Mynd: Alþingi

Almenningur enn leyndur upplýsingum um fríðindakostnað þingmanna

Akstursmálið svokallaða verður enn og aftur til umfjöllunar á fundi forsætisnefndar sem fram fer í dag. Fyrri svör og aðgerðir nefndarinnar hafa ekki þótt nægjanleg og því verður beiðni um enn frekari upplýsingar um fríðindi sem Alþingismenn hafa sótt sér rædd í dag. Skýr krafa er um að allt verði upplýst, langt aftur í tímann.

Alþingismenn njóta þeirrar sérstöðu að þeir þurfa að ákveða sín á milli hvort rannsaka eigi þá fyrir brot í starfi. Þeir eru ekki með neina eiginlega yfirmenn, nema auðvitað almenning sem fær að segja skoðun sína á þeim í kosningum. Mikið reynir á þá stöðu um þessar mundir vegna akstursmálsins svokallaða, þar sem hluti þingmanna liggur undir grun um að hafa misnotað sér endurgreiðslukerfi vegna aksturs eigin bifreiða til að fá mjög háar og skattfrjálsar endurgreiðslur fyrir akstur sem erfitt er að rökstyðja að tengist beint þingmannastörfum.

Valdið til að opinbera þessar upplýsingar liggur hjá forsætisnefnd, sem í sitja forseti Alþingis og varaforsetar þess. Nefndin hefur það hlutverk að skipuleggja þinghaldið, hefur umsjón með alþjóðasamstarfi, fjallar um fjárhagsáætlanir þingsins og setur almennar reglur um rekstur þingsins og stjórnsýslu. Það er því í hennar verkahring að breyta reglum sem eru óljósar eða hafa verið misnotaðar. Og það er líka í hennar verkahring að ákveða hversu mikið almenningur fær að vita um þá meintu misnotkun og þá sem bera ábyrgð á henni.

Árum saman hafa fjölmiðlar spurst fyrir um aksturskostnað Alþingismanna. Aldrei hefur þótt tilhlýðilegt að upplýsa um hann.

Tvær fyrirspurnir

Í fyrra lagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, fram fyrirspurn um málið. Í svari þáver­andi for­seta Alþing­is, Unnar Brár Kon­ráðs­dótt­ur, við fyr­ir­spurn­inni, sem var birt í byrjun nóv­em­ber, kom fram að frá byrjun árs 2013 og til loka árs 2016 hafi þing­menn fengið greiddar 163 millj­ónir króna vegna akst­urs eigin bif­reiða. Talan var ekkert frekar sundurgreidd og Björn Leví lagði því fram aðra fyrirspurn í desember síðastliðnum.

Svar við þeirri fyrirspurn barst 8. febrúar síðastliðinn. Þótt það svar hafi verið fjarri því tæmandi varpaði það meira ljósi á mögulega sjálftöku þingmanna en fyrri svör höfðu nokkru sinni gert.

Þar sagði meðal annars að sá þing­maður sem fékk hæstu árlegu end­ur­greiðsl­una vegna akst­urs­kostn­aðar í fyrra hafi fengið sam­tals rúm­lega 4,6 millj­ónir króna end­ur­greidd­ar. Það þýddi að þing­mað­ur­inn fékk um 385 þús­und krónur á mán­uði í end­ur­greiðslu úr rík­is­sjóði vegna keyrslu sinn­ar. Í svörum for­seta var greint frá greiðslum til þeirra tíu þing­manna sem fengu hæstu end­ur­greiðsl­urnar vegna akst­urs á und­an­förnum árum. Nöfn þeirra voru hins vegar ekki birt né er greint frá því hvaða kjör­dæmi þing­menn­irnir til­heyra, þar sem það er talið fara nærri per­sónu­grein­an­legum upp­lýs­ing­um.

Þessar upplýsingar sýndu svart á hvítu að pottur væri brotinn. Augljóst væri að það stæðist illa skoðun að þingmaður væri að keyra 47.644 kílómetra á einu ári einungis vegna vinnu sinnar sem þingmaður. Þess utan var sýnt fram á það með útreikningum frá Félagi íslenskra bifreiðareigenda að rekstrarkostnaður bifreiðar sem keyrð er þá vegalengd er einungis um tvær milljónir króna, ekki 4,6 milljónir króna. Af þeim tölum var ljóst að þingmenn gátu hagnast umtalsvert umfram kostnað af því að fá endurgreiðslur vegna aksturs.

Í kjölfarið hefur það verið krafa þings, þjóðar og fjölmiðla að allar greiðslur vegna aksturs verði gerðar opinberar og að þær verði persónugreinanlegar. Nú er auk þess krafa um að allar aðrar greiðslur sem þingmenn fá vegna starfa sinna verði gerðar opinberar, sundurliðaðar og mörg ár aftur í tímann. Hvort sem um er að ræða húsnæðisstyrk, greiðslur vegna flugs eða kostnaður vegna bílaleigubíla. Allt ætti að koma upp á borðið.

Einn þeirra sem legið hefur undir ámæli vegna þeirra greiðslna er Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sem er með skráð lögheimili í Norðausturkjördæmi en hefur búið í Breiðholti í þrjá áratugi. Steingrímur fær 134 þúsund krónur á mánuði í dvalarkostnað frá Alþingi á mánuði, samkvæmt frétt DV. Umræddar greiðslur eru skattfrjálsar.

Ákveðið að breyta reglunum

Forsætisnefnd fundaði tvívegis um málið í síðustu viku, fyrst á mánudag og svo aftur á miðvikudag. Eftir síðari fundinn var send út yfirlýsing frá Steingrími þess efnis að upplýsingar um þingfararkostnað þingmanna verði framvegis birtar á sérstakri vefsíðu. Þær upplýsingar verði miðaðar við 1. janúar 2018 og uppfærðar mánaðarlega.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram fyrirspurnir um aksturskostnað þingmanna. Þær fyrirspurnir hafa opinberað vandkvæði á því fyrirkomulagi sem er í gildi.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þess utan voru samþykktar sam­hljóða breyt­ingar á reglum um þing­far­ar­kostn­að. Í þeim fel­ast þrjár efn­is­breyt­ing­ar. Þær breytingar voru birtar á vef Alþingis á föstudag.

Í fyrsta lagi verða ákvæði um bíla­leigu­bíla skýr­ari, einkum fyrir þá þing­menn sem falla undir svo­kall­aðan heim­an­akst­ur, þ.e. akstur til og frá heim­ili dag­lega um þing­tím­ann. Það eru þing­menn sem búa í nágrenni Reykja­víkur (á Suð­ur­nesjum, Vest­ur­landi, Árnes­sýslu o.s.frv.). Akstur á eigin bif­reið­um, sem kemur til end­ur­greiðslu, verður bund­inn hámarki við 15.000 km. Eftir þann kílómetrafjölda skal skrifstofa Alþingis láta umræddum þingmanni í té bílaleigubíl. Í tilkynningu um breytingarnar segir að þessi mörk hámarksaksturs á eigin bifreið geti þó komið til endurskoðunar á grundvelli verðþróunar eða útboðs, en forsætisnefnd skuli þá samþykkja slíka breytingu. „Óski alþingismaður eigi að síður að nota eigin bifreið falla greiðslur niður þegar 15.000 km-markinu er náð, svo og heimild til að nota bílaleigubíl. Alþingi greiðir allan rekstrarkostnað bílaleigubifreiðar, en skrifstofan getur sett nánari vinnureglur um hann.“

Ný málsgrein er svo bætt inn í reglur forsætisnefndar um tilhögun á greiðslu ferðakostnaðar. Samkvæmt henni skal þingmaður sem fær greiddan ferðakostnað eða endurgreiddan kostnað „ávallt greina frá tilefni ferðar í akstursbók, svo sem heimferð, fundi, samkomu o.s.frv. Enn fremur skulu fylgja með önnur staðfestingargögn, svo sem auglýsing um fund, fundarboð, tölvupóstur og annað slíkt, og getur skrifstofan sett nánari vinnureglur um þau.“

Önnur ný málsgrein sem bætist við reglurnar segir að skrifstofa Alþingis skuli láta alþingismanni, sem notar bílaleigubifreið, í té almenna skilmála um notkun hennar, þar á meðal um skráningu aksturs, tímabundinn akstur annarra við sérstakar aðstæður, takmörkuð einkaafnot og um tryggingar. „Í slíkum skilmálum má ákveða að þingmaður endurgreiði allt að 5% af kostnaði vegna tilfallandi óskráðra einkaafnota. Önnur einkaafnot skal skrá og koma þau til frádráttar á reikningi.“

Enn leynd yfir eldri upplýsingum

Allar ofangreindar breytingar virka til framtíðar og eiga að koma í veg fyrir það að þingmenn geti misnotað sér endurgreiðslukerfi þingsins sem matarholur.

Þær taka hins vegar ekkert á meintri sjálftöku fjölda þingmanna á undanförnum árum þar sem endurgreiðslur vegna aksturs eigin bifreiða hafa hlaupið á tugum milljóna króna. Grófasta dæmið, Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fékk, líkt og áður sagði, 4,6 milljónir króna endurgreiddar í fyrra, eða 385 þúsund krónur á mánuði. Allar greiðslurnar eru skattfrjálsar. Ásmundur hefur gengist við því að hafa krafist endurgreiðslu fyrir keyrslu sem tengdist prófkjörsbaráttu hans og þáttagerð fyrir sjónvarpsstöðina ÍNN, sem nú er gjaldþrota.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er sá sem keyrir mest allra þingmanna á eigin bíl. Og sá sem fær langhæstu endurgreiðslur vegna þess.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Kjarninn spurði alla landsbyggðarþingmenn um keyrslu þeirra á undanförnum árum og við þá fyrirspurn uppljóstraðist að Vilhjálmur Árnason, annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var í öðru sæti yfir þá sem fengu hæstu endurgreiðslurnar. Hann fékk um þrjár og hálfa milljón króna end­ur­greiddar í fyrra, eða 288 þús­und krónur á mán­uði skatt­frjálst. Hinir þrír á topp tíu list­anum sem hafa opin­berað keyrslu sína eru Oddný Harð­ar­dótt­ir, þingmaður Samfylkingar, Páll Magn­ús­son, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Framsóknarflokks. Þau eru öll með end­ur­greiðslur sem eru undir 2,5 millj­ónum króna á ári og í neðri hluta topp tíu list­ans. Enn vantar því ansi mörg nöfn á topp tíu listann.

Fundað í dag um hvað almenningur fær að vita

Kjarninn hefur í tvær vikur reynt að fá upplýsingar frá forsætisnefnd Alþingis um hversu háar greiðslur hver og einn þingmaður hefur fengið í endurgreiðslu fyrir útlagðan kostnað vegna aksturs á árunum 2013-2017. Í þeirri fyrirspurn hefur einnig verið farið fram á að tilgreint sé hversu marga kílómetra þeir keyrðu á hverju ári fyrir sig.

Í ítrekaðri fyrirspurn, sem send var fyrir helgi, var auk þess farið fram á að fá allar upplýsingar um annan greiddan þingfarakostnað, t.d. vegna húsnæðiskostnaðar, flugferða og bílaleigubíla, fyrir sama tímabil. Þá hefur verið farið fram á að fá tæmandi upplýsingar um hvernig eftirliti með aksturskostnaði þingmanna, og öðrum þingfarakostnaði, sé háttað og hvort það sé til að mynda. kannað með einhverjum hætti hvort að kröfur þeirra um endurgreiðslu fyrir útlagðan kostnað séu réttar. Þá hefur verið farið fram á að fá upplýsingar um hver sinni því eftirliti.

Í fyrirspurn Kjarnans hefur eftirfarandi einnig verið tekið fram: „Augljóst er að fjölmiðlar geta ekki sinnt aðhaldshlutverki sínu ef umræddar upplýsingar fást ekki afhentar. Ótækt er að beita fyrir sig þeim rökum að ríkari hagsmunir séu fólgnir í því að veita ekki persónugreinanlegar upplýsingar og láta sem að sá friðhelgisréttur einstakra þingmanna sé ríkari en réttur almennings, vinnuveitanda þingmanna, til þess að fá upplýsingar um meðferð á opinberu fé.“

Í svari sem Steingrímur sendi Kjarnanum á föstudag kom fram að þessi mál verði á dagskrá næsta fundar forsætisnefndar. Hann fer fram í dag og hefst klukkan 11:45.

Tilhæfulausir reikningar eru fjársvik

Af hverju er mikilvægt að þessar upplýsingar komi allar fram? Augljósa ástæðan er sú að grunur er um að einhverjir þingmenn hafi orðið uppvísir af sjálftöku á fé. Fyrir tæpum tveimur vikum ræddi Frétta­blaðið akst­urs­mál þing­manna við Jón Þór Óla­son, sér­fræð­ing í refsirétti. Þar sagði hann: „Ef maður fram­vísar til­hæfu­lausum reikn­ingum og er að búa eitt­hvað til í því skyni að auðg­ast sjálf­ur, þá er maður að blekkja þann sem á að greiða reikn­ing­inn. Leiði slíkur reikn­ingur til greiðslu er blekk­ingin búin að ná árangri og sá sem sér um útgreiðsl­una er í villu. Það eru fjár­svik.”

Sam­kvæmt reglum um akst­urs­greiðslur til þing­manna á að end­ur­greiða kostn­að­inn þegar þeir eru að sinna starfi sínu sem þing­menn. Sér­stak­lega er til­greint í regl­unum að greiðsl­urnar séu vegna funda sem þing­menn­irnir eru boð­að­ir. Ef þingmenn hafa látið skattgreiðendur greiða fyrir mun meiri keyrslu en þeim er ætlað að standa kostnað af fyrir þing­menn verður að rannsaka það.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, ræddi þessa stöðu í Silfrinu um liðna helgi. Þar sagði hún m.a.: „Nú er rök­studdur grunur uppi um það að Ásmundur Frið­riks­son hafi dregið að sér fé, almanna­fé. Og við erum ekki að sjá við­brögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rann­sókn í þeim efn­um.“ Þar sagðist hún aðeins muna eftir einu til­felli þar sem rann­sókn hafi verið sett af stað á spill­ing­ar­máli stjórn­mála­manns á Íslandi og það hafi verið mál Árna Johnsen en hann var árið 2003 dæmdur í tveggja ára fang­elsi fyrir fjár­drátt og umboðs­svik í opin­beru starfi, mútu­þægni og rangar skýrslur til yfir­valda.

Það ætti að skýrast síðar í dag hvort og þá hvernig þingheimur ætlar að stíga næsta skref í að opinbera og rannsaka fríðindagreiðslur til þingmanna þjóðarinnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar