á lista og allar hömlur á slíku, líkt og til að mynda kynjakvótar þótt til óþurftar.

Viðmælendur Kjarnans sem voru ósáttir við þetta fyrirkomulag segja að með þessu hafi sá armur sem þeir kenna við Guðlaug Þór, og hefur tögl og hagldir í flestum Sjálfstæðisfélögum í borginni, verið að tryggja sér algjör áhrif yfir því hvernig framboðslistinn yrði. Aðrir hafa bent á að árangur Sjálfstæðisflokksins í borginni hafi ekki verið til eftirbreytni í rúma tvo áratugi. Því sé fullt tilefni til að reyna nýjar leiðir.

Tengsl við bæði stóru dagblöðin

Í aðdraganda leiðtogakjörsins, sem haldið var í lok janúar, greindi Kjarninn frá því að Eyþór Arnalds væri með hina svokölluðu kosningavél Guðlaugs Þórs á bakvið sig. Skemmst er frá því að segja að Eyþór sigraði leiðtogakjörið mjög örugglega. Hann hlaut tæp 61 prósent greiddra atkvæða. Áslaug Friðriksdóttir varð önnur með 20,2 prósent.

Næsta skref var síðan að raða fólki í næstu sæti. Á Kjarnanum í gær var sagt frá því hverjir hefðu verið settir í þau sæti samkvæmt tillögu kjörnefndar. Þar kom fram að Hildur Björnsdóttir lögfræðingur myndi vera í öðru sæti hans. Hún er hefur ekki áður tekið formlega þátt í stjórnmálum en hefur vakið athygli fyrir Bakþankaskrif í Fréttablaðinu. Tengdamóðir hennar, Kristín Þorsteinsdóttir, er ritstjóri þess blaðs og sambýlismaður hennar, Jón Skaftason, hefur starfað með eigendum Fréttablaðsins, hjónunum Ingibjörgu Pálmadóttur og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, um árabil.

Með veru Hildar á listanum er ljóst að mikil tengsl eru inn á tvö einu dagblöð landsins, enda Eyþór Arnalds á meðal stærstu eigenda Morgunblaðsins.

Mikið af óþekktu fólki

Um 150 manns sóttust eftir sæti á lista Sjálfstæðismanna en við því má búast að flokkurinn nái að minnsta kosti sjö til átta borgarfulltrúum inn. Í næstu sætum á eftir Hildi, sem teljast örugg borgarfulltrúasæti, raðast að mestu óþekkt fólk úr þeim hverfafélögum sem Guðlaugur Þór er talinn vera með sterkustu ítökin í. Þar er m.a. um að ræða Valgerði Sigurðardóttur (3. sæti) og Egil Þór Jónsson (4. sæti). Eini núverandi borgarfulltrúinn sem er á listanum er Marta Guðjónsdóttir (5. sæti), hún er einnig hluti af sama armi. Í sjötta sæti á svo að sitja Katrín Atladóttir en þar fyrir neðan Örn Þórðarson, Björn Gíslason sem er varaborgarfulltrúi, Jórunn Pála Jónasdóttir og Alda Vilhjálmsdóttir.

Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi lenti í öðru sæti í leiðtogakjörinu. Hún fær ekki sæti á lista miðað við tillögu kjörnefndar.
Mynd: Aðsend.

Hvorki Áslaug Friðriksdóttir né Kjartan Magnússon, sitjandi borgarfulltrúar sem lýst hafa yfir vilja til þess að halda áfram þátttöku í borgarpólitík, fá sæti á lista sem raunhæft gæti talist að myndi skila þeim kjöri.

Viðmælendur Kjarnans úr baklandi þeirra telja þetta mjög grófa aðför gegn þeim. Þeir telja augljóst að bæði Áslaug og Kjartan hefðu gjörsigrað margt af því fólki sem nú fær öruggt sæti á lista ef prófkjör hefði verið haldið. Með undirróðri og innanflokksátökum hafi málum hins vegar verið komið þannig fyrir að þeir sem eru með meirihluta í kjörnefnd og í fulltrúaráði hafi getað raðað sínu fólki á lista.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar