Copyright: <a href='https://www.123rf.com/profile_prazis'>prazis / 123RF Stock Photo</a> Ríkir og fátækir

Rúmlega 200 fjölskyldur eiga yfir 200 milljarða

Ríkasta eitt prósent landsmanna jók hreina eign sína um 53 milljarða króna árið 2016. Sá hópur, sem telur rúmlega tvö þúsund fjölskyldur, á meira af hreinum eignum en þau 80 prósent landsmanna sem eiga minnst. Í þeim hópi eru um 175 þúsund fjölskyldur.

Um 218 fjölskyldur, sem mynda ríkasta 0,1 prósent landsmanna, áttu 201,3 milljarða króna í hreinni eign í lok árs 2016. Hópurinn jók hreinar eignir sínar um 14 milljarða króna á því ári. Það þýðir að ef sú tala myndi dreifast jafnt á hvern og myndi það þýða að hver og einn framteljandi hafi aukið hreina eign sína um 67 milljónir króna á árinu 2016, eða um 5,6 milljónir króna á mánuði. Um er að ræða framteljendur og því getur bæði verið um samskattaða og einstaklinga að ræða. Þessi hópur hefur samtals áttfaldað hreina eign sína í krónum talið, án tillits til verðbólgu, á tæpum tveimur áratugum.

Ríkasta prósent landsmanna, 2.180 framteljendur, áttu 612,6 milljarða króna í hreinni eign í árslok 2016. Auður þeirra jókst um 53,1 milljarða króna á því ári. Þessi hópur átti meira eigið fé á þessum tíma en þau 80 prósent landsmanna sem áttu minnst. Sameiginlegar eignir þess hóps, sem telur 174.935 framteljendur, var 516,1 milljarðar króna. Ríkasta prósentið hefur aukið hreina eign sína sjöfalt á tveimur áratugum í krónum talið.

Ríkustu fimm prósent landsmanna, alls um 10.900 framteljendur, áttu 1.388,3 milljarða króna í hreina eign í árslok 2016. Sá hópur jók eignir sínar um 139 milljarða króna á því ári.

Eigið fé allra landsmanna jókst um 394 milljarða króna á umræddu ári. Það þýðir að ríkasta 0,1 prósentið tók til sín 3,5 prósent af öllu nýju eigin fé, ríkasta eitt prósentið tók til sín 13,5 prósent þess og ríkustu fimm prósent landsmanna tók til sín 35,3 prósent af öllu nýju eigin fé sem varð til á árinu 2016. Ríkasta tíund þjóðarinnar tók til sín tæpan helming þeirrar hreinu eignar sem varð til á því ári.

Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um hvert eigið fé ofangreindra hópa hafi verið í lok árs 2016. Hagstofa Íslands birtir árlega tölur um eigið fé Íslendinga. Það gerði hún síðast í október 2017, og var það um að ræða tölur sem sýndu stöðuna í lok árs 2016. Þar er þó einungis hægt að sjá hvernig eigið fé landsmanna skiptist eftir tíundum. Tölurnar sem nú hafa verið birtar sýna hvert eigið fé allra efsta lagið í íslensku samfélagi er.

Hlutfallsleg eign sýnir ekki heildarmynd

Frá árinu 2010 hefur eigið fé Íslendinga rúmlega tvöfaldast. Í lok þess árs var það 1.565 milljarðar króna en var 3.343 milljarðar króna í lok árs 2016.

Eigið fé efsta lagsins hefur dregist saman sem hlutfall af heildareignum. Margir nota þá staðreynd sem rök fyrir því að jöfnuður sé að aukast. Það er þó hægt að horfa öðruvísi á málið líka. Þ.e. út frá því hvernig nýr auður sem verður til skiptist á milli stétta samfélagsins krónu fyrir krónu.

Í árslok 2010 var t.d. eigið fé 70 prósent þjóðarinnar sem átti minnst, og bundið var í fasteign neikvætt um 23,5 milljarða króna. Í árslok 2016 var sú eign orðin jákvæð um 263,1 milljarða króna. Það er uppistaðan í eiginfjáraukningu þorra þjóðarinnar, enda hefur húsnæðisverð tvöfaldast frá árinu 2010.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, lagði fram fyrirspurnina til fjármála- og efnahagsráðherra.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Efstu 0,1, 1, 5 og tíu prósent ríkustu landsmennirnir hafa hins vegar mun fjölbreyttari leiðir til að hagnast, enda tilheyra þeir sem eiga þorra einkafjármagns Íslendinga þessum hópum. Þar er að finna fyrirtækjaeigendur, þá sem taka þátt í hlutabréfamarkaði og eiga kost á því að spila á gengissveiflur með því að flytja fjármagn til og frá landinu eftir því sem hentar viðkomandi fjárhagslega best. Í þessu lagi eru líka þeir sem hafa tök á því að nýta sér aflandsfélög vegna „skattahagræðis“, sem á mannamáli þýðir að ekki sé greiddur sami skattur af sömu tekjum og aðrir landsmenn þurfa að greiða. Þetta þarf ekki að vera ólöglegt, en getur verið það.

Það er engum vafa undirorpið að efsta lagið tekur til sín mun stærri hluta af nýjum auði en önnur lög samfélagsins. Og þannig hefur málum verið háttað áratugum saman. Í árslok 1997 átti ríkasta eitt prósent landsmanna, þá um 1.450 fjölskyldur, 89 milljarða króna í eigið fé, eða 16,2 prósent af öllu eigin fé landsmanna. Í lok árs 2016 átti ríkasta eitt prósentið, þá rúmlega tvö þúsund fjölskyldur, 612,6 milljarða króna, eða 19,2 prósent af heildinni. Hrein eign hópsins í krónum talið hefur sjöfaldast á þessum tæpu tveimur áratugum. Árið 1997 átti hver framteljandi innan hópsins að meðaltali 61,5 milljónir króna í hreina eign. Í lok árs 2016 átti hver fjölskylda innan ríkasta eins prósents landsmanna um 293,7 milljónir í hreinni eign.

Á sama tíma hafa þau 70 prósent landsmanna sem eiga minnst eigið fé séð það sameiginlega vaxa úr 27,4 milljörðum króna, sem var þá sameiginleg eign 101.444 framteljenda, í 97,5 milljarða króna, sem er sameiginleg eign rúmlega 153 þúsund framteljenda. Þessi hópur hefur því aukið eigið fé sitt í krónum talið um 70 milljarða króna á tæpum tveimur áratugum. Á sama tíma hefur eigið fé ríkasta 0,1 prósent landsmanna, hóps sem á tímabilinu hefur talið 150-200 fjölskyldur, aukist um 176 milljarða króna.

Mest af nýjum auði fer til efsta lags samfélagsins

Árið 2010, þegar eftirhrunskreppan var sem hörðust hérlendis, átti ríkasta fimm prósent þjóðarinnar 56,3 prósent af öllu eigin fé hennar. Það er sláandi tala, sem endurspeglar í fyrsta lagi hversu illa þorri þjóðarinnar hafði farið fjárhagslega, að minnsta kosti tímabundið, úr hruninum. Í öðru lagi sýnir hún að áhrif hrunsins á eignir efsta lags samfélagsins voru ekki nærri jafn drastískar og á eignir annarra.

Frá þeim tíma hefur orðið til 1.778 milljarðar króna af nýjum auði á Íslandi. Í lok árs 2016 var hlutfall ríkustu fimm prósenta þjóðarinnar komið í 43,5 milljarða króna og hafði lækkað hlutfallslega á hverju ári frá 2010. Þrátt fyrir það hafði þessi hópur aukið hreina eign sína um 495 milljarða króna á tímabilinu. Það þýðir að 28 prósent alls nýs auðs sem varð til á Íslandi á þessum árum, rúmlega fjórða hver króna, fór til ríkustu fimm prósent landsmanna.

Efnahagshrunið leiddi af sér gríðarleg mótmæli, enda varð stór hluti þjóðarinnar fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna atburðanna haustið 2008.
Mynd: EPA

Ríkasta eitt prósent þjóðarinnar jók auð sinn um 164 milljarða króna á þessu sama tímabili og tók þar með til sín rúmlega níu prósent af öllum nýjum auði. Ríkasta 0,1 prósentið tók til sín 39,2 milljarða króna, eða 2,2 prósent af öllum nýjum hreinum auð.

Eignirnar vanmetnar

Virði eigna þessa hóps er reyndar vanmetinn. Þessi hópur á nefnilega nær öll verðbréf landsins í eigu einstaklinga, eða 86 prósent slíkra. Í tölum Hagstofunnar er þær fjármálalegu eignir sem teljast til hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum á nafnvirði, eignarskattsfrjáls verðbréf, stofnsjóðseign og önnur verðbréf og kröfur. Og í tölunum eru þau metin á nafnverði, ekki markaðsvirði, sem er mun hærra. Alls á tíu prósent ríkasti hluti landsmanna verðbréf, m.a. hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum eða skuldabréf, sem metin eru á 383,4 milljarða króna á nafnvirði. Hin 90 prósent þjóðarinnar eiga verðbréf sem metin eru á 62,2 milljarða króna að nafnvirði. Þessi skipting hefur haldist að mestu eins á undanförnum árum. Í lok árs 2010 átti efsta tíund landsmanna líka 86 prósent allra verðbréfa.

Virði verðbréfa í eigu Íslendinga hækkað um 23 milljarða króna að nafnvirði á árinu 2016. Þar af hækkuðu bréf ríkustu tíu prósent þjóðarinnar um 21,8 milljarða króna. Því fór um 95 prósent af allri virðisaukningu verðbréfa til ríkustu tíundar Íslendinga á árinu 2016.

Verðbréf gera tvennt, þau hækka eða lækka í verði og þau búa til fjármagnstekjur sem eigendur þeirra fá greiddar út. Í tölum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2017 kom fram að tekjur einstaklinga af arði hafi verið 43,3 milljarðar króna árið 2016. Fjöldi þeirra sem töldu fram arð vegna ársins 2016 var 14.545 og fjölgaði um 685 milli ára, eða um tæplega fimm prósent.

Söluhagnaður jókst um 39,1 prósent milli ára þrátt fyrir að fjölskyldum sem töldu fram söluhagnað hafi einungis fjölgað um 5,4 prósent. Það bendir til þess að fámennur hópur sé að taka til sín þorra þess arðs sem verður til í íslensku samfélagi.

Söluhagnaður var alls 32,3 milljarðar króna árið 2016 og þar af nam sala hlutabréfa 28,7 milljörðum króna og hækkaði um 38,3 prósent á milli ára. Á sama tíma fjölgaði fjölskyldum sem telja fram söluhagnað vegna hlutabréfa um einungis 3,7 prósent í 3.682 alls.  Um tvö prósent fjölskyldna landsins greiddu fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar á hlutabréfum.

Vantar földu eignirnar í skattaskjólunum

Inn í ofangreindar tölur vantar allar þær eignir sem Íslendingar eiga erlendis, en hafa ekki verið taldar fram hérlendis. Í Pana­ma-skjöl­unum var upp­lýst að tæp­lega 600 Íslend­ingar ættu um 800 félög sem Mossack Fonseca, lögfræðistofa sem sér­hæfir sig í „skatta­hag­ræði“ og í að fela eign­ir, sá um fyrir þá. Kjarninn, í samstarfi við Reykjavík Media og fleiri fjölmiðla, fjallaði ítarlega um þær upplýsingar sem birtust í skjölunum vorið 2016.

Ljóst er að aflands­fé­laga­eign Íslend­inga er mun víð­tæk­ari en kom fram í þeirri umfjöllun vegna þess að Mossack Fonseca var ekki eina stofan sem þjónustaði Íslend­inga. Vísbendingar um umfang þeirrar eignar komu fram í skýrslu um aflandseignir Íslendinga og skattaundanskot vegna þeirra, sem var birt snemma í janúar 2017 eftir ítrekaðar fyrirspurnir Kjarnans um birtingu á skýrslunni. Hún hafði þá verið tilbúin í rúma þrjá mánuði, eða frá því fyrir kosningarnar 29. október 2016.

Í skýrslunni kom fram að aflandsfélagavæðingin hafi haft tugi milljarða króna af íslenskum almenningi í vangoldnum skattgreiðslum og búið til gríðarlegan aðstöðumun þeirra sem hafa, bæði löglega og ólöglega, getað falið fé í erlendum skattaskjólum þegar illa árar í íslensku efnahagslífi en stýrt fé aftur heim til að kaupa eignir á brunaútsölu í niðursveiflum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar