Telja svigrúm til að taka yfir 80 milljarða út úr Arion banka
Ráðgjafar Kaupþings við sölu Arion banka telja að eigið fé bankans sé svo mikið að svigrúm sé til að greiða út yfir 80 milljarða til hluthafa hans í arð, ef ráðist verður í útgáfu víkjandi skuldabréfa. Án þess sé svigrúmið 50 milljarðar. Arðgreiðslurnar lækka hið eiginlega verð sem nýir hluthafar hafa verið að greiða fyrir hlut í bankanum.
Ráðgjafar frá Kviku, sem ráðnir voru af Kaupþingi til að aðstoða við söluna á Arion banka í desember síðastliðnum, telja að allt of mikið af peningum sé inni í bankanum. Í kynningu sem þeir héldu fyrir nokkra íslenska lífeyrissjóði í janúar, þegar þeir reyndu að sannfæra sjóðina um að kaupa um fimm prósent hlut í Arion banka, kemur fram að eigið fé bankans sé svo mikið að svigrúm sé til greiðslu á yfir 80 milljörðum króna út úr bankanum ef ráðist verður í útgáfu víkjandi skuldabréfa. Án þess sé svigrúmið samt 50 milljarðar króna.
Til samanburðar má nefna að eigið fé Arion banka um síðustu áramót var 225,7 milljarðar króna. Því er það mat ráðgjafanna að hægt sé að greiða rúmlega þriðjung alls eigin fjár Arion banka út, ef ráðist yrði í að gefa út víkjandi skuldabréf sem myndu í kjölfarið mynda hluta af eiginfjárgrunni bankans.
Kjarninn er með kynninguna, sem er kyrfilega merkt trúnaðarmál, undir höndum.
Því hærra sem verðið er, því meira fær ríkið
Mikill styr hefur staðið um eignarhaldið á Arion banka undanfarin misseri. Þegar svokallaðir stöðugleikasamningar voru gerðir, en þeir tóku gildi þegar Kaupþing fékk undanþágu frá fjármagnshöftum snemma árs 2016, var eignarhaldi bankans þannig háttað að íslenska ríkið átti 13 prósent hlut en Kaupþing, félag utan um eftirstandandi eignir kröfuhafa þess banka, áttu 87 prósent. Í samningunum sem undirritaðir voru 13. janúar 2016 var meðal annars sagt til um að Kaupþing ætti að gefa út skuldabréf upp á 84 milljarða króna sem væri tryggt með veði í öllum hlut félagsins í Arion banka. Skuldabréfið bar vexti og einungis mátti greiða inn á það með því að selja hluta í Arion banka á gengi sem væri yfir 0,8 krónur fyrir hverja bókfærða krónu af eigin fé bankans. Ef viðskipti færu fram undir því gengi myndi virkjast forkaupsréttur sem ríkið samdi um að fá. Kaupþing þurfti að greiða upp skuldabréfið, og þar með selja Arion banka, fyrir árslok 2018.
Auk þess var gerður sérstakur afkomuskiptasamningur milli Kaupþings og Seðlabanka Íslands, fyrir hönd íslenska ríkisins, ef Arion banki yrði seldur. Í honum felst að að ef söluandvirði Arion banka verður á bilinu 100 til 140 milljarðar króna mun sú upphæð sem til fellur umfram milljarðanna 84 sem fara í að borga skuldabréfið upp skiptast þannig að Seðlabanki Íslands fær ⅓ en Kaupþing ⅔. Söluandvirði á bilinu 140 til 160 milljarðar króna myndi skiptast þannig að Seðlabankinn fengi helming en Kaupþing helming og söluandvirði umfram 160 milljarða myndi skiptast þannig að Seðlabankinn fengi ¾ af því en Kaupþing ¼. Þetta var opinberað síðastliðinn föstudag þegar stöðugleikasamningarnir svokölluðu voru birtir.
Ein stærsta eignarsala ríkisins frá upphafi
Töluverð viðskipti hafa átt sér stað með hluti í Arion banka síðan að samningurinn var gerður. Í fyrra keyptu fjórir af stærstu eigendum Kaupþings, Taconic Capital, Och-Ziff Capital Management Group, sjóðir í stýringu Attestor Capital og Goldman Sachs, samtals 29,6 prósent hlut í Arion banka af sjálfum sér í fyrra. Tveir þeirra, Attestor og Goldman Sachs, bættu við sig 2,8 prósent hlut 13. febrúar síðastliðinn. Þá keyptu rúmlega 20 sjóðir í stýringu fjögurra af stærstu sjóðsstýringarfyrirtækjum Íslands: Stefnis, Íslandssjóða, Landsbréfa og Júpíter, samtals 2,54 prósent hlut. Samanlagt kaupverð var um 9,5 milljarðar króna. Og sama dag var kaupréttur Kaupþings á 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka virkjaður. Sá kaupréttur var formgerður í samningi frá árinu 2009, var fortakslaus og einhliða. Ríkið mátti því ekki hafna tilboðinu án þess að gerast brotlegt við gerða samninga.
Gengið var formlega frá sölu hlutarins 26. febrúar síðastliðinn. Kaupverðið var 23,4 milljarðar króna og ekkert opið né gagnsætt söluferli fór fram. Um eina stærstu eignasölu ríkisins frá upphafi er að ræða.
Hver dagur skipti máli
Þessi flétta var þó ekki plan A hjá Kaupþingi. Upprunalega ætluðu þeir að selja íslenskum lífeyrissjóðum hlutinn sem Attestor, Goldman og íslensku fjárfestingarsjóðirnir keyptu á 9,5 milljarða króna þann 13. febrúar.
Lífeyrissjóðunum bauðst að kaupa hlut í Arion banka á verði sem var um 0,8 krónur fyrir hverja krónu af bókfærðu eigin fé. Á verði sem var rétt frá því að virkja forkaupsrétt ríkisins.. Það verð miðaði við eiginfjárstöðu Arion banka í lok september 2017.
Lífeyrissjóðirnir höfnuðu tilboðinu. Þess í stað keyptu áðurnefndir tveir af erlendu hluthöfum bæði Kaupþings og Arion banka, og íslensku fjárfestingasjóðirnir hlutinn á sama gengi. Plani B var hrint í gang. Mjög mikilvægt var fyrir Kaupþing að hluturinn myndi seljast þennan dag. Með því voru nefnilega uppfyllt skilyrði fyrir 25 milljarða króna útgreiðslu á eigin fé Arion banka til hluthafa hans, annað hvort í formi arðgreiðslu eða með uppkaupum á eigin bréfum.
Daginn eftir að viðskiptin voru tilkynnt, 14. febrúar síðastliðinn, birti Arion banki ársuppgjör sitt fyrir árið 2017. Ef hluturinn hefði verið seldur í samræmi við eiginfjárstöðu bankans þann dag hefði kaupverðið farið í tæplega 0,79 krónur á hlut og forkaupsréttur íslenska ríkisins virkjast.
Fyrirhugaðar arðgreiðslur lækka eiginlegt verð umtalsvert
Ofangreind arðgreiðsla er þó einungis sú fyrsta af nokkrum sem til stendur að ráðast í til að lækka eigið fé Arion banka umtalsvert.
Í kynningunni sem Kjarninn hefur undir höndum segir að Arion banki gæti greitt allt að 80 milljarða króna út til hluthafa sinna. Hluti þeirrar útgreiðslu yrði þó að fara fram samhliða útgáfu víkjandi skuldabréfa. Þar stendur enn fremur að hægt sé að greiða 50 milljarða króna út í arð á næstu árum án þess að fara í útgáfu víkjandi bréfa. Í sérstöku arðgreiðslulíkani, sem kynnt var fyrir lífeyrissjóðunum, var síðan farið í gegnum það hvernig væri hægt að greiða út viðbótareigið fé í arðgreiðslum á næstu árum, og lækka eiginfjárhlutfall bankans um leið niður í 21,6 prósent.
Í kynningunni er einnig sérstaklega tekið fram að ef miðað sé við sama verð og forkaupsréttur ríkisins virkjast við, og tekið sé tillit til 50 milljarða króna arðgreiðslu sem nýir eigendur fá hlutdeild í ákveði þeir að kaupa, sé verðið sem verið sé að selja á 0,74 krónur fyrir hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka. Tilboðið hljóðaði því upp á að lífeyrissjóðirnir gætu greitt verð sem myndi ekki virkja forkaupsréttinn en að það væri í raun lægra vegna þess að arðgreiðslur sem þeim yrðu tryggðar á móti myndu í raun lækka verðmiðann.
Þessu tilboði tóku Attestor, Goldman Sachs og íslensku fjárfestingarsjóðirnir.
Áfram verður fjallað um kynninguna á Kjarnanum síðar í dag.